Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, maí 01, 2008

ferðin heim

Heimferðin byrjaði klukkan fimm á sunnudaginn var þegar búið var að heimsækja gommu af fólki, horfa á handbolta og úða í sig bakaríiskruðeríi.
Börnin voru búin að koma sér vel fyrir í aftursætinu, með kodda, teppi og þrautabækur sem NB. er alger snilld á svona ferðalögum. Búið var að lofa ís, það var jú sól og sunnudagur, og byrjuðum við fyrst í Álfheima ísbúðinni. Við tókum miða og á honum stóð 45. Ég leit á skjáinn sem sýnir hvaða númer er næst í röðinni og þar stóð 16. Það þarf ekki að orðlengja það en við snérum snögglega við og ákváðum að kaupa ís í Borgarnesi. Einhvernveginn höfðu fleiri fengið þessa fínu hugmynd því biðin þar var nokkur en ísinn fengu börnin eins og lofað hafði verið.

Fjótlega fóru snjókorn að dynja á framrúðinni á bílnum og ég var farin að sjá fyrir mér að við yrðum úti upp á heiði. Setti því aðeins meiri þrýsting á bensíngjöfina og keyrði greiðlega. Eins og þeir vita sem keyra um vestfirðina eru Strandirnar óvinur númer eitt. Vegurinn er ein hola, bugðir og beygjur. Eitthvað verður því undan að láta. Ég var ný búin að hringja og láta vita af mér og tilkynna að ég væri að legggja á heiðina (Steingrímsfjarðarheiðina) þegar hvellsprakk á afturhjóli bílsins. Dekkið nánast tættist af. Ég var nú ekkert sérlega glöð með þetta því ég er ekkert sérlega flínk að skipta um dekk. En almættið sér um sína og mér til happs komu ferðalangar á vesturferð mér til hjálpar. Sem betur fer segi ég því það var ekki auðvelt verk að tjakka bílinn upp því þegar bíllinn var kominn í þá hæð sem þurfti til að taka hjólið af gaf tjakkurinn sig og það í tvígang. Frostið beit í fingur og kinnar en það var MJÖG kalt og snjófjúk. Ekki dugði þetta bras og því fengum við tjakk úr bíl "björgunarsveitarinnar" og þá fór eitthvað að gerast.

Á meðan gaf í vindinn og þá myndast skaflar sem erfitt er að komast yfir. Við ákaváðum því að vera í samfloti. Upp á miðri heiðinni keyrðum við fram á bíl sem sat pikkfastur í stórum skafli. Það varð því að hjálpa til og draga bílinn upp úr og tók það sinn tíma. Ferðin yfir heiðina tók því klukkutíma.

Það var því þreytt kona sem renndi í hlaðið á Skógarbrautinni klukkan eitt um nóttina eftir 7 tíma ferðalag.
Börnin hinsvegar hrutu í aftursætinu.

8 Comments:

  • At 1/5/08 12:37 e.h., Blogger Meðalmaðurinn said…

    Já það er mikið á sig lagt Ingibjörg mín :)
    Annars segir Kolfríður norn í bókinni Strandanornir eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, að það sé misjafnt hvað maður sé heppinn þegar maður keyrir strandirnar, stundum fái maður nefnilega mjög marga firði, en ef maður er mjög heppinn geti maður fengið bara einn!!
    Þú hefur sennilega verið frekar óheppin þarna og fengið nokkra firði.

     
  • At 1/5/08 4:11 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    Já það má nú eiginlega segja það að hún KOlfríður blessunin var ekkert að hlífa mér þarna á þessu ferðalagi.

     
  • At 1/5/08 7:40 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Úff, ég hugsa að ég hefði nú bara farið að grenja í vegarkantinum! En það hefur kannski verið of kalt til að leyfa sér slíkan munað?!

     
  • At 1/5/08 9:54 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    kjarnakona ertu!

     
  • At 2/5/08 12:51 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Gott að þú/þið eruð komin heim. Helv...vetrarfærð. Segi þér frá landsmóti við tækifæri. Hornfirsk næturró kveður. Gulla hestnes

     
  • At 2/5/08 12:40 e.h., Blogger Ameríkufari segir fréttir said…

    Velkomin heim til þín þú duglega kona. Gaman að vera búin að lesa pistlana þína..ég tók mér svo langa pásu sjáðu:)
    Hafðu það gott, Svanfríður

     
  • At 2/5/08 11:29 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Þetta er svona eitthvað sem er gaman að rifja upp eftir á svona sem hetjuskap en hreint ekki eftirsóknarvert á meðan á því stendur.

     
  • At 3/5/08 4:44 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Steingrimsfjarðarheiðin getur verið ansi mikill farartálmi.
    Sat þar eitt sinn föst í 14 klukkustundir - með son minn 10 mánaða með mér í bílnum...
    Var sem betur fer með mat handa honum, en svo var bara settur snjór í pelann og látið bráðna á miðstöðinni :)

    Gott að þið komust heil heim.

    Kv. Anna Lilja

     

Skrifa ummæli

<< Home