Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

sunnudagur, apríl 30, 2006

Daði Már á leið á árshátíð.


Ungi maðurinn á leið á árshátíð í 30 ára gömlum smóking af föðurafa sínum.
Dáldið flottur.

Sólskinsdagur,brum og laukar.

Ég setti niður túlípana og aðra vorlauka sl. haust.

Núna rjúka túlípanarnir upp og ég hlakka til að sjá þá springa út.
Þeir verða stórir og myndarlegir.

Garðurinn minn er fallegur í dag.

Lyklarnir sem ég fékk gefins eru líka farnir af stað og runnarnir eru komnir með brum.

Hjólaði í sólinni og var bara býsna glöð.

Ætla að elda la sagna á eftir því það er uppáhaldsmatur allra hér að Ökrum.
Á meira að segja kalt hvítvín í ískápnum.

Ekki slæmt.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Upplifun

Það gerðist dáldið í fyrsta sinn í gær þegar ég söng,

nokkrir áheyrendur fóru að gráta.

Vilji

Hafiði fengið fallbyssuskot frá þeim sem er ykkur kærastur?

ég

oft

of oft

núna segir innri röddin; ekki meir

og ég ætla að hlusta á hana

hef hundsað hana allt of lengi

þvingað mig til að gera það sem ég er ekki sannfærð um að sé rétt

til að þóknast

sunnudagur, apríl 23, 2006

Óþefur

Í dag er ég

reið
pirruð
vonsvikin
reytt
þreytt
kvefuð
með magann í ólagi
eirðarlaus
og svo stendur vindurinn upp á gluggann.

oj hvað allt er leiðinlegt.

Fúlisti dagsins, það er ég.

Fýlan lekur af mér.

Passið ykkur að smitast ekki.

föstudagur, apríl 21, 2006

Demmi

Í dag er gamli söngkennarinn minn hann Demmi jarðsunginn frá Kristskirkju.
Blessuð sé minning þessa manns sem auðgaði menningarlíf okkar
með störfum sínum í sönglistinni.

Áætlun

Nú þarf maður á öllu sínu að halda því það er mikil törn framundan.
Verst hvað ég vakna alltaf þreytt þó ég fari snemma að sofa.
Er með stórar áætlanir um útiveru og hreyfingu til að spyrna við þessum doða, og þar spilar hljólið mitt stórt hlutverk. Mér finnst ekkert eins skemmtilegt og að hljóla.

Á þetta fína hljól með fullt af gírum en finnst þó verst að það er þannig úr garði gert að allur líkamsþunginn er á höndunum þegar ég sit á því. Þetta finnst mér stór galli því herðarnar kýlast upp að eyrum og maður verður svo stífur og spenntur einhvernveginn í efri hluta líkamans.

Sá mörg hrikalega flott gamaldags reiðhljól í Köben í fyrra og dáðist að konunum sem sátu hnarreistar á þeim, í pilsum sem flögsuðust í vindinum. Svo voru þær með fallega körfu framan á. Og alveg örugglega með dömuhnakk.
Hef ekki séð svona hljól hér, sem bæði er þægilegt að sitja á og eru með nokkrum gírum til að létta sér fótstigið upp brekkurnar, sem mér finnst nauðsynlegt að hafa.

Svo finnst mér engin hljólamenning hér á landi.
Allir á bílum.
Alltaf.

Fékk þvílíka athygli í haust þegar ég hljólaði nokkru sinnum héðan í Skógarhlíðina þar sem ég kenni. Fólk snéri sér iðulega við í bílunum.
Kona á miðjum aldri á hljóli með hljálm og bakpoka,
en hallærislegt.
Svo var nú einn bílstjórinn svo almennilegur að hleypa mér yfir þar sem engin ljós voru, en sá sem kom á eftir honum hafði ekki neina þolinmæði við mig hljólakonuna og flautaði eins og hann ætti lífið að leysa á okkur bæði.
Ég horfði vanþóknunaraugum á þann bílstjóra sem gaf svo allt í botn og keyrði sem óður væri.
Svo dæmigert, svo helv...... dæmigert.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Sumar gjafir og sumargjafir

Þegar ég var að alast upp fengum við systkinin alltaf sumargjafir.

Móðir mín var nösk að finna eitthvað skemmtilegt.
Þær voru aldrei stórar eða dýrar.
Man að þær hittu alltaf í mark.


Í mínum huga eiga þær að vera þannig.

Fór í dag og verslaði smáræði til að gleðja fjölskyldumeðlimina á morgun.

Sá marga í sömu erindagjörðum.
Sumir keyptu sippuband á meðan aðrir keyptu barnareiðhjól.

Vona að allir verði glaðir á morgun og fagni hækkandi sól, þó veðrið gefi ekki tilefni til.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Annir í fríi

Páskafríið afstaðið.
Er sem sagt komin aftur heim á Nesið.
Keyrði ein með krakkana fyrir viku í slíku færi að ég rann átakalaust
til Ísafjarðar á 6 tímum.

Hélt ég væri að fara í frí en var á þönum allan tímann.
Afrekaði 3 fermingar, eitt brúðkaup og skírn.

Keyrði fram og til baka úr bústað, 200 km, hvora leið.

Brúðkaupið og skírnin var í Súðarvíkurkirkju.
Kirkjunni hans Mugison.
Kenndi konunni hans á píanó.

Átti stefnumót við konuna með lykilinn af kirkjunni kl. 13.00.
Kom að kirkjunni læstri en sá bíl fyrir utan.

Skimaði inn um glugann og sá hann tala í síma.
Veifaði.

Hann kom og opnaði, hélt áfram að tala í símann.

Ég stóð og vappaði þarna og sá upptökugræjur og dót við altarið.
"Heyrðu þarf að kveðja, einhver kona hérna sem ég þarf að tala við"
sagð´hann og setti símann í vasann.
"Uhh.. ég var búin að fá leyfi til að æfa mig hér á þetta fótstigna orgel og syngja dáldið,
það er sko brúðkaup á laugardaginn."
Nú, æææ, ég fékk lykil og fékk leyfi til að vera hér eins og mér sýnist sagð´ann þá hinn vandræðasti.

Ég er að taka upp.

Ég spurði þá hvort hann yrði lengi.

Nei, geturðu komið aftur klukkan fjögur.

Jú, ætli það ekki svaraði ég.

Seinna um daginn sat ég og pumpaði orgelið meðan ég reyndi að fá brúðarmarsinn til að hljóma.

Mundi þá að síðast þegar ég söng í brúðkaupi fyrir vestan stóð ég á tímamótum.

Þeim sömu og núna.

tilviljun????

sunnudagur, apríl 09, 2006

Tónleikar - Tónleikar- Tónleikar

Verð að minna ykkur kæru vinir ,vandamenn og aðrir sem hingað koma að í kvöld og þriðjudagskvöldið verður Söngsveitin Fílharmónía með tónleika í Langholtskirkju.
Ég lofa góðum tónleikum með fínum einsöngvurum og síðast en ekki síst frábærum kór og nýjum stjórnanda, Magnúsi Ragnarssyni.
Er að fara núna að "hita kórinn upp" eða eins og einn góður söngvari sagði þegar hann var spurður hvort hann hitaði ekki upp áður en hann færi að syngja; hva hita upp, ég er nú enginn hafragrautur.

föstudagur, apríl 07, 2006

ilmur og angan

Er búin að baka 3 brauð og eina köku í morgun.
Húsið ilmar.
Í hádeginu fæ ég mér nýbaka brauð og gott kaffi.
nammmmm...........

Braut saman öll fötin sem Ponsí fékk gefins í gær frá nöfnu sinni.
Vill Brynja þín "brynjubleik föt" frá Brynju minni?
spurði þáverandi samstarfskona mín.
Já alveg örugglega svaraði ég.
Síðan höfum við verið í einskonar áskrift hjá þeim.
Í gær hélt hún tískusýningu.
Hvert dressið á fætur öðru, bolir, buxur og pils.
Hún brosti alveg allan hringinn.
Snáðinn skyldi þetta ekki alveg og var sannfærður um að móðir hans hefði
fengið kaupæðiskast og systir hans fengið ein að njóta þess.
Nokkur tár féllu.
Og nú angar fataskápurinn hennar af þvottaefni.
Þeirra þvottaefni.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Stöðutékk

Í dag er síðasti dagurinn hennar Hrundar í Menntaskólanum í Reykjavík.
Af því tilefni fór hún í sparikjólinn sinn, málaði sig og setti hárið í hnút.
Var voða sæt þegar hún fór að heiman.
Og af þessu sama tilefni förum við á Óperustúdíó Ísl. Óperunnar í kvöld
að sjá Nótt í Feneyjum.
Við tekur dimmisjón í bleikasta Grease jakka ever á morgun.
Hún þarf þó að hafa sig hæga því hún verður í beinni útsendingu sjónvarpsins á laugardagskvöldið. Þá verður send út söngvakeppni framhaldsskólanna.
Hún mætir með sína eigin hljómsveit sem vinningshafi frá í fyrra
og syngur 2 lög.
Þeir eru sem betur fer búnir að breyta fyrirkomulaginu á keppninni.
Nú hefur farið fram undankeppni og sigurvegarar úr henni
mæta í aðalkeppnina. Getum því átt von á flottum og skemmtilegum atriðum.

Hér verður mikið lesið næstu vikur.
Hrund fyrir stúdentsprófin og Daði Már fyrir samræmduprófin.
Sé fyrir mér löng kvöld við að hlýða yfir.
Jæja, það er nú svo sem ekkert svo ýkja leiðinlegt,
svo fremi sem þau kunni eitthvað.

Þarf svo að tékka á ástandi dekkjana á bílnum mínum.
Ætla mér að keyra vestur á mánudaginn og eyða páskafríinu á Ísafirði.
Hlakka til að skoða íbúðina og tala við hina og þessa í sambandi við atvinnumöguleika.
Hef margar skemmtilegar hugmyndir sem ég skýri frá seinna
þegar einhver raunveruleg mynd er komin á þetta.
En er sem sagt að ná mér á strik, og er farin að hlakka til að takast á við þetta nýja líf sem ég er að fara að sigla inn í.
Og maðurinn verður að öllum líkindum með í þeirri ferð.
Góðir hlutir gerast hægt var eitt sinn sagt við mig og hef ég reynt að hafa það að leiðarljósi þessar síðust vikur.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Ísland í dag

Mér finnst allir í kringum mig eitthvað hálf sloj.
Fólk mætir seint.
Hendist inn á síðustu stundu, geyspar, hóstar, þráir pásur og kaffi í tíma og ótíma.
Allir einhvernveginn búnir á því.
Svooooo miiiikiiiið að geeeera, stynur fólk upp og er einhvernveginn alveg að bugast.
Allir kvefaðir, rámir og með syndandi augu.
Líkaminn hefur varla við að halda sér á réttum kili í atganginum.
Enginn tími til viðgerða svo fólk gengur með kvefið í margar vikur.
Og í pirringnum er eins og fólk kunni ekki mannasiði.
Missir sig einhvernveginn.
Er þetta allt þess virði?
Maður spyr sig.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Mín kæra Sieglinde

Gleðigjafi gærdagsins var gamli kennarinn minn hún Sieglinde.
Hún var með masterclass í söngskólanum mínum og fór á slíkum kostum að ég er enn að flissa.
Hún átti ekki til orð yfir allar þessar fallegu raddir. Og tenórarnir bræddu hana alveg.
Enda gift einum, og það íslenskum.
"Mamm mía, nú ég bara alveg hissa" sagði´hún með sínum þýska hreim þegar nemandi minn var búinn að syngja, ég veit ekki hvaða ég segja núna hélt hún áfram og gekk um sviðið.
Þú bara halda áfram að syngja, þa eina sem ég geti sagt.
En krakkar þi bara verða segja tekst. Tekst, tekst,tekst þa eina sem skipta máli, annas veit enginn hvaða þú syngur og þá nennir enginn að koma og hlústa.

Ég fékk flassbakk mörg þúsund sinnum, og það rifjaðist upp fyrir mér hvað ég var heppin að hafa haft hana fyrir kennara. Hana skorti stundum lýsingarorðin en einhvernveginn skipti það engu máli því hún er svo stórkostlegur músikant að orð voru óþörf.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Von

Í ljósinu felst vonarglæta.

Á meðan týrir hef ég von.

Von um betra líf.

Handa okkur.