Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Lífið er snjór

Ég rétt slapp en með miklu hossi lentum við fyrir hádegi, annað en móðir mín sem sat í vélinni seinni partinn og sólundaði í mynni Skutulsfjarðar í hálftíma án þess að lenda. Það má með sanni segja að þessi vetur hefur verið okkur harður og snjóþungur. Finn hvernig veðrið hefur smogið inn í mig og hertekið líkamann. Veit svo sem ekki hvað skal til bragðs taka nema halda áfram að taka vítamín og lýsi og hunskast í ræktina. Ekki langar manni út í göngutúr svo mikið er víst. Ég vildi bara óska að mér þætti skemmtilegt í ræktinni þá væri ég löngu komin af stað og farin að fetta mig og bretta. Reyndar er stúdíóið að flytja í stærra og nýrra húsnæði með útsýni út á djúpið svo það er aldrei að vita hvort það togar nóg í mann til að maður rífi sig upp af rassinum.



Ég fékk um daginn símtal frá fallegu stjúpdóttur minni þar sem hún var alveg á innsoginu. Söngkennarinn hennar er að fara sem gestakennari í Juliard tónlistarháskólans í NY og bauð henni að koma með.Ferðin hefst á föstudaginn og er mikill spenningur farinn að gera vart við sig en fyrst þar fhún að klára sýningar með nemendaóperunni sem sýndar eru í Langholtskirkju. Hún fær einkatíma hjá virtum kennara í Juliard, Lauren Nubar, en henni kynntist ég í Nice á alþjóðlegu masterclass fyrir 3ur árum. Og svo bara að labba þarna um gangana og upplifa stemminguna og söguna sem þessi skóli hefur að geyma. Skólinn er við hliðina á Metrópólitan Óperunni og þær fara á 2 sýningar þar og eina tónleika í Carnegie Hall. Þetta er mikið ævintýri og aldrei að vita hvort það hefur eitthvað í för með sér fyrir hana svona námslega séð því hún er á síðustu metrunum hér heima og er á leið út í heim að freista gæfunnar. Væri sko alveg til í að fara með en við göntumst með það að ég fari í fyrst sinn í Met-óperuna þegar hún syngur þar.
Þá hafi ég ærið tilefni.



Annars glittir í ljósin á snjóruðningstækinu fyrir utan eldhúsgluggann minn, sem er þakinn af snjó svo varla sést út.

Ég ætti því að komast í vinnuna á litla bláa bílnum mínum.

7 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home