Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, október 08, 2008

afmæli, eldhnettir og krónan

Í gær átti litla frænka afmæli og ég fékk að upplifa danska fjölskylduveislu eins og hún gerist best. Matur fyrir 18 manns með öllu tilheyrandi og dönskum afmælissöng þegar mamman kom inn í borðstofuna með köku alsetta kertaljósum og blysi. Og svona til að halda í þjóðrembinginn því stúlkan er jú hálf íslensk hóf Syngibjörg upp raust sína og söng íslenska afmælissönginn eftir Atla Heimi og Þóraninn Eldjárn. Margir bloggarar hafi fengið þannig afmæliskveðju frá mér því mér þykir þessi ameríski heldur klénn og er að reyna að breiða hinn út því það er miklu skemmtilegara að við höfum okkar eigin afmælissöng og hann er bara nokkuð góður hjá honum Atla Heimi. Ekki flókinn og er auðveldur að muna. Það var farið frekar seint í háttin því bróðir frænkunnar, frændinn, býr hé einnig með sinni konu og börnum og því þurfti að rifja upp gamla tíma og endurnýja kynnin. Mér var harðbannað að vera að borga fyrir gistingu í framtíðinni, sem er auðvita hið besta mál því eins og við töluðum um þá er svo mikilvægt að halda í vinskapinn þó hann hafi slitnað á tímabili. Við þekktumst sem krakkar og lékum okkur stundum saman í æsku en svo verða allir eitthvað svo bissí og fatta svo þegar um hægist að vinir og fjölskyldubönd fara að skipta meira máli.

Annars var hið besta veður hér í dag og við sátum úti í haustsólinni í hádegishléinu. Gott að finna smá hita á kinnarnar. Hef verið að horfa á gróðurinn og verð alltaf jafn hugfangin að rauða haustlitnum sem kemur á sum trén og runna. Þeir standa út eins og eldhnettir inn á milli gulu trjánna.

Á morgunn er síðasti dagurinn í þessari lotu og svo flýg ég heim.
Verð að segja að mig langar það nú ekkert sérstakelga mikið miðað við ástandið sem þar ríkir.
Krónan fór í 23 í dag svo ég yrði nú fljótlega auralaus ef ég myndi dvelja hér mikið lengur.
Svo allt hefur sína kosti og galla.

Kveð að sinni.

3 Comments:

  • At 8/10/08 5:41 e.h., Blogger Ameríkufari segir fréttir said…

    velkomin heim eftir góða ferð.
    p.s Atlasöngur finnst mér góður líka og söng hann oft:)

     
  • At 8/10/08 11:10 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Takk fyrir síðast :-)
    Vona að dvölin hafi samt verið góð þrátt fyrir erfiða krónu...
    Kv.Bryndís

     
  • At 9/10/08 7:09 f.h., Blogger Halldís said…

    ekki ertu að fljúga með kvöldvél Icelandair?
    Ég er nebblega í því flugi ;) Það væri nú ekki leiðinlegt! hmmm kemur víst í ljós...

     

Skrifa ummæli

<< Home