Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, júlí 28, 2006

Á snöggu augabragði

Hlutirnir gerast fljótt hér í dag því klukkan fjögur fékk ég að vita að ég þyrfti að fara til Reykjavíkur í dag. Bílstjórinn sem ætlar að flytja búslóðina mína ætlar að keyra vestur á þriðjudaginn og það á eftir að pakka öllu heila draslinu niður og þrífa húsið.
Nú, ég hentist í að redda hinu og þessu þó aðallega gríslingunum.
Þau eru núna á leið inn í sumarbústað með gamla settinu.
Og eftir klukkutíma sest ég upp í bíl og held af stað.
Ég á eftir að pakka..........
Og ég þarf að gera svo margt í borginni þó aðallega hitta vini og síðast en ekki síst kaupa mér bíl.
Er búin að skoða á netinu, tala við bílasala og er niðurstaðan Toyota Yaris. Alveg svona passlegur fyrir litla konu eins og mig. Eyðir litlu bensíni og er góður í endursölu.

Sjáumst!!

Skál!

Fór í Bónus og keypti á grillið.
Bjó til sallat og setti grænmeti í grill grindina.
Hitaði grillið og setti músík á.
Var í góðum gír og söng með.
Hummmm....hugaði ég, það er eitthvað sem vantar.
Ahh...rauðvín.
Opnaði stóra búrskápinn og þar var flaskan sem ég hafði keypt í fríhöfninni þegar ég kom heim frá London. Nú var tækifæri að fá sér smá lögg.
Þar sem ég stóð þarna með heila rauðvínsflösku í hendinni runnu á mig tvær grímur.
Ég drekk ekki heila flösku ein hugsaði ég.
Hafði ekki séð þetta fyrir.
Þarf greinilega að athuga hvort ríkið býður ekki upp á flöskur fyrir einstæðinga.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Fan

Vissi ekki hverju ég ætti vona á.
Gerði mér því engar væntingar.
En upplifunin var stórkostleg.
Sjónarspil af bestu gerð.
Allt út pælt.
Tónleikarnir hér í gær voru ógleymanleg upplifun.

SigurRós hefur eignast nýjan aðdáanda.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Sem betur fer

Er að verða búin að öllu þessu leiðinlega.

Búin að fylla út hina ýmsu pappíra til að færa heimilisföng allra á réttan stað.

Sumt þarf að gerast áður en hitt getur átt sér stað.

Ekki alveg með þessa forgangsröðun á hreinu en búin að kynnast skriffinskunni.

Svo er það Sýslumaðurinn og þá er þetta að verða komið.

Haaaa......... blíða bara...........

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Á bloggsystur sem er að gefast upp.

Langar að hjálpa, en veit ekki hvernig.

Er hrædd um hana.

Bið til Guðs að hún láti ekki til skara skríða.

Bloggið í dag sagði; Búið.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Með sperrt eyru....

Sat spennt og beið.

Þurfti fyrst að hlusta á bull í útvarpsmönnum.

Svona, er ekki búið að tala nóg.....

og kynna þetta rækilega....

..... nema úps.. veit maðurinn ekki hvað söngkonann heitir


hvurslags er þetta

ojjjj, varð móðguð,

en svo, hrikalega stolt.

Lagið finnst mér fínt.

Og söngkonan er bara briiiiill.

Allir til Eyja um verslunarmannahelgina.

Allavega verður Hrund Ósk þar.

Syngjandi Eyja-lagið hans Magga Eiríks.

Rómantík

Eitthvað blúsuð í dag.

Var í dásamlegu brúðkaupi í gær.
Svona útibrúðkaupi þar sem athöfnin fór fram í trjálundi á Seljalandi.

Veisla par exelence, skreytt viltum blómum og birki.

Og maturinn................mmmmm........saltfiskréttir af bestu gerð.
Fiskurinn veiddur og verkaður af föður brúðarinnar.

Sól


Íslenskt sumar


Íslensk sumarnótt

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Bókaormur

Hef verið ótrúlega dugleg að lesa í sumar.
Búin með Kleifarvatn eftir Arnald og fannst hún bara reglulega fín.
Því næst kláraði ég Tár gíraffans sem er framhald bókarinnar Kvenspæjarastofa númer eitt.
Það var lesning sem kom skemmtilega á óvart. Mæli með henni.
Fór svo á bókasafnið og fékk skírteini fyrir mig og börnin.
Tók m.a. Í fylgd með fullorðnum eftir hana Steinolíu blessaða.
Ágætis lensning svosem. Kaflarnir minna mig stundum á bloggfærslu.
Stíllinn dáldið knappur og setningarnar stuttar, sem ég er alveg að fíla.
Glefsur héðan og þaðan, svona minningarbrot.
Fremst í bókinni stendur tilvitnun sem ég læt fljóta með því mér finnst hún góð.

More than anything, we are the products
of what we have lost.
Denis Bouvier

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Leiðsögumaðurinn

Rokkarinn er kominn í hús.
Byrjar í Bónus á föstudaginn og verður þangað til MH byrjar þann 18. ágúst.
Gott að hafa þau öll núna hjá sér.
Grilluðum og borðuðum út á palli en það hefur ekki verið hægt í meira en viku sökum veðurs.
Ætla reyndar ekki að fara að pirra mig á veðurfarinu.
Segi bara eins og faðir minn, það er aldrei neitt að veðrinu, maður bara klæðir sig í samræmi við það og vandamálin eru úr sögunni.

Hef verið í gæda-hlutverkinu undanfarna daga.
Fékk kæra vini í heimsókn.
Það hefur dreift huganum og gert mann upptekinn, sem er gott.
Stundum dettur maður nefnilega í bakkgírinn, sem er vont.
En eins og frænka sagði hér í kommenti, bara upp með húmorinn.

Og ég reyni.

Alltaf að reyna.

mánudagur, júlí 17, 2006

Yfirgangur og frekja

Þegar maður er í svona ömurlegu skapi eins og núna og finnst verið sé að valta yfir sig og sína þá er best að fara út og hjóla.

Það hreinsar hugann svo maður geti hugsað skýrt.

Verð að vera skýr í kollinum.

Annars mistekst allt.

Upplifun


Kvöld í Ísafjarðardjúpi.

Verð alltaf meir þega ég upplifi svona fegurð.

Langaði út á árabát og róa.

Róa inn í eilífðina.

Sjá sólarlagið.

laugardagur, júlí 15, 2006

Skógarferð



Á einum af þeim fáu góðviðriðsdögum sem hafa komið í sumar fórum við í piknikk inn í skóg. Ég tók fullt af skemmtilegum myndum en blogger er svo ótrúlega lengi að hala þeim niður að þær koma smám saman næstu daga þó ég hefði kosið að sýna þær sem myndaseríu. .Við hjóluðum sem sagt sem leið liggur inn í skóg og settumst í græna laut og fengum okkur hressingu. Sólin kom og fór en var samt ótrúlega gjafmild á geisla sína því áður en ég vissi af voru börnin farin að vaða og komin úr buxum, skóm og sokkum.
Hér má sjá Ponsí og Snáðann við yfirlitskortið sem er neðst við fossinn.











Lækurinn fyrir aftan lautina sem við settumst í var kjörinn fyrir litlar tær að vaða í. Hann var nú dáldið kaldur svona til að byrja með en öllum má nú venjast ef maður á ekki að vera talin gunga.













Áin var vatnsmikil og buldi á flúðum.
Við gengum eftir stígnum sem liggur upp eftir henni og náðum upp á topp þar sem ótrúlegt útsýni blasti við okkur.





Inn í skógi er Simsonsgarður.Það er skrúðgarður okkar Ísfirðinga og var hannaður og gerður af Simson sem var danskur garðyrkjumaður og bjó hér í bæ ásamt spúsu sinni. Garðurinn fór illa út úr snjóflóðinu hér um árið en er allur að koma til. Hér má sjá frúnna með reiðfákinn (besta vin sinn nú til dags) sér við hönd í sportgallanum fyrir framan þennan garð. Allir sem hingað koma ættu að gefa sér tíma til að líta þar við.

taddaraaaa................

Haldiði ekki að hún Hildigunnur þessi elska hafi ekki keyrt yfir fjöll og firnindi til að bjarga mér.
Hafðu ævinlega þökk fyrir mín kæra því hér er ég komin til baka og hef frá mörgu að segja.

Það er dáldið skrítin reynsla að missa bloggið sitt svona.
Maður upplifir sig hálf munaðarlausa og getur bara haft samband við bloggheiminn í gegnum kommentakerfi annara.
Varð fyrst hálf einmana, svo fústreruð en síðan sorgmædd.
En núna get ég tekið gleði mína á ný því hér er ég spræk og hress.

mánudagur, júlí 10, 2006

Gíruð

Skrítið hvað ferðalög geta gert mann þreyttan.
Er bara í 1. gír í dag.
Svo sem ágætt því ég er í fríi þessa viku og ætla að gera
sitt lítið af hverju með börnunum mínum.
Hjólið mitt var í "klössun " á meðan ég var í burtu
svo nú get ég hjólað sem aldrei fyrr.
Það er frábært veður svo ég held ég fari í piknikk inn í skóg.
Já held það væri bara alveg við hæfi.
Veðrið gott og hjólið sem nýtt.
Börnin spræk og þurfa að fá útrás fyrir orkuna.
Bæta móðurina upp í dag.
Verð vonandi komin í "gírinn" á morgun.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Frægur á Íslandi, sko.

Ef rýnt er í þessa frétt og mynd má sjá Syngibjörgu bloggara á tali við frænkuna sem fór með henni í veisluna góðu. Maður er ekki fyrr komin að myndir af manni birtast bæði á vefnum og í blaðinu.

Já, já.

Skemmtilegt bara.

Fer annars suður á morgun í innréttingaleiðangur. Svo þangað til esskurnar, góða helgi og hafði það sem allra best.

Sjáumst í næstu viku.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Fjölhæfni

DVD spilarin foreldra minna er óþolandi fjölhæfur.

Það er nefnilega þannig með hann að þegar maður horfir á mynd þá getur maður líka hlustað á allt sem fer fram á skjá einum.

Samtímis.

Ég missi aldrei af neinu.

Eignamyndun

Á morgun eignast ég pening.

Ég seldi nefnilega hús í vor.

Þennan pening nota ég svo á fimmtudaginn þegar ég ,ein og sjálf,
í fyrsta sinn kaupi mér mína eigin íbúð.

Ný reynsla.

mánudagur, júlí 03, 2006

Peningaeyðsla dauðans

Horfði á einhverja þá hrútleiðinlegustu mynd sem ég hef lengi séð í gærkveldi.

Kiss,kiss, bang,bang.

Forðist hana.

Var búin að fara í æðislegan hjólatúr inn í skóg, labba upp með ánni í dásamlegu rigningarveðri þar sem ekkert rok feykti dropunum framan í andlitið á manni. Nei, það var blanka logn og droparnir eða réttara sagt úðinn datt beint niður . Jæja, þetta var nú smá útúrdúr, semsagt eftir þennan túr fór ég í búðina og svo í sjoppuna þar sem líka er hægt að leigja myndir.Fannst það vera góður endir á annars notalegum degi að horfa á eitthvað skemmtilegt. Valdi þessa þar sem söguþráðurinn var alls ekki svo galinn og leikararnir svona la la. Hún var auglýst sem gamanmynd. En Jesús minn, annan eins dauða hef ég sjaldan séð.
Varð líka svo ótrúlega fúl að hafa eytt peningunum mínum í leiðindi.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Flashback

Mikið óskaplega var þetta nú skemmtilegt þarna í gærkveldi.
Dansaði af mér tærnar í suðrænni sveiflu frá Dívunni.
Satfiskurinn var guðdómlegur og rann ljúflega niður með líka þessu fína víni.
Gerðist svo bílstjóri þegar leið á kvöldið og áhrifa víns var hvergi sjáanlegt og keyrði 2ur dívum um Ísafjörð í leit að fjöri.
Fundum það á Langa Manga og héldum áfram að stíga dans.
Hitti þar gamlan skólafélaga og fór mörg ár aftur í huganum.
Hann leit ekki vel út ræfillinn þarna haugafullur.
Samt var hann sætasti strákurinn í skólanum og ALLAR stelpurnar voru skotnar í honum.
Hann hefur ekki farið vel með líf sitt.
Veit ekki hvort hann þekkti mig, en hann bauð mér upp í dans og þegar ég kvaddi var eins og hann áttaði sig og horfði fast í augun á mér og sagði: jaaaaaá.......þú.
Minnti mig á atriði út einhverri hallærislegri amerískri bíómynd.

laugardagur, júlí 01, 2006

Nýr.........

...... linkameðlimur Lindablinda komin í safnið.

Lífið er saltfiskur

Og þau lögðu af stað fyrir 10 mínútum til höfuðborgarinnar.
Þar verða þau þangað til næstu helgi þegar við keyrum saman hingað vestur aftur.
Ponsí hafði það að orði að hún væri nú ekkert sérlega spennt að fara suður, mamma það er svo gott að vera hérna. Hjartað mitt tók aukaslag af gleði því það sannfærði mig enn og aftur að hér eigum við að vera.

Og í kvöld er fyrsta saltfiskkvöldið í Neðstakaupstað.
Sú hefð hefur skapast að fyrsta kvöldið er í umsjón Byggðasafsnins sem fær til sín nokkra kunna alþýðukokka til að útbúa hlaðborð með sólþurrkuðum fiski af reit safnsins.
Saltfiskssveit Villa Valla mun leika ljúfa djasstóna undir og söngkonan og bloggarinn Giovanna mun slást í hópinn ásamt Tómasi R. ofurbassaleikara.
Og ég er svo heppin að hafa fengið miða því það var kominn biðlisti um leið og þetta var auglýst því þetta er með því vinsælla sem boðið er upp á yfir sumarið.
Svo í kvöld er það sveifla og stuð í frábærum félagsskap, borðandi dásamlega rétti drekkandi gott rautt vín.

Já, lífið er ljúft.
Og til að hita mig upp og fá stemminguna þá hef ég aldeilis fínan disk í spilaranum
sem datt hér inn um lúguna.
Gjöf frá Landsbankanum.
Diskurinn heitir Tónar, og inniheldur lög eftir saxófónleikarann Eyjólf Þorleifsson
og sönkonan er hún Hildur sem er með mér í náminu frá Vocal Institude.
Skemmtilegt.