Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, mars 01, 2008

Hér er allt hvítt

Í veikindunum hefur verið lítil löngun til að blogga, öfugt við marga sem skrifa sig frá því sem þeir eru að ganga í gegnum. Svona erum við ólík manneskjurnar, kannski sem betur fer.
Ég er farin að vinna en finn að þrekið er ekki mikið svo það er lexía fyrir mig að draga úr hraða og hlusta á líkamann. Maður á víst bara einn sem þarf að endast manni út lífið.

Framundan eru hinsvegar spennandi tímar sem fær mig til að hlakka til og eru mikil hjálp í að ná bata. Skólaferð til Danmerkur er eftir viku og svo er páskafrí í kjölfarið sem ég ætla að verja með fólkinu sem mér þykir vænst um. Planið er að fara á skíði, bæði göngu og svig því nógur er snjórinn. Hér er bókstaflega allt á kafi og börnin farin að stökkva fram af svölum niður í garð í háa skafla. Það var mest spennandi að fara út í gærkveldi eftir mat, og vera úti í garði í brjálaða veðrinu sem gengur nú yfir hér á Vestjörðum. Og núna er bankað reglulega á stofugluggann og ég beðin um að horfa þegar þau láta sig gossa í næsta skafl. Ég man þegar svona vetur komu þegar ég var krakki. Stundum náði snjórinn upp á húsþak og hægt var að labba upp á þak og stökkva í næstu snjóhengju. Mér finnst eiginlega frábært að börnin mín séu að upplifa þetta því þetta er svo hrikalega gaman og mikið kikk sem fæst út úr því að vera vel klæddur út í brjáluðu veðri og leika sér í snjónum.
Það er auðvita allt ófært og bíllinn minn er fastur út í skafli en það gerir ekkert til svosem þar sem ég ætla að vera heima í dag og dúlla mér, drekka te og lesa en það er nota bene samkvæmt læknisráði:O)

3 Comments:

  • At 1/3/08 5:44 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Réttilega mælt, við erum ekki ofurkonur sem ekkert bítur á. Haltu áfram að láta þér batna. Kveðja í snjóinn. Gulla Hestnes

     
  • At 1/3/08 5:56 e.h., Blogger Harpa Jónsdóttir said…

    Snjórinn er skemmtilegur - mín börn eru líka úti að ólmast.
    Gott áframhaldandi batn!

     
  • At 1/3/08 9:50 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Já, maður man þessa snjóskaflatíma! Ég óskaði þess oft að börnin mín hefðu upplifað þetta en borgin bíður ekki uppá það sama og landið.
    Ekki líst mér á heilsuna þína Bjarney mín, farðu nú varlega!
    Gangi þér allt í haginn.
    Bestu kveðjur,
    OÞ:)

     

Skrifa ummæli

<< Home