Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, september 26, 2007

Allar tillögur vel þegnar

Getur einhver sagt mér afhverju ég er alltaf svona þreytt.
Sko, ég tek vítamín og omega3 á hverjum degi, er frekar í hollari kantinum í mataræðinu,
hreyfi mig reglulega og fer ekkert svo seint að sofa.
Er samt alveg að leka niður í klofið á mér á daginn og er svo uppgefin þegar ég kem heim.
Hvað er ég að gera vitlaust?
Er þetta kannski afleiðing stöðunnar sem einstæð móðir hefur í för með sér?
Enginn sem deilir ábyrgðinni með manni.
Eða er ég bara að verða gömul.
Já, ég velti þessu fyrir mér því allur helv. veturinn er framundan.
Held að haustið hafi tekið sér bólfestu kerfinu hjá mér, og hagar sér ótuktarlega.
Og hvað skal til bragðs taka?
Gleypa meira vítamín eða vera duglegri að drekka rauðvín?

þriðjudagur, september 25, 2007

Haustið

Hvítar skellur eru komnar í Skessusætið. Í sumar gengum við upp í það í tvígang,
kvittuðum í gestabókina sem búið er að koma fyrir í boxi á stórum steini.



Út um svefherbergisgluggann minn



Haust í Skóginum
Sum haustverk eru skemmtilegri en önnur.
Við mæðgur duttum báðar í prjónana þetta haustið.
Hér er Brynja Sólrún mjög einbeitt að fitja upp fyrir trefli.
Það er orðið svo kalt hafði hún að orði þegar hún hósft handa.


fimmtudagur, september 20, 2007

Pakkinn

Í dag var kallað á mig með mikilli eftirvæntingu í röddinni. Viðkomandi var með pakka frá póstinum og vildi sýna mér innihaldið. Ég lagði frá mér möppurnar og fór fram á gang, settist á bekkinn og varð ein augu þegar út úr pakkanum komu húfurnar eftir þessa konu sem ég hef verið að dást af og varla haldið vatni yfir. Viðkomandi var heppna vinkonan sem fékk 3 húfur sendar og mátti velja sér eina. Jaaa.. sá á kvölina sem á völin segi ég nú bara. Það var ótrúlegt að skoða hanverkið og fá að handleika það og ég fékk alveg stjörnur í augun af öllu bróderíinu. Ekkert smá vinna sem hefur verið í því en það er það sem ég féll fyrir því það fellur eins og þeir sem þekkja mig vel alveg að mínum smekk. Vinkonan var svo glöð og sagðist mega til með að sýna mér þetta þar sem ég haðfi jú mært handverkskonuna á blogginu. Húfurnar voru mátaðar og við skoðuðum okkur fram og til baka í speglinum. Þær eru mjög klæðilegar og alveg örugglega ofboðslega hlýjar.
Ég get því ekki beðið eftir að handverkskonan opni netverslun á þessari fallegu vinnu sinni.

sunnudagur, september 16, 2007

Handa-vinna

Með borvélina , hamarinn og skrúfjárnið að vopni réðst ég loksins í það í gær að setja upp rúllugardínurnar í herbergi barnanna. Þau hafa kvartað sáran yfir birtunni þegar þau eru að fara að sofa og það sé ekki "kósý" hjá þeim í herberginu. Það kom samt ekki í veg fyrir að Snáðinn skreið upp í til mín klukkan 7 í morgunn og byrjaði að tala um skólann sinn. Ég gat stunið upp að það væri enn MJÖG snemma morguns og það sunnudagsmorgunn í þokkabót en hann lét það sem vind um eyru þjóta og hélt áfram spjallinu þar til morgunsjónvarpið byrjaði. Ég fyrirgaf honum þetta rúm rusk þegar hann afhenti mér hróðugur myndina sem hann málaði áðan og sagði að hún væri handa mér.

Í mörg ár var ég alltaf með eitthvað á prjónunum. Af ástæðum sem bæði eru flóknar og leiðinlegar hætti ég þessari iðju. Löngunin dó. Núna í breyttum aðstæðum dúkkar þessi löngun upp aftur. Ég fór því í gær niður í Bókhlöðu og keypti mér undurfallegt prjónablað -Lopi- og er þegar komin með áætlanir um peysuprjón á komandi vetri. Það er nefnilega ekkert eins notalegt og að sitja upp í sófa með teppi yfir sér, hlusta á góða tónlist, jafnvel með gott kaffi í bolla og prjóna. Eftir fyrsta búskapinn eignaðist ég forláta kistu sem þáverandi maður hafði smíðað og er hún full af lopa og öðru garni. Það hefur legið þar óhreyft í nokkur ár. Í dag er ætlunin að fara í gegnum þetta og skoða hvað er til. Mér líður því núna eins og barni á jólunum sem getur ekki beðið eftir því að opna pakkana.

þriðjudagur, september 11, 2007

"Vana -legt" ástand

Þá er komið eðlilegt ástand á konuna.
Ef eðlilegt skildi kalla, orðin árinu eldri í dag en í gær.
Gladdi mig að fá öll þessi sms, símhringingar og bloggarakveðjur.
Takk fyrir það elskurnar mínar.

Annars er ég að horfa á Snáðann minn breytast úr skítugum leikskólastrák yfir í virðulegan námsmann, Rokkarann verða löggildan bílstjóra, fatapælingar Ponsíar taka æ meira pláss í hennar höfði og Dívuna verða að fullþroska söngkonu.

Við verðum víst öll eldri í dag en í gær með nýjum áskorunum sem lífið leggur okkur til.
Og árið hefur verið fljótt að líða. Og það er gott. Er ekki eins þreytt og í fyrra. Sem segir mér margt. Ég er komin lengra og fer alltaf lengra og lengra......í áttina að betra lífi.
Hér á Skógarbrautinni er nefnilega gott að vera. Við löbbum saman á morgnana í strætóskýlið, ég leiði hjólið mitt og þeysi svo af stað stóra hringinn minn þegar ég er búin að smella kossi á Ponsí og Snáðann. Stundum vinka þau mér þegar þau keyra fram úr. Kyrrðin er einstök á morgnana. Yfirleytt er blankalogn og fuglarnir dorma á pollinum. Meðan ég hjóla birtir af degi og dagurinn hefst. Ég horfi á fólkið koma sér í vinnu, en eins og flestum er kunnugt hefst hinn eiginlegi vinnudagur tónlistarkennarans ekki fyrr en um hádegi, og krakka á leið í skólann. Þegar ég hjóla fram hjá Menntaksólanum verð ég alltaf jafn hissa. Bílaplanið er yfir fullt af bílum. Ekki einn maður á hjóli. Í þessum litla bæ þar sem maður er 5 - 10 mínútur á milli staða. Mér finnst þessi bíleignarárátta okkar Íslendinga vera rannsóknarefni mannfræðinga.
Eftir sturtuna er mogginn yfirleytt kominn inn um lúguna og er ekkert eins notalegt og hann og kaffibollinn. Það er svo undarlegt að það tók mig smá tíma að venjast því að hafa ekki Moggann klukkan 7 á morgnana. Morgunvélin lendir um 9 leytið og blaðið er því hér komið í hús hálftíma seinna. En svo venst maður bara því og setur það inn í nýju rútínuna.
Meira hvað maður er háður rútínu.
Maður er allur einn vani svona þegar öllu er á botninn hvolft.

mánudagur, september 10, 2007

Já já maður eldist bara.

Ekkert við því að gera.

Nema þá kannski halda upp á það.

Þá líður manni betur.

Búin að baka ef þig langar að koma í afmæliskaffi.

sunnudagur, september 09, 2007

Fyrir Guðrúnu Láru


Eftir hamskiptin




Eins og sjá má á myndunum þá búið að taka mikið til.
Enda tók þetta mig heilan dag og fram á kvöld.
Þessi hilla var algerlega skipulögð upp á nýtt og myndir hengdar upp á vegg.




Þessi tók slíkum stakkaskiptum að ég eiginlega trúi því ekki núna að þetta hafi litið svona illa út. Öll ljósritin í haugnum eru núna komin inn í möppurnar.







Vinnuaðstaða Syngibjargar er núna eins og best verður á kosið. Enda er allt komið á sinn stað og hægt að setjast niður í herbeginu án þess að finnst maður vera að kafna í drasli.
Ps.
Blómakona;
ef þú skoðar myndina efst til vinstri sérðu möppur. Ég setti hvert lag í plastvasa og merkti svo möppurnar tilheyrandi flokki. ss. aríur, ljóðatónlist o.s. frv. Mjög hentugt að hafa hvert lag í plastvasa því þau geymast betur þannig og líka betra að fletta þeim í gegn.

Get ekki orða bundist yfir auglýsingunni frá FL Group. fff fortissimo þýðir mjög, mjög sterkt en ekki mjög,mjög hátt. Hálfvitar... þvuhhhh........ lágmark ef nota á svona orð í auglýsingu að þá sé rétt farið með þýðingu þeirra.
Og hvernig á ég að fara að því að eyða þessu mikla plássi sem er hér fyrir neðan??




















föstudagur, september 07, 2007

hamurinn

Ég er í ham og er að nýta hann til verka sem ég hef trassað svo lengi að ég er farin að pirrast óeðlilega mikið út í sjálfa mig. Vopnuð Corona bjór og smá snakki réðst ég á bunkann sem ég var búin að setja á borðstofuborðið. Nýji gatarinn kom að fínu gagni og stóð sig mjög vel við að setja göt á blöðin sem fóru inn í möppurnar. Framvegis SKAL mér takast að setja reikninga og þess háttar strax í möppuna. Og þið hugsið........hún er nú bjartsýn þessi........en það er bara allt í lagi, bjartsýni spillir nú aldrei fyrir eða hvað??
Og í tvær möppur fóru öll blöðin og bjórinn rann ljúflega með.
Næst var að fylla út í yfirlitsdagatalið sem ég keypti fyrr í dag í Bókhlöðunni. Þegar maður kennir í 3ur skólum, stundar einn skóla sjálf og hefur 2 börn hjá sér aðra hvora viku þá er svo margt sem er að gerast. Hvenær er vetrarfrí? hvenær eru foreldradagar? hvenær eru tónleikar? hvenær æfir kórinn um helgar? hvenær fer ég út í skólann? hvernig raðast þetta allt upp? Þetta yfirlits dagatal er alger snilld. Svo á morgun er ætlunin að taka vinnuherbergið og umturna því í nothæfa, kósý vistarveru þar sem ég get gengið að öllum nótnabókunum og ljósritunum á sínum stað auk alls hins sem þvælist fyrir manni dags daglega og á aldrei neitt pláss heldur endar alltaf í haugum. Ég er alveg skoppandi kát yfir að hafa fengið þennan ham. Gerist allt allt of sjaldan.

miðvikudagur, september 05, 2007

Kjálkabrjótur

Hef ekkert að segja en samt er fullt að gerast

skrítið þegar hausinn verður tómur

en allt samt á bilandi blússi

ég tygg tyggjó

og verð aum í kjálkanum

verð alltaf manísk við tyggjó tugg

eins og ég geti einhvernvegin flýtt fyrir hlutunum

með því að tyggja hraðar

dáist að fólki sem getur haft tyggjó í munninum

án þess að tyggja það með áfergju

heldur grípur til þess svona endrum og eins

en geymir það innan í munninum svona pent

furðulegt

ég er ekki pen þegar ég er með tyggjó

heldur er eins og óþreyjufullur unglingur

er núna með Extra með melónubragði

frekar væmið

og ég get ekki búið til almennilega kúlu

er nefnilega bara með eitt upp í mér

sko eina plötu

..............hana

farið í ruslið

oj

ætla að bursta í mér tennurnar