Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, október 30, 2007

Gölluð vara eða bilað heimilistæki?

Held að örbylgjuofninn sé að syngja sitt síðasta.
Húsið angar af brunnu örbylgjupoppi.
Eins og það er nú skemmtilegt, eða hitt þó heldur.
Opnaði gluggann upp á gátt og setti viftuna á fullt.
Kveikti svo á olíuilminum mínum.
En hér angar allt enn og verður sennilega um sinn.

Við Snáðinn erum miklir poppaðdáendur og ég get alltaf "mútað" honum með poppi.
Hann vildi gera þetta sjálfur, að sjálfsögðu, bráðum að verða 6.
Ég stökk á takkann þegar ég sá hvað verða vildi og byrjaði strax að skamma hann fyrir að snúa pokanum viltlaust. En það var nú ekki vandamálið. Hann snéri alveg rétt.
Öh...jæja prufum aftur lagði ég til og vandaði mig mikið, tók pokann alveg í sundur og fullvissaði mig um að allt væri eins og leiðbeiningarnar segðu til um.
Stóð til hliðar við ofninn og fylgdist með.
En allt fór á sama veg.

Gæti poppfjárinn verið kannski gallaður?
er það til?
gallað popp??

mánudagur, október 29, 2007

Þetta eru gleðifréttir.

Það gæti þá gerst að einokunaraðilinn tæki við sér...

Bíð spennt.....

Hitapokinn er besti vinur minn

Vaknaði í gær með það versta tak í öxlinni sem um getur. Hvernig má það vera að í dýru rúmi með góðan kodda takist manni að sofa svo skakkur og snúinn að líkaminn neiti að taka við einföldum skilaboðum eins og " líta til vinstri".
Pirrar mig óendanlega.
Verð eins og róbot í hreyfingum og líður eins og trukkur hafi keyrt yfir mig.

Og svo er ég byrjuð að hnerra.......

sunnudagur, október 28, 2007


Jæja nú er maður aldeilis dottinn í það.
Svona engla föndruðum við seinnipartinn, ég og krakkarnir.
Fyrir áhugasama föndrara má benda á þessa síðu Panduro en ég verð að segja að íslenska síðan varð fyrir vonbrigðum. Vörurunar fást m.a. í A4.

fimmtudagur, október 25, 2007

Svona sitt lítið af hverju

Hátíðin Veturnætur var sett núna seinnipartinn í roki en þó ekki rigningu. Það stytti upp akkúrat á meðan við gengum frá kirkjunni niður að Silfurtorgi. Undir þakskýli Stjórnsýsluhússins komu við okkur fyrir og hlýddum á Ólínu Þorvarðardóttur setja hátíðina og flytja ljóð eftir sjálfa sig úr ljóðabók sem kom einmitt út í dag. Valkyrjurnar stóðu sig með miklum ágætum og sungu hástöfum upp í vindinn með dyggri aðstoð Baldurs Geirmundssonar, BG, sem um þessar mundir heldur upp á 70 ára afmæli sitt. Ég gleymdi vettlingunum heima þegar ég fór út í morgun og var orðin ansi köld á höndunum eftir að hafa veifað þeim fyrir framan kórinn. Skellti mér því í rauðköflóttu náttbuxurnar og flíspeysuna þegar ég kom heim og hentist upp í sófa undir teppi. Kórinn syngur aftur á morgun þegar A4 verslun verður opnuð hér á Ísafirði við Silfurtorg. Og það er nóg að gera um helgina við meira söngstúss og matarboð. Merkilegt hvað allt þarf alltaf að lenda á sömu helginni því ofan á það sem undan er upptalið syngur Barna og Unglingakórinn á laugardaginn í þremur fyrirtækjum hér í bæ í tengslum við dagskrá á Veturnóttum er nefnast Silfurtónar.
Mikið verður gott að setjast niður í sófann hjá góðri vinkonu á laugardagsvköldið með rauðvín í glasi og mala frá sér allt vit.
Annars lenti þessi góða vinkona í mikilli svaðilför sl. laugardag þegar hún ásamt öðrum féll útbyrðis við veiðar inn í djúpi. Það má lesa nánar um það hér.
Hrikalegt þegar skemmtiferð snýst upp í andhverfu sína.

mánudagur, október 22, 2007

Pósturinn frá Latabæ

Snáðinn fékk sendingu um daginn. Hún var tekin upp og í ljós kom fagurbleikur bakpoki frá Latabæ. Hann maldaði í móinn og sagðist ekki vilja bleikan poka. Ég var nú ekkert á því að fara og skila honum eins og hann heimtaði og fá blánn í staðinn heldur taldi honum trú um að liturinn skipti engu máli. Daginn eftir var hann sem sé sendur í skólann með bleikan poka undir íþróttafötin sín. Skemmst er frá því að segja að ég fékk sko að heyra það þegar ég sótti hann síðar um daginn. Hann harðneitaði að fara nokkurntímann með þennann "fjandans poka" eins og hann komst að orði því allir höfðu strítt honum.
Hann er að verða 6 ára og er í 1. bekk.
Og hvað átti ég að segja?? átti ég að halda þessu til streitu og neyða hann með poka skrattann í skólann? telja honum trú um að liturinn skipti engu máli þegar hann hefur ekki burði til að standa upp í hárinu á þeim sem stríddu honum. Og á ég að bjóða því heim að honum sé áfram strítt?
Vitið þið að þessi sending frá Latabæ hefur kveikt svo margar spuringar í mínu höfði en það versta er að ég á ekki svör við þeim öllum.
Fjandans staðalýmindir.

laugardagur, október 20, 2007

Blóðugur saumur með einnota hönskum

Við mæðgur tókum slátur í dag.

Fimm slátur.

Ég sat á Engjavegi 26 með einnota hanska og sumaði úttroðnar vambir af blóðmör og lifur.

Og núna í kvöld er veisla.

Sláturveilsa.

Var samt að spá hvort einhver hafi prófað að drekka rauðvín með slátri?
og þá hvaða tegund?

Krumpast einhvernvegin í framan við tilhugsunina því þetta getur varla átt saman:
rauðvín og slátur.


Eða hvað???

föstudagur, október 19, 2007

Föstudags blámi



You are The Star
Hope, expectation, Bright promises.
The Star is one of the great cards of faith, dreams realised
The Star is a card that looks to the future. It does not predict any immediate or powerful change, but it does predict hope and healing. This card suggests clarity of vision, spiritual insight. And, most importantly, that unexpected help will be coming, with water to quench your thirst, with a guiding light to the future. They might say you're a dreamer, but you're not the only one.
What Tarot Card are You?

Breytingar

Í langan tíma hef ég farið inn á blogg 3ja kvenna út frá Bauninni. Núna finnst mér tími til kominn að ég hafi þær bara á listanum mínum. Hef sem sagt tekið út þá sem voru alveg hættir og sett þessar 3 í staðinn. Vona þeirra vegna að það sé í lagi að ég lesi þær frá minni síðu en ekki annarra.

fimmtudagur, október 18, 2007

Söngdívan

Er montin af þessu.

Og svo unnu þau.

Þessa lotu að minnsta kosti.

Hver veit?

Segið mér eitt, þið mér fróðari þegar kemur að tölvumálum, hvað gerir maður ef manni langar að breyta um lit og umhverfi á bloggsíðunni sinni???
Er dáldið hrædd að fara að fikta þetta sjálf og eiga það á hættu að eyða öllu heila draslinu.
Það væri nefnilega alveg eftir mér.

Er orðin dáldið þreytt á þessum bleika lit og/eða langar í tilbreytingu.

þriðjudagur, október 16, 2007

Langi þig í leikhús eða óperu, gætir þú haft gaman að þessu


Hér sést Ophelia daðra við Hoffmann.
Þessi söngkona var bara fjandi fín en hann svona lala.
Mæli alveg með þessari sýningu við ykkur sem eigið leið um Köben.
Hér er slóðin í Óperuna.
Það er alltaf gott að heimsækja Köben, hitta skólafélagana og sitja á Köbmagergade í notalegu borðstofunni og ræða söngmál við Hollendinginn, Finnana, Norðmaninn og dönsku leikkonuna.
Var samt í þögla gírnum þetta sinnið því þreytan ógurlega hefur bara tekið sér djúpa bólfestu í mínum kroppi og neitar að fara. Orkaði samt að fara í Den Danske Operaen að sjá Ævintýri Hoffmans. Sýningin var sett í nútímann sem mér fannst lukkast dável og voru fjári góðir söngvarar þarna inn á milli. Hoffmann sjálfur var samt ekki alveg að gera það blessaður því hann átti ekkert eftir í lokinn fyrir háu tónana sína. Langaði að kalla ofan af svölunum að hann þyrfti að belta þetta svo hann drifi í gegnum hljómsveitina. En það virðist vera smá vandamál hjá þeim að hljómburðurinn er ekki söngvara "friendly" því stundum heyrðist ekkkert í þeim greyunum. Og þá er beltið eina sem dugar. En ég átti frábæra stund með Halldísi vinkonu minni sem býr í Óðinsvé og kom með lestinni þaðan til að hitta mig. Eitt sem mér finnst svo frábært þarna í Köben er strætókerfið, bara get ekki hætt að dásama það. Auðvita voru einir 4 strætóbílar fyrir utan óperuna þegar henni lauk sem keyrðu niður í miðbæ svo fólk kæmist klakklaust heim til sín. Eitthvað vorum við viðutan við Halldís samt á Hovedbanegade því ég tók strætó í vitlausa átt og fékk útsýnisrúnt um Amager í staðinn, hehe. Kom því heim í seinna lagi.
Flugið heim gekk nú svona lala en þið sem rekið hér inn nefið hafið sjálfsagt lesið um flughræðslu mína. Mikill mótvindur var alla leiðina heim sem gerði það að verkum að við vorum um klukkutíma lengur á leiðinni en venja er til. Aðflugið var slíkt að ég hélt að vélin ætlaði aldrei að geta lent vegna mikils mótvinds. Allt var sett í botn og gat hún loks lent eftir smá hoppedí skopp.

Helgin í borginni var annasöm í matarboðum, stelpupartýum og öðru glensi. Lagði nú samt snemma af stað heim til Ísafjarðar á sunnudagsmorgninum að ráði móður minnar þar sem spáin var ekki góð. Það er víst kominn vetur. Enda fór ég með bílinn og lét setja undir hann nagladekkinn í gær.
Svo einhvernveginn rúllar þetta líf. Ég samt einhvernvegin hálf lost í öllu. Lægðin hefur aftur látið á sér kræla og er þung núna. Mjög þung. Einn góðan veðurdag fer hún fyrir fullt og allt en þangað til er víst næsta best að láta sem maður finni ekki fyrir henni svo hún geri sig ekki of heimaríka og yfirtaki allt hér á Skógarbrautinni. Það yrði nú fjandanum erfiðara.
Með munninn fullan af fílakaramellum (sem ég keypti nb. í fríhöfninni) bið ég ykkur vel að lifa.

laugardagur, október 06, 2007

Í önnum hversdagsins hefur ekki gefist tími til að blogga.

Í annasamri viku gerðist þetta m.a.

- sótti fund í fjölmenningarsetrinu um íslensku kennslu fyrir útlendinga og sagði frá mínum þætti í þeirri vinnu
- gert við 30 smekki
- sótt foreldrafund
- þurft að hætta við tónmenntakennslu
- sagt skólastjóra grunnskólans að ég sé ekki tilbúin að lækka í launum við það eitt að fara í stofnunina hinu megin við götuna
- farið á frábæra tónleika hjá Giles Apap og Bardukha sveitinni í Ísafjarðarkirkju
- farið á tónleika í lok námskeiðs á vegum Listaháskólans þar sem nemendur frá Tónlistarskóla Ísafjarðar tóku líka þátt og þar með Unglingakórinn minn.
- verið stolt
- verið óskaplega þreytt
-keyrt í 5 og 1/2 tíma frá Ísafirði í grenjandi rigningu og hvassviðri og farið beint á tónleika til að hlusta á góða vini syngja þegar borgarljósin tóku við
- fengið rauðvínsglas hjá góðri vinkonu og talað út
- sofið út og vaknað við kaffiilm

framundan er hinsvegar námsferð til Köben, óperan, tónleikar, og mikill söngur.

lífið rúllar............

mánudagur, október 01, 2007

Þegar haustið skellur á færist alltaf yfir mig viss angurværð.
Fjöllin fá á sig brúna slikju, gróðurinn breytist í glóandi rauða runna
og túnin verða sinnepsgul. Myrkrið umvefur mann og kertaljósin verða nauðsynlegur vinur í dimmunni. Þá er gott að hlusta á Mozart, prjóna og borða nýbakaðað pönnukökur, sérstaklega á sunnudögum. Sunnudagar eru í minningunni dagur þar sem maður var að "hygge sig" heima. Helst í náttbuxunum og þykkri peysu sitjandi við píanóið inn í herbergi að æfa sig. Þangað barst svo lykt af nýbökuðum vöfflum eða pönnukökum og heitt kakó var komið í könnuna þegar kallað var "það er komið kaffi". Á svoleiðis dögum langaði manni helst að tíminn stæði í stað. Allt var svo notalegt og afslappað. Og þarna sat maður í eldhúsinu með dinglandi lappirnar á elshúskollinum, sötrandi kakó með rjóma og gúffandi í sig vöffflur með heimagerðri bláberjasultu. Munnvikin urðu blá með hvítri slikju yfir og efri vörin fékk kakóskegg. Svo sleikti maður út um og vonaði að allir dagar gætu verið sem þessi.