Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, maí 29, 2008

Plíííísss ekki vera komin með rugluna

Ég sé ekki síðustu færslu og veit ekki afhverju, er samt búin að fá komment á hana.
Frekar undarlegt.
Ætla að prufa að birta þetta og sjá.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Krakkarnir í kórunum rúlluðu upp þessum tónleikum.
Barnakórinn svo tandurhreinn og brosandi sæt í sumarlegum dressum.
Stúlknakórinn flutti A Friday Afternoon eftir Benjamin Britten - öll 12 lögin og stóðu sig svo flott að ég var ákaflega stolt af þeim. Mikið afrek af ekki eldri kór en þetta aðeins 2ja ára.

Eftir tónleikana fór fjölskyldan öll sömul heim á Engjaveginn þar sem pabbi bauð í ekta íslenska kjötsúpu. Og mikið rosalega smakkaðist hún vel. Alveg passlega söltuð, ekki brimsöltuð eins svo oft vill verða.

Annars fara fram miklar umræður hér um hvaða stefnu Rokkarinn minn ætlar að taka í lífinu eftir að hann hefur fundið út að bóklegt nám í MH er ekki alveg að henta honum.

Sá á kvölina sem á völina segi ég nú bara.

laugardagur, maí 24, 2008

dittinn og dattinn

Þegar ég vaknaði í morgun lá ég áfram í rúminu og las blöðin frá því í vikunni þar sem ekki hefur gefist tími til að fletta Mogganum vegna gríðarlegra anna. Finnst ég svosum ekki hafa misst af neinu stórkostlegu heldur komast að því að það er alveg hægt að vera án blaða og fjölmiðla í viku eða svo. Mér hefur alla tíð leiðst pólítísk karp sem má þó ekki skilja að ég hafi ekki skoðun á mönnum og málefnum. Verð að segja að ég er alltaf að sjá hvað hún Jóhanna Sigurðardóttir er flott. Ekkert pólitískt þref heldur talað um hlutina eins og þeir eru og gengið í málin. Sannarlega að hennar tími er komin.



Annars er þessi laugardagur kærkominn. Á frí í dag eftir laaaaanga og straaaaanga vinnutörn og
er svona að velta því fyrir mér hvað mig langi til að gera. Sumt þarf ég að gera því íbúðin er á öðrum endanum, en fyrir utan það þá væri ekki úr vegi að njóta veðurblíðunnar sem heilsar mér í dag. Byrjaði samt daginn á því að sletta rándýra kreminu mínu upp um alla veggi og innréttingar og alla leið út á gólf. Eitthvað var ég kærulaus í gær eftir sturtuna enda á ógnarharða að koma mér í múnderinguna fyrir skólaslit og útskriftartónleika, því ég hafði ekki skrúfað lokið nægilega vel á krukkuna og þegar ég greip hana í morgun þá hélt ég á lokinu og horfði svo á krukkuna taka loftfimleikaköst og endasendast svo á gólfið.

En ætli ég byrji ekki á því að viðra sængina mína og koddann út á svölum svo ég geti sofnað í kvöld í hreinu líni með vorlyktina í sænginni minni.



Eigið góðan dag kæru vinir.

föstudagur, maí 23, 2008

Hvað er til ráða?


Hvað gerir maður fyrir neglur sem klofna???
Eitthvað svona??


Er búin að taka Omega 3 í allan vetur (samkvæmt ráðleggingum fróðra kvenna)

og bera á þær naglaherðir.

En allt kemur fyrir ekki.

Er orðin dauðleið á því að hafa ljótar neglur og langar í mínar fínu aftur sem ég hafði hér í eina tíð.

Lumar einhver á góðum ráðum??

þriðjudagur, maí 20, 2008

þessir dagar

Ég er hér stödd inn í miðri hringiðu tónleika, prófa, umsagna og frágangs.
Að baki eru 7 tónleikar og 2 framundan.
Allt hefur gengið þrusuvel.
Smá þreyta samt farin að gera vart við sig.
Vöðvabólgan bankar frekjulega á axlirnar og hálsinn.
En eins og alltaf líður tíminn og áður en ég veit er komið
langþráð sumarfrí.

Ýmislegt verður gert í þessu fríi.
Efst á mínum lista er að njóta.
Njóta náttúrunnar, samverunnar við hvort annað
og barnanna.

Væri annars alveg til í au pair þessa dagana.
Þar sem ekki gefst tími til að taka hreina leirtauið
út úr vélinni hrúgast skítugt upp í vaskinum.
Á borðstofuborðinu er HAUGUR af samanbrotnu taui
sem á eftir að fara á sinn stað.
Og skrifborðið mitt er í tómu tjóni.
Allt bókstaflega á rúi og stúi og þar ægir öllu saman.

Ég er nú samt syngjandi sæl og glöð - tek á þessu þegar ég hef tíma.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Dönsk speki?

Eftir hádegismat einn daginn í hinni dásamlegu Köbenhavn var ég á leið inn í skólann þegar kallað er á dönsku hvort ég geti verið svo væn að halda hurðinni opinni.
Ég lít við og sé þar mann með kassa á svona lítilli trillu koma hlaupandi.
Mange takk segir hann þegar hann fer fram hjá mér.
Ég geng í áttina að lyftunni og hann í humátt á eftir.
Þegar ég opna hurðina að lyftunni brosir hann og spyr, á dönsku, hvort ég geti haldið þessari hurð líka fyrir hann.
Ég brosi á móti og segi það vera sjálfsagt.
Í lyftunni dregur maðurinn upp miða og spyr mig hvort ég viti á hvaða hæð CVI sé? jú segi ég ég er að fara þangað, þú getur bara elt mig.
Hann verður eitt bros og finnst greinilega þetta vera sinn happa dagur því hann spyr mig fyrirvaralaust hvort ég vilji hitta hann um kvöldið og drekka með honum svo sem eitt vínglas.
Ég verð hálf hvumsa og afþakka voða pent.
Ja..nei ....nei ég spurði bara, sagði hann þá, maður kemst aldrei að neinu ef maður þorir ekki að spyrja.

mánudagur, maí 05, 2008

Danskt vor

sandalar

bleikar naglalakkaðar tær

kjóll

sólgleraugu

kalt hvítvín

setið úti á torgi

þetta er líf mitt þessa dagana

dásamlegt

fimmtudagur, maí 01, 2008

ferðin heim

Heimferðin byrjaði klukkan fimm á sunnudaginn var þegar búið var að heimsækja gommu af fólki, horfa á handbolta og úða í sig bakaríiskruðeríi.
Börnin voru búin að koma sér vel fyrir í aftursætinu, með kodda, teppi og þrautabækur sem NB. er alger snilld á svona ferðalögum. Búið var að lofa ís, það var jú sól og sunnudagur, og byrjuðum við fyrst í Álfheima ísbúðinni. Við tókum miða og á honum stóð 45. Ég leit á skjáinn sem sýnir hvaða númer er næst í röðinni og þar stóð 16. Það þarf ekki að orðlengja það en við snérum snögglega við og ákváðum að kaupa ís í Borgarnesi. Einhvernveginn höfðu fleiri fengið þessa fínu hugmynd því biðin þar var nokkur en ísinn fengu börnin eins og lofað hafði verið.

Fjótlega fóru snjókorn að dynja á framrúðinni á bílnum og ég var farin að sjá fyrir mér að við yrðum úti upp á heiði. Setti því aðeins meiri þrýsting á bensíngjöfina og keyrði greiðlega. Eins og þeir vita sem keyra um vestfirðina eru Strandirnar óvinur númer eitt. Vegurinn er ein hola, bugðir og beygjur. Eitthvað verður því undan að láta. Ég var ný búin að hringja og láta vita af mér og tilkynna að ég væri að legggja á heiðina (Steingrímsfjarðarheiðina) þegar hvellsprakk á afturhjóli bílsins. Dekkið nánast tættist af. Ég var nú ekkert sérlega glöð með þetta því ég er ekkert sérlega flínk að skipta um dekk. En almættið sér um sína og mér til happs komu ferðalangar á vesturferð mér til hjálpar. Sem betur fer segi ég því það var ekki auðvelt verk að tjakka bílinn upp því þegar bíllinn var kominn í þá hæð sem þurfti til að taka hjólið af gaf tjakkurinn sig og það í tvígang. Frostið beit í fingur og kinnar en það var MJÖG kalt og snjófjúk. Ekki dugði þetta bras og því fengum við tjakk úr bíl "björgunarsveitarinnar" og þá fór eitthvað að gerast.

Á meðan gaf í vindinn og þá myndast skaflar sem erfitt er að komast yfir. Við ákaváðum því að vera í samfloti. Upp á miðri heiðinni keyrðum við fram á bíl sem sat pikkfastur í stórum skafli. Það varð því að hjálpa til og draga bílinn upp úr og tók það sinn tíma. Ferðin yfir heiðina tók því klukkutíma.

Það var því þreytt kona sem renndi í hlaðið á Skógarbrautinni klukkan eitt um nóttina eftir 7 tíma ferðalag.
Börnin hinsvegar hrutu í aftursætinu.