Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, febrúar 28, 2009

Kaffiboð

Væri ekki notalegt að hittat eftir söngin á Austurvelli á morgun yfir einum kaffi/kakó/te bolla??
Hvað segið þið kæru bloggvinir, brilljant hugmynd ekki satt??
Konan í bænum og allt það.........
Allavega, ég ætla að setjast inn á Mokka og ég vona að þið komið og setjist hjá mér.
Hlakka til að sjá ykkur.

fimmtudagur, febrúar 26, 2009

ÓP

Nú langar mig að standa upp á háum hól og reka upp óp.
Ég kláraði verkefnið og prófspurningarnar fyrir skólann í Köben og sendi þær með tölvupósti áðan. Hef vakað langt fram á nætur við að svara,lesa og stúdera.
Er orðin doltið lúin. Því hér eru líka 3 stykki krakkaormar sem þurfa sitt.
Kvarta samt ekki, þetta þarfnast bara smá skipulagningar.
Fer suður á morgun og út á sunnudaginn.

En í morgun var ég að hlusta á útvarpið og þar var formaður viðskiptanefndar Álfheiður Ingadóttir í viðtali út af frumvarpinu um Seðlabankann. Og aldrei, ALDREI, kom fram í umræðunni að seðlabankastjóri gæti verið kona. Bæði hún og fréttamaðurinn töluðu alltaf um hann og var skýrt að þau voru að tala um karlmann.
Mér finnst þetta sorglegt og það er á 2009.
Þetta kallar alveg á eitt óp sem mætti taka svona með hinu ópinu.
Einhver með???

laugardagur, febrúar 21, 2009

Blússandi menning

Ég er alltaf janhissa á því sprúðlandi menningarlífi sem ríkir hér fyrir vestan
Litli Leikklúbburinn setti upp leik og söngdagsrá með lögum Jónasar og Jóns Múla; Við heimtum aukavinnu fyrir 2 vikum síðan.
Uppselt hefur verið á allar sýningar til þessa og í dag var aukasýning. Foreldrar mínir gerðu sér litið fyrir og buðu barnabörnunum með sér á sýninguna í dag. Allir glaðir og raulandi lagstúfa eins og þá stundi Mundi og bíum bíum bambaló þegar þau komu heim. Ég sá þessa sýningu um daginn og var mjög hrifin einkum vegna þess að tempóið er svo flott. Á sviðinu eru 4 hljóðfæraleikarar og ein söngkona sem syngur stundum með leikurunum og stundum ein. Hraðaval á lögunum var alveg frábært og það skapaðist mikil stemmning á sýningunni. Texta í viðlögunum er varpað upp á skjá og áhorfendur eru hvattir til að taka undir sem þeir gerðu svo sannarlega. Til hamingju LL með þessa frábæru sýningu.

Í dag hentist ég út í bíl eftir að hafa sungið í jarðarför til að komast á tónleika í Hömrum sem byrjuðu um leið og jarðarförin endaði. Vill til að hér eru vegalengdir stuttar og engin umferðarljós. Þar var ítalskur píanóleikari að spila verk eftir Scumann, Granados og Prokofief.
Tónleikarnir voru flottir í alla staði. Falleg túlkun og ásláttur áttu þar stóran hlut að máli.
Ég hlustaði á hann kenna nokkrum nemendum Tónlístarskóla Ísafjarðar í gær og fékk mörgum sinnum dejavu. Hann var svo líkur honum Halldóri Haralds gamla píanó kennararnum mínum hvað kennsluaðferð varðaði, nálgun í túlkun og tæknivinnu. Ég fór alveg mörg ár aftur í tímann þar sem ég sat í salnum í Tónó.
Í kvöld verður svo spilakvöld.
Allt að gerast.

Sendi ljúfar yfir

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Sjaldan fellur eplið.......

....................langt frá eikinni þegar ég og dóttir mín eigum í hlut.
Hún fór á skíði á laugardaginn og lenti í röð atvika í lyftunni - svona dómínó effekt- þegar ungur drengur kom rennandi á bakinu niður eftir brekkunni þar sem lyftan er. Stelpan fyrir framan Brynju sleppir stönginni og það vill ekki betur til en hún dettur og byrjar að renna í áttina að Brynju sem reyndi að sveigja frá en stúlkan kom á fleygi ferð og klessti beint á hana. Hún datt og einhvernvegin bögglaðist hendin undir hana. Við skoðun kom í ljós að bein í framhandlegg sem heitir Ölna var brotið. Núhhhh ja hér...stundi ég, almættið ekki að standa sig þessa dagana. Jæja hvað gerir maður, reynir að taka brosandi á móti þessu verkefni og leysir það eins vel og hægt er.
Hún þarf að vera 2 vikur í gifsi og verður vonandi fljót að jafna sig, fljótari en ég skulum við vona.
Það gengur nú svo- na.... með mína hendi. Verstir eru verkirnir og svo þreytist ég mjög fljótt í hinu daglega amstri. Hreyfigetan er orðin meiri en þetta er óttalega hvimleitt og þreytandi ástand.

Ljúfar yfir.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Norbusang

Er búin að sitja á fundi síðan í gær um kóramál á norðurlöndum, kóramót, ráðstefnur og hátíðir.
Þarf að sperra eyrun allverulega því hér tala allir á sínu móðurmáli nema ég. Hér eru syngjandi norðmenn, sænsku mælandi finnar sem tala sænsku með hörðum framburði, finnar sem tala ennþá skrýtnari sænsku, elskulegir svíar og danir sem reyna að tala hægt. Hef þó náð að halda þræðinum er verð að bregða fyrir mig enskunni þegar ég tala. Finnst það eiginlega hálf skítt að hafa ekki fengið neina þjálfun í að tala helv.....dönskuna fyrst maður er nauðbeygður að læra hana í öll þessi ár. Virkar mjög absúrd þegar á hólminn er komið.

Helsingör er lítill og krúttlegur bær en enn sem komið er hef ég bara séð lestarstöðina og litla hótelið sem við gistum á. Ætla að fara eftir hádegi hér út fyrir og skoða mig um því ég á ekki flug heim fyrr en í kvöld. Mér var sagt að kastalinn sem Hamlett hans Shakespear var í sé hér. Langar að tékka á því.
Við förum einnig í kirkjuna eftir hádegi til að hlýða á drengjakór sem þar starfar.
Svo það er nóg prógramm í gangi svo hausinnn er fullur af hugmyndum og hrikalegu kvefi.
Mjög góða blanda skal ég segja ykkur

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

bara svona ósköp venjulegt og eiginlega ekkert merkilegt

Er voðalega andlaus þessa dagana.
Alltaf þegar ég sest niður til að skrifa kemur ekki neitt.
Lífið er bara í sínum vanalega gír og dagarnir líða hjá.
Maður gæti alveg skrifað um pólitíkina og þjóðmálin
en ég tók þá ákvörðun að mitt blogg skuli ekki vera á slíkum nótum.
Það eru aðrir betur til þess fallnir að fjalla um slíkt.

Ég er að undirbúa mig fyrir fyrsta fundinn minn í norrænu kórasamtökunum, Norbusang.
Flýg út til Köben á laugardaginn en fundurinn er að þessu sinni haldinn þar.
Flýg svo aftur heim á sunnudaginn og hingað vestur á mánudagsmorgni.
Í vor verður haldið kóramót í Jakobstad í Finnlandi á vegum samtakanna en mótin eru haldin hvert ár og skiptast löndin á að halda þau. Tvisvar hafa slík mót verið haldin hér á landi og tekist með miklum ágætum.
Ég hafði planað að fara með Stúlknakórinn minn til Finnlands í vor en vegna ástandsins hér í efnahagslífinu var hætt við. Það halda allir að sér höndum og erfitt að fá fyrirtæki til að styrkja nokkurn skapaðan hlut. Við sáum því fram á rýra fjáröflun og ekki er heldur hægt að seilast í vasa foreldranna.
Í staðin stefnum við á kóramót sem haldið verður í Seljaskóla í apríl á vegum Tónmenntakennarafélagsins. Fannst ósköp gott að hafa þann möguleika fyrir kórinn þó það komi aldrei í staðinn fyrir utanlandsferð.
Já ástandið kemur víða við.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Morfis

Þeir unnu drengirnir með yfir 300 stiga mun. Minn lenti í öðru sæti sem ræðumaður kvöldsins.
Var hrikalega stolt mamma í gyltum kjól því ég fór af Gala - Sólarballinu og hlustaði á fyrri hlutann. Þeir voru svo öruggir og kunnnu ræðurnar sínar hundrað prósent utanbókar. Svo voru þeir svo flottir í jakkafötum með slaufu og bindi. Þeir fengu mikinn stuðning frá skólafélugunum sem mættu með trommur og lúðra.
Svo verður dregið á miðvikudaginn um næstu mótherja.