Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, október 31, 2008

börnin og ástandið

BS; mamma veistu, skjár einn er að hætta á morgunn.

Big; ha nú? afhverju

BS.; jú sko , hann datt á hausinn

mánudagur, október 27, 2008

Eftir óveðrið

Á sunnudaginn vöknuðu bæjarbúar í póstkorti.


Bærinn skartaði sínu fegursta í blíðunni sem loks kom eftir óveðrið.

Og það var eins og einhver hefði tekið mynd af augnablikinu og tíminn stæði í stað.

Slík var fegurðin.

Pollurinn spegilsléttur, alhvítur snjór lá yfir öllu og sólin glennti sig.

Bæjarbúar ýmist gengu á sínum eigin eða með skíðin spennt, börnin renndu sér á þotum og sleðum og allt kvikt var viðrað.
Meira að segja lítil mús sem fann sér skjól í fótspori lét ekki þennan dag fram hjá sér fara.


Skógarbúar vildu ólmir fara út að renna og eru þessar myndir teknar þegar við fórum inn á golfvöll.
Brynja Sólrún og Hlynur Ingi tilbúin í sleðaferð

Og svona leit golfvöllurinn út, margmenni á gönguskíðum.

Hlynur Ingi missti báðar framtennurnar um daginn og nýtir hvert tækifæri til að glenna "fegurðina" framan í fólk.

Brynja Sólrún ánægð í snjónum.

Og mýsla litla sem leitaði sér skjóls í fótsporinu var búin að kúka fínum músakúk og skalf svo eins og hrísla. Börnin vildu ólm hlýja henni en móðirin útskýrði að við skyldum nú láta náttúruna um sína.

fimmtudagur, október 23, 2008

Óvænt

Fékk óvænt frí í dag. Vetur konungur stjórnaði því.
Öll börn send heim eftir skóla í dag og ég fékk fáa í tíma til mín.
Ákváðum því að fella niður kóræfingu hjá Barnakórnum.
Og svo er líka frí á æfingu á Skilaboðaskjóðunni.
Var því komin heim kl. 3 í dag í fyrsta sinn ...... já ég man eiginlega ekki síðan hvenær.
En það var búið að moka götuna hingað til mín og Ravinn er svoleiðis að standa sig.

Sit því undir teppi og horfi á veðrið út um gluggann minn og sýp á tei.
mmm.....notalegt.

miðvikudagur, október 22, 2008

Veturinn heilsar

Vetur konungur er kominn til okkar hér fyrir vestan.
Þessa mynd tók ég í morgun af svölunum en það fer að verða
þotufært á hólnum í garðinum.
Vetrardekkin eru einnig komin undir Rav-inn og er tilfinningin óneitanlega góð
að sitja inn í honum núna þegar veturinn er að skella á okkur.




Fyrir ofan okkur hér á Skógarbrautinni má líta þennan bor.
Hér er verið að bora eftir heitu vatni en það fannst 50° heitt vatn
þarna fyri tveimur árum og var ráðist í það að bora lengra í von um að finna heitara vatn.
Ef það finnst þá væri það afskaplega mikil breyting fyrir okkur því við notum fjarvarma til að hita upp vatnið og borgum okurverð fyrir. Það var það eina neikvæða sem ég sá við það að flytja hingað fyrir rúmun 2ur árum að kyndingarkostnaður hér er fokdýr.
En það jafnast út því annað t.d bensín er ekkert í líkingu við það sem var þegar ég bjó á höfuðborgarsvaæðinu. Svo allt hefur sína kosti og galla.

Húfur og vettlingar ásamt hlýjum peysum eru nú komin í not eftir sumardvala en þar sem sumir höfðu stækkað frá því í fyrra varð að fara og endurnýja.
Held ég verði minnst fyrr en ég kæri mig um.
Börnin fá vöxtinn frá einhverjum öðrum en mér.
Er annars á leið í súpuhitting í hádeginu með góðum vinkonum
og með fylgir erindi sem ég segi seinna frá.

sunnudagur, október 19, 2008

Sunnudagar geta verið alveg hreint yndislegir.

Þetta hefur aldeilis verið góður dagur.
Þreif hér allt hátt og lágt í morgun , fór svo í göngutúr eftir hádegi í kuldanum uppáklædd í dúnúlpu, húfu og hlífðarbuxur. Það var einstaklega hressandi.

Sat svo í tónlistarskólanum í Bolungarvík og spilaði inn raddirnar í Ceremony of Carols á meðan Hrólfur ýtti á þar til gerða takka til að taka það upp. Svo ætlar hann að brenna þetta á disk fyrir okkur og þá verða kórarnir enga stunda að læra sínar raddir. Þetta tók mig aðeins 2 og 1/2 tíma.
Svo verður þetta dásamlega verk hans Benjamins Britten flutt í Ísafjarðarkirkju í desember af Kvennakórnum, Stúlknakórnum og einsöngvurum úr tónlistarskólanum á Ísafirði.
Einhvernvegin fæ ég aldrei nóg af þessu verki og finnst að allir ættu að kynnast því.
Þetta er tilraun af minni hálfu í þá veru.

Eftir innáspilið ók ég Óshlíðina inn á Ísafjörð (jæks, það var ekki hálka , finnst hún bara alltaf jafn skerý) og í Bónus. Keypti svona sitt lítið af hverju sem vantaði og kom því öllu í innkaupapokann sem ég á frá Tiger en borgaði samt rúmar 4 þúsund krónur fyrir. Váááa, það eru sannarlega víðsjárverðir tímar.

Eldaði svo lasagna, opnaði rauðvín og bakaði möffins.
Já og eiginlega er dagur að kveldi kominn, börnin að ljúka við tiltekt (algerlega óumbeðin!!) og frúin á leið í háttinn eða svona hvað og hverju.

Ljúfar yfir og verið spök.

þriðjudagur, október 14, 2008

snillingarnir í daglega lífinu

Í morgunn stóð ég í ganginum í tónlistarskólanum og tók á móti 5. bekk sem kemur til mín í tónmennt einu sinni í viku. Þau þustu öll inn rjóð í vöngum eftir frímínútur. Einn dregnurinn kemur hoppandi á einum fæti og ég spyr hvað hafi komið fyrir. Jú sko ég meiddi mig á íþróttahátíðinn sagði hann. Æi það var ekki gott segi ég, en afhverju ertu ekki með hækjur ef þú mátt ekki stíga í fótinn? nú það voru svo margir búnir að meiða sig og ég var síðastur á spítalann og þá áttu þeir ekki til fleiri hækjur!!
Ég dæsi og og hef einhver orð um að það sé ekki gott að vera á einum fæti hoppandi um og sérstaklega upp allar tröppurnar og í þeim töluðu orðum sný ég mér við til að heilsa fleirum nemendum. Stendur þá fyrir framan mig bekkjarbróðir þessa slasaða og hefur eitthvað heyrt af orðaskiptum okkar því honum verður á orði; sjáðu svo mig, ég er nú bara á svona ekta íslenskum ullarsokkum, og alveg glænýjum. Það fannst honum eiginlega merkilegra.

ferðalangur komin heim

Ísafjörður -Reykjavík
Keflavík -Kaupmannahöfn
Kaupmannahöfn - Keflavík
Reykjavík - Akureyrir
Akureyri - Aðaldalur
Aðaldalur -Akureyri
Akureyri -Reykjavík
Reykjavík -Ísafjörður


Einhvernvegin svona var ferðalagið frá 3. -12. október.


Byrjaði á því að taka tvö próf í CVI og gekk þrusuvel. Þegar heim kom hélt söngnámskeið og fyrirlestur í Aðaldalnum og fékk frábæra söngvara að vinna með. Græddi tvö afmælisboð hjá fólki sem ég reyndar þekki ekki neitt en þeir eru svo gestrisnir þarna í sveitinni. Fannst ómögulegt að gesturinn ( ég) væri skilin eftir heima hjá vinkonunni á meðan hún færi í fjörið.


Komin núna heim í rútinuna og líkar það vel. Er doldið svona rútínukelling. Veitir mér öryggi sem ég kann vel við. En ekki misskilja mig, mér finnst líka gaman að óvæntum uppákomum og ferðalögum svona inn á milli. Annars myndi maður bara deyja úr leiðindum.



Samkvæmt dagbókinni minni er ég ásamt konunum í matarklúbbnum að fara að halda námskeið í því hvernig á að elda hollan mat án mikillar fyrirhafnar. Það er á vegum Heilsueflingar, sem er félagsskapur sem hefur staðið fyrir ýmsu í sambandi við hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl.



Á eftir að heyra í mínum konum en læt fylgja myndir sem teknar voru síðast þegar við hittumst.

miðvikudagur, október 08, 2008

afmæli, eldhnettir og krónan

Í gær átti litla frænka afmæli og ég fékk að upplifa danska fjölskylduveislu eins og hún gerist best. Matur fyrir 18 manns með öllu tilheyrandi og dönskum afmælissöng þegar mamman kom inn í borðstofuna með köku alsetta kertaljósum og blysi. Og svona til að halda í þjóðrembinginn því stúlkan er jú hálf íslensk hóf Syngibjörg upp raust sína og söng íslenska afmælissönginn eftir Atla Heimi og Þóraninn Eldjárn. Margir bloggarar hafi fengið þannig afmæliskveðju frá mér því mér þykir þessi ameríski heldur klénn og er að reyna að breiða hinn út því það er miklu skemmtilegara að við höfum okkar eigin afmælissöng og hann er bara nokkuð góður hjá honum Atla Heimi. Ekki flókinn og er auðveldur að muna. Það var farið frekar seint í háttin því bróðir frænkunnar, frændinn, býr hé einnig með sinni konu og börnum og því þurfti að rifja upp gamla tíma og endurnýja kynnin. Mér var harðbannað að vera að borga fyrir gistingu í framtíðinni, sem er auðvita hið besta mál því eins og við töluðum um þá er svo mikilvægt að halda í vinskapinn þó hann hafi slitnað á tímabili. Við þekktumst sem krakkar og lékum okkur stundum saman í æsku en svo verða allir eitthvað svo bissí og fatta svo þegar um hægist að vinir og fjölskyldubönd fara að skipta meira máli.

Annars var hið besta veður hér í dag og við sátum úti í haustsólinni í hádegishléinu. Gott að finna smá hita á kinnarnar. Hef verið að horfa á gróðurinn og verð alltaf jafn hugfangin að rauða haustlitnum sem kemur á sum trén og runna. Þeir standa út eins og eldhnettir inn á milli gulu trjánna.

Á morgunn er síðasti dagurinn í þessari lotu og svo flýg ég heim.
Verð að segja að mig langar það nú ekkert sérstakelga mikið miðað við ástandið sem þar ríkir.
Krónan fór í 23 í dag svo ég yrði nú fljótlega auralaus ef ég myndi dvelja hér mikið lengur.
Svo allt hefur sína kosti og galla.

Kveð að sinni.

mánudagur, október 06, 2008

Er hér enn og aftur

Er komin til Köben. Veit að það er óðs manns æði að hreyfa sig eins og ástandið er í dag á krónunni okkar. EN skólinn kallar og alltaf kemur eitthvað upp í hendurnar á manni þegar skóinn kreppir. Ég fer nefnilega beint norður þegar ég kem heim og held námskeið í Aðaldalnum.
Fyrir það fara nokkrir aurar í budduna sem ég get notað til að borga þessa ferð. Lífið er alltaf að koma mér á óvart.
Tók annars tvö próf í dag, söngpróf og skriflegt próf upp á 10 bls með 104 spurningum um söngtækni. Mér gekk nú barasta ágætlega að leysa úr öllu en það kemur í ljós þegar ég fer í matið á miðvikudaginn hvernig mér gekk í rauninni.
Ég lít ekki í búðargluggana á fallegu fötin í uppáhaldsbúðunum mínum. Vildi helst verða mér út um svona "blind folder" því freistingarnar eru margar og auðvita sér maður alltaf eitthvað æðislegt þegar enginn peningur er til fyrir því.
Keypti mér skemmtilega bók í fríhöfninni "Petite Anglaise" eftir Cathrine Sanderson og mæli með henni en hún fjallar um konu sem fer að blogga og afleiðingarnar sem það hefur í för með sér. Er nú bara búinn með 1/3 og les í lestum og strætóum því hún segir vel frá og bókin er líka vel þýdd af Höllu Sverrisdóttur. En það skiptir gífurlega miklu máli ef maður les ekki á frummálinu að bækurnar séu vel þýddar. Hef lagt frá mér þó nokkrar bækur því ég gat ekki lesið hroðvirknislegan textann sem þýðandinn setti frá sér.
Er út í sveit hjá góðri frænku í þetta sinn og drekk með þeim afmæliskaffi í fyrramálið því sú yngsta á heimilinu verður 8 ára á morgun og er búin að panta heitar bollur með súkkulaðiáleggi og smjöri.

Lífið er gott.
Kveð að sinni.