Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, mars 31, 2007

Hvenær galar haninn?

Sá á bloggi Baunar vef sem heitir Förunauturinn.
Kíkti þangað inn en var fljót út aftur.
Þó mér hafi mistekist hingað til að velja mér maka til að eyða lífinu með
ætla ég ekki að nota þessa aðferð til þess.

Er svo mikið hænsn að ég hreinlega þori því ekki.

Bíð frekar eftir hinu rétta hanagali.

föstudagur, mars 30, 2007

Páskafríið hefst í dag hjá mér eða svona næst um því.
Eiginlega ekki fyrr en á sunnudaginn þegar kórarnir mínir eru búnir að syngja í messu.
Var búin að hugsa mér að vera dugleg að fara á skíði í fríinu en úti er brjáluð rigning og ætli hún skoli ekki burt því sem eftir er af snjónum. Jæja, fer þá bara niður í geymslu og næ í hjólið mitt í staðinn svona þegar rigningunni og vindinum slotar og hjóla hér um fínu stígana.

Mér leiðist annars og er með hausverk.
Finn fyrir eirðarleysi og óþolinmæði.
Veit eiginlega ekki út af hverju.
Stundum líður manni bara svona.
Best að bíða og sjá hvort þetta fjúki ekki burt með vindinum.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Afhverju eru allar þessar rauðvínsflöskur á borðinu?

Óttalega þreytt eitthvað, andlaus og stirð í huganum.

Hef lifað alveg ótrúlega skemmtilega daga þessa vikuna

Mæli með gleðskap á mánudegi og nóg af rauðvíni með

og framhald svo á þriðjudegi......

klikkar ekki....

er efni í dömulegan róna með gloss

set á mig stút og sendi þér koss..

mánudagur, mars 26, 2007

Loforð efnt

Um áramótin gaf ég loforð.
Á laugardaginn var komið að því að efna það.
Með hjartslátt af stressi í þeytingi mínum að redda öllu á laugardaginn fyrir
kl. 17.00 tókst mér að
  • þrífa húsið
  • rútta til stólum og borðum
  • ná í glös til brósa
  • versla snakk, ídýfur, grænmeti og drykkjarföng .
  • skera niður grænmetið og melónurnar
  • setja þetta allt í körfur og á bakka
  • koma fyrir glösum og blanda óáfenga drykkinn
  • keyra og sækja á skíðaæfingu
  • koma börnunum í pössun
  • redda rokkaranum handklæði og sjampói
  • fara í sturtu og gera mið klára fyrir árshátið kvennakórsins sem bar upp á sama kvöld

og Þessi kór með rokkarann minn innanborðs var boðið í kórpartý á heimili mitt hér á Ísafirði.

Eftir vel heppnaða tónleikana með þeim sem voru búnir kl. 17.00 þeysti ég á bláa frelsinu á árshátið kvennakórsins, stjórnaði þeim, borðaði góðan mat og skálaði.

Brá mér rétt sem snöggvast heim af árshátíðinni til að taka á móti ungmennunum 80 sem nota bene voru afskaplega prúð og kurteis. Þau sungu og voru með atriði og nokkrir sungu einsöng og spiluðu djass á falska píanóið mitt. Um miðnætti yfirgaf ég gleðskapinn og hélt í minn eiginn og dansaðin fram undir 3. Hrikalegt fjör og mikið sungið.

Þegar ég kom heim um nóttina var búið að taka allt af borðum og setja glös í uppþvottavélina.

Ég brosti hringinn.

föstudagur, mars 23, 2007

SMS

kl.09.05
Flugfélag Íslands.
Næsta ATHUGUN er kl 11. 30

kl.11.09
Flugfélag Íslands.
Næsta ATHUGUN er kl. 12.30

kl.12. 22
Flugfélag Íslands.
MÆTING í flug til Reykjavíkur er kl. 15.00.

Fer ekki.
Ráðstefnan búin þegar ég mæti á svæðið.

Er súr.

fimmtudagur, mars 22, 2007

mig langar að blóta en segi bara

muuuu....... í staðin

því ég sit hér í eldhúsinu á Skógarbrautinni

fúlt að komast ekki

athugun í fyrramálið

vona enn

Bjartsýni er....

......... að komast suður til Reykjavíkur í dag.
Á morgun er mjög áhugaverð ráðstefna á Hótel Sögu sem ég ásamt aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans ætluðum að sækja. En veðrið undanfarna daga gefur ekki tilefni til mikillar bjartsýni á ferðalagi og ekki förum við keyrandi sökum ófærðar.
Ég var búin að útvega mér miða á Óperustúdíóð í Íslensk Óperunnar þar sem dóttirin fer með eitt hlutverk í óperunni Suor Angelica e:Puccini. En söngvarar og hljóðfæraleikarar koma úr söng- og tónlistarskólum á höfuðborgarsvæðinu. Var farin að leyfa mér að hlakka til.
Lengi má vona.

mánudagur, mars 19, 2007

Spjé

Sló tvær flugur í einu höggi í kennslu í dag.

Í staðinn fyrir að segja flott hjá ykkur og frábært kom

FLÁBÆRT

Alltaf svo hagsýn.

Svekkelsi

Piirrrr.......

Urrrr.........

AAArrggg...............

Var búin að gera plan varðandi börnin, vinnuna og allt það því foreldrar mínir eru í Kína,
en þau hafa aðeins aðstoðað mig 2 daga í viku sökum ófjöldkylduvæns vinnutíma tónlistarkennara.
Nema hvað.
Var búin að redda mér barnapíu og allt átti að ganga svona líka fínt og smurt,
en það klikkaði allt sem klikkað gat.
Barnapían fór óvænt suður vegna veikinda í fjölskyldunni og bíllinn minn neitaði að fara í gang í morgunn.

Ergo

ég sat hér umkomulaus í morgunn og orðin of sein með snáða á leikskólann til að komast á réttum tíma í sjúkraþjálfunina,
svo að komast í vinnu, sækja, komast heim aftur
allur dagurinn hálfgert stress því ég var upp á bróður minn og mágkonu komin og þau mjög
bundin í vinnu og eiga erfitt með að komast frá.
Flókið og leiðinlegt.

Þetta auðvita reddaðist en bíllinn er enn hér úti og harðneitar að fara í gang.
Ég sem var svo ansi skotin í honum og ánægð með hann.
Ætli kosti svo ekki morðfjár að gera við hann.
Það væri nú eftir öllu.

Urra´bíttana.............

sunnudagur, mars 18, 2007

Kanntu að skúra hálfmatt parket?

Verð aðeins að biðja um smá ráðleggingar frá ykkur mér fróðari um tiltekið máliefni.
Þannig er að ég keypti eikarparket á íbúðina mína.
Það er voða lifandi með kvistum og lagt í 45°.
Kemur gasalega vel út og gerir íbúðina voða hlýlega.
Nema hvað það þarf að skúra á þessu heimili eins og hjá okkur flestum.
Ég kaupi parket sápu frá Johnsons og hendi mér í verkið.
Stend svo hreykin, sveitt og með klístrað hárið að verki loknu.
Daginn eftir sit ég í eldhúsinu og verður litið eftir gólfinu.
Sé mér til mikillar armæðu að það er eins og hér hafi ALDREI farið tuska yfir það.
Allt kámugt og með fótaförum hingað og þangað.
Var vægast sagt mjög skúffuð.
Hef síðan reynt aðrar sápur og líka enga sápu heldur bara volgt vatn en samt er gólfið hræðilegt.
Parketið er lakkað með möttu lakki því glans gólf falla mér ekki.
Og þaðan af síður kámug.
Hefur einhver góð ráð með rétta aðferð við að skúra parketgólf og þá hvaða gólfsápu skuli nota við það?
Öll ráð vel þegin.

föstudagur, mars 16, 2007

Einn fagran dag í mars....

.............fór ég í göngutúr.
Tók þessar myndir en ég hef átt í brasi með fókusinn á myndavélinni.
Hér sjást skástu myndirnar
Fjærst er Skógarbraut 3 og 3a, heimili okkar hér á Ísafirði

Þetta hverfi er kallað "inn í firði" og byggðist upp fyrir 20 árum.


Þetta er útsýnið sem ég hef út um stofugluggann






Kókosbolluát

Svona borðar 10 ára dóttir mín kókosbollur.
Henni fannst þetta MJÖG fyndið.


miðvikudagur, mars 14, 2007

Rugl í netheimum og verkir í beinum

Var að skipta yfir í nýja kerfið og sé að linkarnir mínir eru ólæsilegir.
Veit einhver hvað veldur og hvernig á að laga þetta?
Hef líka farið inn á síður þar sem þetta er sama vandamálið.
Hef líka lent í miklum vandræðum við að kommenta á ykkur, vinir mínir í netheimum, eftir að ég skipti yfir. Vona að þetta fari nú að lagast.

Ligg hér annars veik í fyrsta sinn í vetur.
Var nýbúin að hrósa happi yfir lánsemi minni með börnin mín og mig þegar við leggjumst öll í rúmið hvert á fætur öðru.
Hefði nú átt að spara montið.
Kannist þið ekki við að hafa hrósað happi yfir einhverju og svo kemur það fyrir stuttu seinna.
Mér líður alltaf eins og kjána þegar það gerist.
Líður þannig núna.
Og auðvita liggur mikið við í vinnunni, árshátið Grunnskólans og stór dagur á morgunn með 3ur sýningum. Druslaðist á æfingar í morgunn sem gengu bara nokkuð vel.
Hlakka allavega til á morgun.
Því er best að vera stillt og leggja sig.
Ég meina, hvenær leyfir maður sér það nema þá helst í veikindum.

Efnisorð:

mánudagur, mars 12, 2007

Dagur í lífi mínu

Fann fjársjóð í dag.
Í kössum hingað og þangað um grunnskólann.
Hróðug labbaði ég með fullt fangið yfir í Tónlistarskóla.
Þurfti að nota olnbogann til að opna hurðina og ætlaði svo að spyrna í þröskuldinn því hurðin er stór og þung. Eitthvað var spyrnan kröftug eða skórnir sleipir því næst
vissi ég af mér liggjandi í gólfinu með öll hljóðfærin ofan á mér.
Hló eins og fífl og leið eins.
Góðar konur komu svo og björguðu mér og hljóðfærunum þegar ég á milli hlátursrokanna gat gert vart við mig.
Eftir að hafa jafnað mig hljóp ég aftur yfir í grunnskóla og við tók við æfing hjá 5. bekk vegna árshátíðarinnar sem er á fimmtudaginn.
Og að hemja 11 ára drengi með trommur er mikið verk skal ég segja ykkur og krefst GÍFURLEGRAR þolinmæði.
Æfingin gekk vonum framar en í skipulagningunni láðist að spyrja mig hvort ég gæri verið í salnum á þeim tíma sem kennararnir höfðu pantað hann. Því þurfti ég að hlaupa enn aftur yfir götuna í næsta hús og kenna þar forskólanum mínum.
Óg vegna þessa knappa tíma hafði ég ekki getað stilt upp fyri komandi kennslu.
Kem því inn og byrja með miklum látum að stilla upp borðum og taka til hljóðfærin.
Þá heyrist í einni 6 ára: þetta er ekki þinn dagur.
UHhh.....ég góni á barnið og verður lítið um svör.
Held áfram að gera klárt og í öllum látunum missi ég tónstafina út um allt gólf.
Á mig horfa aftur tvö opin blá 6 ára augu með munn sem í vantar tvær framtennur og segir:
"ég ðaðði´ða, þett´ er ekki þinn dagur"
Ég hrundi niður í næsta stól og sprakk.
Enda átti barnið kollgátuna.
Restina af deginum spilaði ég eintóma steypu með kórunum og
var iðulega í annari tóntegund en þau.
Þetta var orðið svo broslegt að ein í unglingakórnum fór að skellihlæja.
Æi..stelpur þetta er ekki minn dagur verð ég að viðurkenna.
Nei... við höfum tekið eftir því.........

Þegar heim var komið
var bara fernt í stöðunni

kaffi

líkjör

kerti

jan johanson

Efnisorð:

Hlutverkaleikur

Í gær var ég

Florence með ælufötur á ferð um íbúðina á eftir Snáðanum

Skúringarkona

Kórstjóri og píanóleikari á borgarafundi

Gestgjafi

Mamma:

sem bakar skonsur

sem hellir kóki í glas fyrir ælupestargemling

sem setur DVD í tækið

sem strýkur sveitt enni

sem spyr: má bjóða þér eitthvað? með reglulegu millibili

sem svæfir með bókalestri og söng

Réttur linkur

Þar sem linkurinn á síðusu færslu var vitlaust settur inn vona ég að hérna geti lesendur séð hvað um var að vera hér á Ísafirði í gær.

sunnudagur, mars 11, 2007

Lifi Vestfirðir.

Í dag fer fram þessi fundur hér á Ísafirði.



Á þessari síðu má lesa meira um þetta málefni.

Það er hugur í fólki.

Tulips


Hér sjáið þið túlípanana sem hafa glatt mig í vikunni.

Fallegir finnst ykkur ekki??

laugardagur, mars 10, 2007

Hvert fóru túlípanarnir?

Eftir erilsama viku er gott að eiga dag þar sem maður þarf ekki að gera neitt.
Hef því sötrað soja latte með mogganum á milli þess sem ég þjónusta Snáðann og vin hans sem kom í heimsókn undir hádegi.
Lífið er í þægilegum gír og allt óskaplega hversdagslegt.
En er það ekki lífið svona hjá okkur flestum, hversdagslegt með matarinnkaupum og tilbúningi þar sem þvottavélin malar undir. Mín er reyndar með einhverja stæla og stoppar alltaf á sama stað svo ég þarf að hjálpa til með handaflinu og snúa takkanum. Hún er reyndar orðin 15 ára gömul og segja mér fróðir að þá þurfi að fara að endurnýja svona hvað og hverju. Viðgerð svari ekki kostnaði. En þar sem þvottavélakaup eru ekki efst á listanum núna læt ég mér duga að halda henni gangandi með minni hjálp.
Í vikunni gerðist ég meðlimur í heilsuklúbbi. Það er framtak nokkurra kvenna hér á svæðinu.
Markmið okkar er að hittast yfir hollum og góðum mat, fræðast um allt sem lítur að þessum málaflokki, spjalla og flissa. Og fyrsta boð var í gærkveldi. Boðið var upp á grillaðan lax með heimalöguðu mango chautney og pístasíuhnetum, grilluðum kartöflum með lauk, heimgerð brauð og avakadomauk ásamt sallati. Eftirrétturinn var sú albesta kaka sem ég hef smakkað. Hún er úr svokölluðu hráfæði og því ekki bökuð. En hún var guðdómleg. Við komum til með að skiptast á uppskriftum og skal ég skella henni hingað inn þegar ég fæ hana.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég mæti í matarboð þar sem ég get borðað allt sem á boðstólnum er. Fannst það með skemmtilegri uppákomum sem ég hef upplifað. Finnst ég stundum utanveltu með mitt ofnæmi og þarf alltaf að spyrja hvað sé í matnum. Getur virkað sem bölvuð hnýsni en ég er orðin leið á að taka sénsa og verða svo veik fyrir bragðið. Fólk verður líka alltaf svo sorry þegar ég segist ekki geta borðað það sem það býður upp á. Og er það mjög skiljanlegt.
Í klúbbnum eru skemmtilegar konur en ég þekki bara eina þeirra, mágkonu mína, hinar þekki ég bara í sjón. Ég lít á þetta sem kjörinn vettvang til að kynnast nýju fólki með sama áhugamál og maður sjálfur.
Við ætlum að hittast einu sinni í mánuði og verður næsta skipti hjá mér.
Er strax farin að hlakka til, fletta matreiðslubókum og skipuleggja.

Tók myndir af fallegu túlípönunum sem ég keyti mér til yndisauka um daginn en ég hef ekki grænan grun um hvert blogger fór með þær í aðgerðinni sem ég gerði til að birta þær hér.

Reyni aftur síðar.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Var að fara í gegnum mars mánuð til að sjá hvernig hann lítur út.
Á dagskránni er m.a.

  • Fara suður á ráðstefnu
  • Taka á móti frumburðinum og kórnum hans í MH
  • Kórpartý fyrir MH-inga
  • Árshátið kvennakórsins
  • Árshátið Grunnskólans, 5.bekkur brillerar
  • Tvær uppákomur með kvennakórnum
  • Fara á tvenna tónleika hér í bæ

Og svo vinnan, skólinn, uppeldið, lífið og tilveran.

Einhvernveginn rennur þetta ljúft með kaffinu og stöku sjérríglasi hér og þar í amstri dagsins.
Það er nefnilega bara í boði að gera hlutina skemmtilega,
laða að sér jákvætt fólk og gefa lífinu gildi sem felur í sér að hafa gaman af því.
Sjá hlutina í spaugilegu samhengi og hlæja hátt.

Kvartið í Kára

Ég er að segja ykkur það....
hreint brjálað veður úti.

Þarf að halda fast í sængina mína í verstu hviðunum.
Kreisti aftur augun.

Verð hér vonandi á sama stað í fyrramálið.
Og þá tekur við snjómokstur.

Grunar að litli bílinn minn verði á kafi.

Hávaðinn í honum Kára er all svakalegur.

Honum liggur greinilega eitthvað mikið á hjarta.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Smiðurinn..

........birtist í morgunn um 8.

Mældi fyrir hurðinni sem á eftir að setja upp
hjá stigaopinu.

Hvarf svo.

Núna er klukkan 10.08.

Skyldi hann koma aftur í dag?

mánudagur, mars 05, 2007

Sem ég segi....

Mikið er alltaf gott að koma heim.
Liggja í sínu rúmi og svonna.
Þetta var annars frábær ferð í alla staði og ég farin að hlakka strax til næsta skiptis.

Hef verið að batna með flughræðsluna en fékk smá bank í brjóstið þegar flugfreyjan horfði á mig köldu augnarráði og bað mig með hálfgerðu þjósti að slökkva á ipodinum.
Roðnaði öll og spurði þar sem ég væri einkar flughrædd og notaði tónlist til að slaka á í fluginu hvort ég mætti hafa annað eyrað laust. Hún samþykkti það en minnti mig á í tvígang að þar sem það væri nú skrifað í lög með notkun tækja í flugtaki og lendingu að á þeim yrði að vera slökkt gæti hún gert við mig þessa málamiðlun.
Well það slapp fyrir horn og ég róaðist.

Köben var köld til að byrja með og rök svo kuldin smaug inn í merg og bein.
Meira að segja mokkakápan mátti sín lítils.
Því var stundum kalt að bíða eftir strætó, en hann kom alltaf og á réttum tíma.
Nema daginn eftir fyrstu óeirðirnar við Ungdomshudet.
Sá brennda bíla, brotnar rúður og reiða unglinga.
Líka lögreglu á hestum.


Söng á tónleikum með flottu bandi á kósý stað.
Hitti skemmtilegt fólk og sjarmatröll.
En agalega reykja þeir mikið og loftræsting er afskaplegt rarítet.
Því lyktaði ferðataskan eins og öskubakki og ég hef þvegið þvott í allan dag.

Og svo komast ég loks hingað inn til að blogga.
Annars er hversdagleikinn fínn með steiktum fiski í raspi
og kokteilsósu í bland við snjókomu og ófærð.
Kveikti bara á fleiri kertum sem speglast í snjóugum rúðum.

Ahhhhh........ notalegt.