Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, maí 24, 2008

dittinn og dattinn

Þegar ég vaknaði í morgun lá ég áfram í rúminu og las blöðin frá því í vikunni þar sem ekki hefur gefist tími til að fletta Mogganum vegna gríðarlegra anna. Finnst ég svosum ekki hafa misst af neinu stórkostlegu heldur komast að því að það er alveg hægt að vera án blaða og fjölmiðla í viku eða svo. Mér hefur alla tíð leiðst pólítísk karp sem má þó ekki skilja að ég hafi ekki skoðun á mönnum og málefnum. Verð að segja að ég er alltaf að sjá hvað hún Jóhanna Sigurðardóttir er flott. Ekkert pólitískt þref heldur talað um hlutina eins og þeir eru og gengið í málin. Sannarlega að hennar tími er komin.



Annars er þessi laugardagur kærkominn. Á frí í dag eftir laaaaanga og straaaaanga vinnutörn og
er svona að velta því fyrir mér hvað mig langi til að gera. Sumt þarf ég að gera því íbúðin er á öðrum endanum, en fyrir utan það þá væri ekki úr vegi að njóta veðurblíðunnar sem heilsar mér í dag. Byrjaði samt daginn á því að sletta rándýra kreminu mínu upp um alla veggi og innréttingar og alla leið út á gólf. Eitthvað var ég kærulaus í gær eftir sturtuna enda á ógnarharða að koma mér í múnderinguna fyrir skólaslit og útskriftartónleika, því ég hafði ekki skrúfað lokið nægilega vel á krukkuna og þegar ég greip hana í morgun þá hélt ég á lokinu og horfði svo á krukkuna taka loftfimleikaköst og endasendast svo á gólfið.

En ætli ég byrji ekki á því að viðra sængina mína og koddann út á svölum svo ég geti sofnað í kvöld í hreinu líni með vorlyktina í sænginni minni.



Eigið góðan dag kæru vinir.

2 Comments:

  • At 25/5/08 7:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    æ, en ergilegt. krem geta verið svo hrikalega dýr og sárt að sjá þau breytast í veggjaskraut.

    vona annars að þú hafir það gott:)

     
  • At 25/5/08 10:45 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Þá verður sem sagt baðherbergið þitt framvegis engilblítt og hrukkulaust það sem eftir er, alveg eins og dömurnar í öllum kremauglýsingunum! Ekki amalegt.

     

Skrifa ummæli

<< Home