Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

mánudagur, júlí 30, 2007

Varið ykkur á mjaðmahnykknum

Nú er mér alveg hætt að lítast á blikuna.
Það rekur hvert ólukkans ástandið á eftir öðru á fjörur mínar.
Í morgun vaknaði ég með hálsbólgu og svo fékk ég beinverki í dag.
Og Kanarí er á morgun.
Ég er nú eiginlega sammála sjálfri mér að þetta sé óviðunandi.
Fór í framhaldi af því að velti því fyrir mér hvort það sé heilsuspillandi að dansa Latino.
Dettur ekkert annað í hug því ég var á Cultura á laugardagskvöldið og dillaði mjöðmunum eins og ég ætti lífið að leysa með mönnum sem kunna sko að dansa.
Hingað til hefur dans virkað þannig á mig að ég verð öll mýkri í mjöðmunum og sinnið verður svo miklu miklu glaðara. En eitthvað fór þetta á annan veg þarna um kvöldið fyrst ástand frúarinnar er svona í dag.
Ég hef hellt í mig fullt af heilsutei, tekið vítamínin og omega-töflurnar ásamt íbúfeni í von um að geta ferðast með góðu móti á morgun.
Shi..........................pppp og hoj.........................

föstudagur, júlí 27, 2007

Er lífið fullt af tilviljunum eða er einhver þarna uppi sem stjórnar?

Stundum held ég að yfir mér sé einhverskonar öryggisnet, hjálparenglar eða í mér sé spotti sem nær til einhvers sem stjórnar þegar mikið liggur við og hlutirnir ekki lengur í mínum höndum.

Fyrir það fyrsta þá er bílinn minn heiladauður. Það fundu þeir út kallarnir. Miklir snillingar þar á ferð. Bláa frelsið þarf því nýjan heila sem kostar hvítuna úr augunum á mér. En þar sem ég er á leið í fríið langþráða þá hef ég tekið þá ákvörðun að takast á við það þegar ég kem heim aftur. En að bíllinn skyldi taka upp á þessu setti öll plön á annan endann. Þannig var að ég hafði ákveðið að fara í Hrútafjörðinn og heimsækja frábæra vinkonu. Það passaði svo vel því Rokkarinn var á leið norður á Akureyri til föður síns í helgarferð og auðvelt fyrir hann að nálgast einkasoninn á Brú. Þaðan var svo ferð minni heitið til Reykjavíkur og svo til Kanarí.

Í mínum huga kom ekki til greina að fljúga. Þá hefði ég ekki haft efni á einum einasta drykk á Kanarí hvað þá heldur ís handa börnum. En þá fóru hjólin að snúast. Fyrstur kom frændi minn og bauð mér bílinn sinn og stuttu seinna öðlingurinn hann faðir minn sem vildi keyra mig og börnin alla leið suður til Reykjavíkur. Næst fékk ég símtal frá henni Gróu bestuvinkonu þar sem hún bauðst bæði til að sækja mig og lána mér svo bíl í borginni.
Klukkan hálfþrjú þegar búið var að fylla bíl föður míns af töskum og sækja Ponsí og bestuvinkonu hennar á siglingarnámskeiðið var haldið af stað. Áfangastaður var Brú. Þar ætlaði Rokkarinn að taka rútu til Akureyrar og við hin að fá far að Baulu með staðarhaldaranum á Tannastöðum í Hrútafirði en hann var á leið í Reykholt á tónleika. Í Brú er margt um manninn og allt eins von á að hitta einhvern sem maður þekkir. Þar hittum við mann sem við öll könnuðumst við sem var á leið til Akureyrar. Honum fannst alger óþarfi að Rokkarinn tæki rútuna þegar hann var á leið í höfuðstað norðurlands eins síns liðs og nóg pláss í bílnum. Rokkarinn var að vonum glaður við að sleppa við leiðinda rútuferð og kvaddi okkur brosandi.
Við hin héldum af stað í áttina að Baulu. Þegar þangað var komið renndi Gróa bestavinkona nánast samtímis í hlað þar og aftur var tekið til við að afferma og hlaða bíla. Ponsí og Marín bestavinkona voru keyrðar út á Seltjarnarnes og Snáðinn, sem hafði fengið að fara með vinafólki okkar í lítið ferðalag var kominn suður og einmitt staddur út á Nesi. Faðir minn keyrði aftur á móti til baka til Ísafjarðar og er sennilega kominn undir sæng núna, þreyttur eftir alla keyrsluna.

Ég sit hinsvegar hér í eldhúsinu hennar Gróu minnar með bjór og afskaplega þakklát í hjartanu fyrir þessa ótrúlegu hjálp og þá vini og fjölskyldu sem ég á.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Og hvað skal til bragðs taka?

Þó sumarfríið mitt hafi og sé enn alveg dásemdin ein þá er tvennt sem ég hef verið án.
Myndavélin er búin að vera í viðgerð síðan í júní því ábyrgðarskírteinið finnst ekki og ef ég framvísa því ekki svarar viðgerðin ekki kostnaði.
Hitt fer að vera öllu verra og er farið að gera vart við smá titringi í raddböndunum hjá Syngibjörgu þegar hún talar um það.
Bláa frelsið, Ljónið á veginum, er búið að vera á bílaverkstæðinu í heila 13 daga því enginn veit hvað er að honum. Fyrirhuguð er ferð jafnvel í Hrútafjörðinn á leið til Reykjavíkur áður en farið verður í hið eiginlega sumarfrí til Kanarí. Ef hann fær ekki bót sinna meina kostar það flugferð héðan frá Ísafirði með einokunarfyrirtækinu Flugfélagi Íslands.
Og buddan mín gerði nú ekki ráð fyrir því.
Mér finnst þetta fúlt.

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Er ég ríkur, mamma?

"Mamma við verðum að fara með hann í bankann. Sko, sjáðu það kemst ekki meiri peningur í hann". Fyrir framan mig stendur Snáðinn með Georg baukinn sinn og bunar þessu út úr sér af mikilli sannfæringu. Við settum því á okkur hjálmana og lögðum af stað hjólandi í bæinn, hann með Georg í bakpokanum og sælubros á vör. Í bankanum tók þjónustufulltrúinn okkar á móti okkur og hann rétti henni hróðugur baukinn. Vá, hvað hann er fullur sagð´ún, já ég er búinn að vera svo duglegur að safna svaraði hann hróðugur. Á meðan vélin flokkaði aurinn stóð hann fyrir framan afgreiðsluborðið og beið spenntur. Mamma, það er rosalega mikill peningur í bauknum, heyrirðu í þeim? Jæja, þetta eru heilar 5324 krónur. Váááá..... er það ekki mikill peningur mamma? það held ég svaraði ég. OG hvað ætlar þú að gera við allan peninginn spurði þjónustufulltrúinn? ég ætla að fá "galdreyrir" svona útlenska peninga svaraði hann.
Og hvert ertu að fara? Til Kanarí!!!
Út úr bankanum kom Snáðinn með 62 evrur, Latabæjarbuddu og kælitösku. Á leiðinni heim þurfti hann að stoppa nokkru sinnum, taka budduna upp úr bakpokanum, skoða peninginn og spyrja hvort bankin ætti núna peninginn sem var í bauknum. Um kvöldið sofnaði hann með hana í fanginu. Tveim dögum seinna voru staddir hjá okku gestir. Snáðinn vildi auðvita sýna fjársóðinn sinn en þurfti fyrst að fara og pissa. Eitthvað dvelur hann inn á baði svo ég fer að gá að honum. Stendur hann þá ekki fyrir framan vaskinn, veskið blautt og peingarnir allir saman klístraði. Hann alveg miður sín og ætlaði aldrei að segja mér hvað hafði komið fyrir. Jú, þá var það þannig að "ég var sko að pissa og var með veskið í annari hendinni til að passa það en þá sko datt það bara í klósettið". Er það nokkuð ónýtt????? Hann átti bágt með sig og var alveg að fara að gráta en ég með hláturinn í maganum fullvissaði hann um að það væri hægt að skola, þrífa og þurrka veskið og peninginn. Veskið fór því á ofninn og peiningarnir á moggann. Gestirnir voru fullir samúðar og snáðinn hélt reisn sinni í þessum frekar vandræðalegu aðstæðum.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Hér er sitt lítið af hverju sem tilheyrir klukki frá fröken Baun

Hér fylgja átta uppljóstranir um fröken Syngibjörgu.

1.Nafn mitt kemur frá ömmu minni sem var skírð eftir afa sínum Bjarna og ömmi sinni Ingibjörgu og fékk því þessa undarlegu samsetningu Bjarney Ingibjörg. Það er frekar óþjált í munni og var amma mín alltaf kölluð Eyja Ólafs. Foreldrum mínum hugnaðist ekki að ég yrði kölluð Eyja því þá fengi ég viðhengið "litla" og var ekki ábætandi því ég var og er afskaplega lítil manneskja. Ég var því kölluð Ingibjörg í mínum uppvexti. Þegar ég flyt suður til Reykjavíkur til að stunda framhaldsnám þá var ég skráð samkvæmt kennitölu Bjarney I Gunnlaugsdóttir því nafnið er það langt að það kemst ekki allt fyrir í þjóðskrá. Út úr þessu fór hin ýmsi ruglingur af stað því sumir þekktu mig undir nafninu Bjarney en aðrir Ingibjörgu. Í dag kynni ég mig með fullu nafni og er farin að nota bæði nöfnin og verð að viðurkenna að mér finns Bjarneyjar nafnið fallegra.

2.Þegar bróðir minn var 2ja og ég 6, stökk hann í fangið á mér ofan af eldhúsborðinu. Ég fisið gat ekki gripið hann og skall hann því með ennið á hornið á borðinu og fékk við það stóra kúlu sem breyttist í horn. Það er þar enn 34 árum seinna.

3. Alltaf þegar ég reiddist missti ég málið, fann tárin leka niður kinnina og hljóp svo inn í herbergi bölvandi sjálfri mér því ég gaf þá mynd af mér að ég væri grenjuskjóða.

4. Ég eyðilagði gírana í bílnum hans pabba þegar ég var 18 ára og bróðir minn hló sig máttlausann yfir klaufaskapnum.

5. Ég get snögg reiðst en það er fjótt úr mér aftur og ég er ekki langrækin.

6. Ég er of þolinmóð og með allt of mikið langlundargeð sem gerir það að verkum að fólk hefur misnotað það í einum of miklum mæli.

7. Ég get verið mjög skipulögð og komið miklu í verk á stuttum tíma.

8. Þegar ég var 10 ára stóð ég upp á gamalli öskutunnu í miklu roki, tók um faldinn á úlpunni minni og breiddi hana út fyrir aftan bak og flaug í bókstaflegri merkingu. Þá fannst mér flott að vera lítil og nett. Enda kallaði afi minn mig Fingurbjörgina sína.

Ég ætla að klukka; Halldísi, Meðalmanninn, Sópranínu, Parísardömuna, Flókatónið og Blindu í von um að hún gefi frá sér eitthvað lífsmark.

mánudagur, júlí 16, 2007

störfin í sumarblíðunni

Jíbbíkóla.
Nú hef ég lokið við það allra leiðinlegasta sumarverk sem hægt er að hugs sér.
Nefnilega að bera á helv....grindverkið.
Í þokkabót hef ég eitthvað ofnæmi fyrir viðarvörninni og hef því verið með alveg hreint undursamlegan höfuðverk í 3 daga. Ýmislegt sem maður leggur á sig til að fegra umhverfið sitt.
Annars bilaði háspennukeflið í bílnum mínum og hann því á verkstæði. Sumarbústaðaferðin fór því fyrir lítið en í staðin var sumarsins notið hér út í garði.
Ætla því að halda því áfram og dást í leiðinni að verki mínu
í hver sinn sem ég lít í áttina að grindverkinu.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Er í sumarfríi

.............og það er dásamlegt
Syngibjörg hvílir lúin bein eftir göngu upp í Hvilft
Kvittað í gestabókina

Ísafjörður að kveldi



Hér á Skógarbrautinni eru góðir gestir.



Það er búið að:



-fá sér göngutúr í bæinn, drekka kaffi í Edinborg og blása sápukúlur á Silfurtorginu



-ganga upp í skessusæti/Hvilftina



-fara í Raggagarð í Súðavík



-njóta veðursins í lautarferð í Álftafirði



-vaða og stappa í drullu



-fara í sundferð á Suðureyri



-borða ís.......og mikið af honum



-sleikja sólina í nýju sundfötunum



- lesa skemmtilega bók



- borða góðan mat


Á morgun borðum við plokkfisk í Neðsta og á laugardag
er ferðinni heitið inn í Langadal í sumarbústað.



Lífið er gott:O)




















mánudagur, júlí 09, 2007

Nú ætla ég að gerast mannafæla!!!!!!!!!!

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Mikið er það dásamleg tilfinning
að setjast niður með ískaldann bjór
þegar maður er búin að fara hamförum í íbúðinni
og gera hreint.
Líta yfir verkið
og vera svona líka assgoti ánægð með afraksturinn.
Kaldur Korona er bestur á svona stundu.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Dekur

Í gærkveldi kom faðir minn í heimsókn vopnaður borvél, sverustu krókum sem ég hef séð og einhverjum patent lásum. Eftir að hafa prílað upp á stól og borað göt kom hann öðrum króknum fyrir, og svo hinum og allt í réttri fjarlægð frá hvor öðrum. Svo var tekið við að mæla hæðina og stilla. Og þarna á svölunum dinglaði svo flotta röndótta hengirúmið mitt. Í morgun fór ég út og lúrði smá stund þar og lét sólina skína á mig. Það er dásamlegt.

mánudagur, júlí 02, 2007

Fuerteventura



Nú get ég farið að hlakka til. Þetta er umhverfið sem ég og börnin 3 verðum í eftir 4 vikur. Gekk frá ferðinni í dag, og fór svo með Snáðann á sýslukrifstofuna til að ganga frá vegabréfi fyrir hann. Allir eiga því vegabréf og allt klapp og klárt. Fengum meira að segja sendingu af stuttbuxum til Snáðans frá sóldýrkanda í fjölskyldunni. Sólarkrem er til, spurning um réttan factor. Ef einhver lumar á góðum ráðum varðandi sólar og rakakrem og svoleiðis væri það vel þegið því ég hef ekki áður farið í svona ferð.

Læt hér fylgja smá upplýsingar um eyjuna svona til fróðleiks og skemmtunar.

Fuerteventura er næst stærst Kanaríeyjanna og liggur hún næst Afríku í eyjaklasanum. Í raun skilur aðeins mjótt sund eyjuna frá ströndum Marokkó og Saharaeyðimörkinni. Eyðimörkin ásamt vestlægum vindum hefur í gegnum árþúsundir lagt Fuerteventura til sandstrendurnar sem eyjan er svo rík af. Sagt er að hver Kanaríeyjanna hafi sín sérkenni og á Fuerteventura eru það strendurnar. Þær teygja sig langar og breiðar í kílómetravís með fínum hvítum sandi og kristaltærum sjó og bjóða mann velkominn, stórkostlega fagrar.Endalausir afþreyingarmöguleikar eru á eyjunni: • Golf • Seglbretti • Sjóskíði • Baku vatnasleikjagarðurinn (lokaður nóv.- mars) • Dýra- og plöntugarðurinn Oasis Park • Keila • Smábátahafnir • Strandblak • Köfun • Snorklun • Tennis • Kajakar • Fuglaskoðun • Veiði • Verslun ... og fleira og fleira ............