Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

sunnudagur, desember 30, 2007

Það er undarleg að standa fyrir framan fullan ískáp af mat, vera svöng en langa samt ekki í neitt.

laugardagur, desember 29, 2007

Söng í jarðarför í dag.

Síldarvalsinn. ( Syngjandi sæll og glaður til síldveiða nú ég held.......;)

Verð að játa að það var eiginlega dáldið ögrandi verkefni.
Ekkert mál að syngja Ave Maríu af einhverju tagi því það í sjálfu sér gefur tóninn og andrúmsloftið.

Við píanistinn urðum því sammála um að tempóið gæti ekki verið eins og á balli.
Þetta varð því hátíðar útgáfa af Síldarvalsinum.

föstudagur, desember 28, 2007

Nú skal farið á gönguskíði, anda að sér fjallalofti af Dalnum og fá rauðar eplakinnar.

Úti er fallegasta veður og einhverskonar blá birta.

Ætli ég fái harðsperrur?

fimmtudagur, desember 27, 2007

Ósköp hefur þetta verið notalegt.

Jóla - jóla.......

Skatan á þorlák var vel kæst og ilmurinn eftir því.

Engar rjúpur voru í ár en lambakjötið klikkar aldrei.

Margar góðar gjafir komu undan jólatrénu á aðfangadag.

Jólakort frá vinum og vandamönnum ylja manni alltaf.

Jólaboð með krásum.

Börnin kát og glöð.

Hvíld og lestur.

Tindrandi jólaljós.

Og snjór.....jólasnjór.

laugardagur, desember 22, 2007

Þegar törnin var búin

Held þetta sé lengsta "ekki haft tíma til að blogga" tímbilið sem ég hef upplifað. Hef reyndar aldrei upplifað annað eins. En núna er komið jólafrí og hér situr maður með jólasnafs og jólabjór. Var að taka saman svona að gamni alla þá tónleika og aðrar uppákomur sem kórarnir mínir og nemendur mínir hafa troðið upp með í desember en svona lauslegt skot eru um 14. Þá eru ekki taldar með allar æfingarnar. En þetta hefur vissulega verið skemmtilegt og gefandi en konan er orðin ansi eitthvað lúin. Hélt þó hið árlega jólboð kvennakórsins, sem nú er orðið, í gærkveldi og tókst það ákaflega vel. Á boðstólnum var sveitakæfa, tómat og púrtvínssíld, saltfiskur með púrtvínslegnum rúsinum og eplum, avókadósallat með dijon dressingu, suðrænar kartöfflur og rækjur í sérrí sósu. Einnig var frosinn jólasnafs sem er ómissandi með síldinni. Mmmm.......fæ bara enn vatn í munninn. Fyrir áhugasama get ég hent inn uppskriftunum, en það yrði þó eitthvað seinna.
Dagurinn fór í að kaupa inn jólagjafir og vera með börnunum. Þau fóru í það að mála á piparkökurnar þegar heim var komið, sem voru bakaðar og lýst í síðustu bloggfærslu, svo hér gengur allt mjög hægt en það er bara líka í fínu lagi. Jólin koma samt sem áður. Og gleðilegustu fréttirnar eru svo þær að börnin fara ekki burtu um jólin. Það er svona þegar maður mannar sig upp í að tala.
Svo kom litli bró frá Reykjavík í dag til að vera yfir hátíðarnar og kenndi mér að hlaða inn á ipodinn svo nú fara allir jóladiskirnir loksins þarna inn. Málið er að frumburðurinn, sem er svona tæknikall og býr í Hafnarfirði NB, hefur alltaf gert þetta fyrir mig og ég þ.a.l. ekkert sett mit inn í þetta. Ég er samt búin að sjá að það er svona betra að kunna þetta sjálf og eiginlega nauðsynlegt þar sem hann er ekki hér dagsdaglega. Og svo er þetta svo lítið mál að maður eiginlega er hneykslaður á sjálfum sér að hafa ekki einhent sér í þetta fyrr. En það er allt svo auðvelt sem maður kann, eins og einn góður kennari sagði.
Já, er ekki einhver sem vill gefa mér bíl í jólagjöf eða a.m.k. nýja geymi. Minn nebbnilega DÓ áðan. Og þetta er ekki grín. Veit ekki hvar þetta bílakjaftæði endar eiginlega. Langar helst að henda honum í BogL og heimta annan í staðinn. Pabbi dró hann inn á Netagerð og þar er verið að hlaða geyminn. Það sem mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt er að ég hef verið með hann inn og út af verkstæði síðan ég keypti hann og ENGINN af þeim sem hafa verið að gera við bílinn minn nefnt við mig að það þurfi að hreinsa tenginn inn á rafgeyminn. Þar var allt núna í spansk grænu.
Franska drasl.

föstudagur, desember 14, 2007

Piparkökubakstur Skógarbúa

Dásamlegi piparkökuilmurinn er kominn í eldhúsið mitt hér á Skógarbrautinni. Eftir kvöldmat hófumst við handa við að fletja út og þrýsta mótunum ofan í deigið. Í spilaranum var jóladiskur Borgardætra, uppáhaldsdiskur Brynju Sólrúnar, og hver platan af annari fór inn í ofninn. Hlynur Ingi vandaði sig mjög mikið og var kominn upp á lag með að flytja bjöllur og jólasveina yfir á plötuna án þess að allt slitnaði í sundur. Á morgun eftir að börnin hafa spilað á tónleikum er ætlunin að skreyta kökurnar. Verst er að myndavélin finnst ekki. Hélt hún hefði orðið eftir úti í Köben en það reyndist víst ekki. Svo eiginlega er ég búin að týna henni, sem er algjör bömmer því hún var keypt í sumar. Ætli maður sé tryggður fyrir svona?

Mörg myndefni urðu til við baksturinn en þetta verður þá bara geymt í minningunni.
En þessi mynd hér var tekin í fyrra og sjást þær frænkur Kolfinna (t.v) og Brynja Sólrún (t.h.)
móta kökur og flytja þær yfir á plötuna.mánudagur, desember 10, 2007

Fann þessa mynd á bb.is en hún var tekin
á Frostrósar tónleikunum sl. föstudag.

sunnudagur, desember 09, 2007

Jólahreingerning

Nú verður tekið til

Þarna uppi sko

Og út með allt ruslið

Daglega

föstudagur, desember 07, 2007

Seríós, söngur og sætar kartöfflur

Í fyrrakvöld kom ég heim eftir langann og strembinn dag. Ekki hafði gefist tími til að fara í búð og því lítið til í kotinu. Ég fann þó núðlupakka í búrskápnum, skinku, egg og sæta kartöfflu í ískápnum sem var alveg á síðasta snúningi reyndar. Núðlurnar fóru í pottinn og ég tók til við að rífa sætu kartöffluna niður á pönnuna (eða það sem var nýtilegt af henni). Hafði líka fundið enda af engiferrót og reif það sem ekki var uppþornað með kartöfflunum. Þegar ég hafði kryddað þetta og ilmurinn orðinn bara ansi hreint góður fóru núðlurnar á pönnuna ásamt skinkunni. Að lokum voru það eggin. Og þá var það sem ilmurinn breyttist í slíka fýlu að ég hreinlega kúgaðist. Helv.eggið var fúlegg og maturinn sem ég var búin að hlakka svo til að borða fór beina leið í ruslið. Kvöldmaturinn varð ein séríósskál.En að öðru.

Jæja það er komið að því.
Dívurnar halda tónleika í dag og í kvöld.
Stúlknakórinn var beðinn um að taka þátt og syngja með í tveimur lögum.
Fengum MJÖG stuttan fyrirvara til að æfa og læra utanbókar, en þetta
eru klárar stúlkur svo ég veit að þetta verður ekkert mál fyrir þær.

Söngurinn er því enn við völd í veröld Syngibjargar.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Jólin, hefðin og nýjir siðir


Búin að fylla svona jóladagatalsflösku af púrtvíni,
skála í svona litlum staupum fyrir aðventunni og búa til aðventukrans.

Jólin verða með öðrum hætti en undanfarin ár og kemur það til vegna fjarveru barnanna. Það er staðreynd sem hefur reynst mér erfið að horfast í augu við og er ég að reyna að finna út hvernig maður á eiginlega að halda jól án barnanna sinna. Sumir hafa bent mér á að þarna gefist mér nægur tími til að slaka á , lesa í góðum bókum og eiga tíma fyrir mig. En eru jólin rétti tíminn til þess? að eiga tíma fyrir sig þegar manni langar mest af öllu að hafa fjölskylduna sína hjá sér. Finnst sú tilhugsun að koma í auða íbúð á aðfangadagskvöld óbærileg. Og svo sækja á mann allskonar spurningar um hvort ég eigi að hafa jólastund með þeim dagana á undan þar sem við opnum pakka frá hvort öðru og ég heyri Snáðann minn lesa utan á jólapakkana. Eða hvort ég eigi að senda þau með þá suður. Já og ég þarf víst að finna annan dag til að skreyta jólatréð því hefð hefur skapast fyrir því að það sé gert á þorláksmessu en þau verða ekki hér þá. Og það er eiginlega dáldið merkilegt að upplifa þetta allt saman því jólin eru ein stór hefð hjá hverjum og einum. Öll höfum við okkar siði og venjur, annaðhvort sem við tökum með okkur úr föðurhúsum eða þá þær sem við höfum skapað okkur sjálf eftir að við fórum að halda jól. Og hver hefur sinn háttinn á sem er jafn mikilvægur hverjum og einum. Og jólin koma til mín það veit ég vel, ég þarf hinsvegar að reyna að taka á móti þeim og njóta þeirra. Það er verkefni sem ég veit ekki enn hvernig ég leysi.

sunnudagur, desember 02, 2007

Markmið

Snáðinn minn átti sér takmark þegar hann byrjaði í skólanum í haust.

Hann ætlaði að vera búinn að læra að lesa áður en jólin kæmu.

Afhverju?

Jú, þá gæti hann lesið utan á jólapakkana.