Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

tapað -fundið

Á þriðjudaginn var búið að setja nótnabók í hólfið mitt á kennarastofunni. Hún var greinilega mikið notuð því það var búið að líma kápuna saman. Það fyndna við þetta allt saman er að hún var ekki svona mikið notuð af eigandanum heldur af þeim sem fékk hana lánaða fyrir 20 árum. Þannig var að ég fékk þessa bók að gjöf frá foreldrum mínum árið 1989. Einn góður maður hér í bæ, sem núna er látinn, hafði fengið hana að láni. Þegar hann féll frá árið 1999 var nótnasafnið hans sett í kassa og einn kennari skólans fenginn til að fara í gegnum það og það sem var nýtilegt átti svo að renna til Tónlistarskólans. Kennarinn rekur augun í þessa bók í einum kassanum og sér að hún er merkt mér. Hún tekur hana til hliðar og hyggst skila henni til mín við fyrsta tækifæri. Það tækifæri var svo í vikunni og reiknaðist okkur til að bókin hefði verið "í láni" í tæp 20 ár. Fyrst í 10 hjá söngvaranum góða og svo hjá henni í næstu 10. Ég var að vonum fegin og glöð að hafa endurheimt nótnabókina því í henni er samansafn af allskonar ballöðum og lögum úr söngleikjum sem gott er að hafa svona í handraðanum við hin ýmsu tækifæri. En þetta fékk mig til að muna eftir annari bók sem foreldrar mínir höfðu líka gefið mér á svipuðum tíma en það er safn með öllum lögum Billy Joels. Ef einhver finnur hana í fórum sínum má hinn sami alveg skila henni. Ég meina hvað eru 20 ár á milli vina?

5 Comments:

  • At 9/4/08 2:58 e.h., Blogger Harpa Jónsdóttir said…

    Ekkert að ráði greinilega ;-)

     
  • At 9/4/08 4:00 e.h., Blogger Blinda said…

    Ég á þá bók, en er nokkuð viss um að hafa ekki fengið hana að láni hjá þér. :-) Ef ég hins vegar rekst á hana skal ég glöð senda þér hana.

     
  • At 9/4/08 7:03 e.h., Blogger Meðalmaðurinn said…

    Nibb, ég á mína alveg sjálf, Harpa keypti hana fyrir mig einhverntíma..

     
  • At 9/4/08 9:12 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    betra seint en aldrei:)

     
  • At 9/4/08 11:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Fundinn fjársjóður! Veistu...ef ég gæti réttlætt þjófnað væri það á nótnabókum! Er skæð, sníki, en skila alltaf lánsbókum. ( með semingi þó!) Líði þér vel. Gulla Hestnes

     

Skrifa ummæli

<< Home