Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Óboðnir gestir í vitlausu boði

Það komu gestir í dag sem ég vona að stoppi stutt.

Annar heimsótti á mér hálsinn, augun og ennið svo ég hef ekki gert annnað í dag en að reyna að hósta honum í burt með mjög litlum árangri.
Hef troðið mig út af engifer tei, sólhattstöflum og C vítamíni svo það flæðir út um öll göt.
Hann þráast við en ég SKAL hafa vinninginn.

Hinn gesturinn er hvítur.
Hann heitir snjór.
Settist makindarlega efst í fjöllin og þóttist eiga heima þar.

Ég meina, hver bauð honum svona snemma í heimsókn?
Hver leit vitlaust á dagatalið?
Ha?
Það er ennþá ágúst herra Kuldaboli.
Skil vel að þú sért orðinn leiður á þessu einlífi.

En hey, þetta er ekki sanngjarnt.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Það gefur á bátinn...

Er á leið yfir firði og fjöll, með bíl og bát.

Það er hrikalega kalt og ég hef eytt miklum tíma í að finna VETRARFÖT!!!
Já, nú dugar ekkert nema föðurland, flís, húfa og vettlingar.
Gúmmarar og ugglasokkar.

Nesti og tannbursti á sínum stað og.........

ég mundi eftir myndavélinni. Snillingur.


Bið bara um að það verði lítinn veltingur.


Hífopp sagði kallinn

og ég kveð að sinni.

laugardagur, ágúst 26, 2006


......útsýni hafði ég í dag þar sem ég sat inn í Engidal á berjaþúfu, týndi feit og bústin aðalbláber og bláber.
Það er ekki logið upp á mann dugnaðurinn.
Ísafjörður skartaði sínu fegursta
eins og sjá má ef myndin fer skírt frá mér og veðrið lék við okkur dugnaðarforkana.
Mikið déskoti er gott að sitja svona á þúfu og gleyma sér.





Var alveg búin að gleyma þessari tilfinningu.

Fann hana í dag og kom endurnærð heim.


Íslensk náttúra er besta sálfræðiþerapía sem hægt er að næla sér í.


Og ókeypis í þokkabót.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Í dag......

..........fór Ponsí í skólann og hitti kennarann sinn.
Hún fékk frábærar mótttökur og var leidd um alla króka og kima.
Móðirin var hinsvegar í nettu nostalgíukasti.
Ranglaði um gangana og brosti í kampinn.
Heimsótti gömlu stofuna mína og fann ennþá sömu lyktina.
Sá fyrir mér Skúla gamla hrjótandi í íslenskutíma og strákana pískra um hrekk.
Fann lyktina af nýbökuðum snúðum sem komu úr Gamla bakaríinu og voru seldir í 9. bekkjar sjoppunni.
Upp á vegg rak ég augun í 9. bekkjar myndina af mínum árgangi en í þá daga var ekki til 10. bekkur því 6 ára bekkurinn hét þá enn forskóli.
Og það er enn verið að kenna handavinnu í sömu stofu 16 árum síðar.
Sumt breytist ekkert.
En þar sem ég stóð í tengibyggingunni á móts við skrifstofu aðstoðarskólastjórans vissi ég ekki fyrr en ég var komin í atvinnuviðtal hjá henni.
Þau eiga sér draum um að vera með öflugt kórastarf og hafa alla í 5. bekk í kórtíma sem er fastur í stundatöflu og er einu sinni í viku. Alger draumastaða og jákvæðnin alveg í toppi.
Ég sagðist vera til ef ég fengi sömu laun og ég fæ við að kenna í tónlistarskólanum en það er nefnilega svo skrítið að fari ég yfir götuna og kenni í grunnskólanum þá lækka ég í launum.
Einnig veitir kennaraprófið mitt, kórstjórnarprófið og framhaldsnámið ásamt 15 ára reynslu við kennslu mér ekki réttindi til að kenna í grunnskóla.
Svo einkennilegt sem það nú hljómar.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Í dag talaði ég við verktakann.
Hann var brattur á því, því píparinn var kominn aftur.
Það þýðir að þeir geta haldið áfram í íbúðinni.
Og ég stóð hinumegin á línunni og brosti.

"Og hvenær áttu von á að ég geti flutt inn?"

"Ja, eigum við ekki að reikna með svona í lok september"

Inn í mér sprakk ég úr gleði en þar sem ég er vel upp alin kjéddling þá hélt ég ró minni og tautaði eitthvað um hvað það væri frábært.

"Býrðu hjá mömmu?" spur´ðann.

"Aham" svaraði ég.

"Ókei, við reynum að flýta þessu eins og hægt er".

"Þetta er allt í lagi ennþá" sagði ég, enn að sjá fyrir mér mig í mínu eigin húsnæði því í dag er ég

39 ára kona, á 4 börn, bý hjá mömmu og pabba( sem eru by the way, yndislegasta fólk sem ég þekki.)

en í lok september verð ég

40 ára kjéddling enn með 4 börn, en....... í eigin húsnæði.

Sjálfstæð.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Oj hvað það er eitthvað leiðinlegt að vera ég í dag.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ætla að deila með ykkur snilldarsetningu úr bókinni sem ég er núna að pína mig til að lesa.

"Síðan kom allt í einu loksins lag"

Ekki er allt sem sýnist

Verslaði húsgögn á útsölu í borginni.

Fannst ég vera heppin að fá svona góðan afslátt.

Var hrikalega ánægð með kaupin.

En mér finnst það ekki í dag.

Landflutningar tóku 17.250 krónur fyrir að flytja 3ja sæta sófa og eitt sófaborð!!!!!!!!!!

Mákona mín glotti og sagði; velkomin vestur, honný.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ein blaðra á stóru tánni,engin á morgun,ein bla....

Er með blöðru á stórru tánni, verki í mjöðmunum og stingi í táberginu.

Afleiðing mikillar dansgleði á menningarnótt.

Jagúar eru bara snillingar.

Og ég er gamalmenni.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Kaupa, keypti, spanderaði

Upp úr veski mínu í dag hoppuðu 4 fimm þúsundkallar.
Rokkarinn er að byrja að MH og á skiptibókamarkaðinum varð ég þessum 4um fimmþúsundköllum fátækari.

Og samt fengum við ekki allar bækurnar.

Í angist minni yfir þessu hélt ég bara áfram að spreða, en í sjálfa mig.

Sit hér í dýrustu peysu sem ég hef á ævi minn keypt.

Er ótrúlega ánægð með það.

Finnst ég fín og sæt og lekker.

Ætla að setja á mig gloss og fara í henni í bíó ásamt buxunum, naríunum og bolnum sem ég
spanderaði á mig.

En.... ég er hrikalega sæl.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Dvel ég í draumahöll og dagana lofa........

Þetta er nú búið að vera meira stuðið.
Hef bara ekki haft neinn tíma til að henda hér inn nokkrum línum. Annars er ráterinn hér á 5 barna heimili vinkonu minnar eitthvað mánudagseintak. Hún er búin að fá nýjan en sambandið er stundum svo slakt að þegar ég hef verið að lesa hjá ykkur síðustu færslur kæru bloggvinir þá skyndilega bara sí svona dettur síðan út. Svo stundum þarf ég að bíða í óratíma eftir að tölvan opni kommentagluggann og satt að segja hefur þetta tekið á mínar taugar sem hafa verið með stuttan þráð vegna svefnleysis sem hefur hrjáð mig þá daga sem ég hef verið hér í borginni.
Var svo uppgefin í dag að ég fór fyrr heim af námskeiði 2 því ég var hreinlega að leka á gólfið í FÍH salnum. Sat svo hér og glápti á sjónvarp sem ég hef ekki gert í rúma viku. Náði Supernova rokk star þættinum og sá þegar þeir loksins sendu laglausu stúlkuna heim. Komst ansi langt á þessum karakter sínum verð ég að segja. Ótrúlegt hvað ímynd er stór þáttur í þessu sjói öllu saman. Hef samt ekki myndað mér neina skoðun á þáttunum en finnst lúmsk gaman að fylgjast með okkar manni sem hefur staðið sig með sóm og sann. Ekkert prjál, glimmer og svartur blýantur þar að þvælast fyrir honum, bara hann, hreinn og beinn. En það er einn helsti þáttur í fari fólks sem ég kann hvað best að meta. Hreinskilni og heiðarleiki eru frábærir eiginleikar og þegar þeir tveir koma saman þá hefur maður manneskju sem hægt er að treysta. Traust er ótrúlega magnað fyrirbæri. Það er alltaf sorglegt þegar einhver hefur brugðist trausti manns.
Maður verður svo berskjaldaður, nakinn. Og sárin eru misjafnlega lengi að gróa eftir slíka reynslu. Maður þarf að læra svo margt aftur. Og það getur tekið tíma. Merkilegt líka hvernig líkaminn bregst við þessháttar reynslu. Eins og vöðvarnir taki við sársaukanum og geymi þá svo heilinn hljóti ekki mikinn skaða af. Hef lengi undrast þetta fyrirbæri því í gegnum mína reynslu undafarinna ára hefur líkaminn tekið við og spýtt þessu frá sér með ýmsum einkennum þó aðalega ofnæmi af ýmsu tagi sem tengjast maganum. Þegar maður kemur sér svo út úr hryllingnum þá smám saman fara þessir hlutir líka að lagast. Magin í mínum kroppi er ekki sá sami og var fyrir 3um mánuðum síðan. En um leið og eitthvað bjátar á, eins og núna þetta blessaða svefnleysi, þá fer hann í einhver mótmæli og er núna hreinlega með uppsteyt.
Og það er svo orkufrekt. Vildi að ég hefði lifandi "svæfara", einn sem strýkur á manni vangann þangað til augnlokinn detta og flytja mann í lala land. Er viss um að þá hefði ég meiri möguleika á að sofna.
Verð bara að láta mig dreyma um slíkt um sinn.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Birtuskilyrði

Merkilegt hvað maður verður þreyttur á að nota á sér hausinn.
En hann var í óvenju mikilli notkun í dag.
Er held ég komin úr þjálfun því það er eins og sellurnar hafi bara verið í sumarfríii rétt eins og ég. Ótrúleg ósvífni bara.
Svaf yfir mig og mætti á síðustu stundu og fékk "nei en gaman að sjá þig varstu að vakna" frasann. Frekar óheppilegt.
Og ástæðan, jú einhverra hluta vegna er birtan hér öðruvísi en á fjörðunum fyrir vestan. Hún vekur mig kl. fimm á morgnana og finnst að þá eigi ég bara að vera úthvíld og til í slaginn. Einhver smá misskilningur hér á ferð þó ég taki viljann fyrir verkið.
Er búin að fara í samningaviðræður og vonast eftir skilningi því ég vil vera í formi á morgun.
Formi til að syngja sem aldrei fyrr.
Og svo þarf ég líka að sjarmera.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Dansaði af mér hælana, talaði frá mér allt vit og drakk bjór.
Og mér sem finnst bjór ekkert sérstaklega góður.

Saknaði þó mest vinarins sem var svo þreyttur að hann var heima og fór snemma í háttinn.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Fékk símtal í gærkvöldi.

Í gegnum ekkasogin heyrði ég hvað hún var gjörsamlega niðurbrotin.
Honum hafði tekist að brjóta hana niður með ljótu orðunum sínum.


Um mig fór hrollur og mig svimaði.
Hryllingur síðustu 10 ára steyptist yfir mig.

Það er komið nóg.
Meira en nóg.
Fyrir löngu síðan.

Pride

Sit hér með útsýni yfir Klambratún.
Fór í morgunkaffi til Hrundar minnar og keyrði hana svo í vinnuna á Jómfrúnna.
Sá þá að búið er að loka Lækjargötu og setja upp palla og þessháttar vegna dagsins í dag.
Hef reyndar aldrei farið í gönguna né borið alla dýrðina augum sem boðið er upp á þennan dag.
Ætla ekki að fara að breyta því og held mig sem fjærst miðbænum.
Ekki það að ég hafi neitt á móti málstaðnum, fjarri því, mér bara leiðast svo óskaplega svona hátíðahöld. Eins og 17. júní t.d. hann er orðinn að einhverju söludegi þar sem peningar fyrir sleikjósnuddum og örðum sykurviðbjóði streyma upp úr buddum foreldranna. Og svo standa þessi grey í biðröð til að fá að hoppa. Enginn mætir í þjóðbúningi og sumum finnst það meira að segja hálf hallærislegt. Þjóðarsálin komin til andsk....
Já já mín bara í góðu skapi í dag, ha.......
Nei, fer bara alltaf hjá mér þegar ég hugsa um þetta og held mig því eins langt í burtu frá þessu og ég mögulega get.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Þar fór letidagurinn fyrir lítið.

Verð í Reykjavík í kvöld.

Þetta er nú svona

Verkefnalisti dagsins er orðinn ansi langur. Stundum þegar það gerist langar mig bara að leggjast upp í sófa með bók. Og svo er mér svo kalt. Sit hér með sultardropa í nefinu. Kólnaði eitthvað skyndilega í nótt, eða kom sumarið aldrei? Vildi að ég hefði nú heinhvern með hlýjar hendur að ylja mér.
Mikið ósköp væri það nú notalegt.

Svo þarf ég að gera það upp við mig hvort ég keyri til Reykjavíkur
eftir hádegi í dag eða snemma í fyrramálið.
Merkilegt hvað frekar einfaldir hlutir geta verið flóknir.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Á ekki orð

Ég heiti Kathy H. Ég er þrjátíu og eins árs og hef verið hlynnir í rúm ellefu ár.

Svona hefst bókin sem ég ætlaði að fara að lesa og heitir Slepptu mér aldrei. Á ég að nenna að lesa bók sem byrjar með svo lélegri þýðingu að ég fæ hroll. Hlynnir, getur einhver sagt mér hvað það er og hvað það þýðir.
Hef bara aldrei séð þetta orð notað yfir starfheiti. Pirrar mig óendanlega þegar ég lendi í því að velja bækur sem eru svo illa þýddar að maður fær hroll.

Hlynnir, það var þó.
ÞVUHHH....

Endurnýjun á BIG

Byrjaði daginn á því að vekja Snáðann því í dag fór hann í nýja leikskólann og átti að mæta þar í morgunmat. Hann var hinn hressasti en hafði einhverjar áhyggjuar af því að krakkarnir myndu gera grín af fötunum hans!.Veit ekki alveg hvaðan þessi hugmynd kemur en gruna eina eldri systur hér á bæ.Hann kvaddi mig sæll og glaður og þá byrjaði stússið hjá mér. Uppgötvaði mér til mikillar armæðu að ökuskírteinið mitt er horfið. Gruna að það sé læst inn í hanskahólfinu á bílnum sem X keypti af mér. Það er hinsvegar harðlæst því lykillinn brotnaði í skráargatinu og engin leið að pikka hólfið upp. Þannig að í gær fór ég til hennar Árnýjar í Myndás og hún tók nokkrar vel valdar myndir af mér sem ég fór með til að endurnýja ökuskírteinið og svo í bankann því mér finnst kominn tími til að setja nýja mynd í debetkortið mitt. Sótti einnig um mitt eigið krítarkort og er því ekki lengur eitthvað auka hjá X. Síðan lá leiðin inn á Skógarbraut þar sem ég þurfti að taka nokkur mál fyrir fataskápum. Keyri nefnilega suður á morgunn, já já mín bara alltaf á ferðinni, til að stússast í hinu og þessu og taka 3ja daga sessíon í Complete Vocal náminu. En það er næstsíðasta sinnið.
Svo er það sáli á fimmtudaginn.
Sit svo hér og hlusta á systkinin rífast út í eitt og verð nú bara að játa að ef ég er orðin þreytt á einhverju þá eru það þessi eilífu kítingar þeirra á milli.
X sagði að þau gætu verið hjá sér í nýju íbúðinni meðan ég færi í borgina. Fór í dag og líst nú ekkert á að þau sofi í rakanum frá nýsteyptu gólfinu. Ég meina, íbúðin er fokheld!
Einhvað er stuðullinn hjá okkur misjanf, honum finnst bara ekkert mál að sofa þarna.
OG hvað get ég sagt?

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Hitti karlmann í sumar með svo fallegar hendur að ég get ekki gleymt honum.
Hæ og hó, setti inn nýjan bloggara sem er búin að læðupúkast á netinu án þess að gera vart við sig. En þetta er semsagt meðalmaðurinn sem ég býð velkomna í hópinn.

þjónusta hvað?

Er ekki dús við Íslandspóst. Fór á netið þegar ég flutti hingað og bað um áframsendingu á póstinum mínum hingað á Engjaveginn þar sem ég fæ ekki íbúðina mína afhenta strax.
Fyllti samviskusamlega út í dálka og línur mínar persónulegu upplýsingar sem þeir þurfa að hafa. Endaði svo á að setja kretidkortanúmerið mitt í einn dálkinn svo hægt væri að borga þessa 1800 kr. sem þeir taka fyrir ómakið. Síðan hef ég fengið EITT bréf inn um lúguna hér á Engjaveginn.
Fór í dag og sagði farir mínar ekki sléttar og vonast til að þeir kippi þessu í lag annars heimta ég endurgreiðslu. Finnst alltaf jant fúlt þegar svona einfaldir hlutir eins og t.d. áframsending á pósti klikkar.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Bjódd´í ´ann

Ég upplifði mig eins og algjöran töffara.
Labbaði full sjálfstraust inn í bílasöluna og spurði hvort ég mætti prufa Peugeotinn þarna á planinu, þennan blásannseraða 206?
Fékk lykilinn og skoðaði hann í krók og kima ásamt mínum helsta bílaráðgjafa.
Við settumst upp í og ég togaði í handfang sem var framan á sætinu og skaust upp í loft með det sammen. Hey, þetta er eitthvað fyrir mig, sæti sem lyftir mér upp þannig að ég sé almennilega út þegar ég keyri. Svo var startað og vélin malaði fullkomlega. Við tókum stóran rúnt um hverfið og dásömuðum eintakið. Farðu og bjóddu í´ann var skipun sem ég fékk. Ha? bjóða í hann, á ég að gera það. Já auðvitað. Já en það er sett á hann 750, þeir fara varla miklu neðar en það. Sko mér líst miklu betur á þennan en eitthvað Yaris ræksni sagði ráðgjafinn. Þetta er miklu betra eintak því hann er yngri, kraftmeiri og rúmgóður. Svona enga feimni, drífðu þig inn kona.
Og af því að ég er svo hrikalega vel upp alin geri ég alltaf það sem mér er sagt. Svo ég ræskti mig, þandi út barminn, gekk inn og sagði; fæ ég bílinn fyrir 590? Augun horfðu hissa á mig og svo sagð´ann jaaaá. Ok sagði ég, tek hann. Þetta var í fyrsta sinn sem ég stundaði bílaviðskipti upp á mínar eigin. Finnst ég hafa afrekað heilmikið og í trúnaði sagt naut ég þess út í ystu æsar. Átti ekki von á að finnast þetta svona gaman.
Frelsaðist.
Varð ég sjálf.
Ég.
Þessu fylgdi áður óþekkt og gleymt frelsi sem ég ætla aldrei, aldrei aftur að láta svipta mig.

Ökuferðin vestur gekk eins og í sögu og stóðst bílinn prófið. Eyðir ekki miklu og því góður fyrir budduna. Ekki spillir að í honum er geislaspilari og er ég því laus við allt bullið sem dynur yfir mann frá útvarpsstöðvunum. Útvarpið er reyndar eitthvað sem ég þarf að láta kíkja á, bara virkar ekki hér, ekki einu sinni uppáhalds útvarpsstöðin mín kemur ekki inn, gamla góða gufan.
Svo á ég víst að gefa honum nafn.
Vefst eitthvað fyrir mér.

Samtal í búðinni

Síðustu daga er eins og gardínan hafi verið dregin niður.

Afsaki hlé, stendur á skjánum.

Merkilegt hvað maður verður þreyttur á því að vera manneskja.

Svo fer maður í búðina og allir spyrja hvort ekki sé gott að vera komin "heim" aftur.
Jú, jú jánka ég það er ósköp gott.

en pabbinn?? býr hann í borginni??

ha, nei hann flutti hingað líka og keypti sér íbúð sem hann auðvita tók og gerði fokhelda.
Og hefur ekki getað búið í henni síðan hann keypti hana í júní.

Nei......ertu ekki að grínast????

ha, neinei.
Og hvar býr hann núna?

Nú, hann settist upp á bróður minn!
Nei, þú meinar þetta ekki?

Jú, það er nefnilegar það ótrúlega í þessu öllu saman.

Þetta er ekkert grín, þetta er líf mitt í dag.

laugardagur, ágúst 05, 2006

Sumarbústaðalíf

er dásamlegt.

Þannig lífi ætla ég að lifa næstu daga.

Kem vonandi endurnærð til baka með birkilyktina enn í nösunum.

Vatn



Í Simsongarði er gömul tjörn sem hætt er að gegna hlutverki sínu. Út í hana liggur slanga sem vakti mikla athygli hjá börnunum. Hún varð uppspretta mikilla tilrauna.
Gerðar voru ýmsar tilraunir með bununa og kannaðar margar leiðir til að fá sér vatn að drekka.

Hér sést Hlynur Ingi beita slöngunni á mjög fagmannlegan hátt.












Brynja Sólrún gerði m.a. þessa tilraun.










Vatnið sem kemur úr krönunum hér kemur úr göngunum sem liggja á milli Ísafjarðar annarsvegar og Suðureyrar og Flateyrar hinsvegar. Við eina sprenginguna tók að streyma mikið vatn úr þeim og þar sem vatnsból Ísfirðinga var komið á síðasta snúning var tekið á það snilldarráð að gera nýtt vatnsból og nota þetta dásamlega vatn.

Vatnið úr slöngunni í Simsongarði var því ferskt og ííískalt.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Þar sem ég stóð innanum alla bananakassana hugsaði ég að þar væru hlutir og minningar síðustu 10 ára.

Og svo bergmálaði í íbúðinni þegar ég tók síðasta dótið og setti það í bílinn.

Það var sólskin þennan dag.

Líka hjá mér.