Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Borgarferð

Á miðvikudaginn var settumst við upp í bílinn hans Birgis, ég og börnin, og keyrðum í 6 tíma suður til Reykjavíkur. Sumardeginum fyrsta og næstu 3ur dögum þar á eftir ætluðum við að verja í borginni. Hitta stóru krakkana, útrétta og hitta svo vini okkar stóra og smáa. Það var rennifæri alla leið en af og til heyrðist í Snáðanum; hvenær verðum við komin og Ponsí var fljót að svara; nú þegar við verðum komin og hættu svo að spyrja.

Veðrið lék við okkur en auðvita gleymdist að taka myndir kannski af því myndavélin mín finnst ekki. Á laugardaginn fórum við í bíltúr upp að Úlfljótsvatni til að heilsa upp á vinkonu sem hafði hreiðrað um sig í bústað með börnin tvö til að heimilisfaðirinn gæti fengið frið heima til að klára ritgerð og lesa undir próf. Agalega tillitsöm sagði hún nú með glott á vör því bóndinn hefði nefnilega ekki gert neitt þessu líkt þegar hún stóð í prófum með ungabarn. Og hvað það var kaaaalt. Við beiluðum á pottinum, kannski í lagi því við höfðum farið í sund um hádegisbilið. Aldeilis fín laug þarna í Kópavoginum. Og sem ég stend í sturtunni með sápuna í hárinu heyri ég dynk og lít niður. Þar liggur ósjálfbjarga kona og starir tómum augum út í loftið. Við byrjum að stumra yfir henni, gefa vatn og setja undir höfuð og kalla á sundlaugarverðina. Aumingjans konana rankaði við sér en þá hafði nú bara liðið yfir hana þarna í sturtunni og varð hálf hvumsa yfir öllu þessu umstangi. Stuttu seinna þegar við vorum búin að ferja hana fram í búningsklefa í betra loft kallar ein varðan (er það ekki kvennkynsmynd á vörður??????) að við skyldum klæða okkur í snatri því það væri von á sjúkraflutingamönnum. Einhvernveginn hrökk út úr mér að þeir væru nú ýmsu vanir og myndi ekki kippa sér upp við konur á brjóstahöldurum í nærbuxum. Ja...það er nú skemmtilegra að vera búin að klæða sig sagði þá sú sem stóð við hliðina á mér og horfði hálf hneyksluð á mig.
Eftir þessa uppákomu var nú liðið mitt orðið svangt. Strákarnir sá stóri og litli búnir að bíða ógeðslega lengi eins og Snáðinn sagði með mikilli áherzlu.

Ákveðið var að fara á Kaffitár og það var þá sem ég fékk aðsvif þegar stúlkan sagði mér hvað ég ætti að borga fyrir veitingarnar sem við höfðum valið okkur. Sko.....finnst ykkur eðlilegt að borga heilar 560 krónur fyrir súkkulaðikökusneið sem nota bene er gerð úr "eðalblöndu" fröken Bettí Krokker??? ........ fuss...
Fyrir fimm manna fjölskyldu kostaði kaffihúsaferðin okkur 4500 krónur.Kakó, kaffi, kleinur, samloka og baka nú og svo súkkulaðikökusneiðin sem ALLIR borðuðu því það kom ekki til greina að leifa einni einustu mylsnu. Það lá við að ég skipaði krökkunum að sleikja diskinn.
Ég spurði Birgi hvort hann ætti ekki kökuform því næst færi ég sjálf út í búð og keypti Betti Krokker pakka í Bónus fyrir 280 krónur og bakaði kökuna sjálf.
Ég fékk sætt glott.

Það gekk á ýmsu á leiðinni heim á sunnudaginn.
Sú ferðasaga bíður þar til næst.

Ljúfar yfir.

4 Comments:

  • At 29/4/08 12:31 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Hei... Varstu svo í bænum og komst ekki á ráðstefnu?!?

    En ég verða segja að mér hefði sennilega verið nokk sama þó að sjúkraflutningamenn hefðu trítlað inn á mig hehe

    Kv.Bryndís

     
  • At 30/4/08 12:10 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Komu þá engir sjúkraflutningamenn að hirða konuna með aðsvifið á veitingastaðnum? Gera kallarnir mannamun, iss.

     
  • At 30/4/08 4:56 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    neibbs.....enginn aumkaði sig yfir mér.

     
  • At 1/5/08 1:18 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Iss, þú hefur bara verið of mikið klædd. Þeim líst greinilega betur á þessar léttklæddu.

     

Skrifa ummæli

<< Home