Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, júní 29, 2007

Í glasinu mínu.


Er með þessa tegund af rauðu í glasinu mínu. Fór í Vínbúðina áðan og þar voru til tvær tegundir af tveggja glasa flöskum. Þessi og svo Delicado. Held þetta verði bara ágætt með kjúklingnum sem bíður þess að fara á "nýja" grillið. Þetta er ekkert súpervín en þegar maður stendur frammi fyrir því að heil flaska fyrir eina litla konu er kannski svona fullmikið, þá lætur maður sig hafa þetta. Og svo eru allir í burtu. Ekki hægt að bjóða neinum í mat og hafa þar með ástæðu til að opna eina heila og fína. O jæja, hvað er maður að kvarta á svona fallegu síðdegi. Sá reyndar í hommaþættinum að hægt er að geyma rauðvín í plastflösku með tappa ef maður fyllir hana upp að öxlum. Vínið á að geymast í 2-3 daga þannig. Skál fyrir sumrinu annars, brosum og verum glöð.

miðvikudagur, júní 27, 2007

Veikindi spyrja ekki um árstíma.

Frumburðurinn réði sig í sumarvinnu hér á Ísafirði. Byrjaði svo að hósta eftir að hafa unnið í 10 daga. Var heima í viku því hitinn ætlaði aldrei að lækka. Druslaðist svo aftur í vinnuna því það er svo ömurlega leiðinlegt að hanga einn heima og svo er svo gott veður úti kvartaði hann. Eftir 3 daga í vinnu var hitinn rokinn aftur upp og hann kyrsettur heima. Hóstinn hefur verið slíkur að kallinn kúgast í hvert skipti sem hann hóstar. Fyrir helgi var farið með hann til læknis. Var sendur heim með parkódín. Staðan sú sama í gær og mömmunni ekki farið að standa á sama. Pantaði tíma hjá lækni og þá kom sjúkdómsgreiningin eftir pot, hlust, og myndatöku.
Krakkinn er með lungnabólgu.
Og sólin heldur áfram að skína því það er jú sumar.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Gjöf

Ég fékk gefins gasgrill í gær. Það lítur út eins og splunkunýtt og ónotað. Fyrri eigandi hafði lítið notað það, og fannst það taka allt of mikið pláss á svölunum hjá sér. Ég er ekkert fyrir að grilla sagði´hann þegar ég sótti það í gærkveldi og ég held að þú hafir miklu meiri not fyrir það en við.
Og er það eiginlega alveg rétt hjá honum.
Í kvöld verður það vígt enda skín sólin og veðrið hreinlega biður mann um að vera úti.
Nú þarf bara að taka ákvörðun um hvað á að elda til að vígja gripinn.

sunnudagur, júní 24, 2007

Rifjaði upp og

sýndi gamla takta í gærkveldi.

Þrammaði langa vegalengd í hinu nýja menningarhúsi okkar, Edinborg, með sjóðandi heita diska í höndunum og sósu slettur í nýja hvíta bolnum mínum. Í salnum var "guðdómleg" ilmvatnslykt fagurra kvenna á miðjum aldri. Ótrúlegt hvað sumar konur hafa lítinn smekk fyrir ilmvötnum og úða á sig einhverri fýlu sem magnast upp og verður að fnyk. Og svo þegar þessi fnykur blandast matarilm verður til ótrúleg lofttegund sem fær mann til að hlaupa hraðar með diskana til að komast sem fyrst út aftur. Magnað. Slapp heim undir morgunn þegar eldhúsið var úr hættu ástandi og reyndi að blunda þar til birtan varð óbærileg fyrir augun og eina sem hægt var að gera í stöðunni var að staulast fram úr og hita sér gott kaffi. Tásueymsl og mjaðmarverkir hafa verið með mér í dag. Það er á svona stundum sem ég skynja þörfina fyrir að eiga heitann pott.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Ég er komin heim.......

............í heiðardalinn, komin heim með slitna skó.........

Mikið var gott að leggjast á kodann sinn um miðnætti í gær eftir 5 tíma akstur frá Reykjavík. Hef reyndar ekki lagt saman kólómetrana sem ég hef lagt að baki síðustu viku en þeir eru þó nokkrir. Mývatnssveit var yndisleg í alla staði nema þá kannski flugan sem var í hámarki en hefur ekki verið svona mikil og svona langt frá vatninu í mörg ár, sagði mér fróður eldri herra maður. Kórinn minn átti frábæra daga og hlaut mikið hrós fyrir frammistöðu sína. Það hafði ríkt dálítill kvíði í hópnum fyrir ferðina því kórinn er bara 9 mánaða gamall og þær vissu ekkert hvar þær stóðu svona miðað við aðra kvennakóra sem tóku þátt í mótinu og voru eiginlega vissar um að þær væru lélegastar. En annað kom í ljós og allar fóru þær sælar og glaðar heim af mótinu reynslunni ríkari. Ég brunaði beint á Laugarvatn á kennaranámskeið eftir mótið og var þar í slíkri rjómablíðu að axlir og bringa þoldu sólina ekkert sérlega vel og urðu svona í rauðara lagi. Einhvernveginn hafði maður ekki gert ráð fyrir að sólin færi að sperra sig og var því sólarvörnin skilin eftir heima. Því var ekkert annað að gera í stöðunni en að versla í litu búðinni á Laugarvatni og smyrja á sig factor 20 frá Nivea.
Nú malar hinsvegar þvottavélin og ég er að gera mig klára fyrir næstu ferð sem hefst á sjálfan þjóðhátíðradaginn.

sunnudagur, júní 03, 2007

fótafimi, kaffisopi og gl.. gr.....

Það er stanslaust fjör hér á Skógarbrautinni.
Nú er rokkarinn kominn í hús og dvelur hér sumarlangt við vinnu sem mér tókst loksins að útvega honum eftir mörg símtöl við mæta menn og konur. Það er strax kominn systkina hreimur í röddina og þolinmæðisþröskuldurinn þaninn til hins ítrasta hjá þeim yngri. Allt er þetta músík í mínum eyrum enn sem komið er því hópurinn hefur ekki verið allur saman síðan um páska. Sjáum svo til hvort ég verð ekki farin að urra í lok sumars og farin á límingunum. Finnst reyndar að allir séu að verða svo stórir og sjálfsæðir að brátt verði ég ekki í hlutverki uppalandans. Svo merkilegt. Og eiginlega dálítið óraunverulegt.
Helgin hefur liði mjúklega með skemmtunum af ýmsu tagi. Brá mér meðal annars yfir á Suðureyri í fiskiveislu í gærkveldi. Dásamlega góðir fiskréttir af ýmsu tagi sem maður gat gúffað í sig að vild. Með breyttum tímum verða til nýjir siðir. Fyrirtækin tvö í plássinu hafa brugðið á það ráð að bjóða fólkinu sínu upp á fiskiveislu, skemmtun og ball í tilefni sjómannadagsins. Ferlega vel heppnað og Valkyrjurnar mínar hófu upp raust sína öllum til gleði í gærkveldi á einni slíkri samkomu. Svo hituðum við upp fyrir væntanlegt kóramót sem haldið verður á Mývatni dagana 7- 10 júní með því að æfa snúnigshraða og fótalipurð kórfélga. Það þarf að gæta að ýmsu þegar leggja á upp í ferðalag til að taka þátt í kóramóti. Allir útlimir verða að fúnkera, nú og svo auðvitað röddin, en það er þekkt stærð í hópnum. Einnig er glasalyftingarúthald afskaplega nauðsynlegt og þamb ýmisskonar. Það var vel tekið út og stóðst prófið. Því er allt klárt fyrir komandi mót og kórfélagar komnir með eftirvæntingu í hjartað.
Bauð tveimur úglendingum, sem voru svo almennilegir að keyra mig heim af næturlífinu hér handan heiðar, í morgunkaffi. Þeir fóru inn á tjaldstæði sem er hér nánast við hliðina á mér og lúrðu þar sem eftir lifði nætur.
Fékk svo bank á eldhúsgluggann um ellefu leytið, og stóðu þeir þar og hermdu upp á mig kaffisopann.
Var svo með góða gesti kvöldmat, og var "glirrað" eins og Snáðinn segir.
Hann á ennþá skemmtilegustu setninguna sem við notuðum óspart í fyrrasumar;
mamma, eigum við ekki að glirra harborgara?????
Hann var reyndar að reyna að segja þetta orð rétt hér áðan en gafst svo upp og stundi; ég segi þetta bara eins og ég er vanur, kann ekki að segja þetta öðruvísi.