Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Verði ljós.........

og það varð ljós.......


í kollinum á manninum.


Manninum sem ég bý með.

Verðlag

Framkvæmdagleði okkar er metin á 25,9 milljónir.

Vona að einhver vilji setja þessa peninga í kofann.

Sá hinn sami fær hús með sál.
Gamalt og nýtt í bland.
Þó aðallega nýtt með gömlu yfirbragði byggt á gömlum grunni.
En fullt af ófrágengnum hlutum.

Set inn link á fasteignasöluna þegar þetta er frágengið.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hvað kostar framkvæmdagleði?

Er að bíða eftir pósti og upplýsingum frá fasteingnasalanum sem kom hér í gær.
Það var eiginlega dáldið skrítin upplifun því allir mínir aurar og frítími síðustu 8 ára liggur í þessum kofa.Þetta hús, sem er frá 1930, var byggt af miklum vanefnum. Sá sem byggði það var listmálarinn sem teiknaði íslenska skjaldarmerkið ( man ekki hvað hann heitir) og var hann víst mikið fyrir bokkuna kalinn sem skýrir hversu allt var óvandað. Það blasti við okkur ófögur sjón þegar við hófumst handa við að færa húsið í horf að kröfum nútímamannsins. Hér var hálmur í veggjum ásamt sagi og gömlum dagblöðum. Kjallarinn góði var óeinangraður með fúkka rákir upp á miðja veggi. Í kjallaranum rákumst við á líka þetta fína skólprör sem skagaði hálft upp úr gólfinu. Það endaði þarna bara. Tek það fram að það var ekki tengt!! En undarlegt að leggja það í gegnum mitt gólfið og setja það ekki undir gólfplötuna. Þegar listmálarann góða vantaði vinnustofu lyfti hann upp húsinu og steypti undir það þennan kjallara. Húsið var sett á tunnur og skekktist allt svo hvergi finnast veggir með rétt horn. Það hefur valdið heimilissmiðnum nokkrum heilbrotum en honum tóks einhvernveginn að fiffa þetta. Og rafmagnið var svo allt endurnýjað ásamt gluggum. Gömlu gólfborðin fóru í pússningu hjá Húsasmiðjunni og við fengum ný til að setja inn á milli því sum voru svo illa farin að ekki var hægt að nota þau. Við einangruðum og settum spónaplötur undir gifsplöturnar. Ásamt svo ótal mörgu sem við smíðuðum, máluðum, pússuðum, brutum niður til að byggja upp á nýtt. Svo þetta hús er orðið ansi gróið manni. En það er ýmislegt eftir að gera og þá aðallega að utan. Við settum nýtt járn á fram og bakhlið en það vantar á hliðarnar. Einnig er kominn tími á að endurnýja þakið og klára að gera við sökkulinn. En garðurinn er mjög flottur þó ég segi sjálf frá. Stór og góð verönd með skjólveggjum, hellulagðir stígar, blómabeð, skúr og sandkassi ásamt grasfleti og snúrum. Þegar ég spurði fasteingasalann hveð ég fengi fyrir kofann þá stundi hann bara og sagðist ekki hafa hugmynd. Hér væri ekkkert svona "standard". Svo ég bíð spennt.
En það voru teknar myndir sem birtast á vef fasteignasölunnar Draumahús þegar búið er að komast að því hversu mikið tími minn og framkvæmdagleði síðustu 8 ár kostar.

mánudagur, mars 27, 2006

Verktakinn og Helena Eyjólfs

Talaði við verktakann í dag.
Svakalega hefurðu líkann málróm og hún mamma þín,
sagði´ann þegar samtalið var hálfnað.
Finnst það alltaf fyndið.
Okkur Hrund er iðulega ruglað saman í síma og erum þó ekkert skyldar.
Finnst það líka fyndið.
Meira að segja móðir hennar var einu sinni langt komin inn í setningu þegar mér tókst að stoppa hana og leiðrétta misskilninginn.

Það er nú ekkert langt síðan þú fluttir suður, er það spurð´ann.
Jaaaaa sagði ég og gat ekki varist hlátri, það eru nú samt 20 ár.
Mér finnst það nú dáldið langt.
Neiiii getur það verið sagð´ann og við hlógum bæði.
Og íbúðin sem er um 160 fermetrar kostar 15.5 milljónir.
Allt nýtt!!!!!
Finnst eins og ég hafi dottið í lukkupottinn.
Get útbúið risloftið sem eru um 60 fermetrar að mínum hentugleika.
Fæ hana í júní, akkúrat þegar ég er búin að öllu hér.

"Ekki er svo með öllu illt að ei boði gott.
Það má finna út úr þessu ánægjuvott"
minnir mig að Helena Eyjólfs hafi sungið
með hljómsveit Ingimars Eydal hér um árið.
Geri þau orð að mínum.

Í breytingum felast ný tækifæri.

sunnudagur, mars 26, 2006

Húsnæði, gamalt og nýtt.

Dagurinn í dag hefur farið í að færa íbúðina í söluhæft ástand.
Byrjaði á eldhúsinu.
Bar olíu á eldhúsinnréttinguna og er hún núna glansandi fín og flott.
Þreif allt og pússaði.
Næst var baðherbergið.
Ótrúlegt hvað allt verður rykugt og úldið þegar sólin skín inn til manns.
Þreif meira að segja veggina.
Allir með mengunarslikju frá götunni.
Hafði bara ekki tekið eftir þessu í myrkrinu.
Sýnist svo að hér þurfi að mála aftur.
Stofan dáldið sjúskuð.
Pennastrik sem ég næ ekki af eftir snáðann hér og þar.
Hefur verið ótrúlega duglegur að dunda sér við þetta
án þess að maður hafi tekið eftir því.



Er svo búin að fá sendar teikningar af íbúðinni
sem ég hef hug á að kaupa á Ísafirði.
Lýst ljómandi vel á.
Hún er á yndislegum stað þar sem golfvöllurinn, "skógurinn" og lækurinn er.
Fallegt útsýni bæði inn í dalinn og út með firðinum.
Íbúðin er í húsi sem verið er að gera upp en þetta var sambýli fyrir nokkrum árum.
Hún er yfir 100 fermetrar með rislofti
sem hægt er að innrétta fyrir Ponsí og Monna.
Og það sem meira er, í eldhúsinu er BÚR!!!!
Það finnst mér æði.
Hef góða tilfinningu fyrir þessu og er farin að hlakka til
að komast í annað umhverfi.
Nú er bara að þrauka fram á vor og klára öll sín verkefni.
Ganga frá lausum endum og tjassla tetrinu saman.

föstudagur, mars 24, 2006

Flutningur

Í vor flyt ég vestur.

Heim.

Hlakka til.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Stefnumót

Ráðgjafinn sagði honum að konan hans stæði við dyrnar og bankaði fast.

Hún hefði staðið þar lengi vel.

Spurði hvort hann hefði ekki tekið eftir því?
Júúú, sagði hann með semingi.

Og hvað ætlarðu að gera?
Ég veit það ekki, svaraði hann.

Ókei, þá sting ég upp á því að þú bjóðir henni á stefnumót.


Hann hafði 5 daga til stefnu því hún ætlaði út úr bænum með börnin.
Á 4ða degi var ekkert boð komið og var þá minntur af konunni
á verkefnið frá ráðgjafanum.
SMS kom það kvöld.


Stefnumótið var indælt og gaf fyrirheit um breytta tíma.
Hann hafði gert eitthvað fyrir þau.
Og það hafði sára sjaldan gerst.

Ráðgjafinn var ánægður með hann og sagði að núna væri komið að henni.

Og hvað hún hlakkaði til því nú fengi hún ekki neitun frá honum þegar hún byði honum.

Með góðum fyrirvara bað hún hann að taka frá tíma því hún veit
að hann getur verið mjög upptekinn í vinnunni.

Þar er hann.

Alltaf.

Líka þegar hann borðar grjónagrautinn á kvöldin.


Í bílnum var hann þungur.
Einhvernveginn ekki á staðnum.

Var beðinn um að kúpla sig frá vinnunni og líta á þetta stefnumót
sem kærkomna tilbreytingu.
Fyrir þau, fyrir sambandið.

Svarið sem kom stendur eins og hnífur í opnu sári:


Ég þarf ekkert á þessari truflun og tilbreytingu að halda.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Á persónulegum nótum

Hef lengi verið að spá í hversu persónulegur maður á að leyfa sér að vera þegar maður bloggar.
Sumir tala bara um það sem þeir eru að gera sem er bara gott, á meðan aðrir tala undir rós um það sem þeir eru að upplifa eða ganga í gegnum. Enn aðrir spá í mannlífið og pólitík.
Sumum finnst persónulegt blogg óþægilegt, og segja að maður eigi nú bara að halda sínum vandamálum fyrir sig. Ókei, gott og vel, þeir hinir sömu geta þá líka bara loggað sig af síðunni minni ef þeir vilja ekki lesa mitt pesónulega blogg sem verður hér næstu daga. Ég hef ákveðið að blogga um það sem ég er að ganga í gegnum þessa daga vegna þess að þeg veit að það hljálpar mér að fá skýra mynd á málið.


Líf mitt þessa dagan hefur tekið á sig króka og beygjur með tilheyrandi hraðahindrunum.

Öll dofin, þung í höfðinu og með hnút í maganum. Allt einhverveginn í upplausn.

Sannleikur að líta dagsins ljós sem særir djúpt.

Allt í plati bara.
Líður eins og það hafi einhver keyrt yfir mig.


Ökumaðurinn er sambýlismaður minn.

mánudagur, mars 20, 2006

Sögumaður óskast

Kann ekki einhver góða sögu að segja mér?

Hún má gjarnan vera fyndin.

Held það væri gott að hlæja.
Það losar vonandi um köggulinn.

föstudagur, mars 17, 2006

Flínka mágkona mín og bróðir að vestan verða hér í borginni þessa helgi.
Ætla að elda fyrir þau fiskisúpu ala mexicana núna á eftir og bjóða upp á
kælt hvítvín með. Og svo verður malað fram eftir kvöldi við kertaljós.
Æi hvað það verður notalegt.
Er nefnilega enn með fúglaflensuna. Jíííbíííjæjei.
Þetta fær mig til að gleyma mínu auma ástandi.

Svo er þessi helgi framundan.
Engin plön svosem.
Kannski bíó.
Langar að sjá Rent.
Gleymi aldrei uppfærlsunni sem ég sá hér heima.
Atriði Margrétar Eirar með símasnúruna er eitt það flottasta sem ég hef séð í leikhúsi.
100% tæming.
Elskurnar mínar skemmtið ykkur vel og fallega og góða helgi.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Mig.....

....... langar í nýja skó.
Er búin að ganga í sömu stígvélunum í tvö ár.
Langar í einhverja létta fallega með smá hæl, svona kvennlega.
Er ekki annars að koma vor?
Nenni einhvernveginn samt ekki að fara að rápa í búðir.
Hef nú orðið ekki eins gaman að því og áður.
Hef velt því dáldið fyrir mér hver sé ástæðan fyrir því.
Hef ekki komist að niðurstöðu nema þá kannski að ég sé orðin gömul og löt.
Skyldi þó aldrei vera.
Eða mig vantar einhvern til að koma með mér.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Uhhhhh.......

Hér ætlaði ég að skrifa eitthvað gáfulegt en er svo þung og tóm í hausnum að það kemur ekki neitt. Er í rússíbana þessa dagana með tilheyrandi kvíðaköstum og ónotalegheitum.
Sem skýrir kannski hversu ófrumleg og leiðinleg ég er.

mánudagur, mars 13, 2006

Þú ert númer 3 í röðinni.

Jú, jú það var svo sem auðvita. Slapp ekki.
En við tökum þetta að hætti Pollýönnu.
Nenni ekki að vorkenna sjálfri mér.
Líður auðvitað djöfullega en það gæti verið verra.


Fór af illri nauðsyn í kaupæðishúsið á laugardaginn. Á leiðinni var ég með kveikt á útvarpinu.
Heyri útundan mér að verið er að fjalla um Pólverja á Íslandi.
Hækka því málið er mér jú aðeins skylt. Heyri þá nafn mákonum minnar og hið fínasta viðtal í kjölfarið. Þessi elska, hógværðin að drepa hana. Þegar ég hringdi í hana til að þakka henni fyrir og hrósa þá vissi hún ekki að það hefði farið í loftið þennan dag. Var stödd á æfingu vegna fjölmenningardags sem halda á bráðlega fyrir vestan. Segir allt sem segja þarf um hana.
Ég sat stolt í bílnum og hugsaði hvað við erum rík að fá svona fólk eins og hana inn í okkar samfélag.


Hélt annars upp á afmæli bóndans í gær og reyndi að dekra við hann á milli hausverkjakastanna.
Stundum fæ ég hugboð. Og í seinni tíð er ég farin að fara eftir þeim mér til heilla.
Við höfðum spáð í að bjóða í kaffi í gær. Einhvernveginn dagaði það uppi og ég sem yfirleitt er driffjöðurin þegar kemur að slíkum málum aðhafðist ekkert. Enda var ég fegin þegar gærdagurinn rann upp og ég í engu standi að standa hér með svuntuna og bjóða fólki kaffi og meððí. Vissi einhvernveginn að þetta yrði svona. Var þá ekki orðin veik.
Hugboð.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Koss í sæluvímu

Úfffff..........
er búin að innbyrða svo mikið af sönglegum fróðleik að ég er komin upp á háa c-ið og er við það að springa. Hriiiiiiikalega var þetta algerlega frábært.
Og svo aftur í apríl og svo aftur í júní og svo aftur og svo aftur í heilt ár.
Jíbbbíiijæjei.
Og í gleði minni kyssti ég rauðan bíl í dag.
Gaf honum rembingskoss á hliðina og endugalt rauða slikju
á húddið og stuðarann.
Lætin svo mikil að ljósið brotnaði og grillið laskaðist.
Víman alveg að fara með mig.


Kaskó er vinur minn.

Hef sett í hann fullt af pjéningum.

Tala við hann á morgunn.


Vona að hann reddi þessu.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Bakteríur í heimsókn

Hér í sófanum liggur stynjandi rokkari. Grey hann er að drepast úr beinverkjum og höfuðverk.
Gaman, gaman, hér er flensan semsagt búin að taka sér bólfestu.
Hver skyldi svo verða næstur í röðinni.
Ekki ég , plííís, þarf ég nokkuð að taka númer?



Hrikalega gaman í dag.
Það er gaman að læra eitthvað nýtt og tileinka sér hýja hluti.
Uppgötva óþekktar hliðar á sjálfum sér.
Og treysta því að maður geti gert eitthvað sem hefur verið manni mjög fjarlægt.
Það gerðist hjá mér í dag.
Og nú þarf ég að melta.



Heyrði annars góða sögu um okkur Íslendinga í dag.
Hvað við getum verið einlæg og opinská
eins og maðurinn sem elskaði konuna sína svo mikið
að hann sagði henni það meira að segja einu sinni.

mánudagur, mars 06, 2006

Öll að hressast

Glaðari í dag en marga aðra daga.
Er farin að syngja aftur með sjálfri mér.
Er að fara í fyrstu tímana í nýja Diplóma náminu.
Hlakka til.


Átti alveg frábæra helgi sem var uppfull af skemmtunum að ýmsu tagi.
Fór í fyrsta sinn í hárgreiðslu á stofu.
Var voða fín um hárið og í kjólnum sem bóndinn gaf mér í jólagjöf.
Drakk mikið rauðvín,dansaði, söng, hló, skammaðist.


Sá í gær eitt magnaðaðsta undur sem náttúran getur búið til.
Sýni ykkur það seinna þegar ég er búin að skanna myndirnar inn.
Þangað til elskurnar mínar vona ég að dagurinn í dag verði ykkur góður.

laugardagur, mars 04, 2006

Ísafjarðarkróníka IV



Þetta er Engjavegur 26.

Hér eru minningar æskuáranna.

Hér er gott að vera.

Þegar þau keyptu húsið var það smíðaverkstæði.

Pabbi breytti því í hús.

fimmtudagur, mars 02, 2006

III



FEGURÐ

Ísafjarðarkróníka II


Í þessu húsi fæddist ég 10. september 1966. Og kemstþví á virðulegan aldur í haust. Þetta hús, Gamla sjúkrahúsið, teiknaði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins. Þegar nýtt sjúkrahús var byggt var það gert að menningarsetri með bókasafni, listasafni og skjalasafni. Þá var það lagað utan sem innan og hefur það tekist ákaflega vel.









Í þessu húsi bjó ég fyrstu 4 ár ævi minnar.
Ég, mamma og pabbi vorum á hæðinni en í risinu bjó Óli.
Mín minning af honum er að hann var virðulega eldri herramaður sem gekk í frakka með hatt og staf.Ég fór stundum til hans í heimsókn og þá gaf hann mér alltaf sykurmola. Ég lék mér við "ósýnilega" vinkonu sem átti heima í húsinu og átti yfirleitt í hrókasamræðum við hana svo móður minni stóð ekki á sama þegar hún uppgötvaði að ég var alein að leika mér.
Þegar ég flutti skildust leiðir.
Og hef ég ekki heyrt frá henni síðan.








Þessi yndislega kona er hún Hrafnhildur æskuvinkona mín. Hún vinnur í bankanum og á tvær dætur og hann Gest. Hún segist vera sveitakona. Ísafjarðarsveitakona.
Skil hana fullkomlega.
Hún átti heima á móti mér á Engjaveginum. Mamma hennar og pabbi búa þar enn. Í kjallaranum hjá henni bjó Sólveig. Við vorum alltaf saman.
Fyrir nokkrum árum stóður þessar elskur fyrir framan útidyrahurðina heima hjá mér á Engjaveginum, hringdu bjöllunni og spurðu svo pabba þegar hann kom til dyra: Má Ingibjörg koma út að leika?????
Við flissuðum í marga daga.

Ísafjarðarkróníka I


Svona litu æskustöðvarnar út daginn sem ég kom.
Og svona var allan tímann. Svo fallegt að ég varð orðlaus dag eftir dag. Og þarf nú mikið til.
Bærinn skartaði sínu fegursta og hreinlega bað mann að vera úti í endalausum göngutúrum.
Hér sést niður í neðsta þar sem elstu hús bæjarins eru.
Einnig glittir í skessusætið en þangað hefur maður hefur oft farið og labbað. Reyndar vað það ekki gert í þetta sinn.







Þessi glöðu borgarbörn ásamt frænku sinni stilltu sér upp fyrir framan gamla Kaupfélagið sem nú hýsir eina fallegustu blómabúð sem ég hef komið í og svo barnafataverlsunina Legg og skel sem mákona mömmu rekur. Já, já allt svona fjölskyldutengt.