Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Á vængjum flugsins

Er á leið til kóngsins Köbenhavn í skólann.


Hlakka mikið til en mér skilst að þar sé voða kalt og allt á kafi í snjó.

Sé ykkur eftir viku.
Hafið það sem allra best þangað til esskurnar mínar.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Komin heim.
Það var farið hratt, í öllum skilningi þess orðs.
En samt ekkert ólöglegt.
Söng, dansaði,
var "læf" á X factor til að sjá hana Guðbjörgu mína, (sem komst áfram)
fékk mér gott rauðvín,
hitti eldri börnin,
og keypti mér hrikalega flotta flík.
Var búin að gleyma hvað það fer mikill tími í ferðir.


Er að fara í gegnum klikkaða viku og er búin að gera svona miða þar sem ég skrifa verkefni hvers dags fyrir sig svo ég fari ekki yfir um og gleymi engu.

Tek sem sagt einn dag í einu, svona AA meðferð á mikla vinnutörn.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Bláa frelsið fer í ferðalag

Er á leið í Borg Óttans.

Framundan er keyrsla í 6 tíma.

Er með skemmtilegan ferðafélaga, hana Ponsí mína.
Hún ætlar að hitta æskuvinkonuna,
á meðan ég stússast í söng, nema hvað.

En svo ég plöggi dálítið þá er ferðin farin í þeim tilgangi
að syngja á afmælistónleikum í Íslensku Óperunni.
Meira að segja 2 sóló.

Íslenska Óperan kl. 17.00 á laugardaginn fyrir þá sem vilja
heyra skemmtilegan og fallegan kórsöng.

Tek tæknina með mér og verð tengd.

On the road again........

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Sumir ganga af

Held stundum að okkur lansdbyggðar fólki séu sendir afgangar.

Svona afgangar sem enginn kærir sig um og á sér hvergi stað.

Hef komist að því að svoleiðis afgangar eru sendir hingað í líkingu lækna.

Hitti einn slíkann í dag sem kunni enga mannasiði.

Og hitti anna í sumar sem var sínu verri.

Hér er nefnilega ekkert heimilislækna sýstem.

Maður á að prófa að fara til þeirra allra 3ja og velja svo þann
sem manni líst best á.

Og það velja allir þann sama.

Og hjá honum eins og gefur að skilja er LÖNG bið.

Er frekar óhress með þetta þjónustustig.

Er afgangur.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Spinn spinn

Hafið þið farið í spinning?

*dæs*

Er búin að þrjóskast við í 3 vikur og er rétt farin að geta staðið á hjólinu.
Tala nú ekki um auma bossann....æææææ......
Æfingarnar sem unga konan gerir á hjólinu eru hreint ótrúlegar.
Ég á fullt í fangi með að láta fæturna halda takti og "spinna" þó ég sé ekki
standandi upp, gerandi armbeygjur og hjólaandi með rassinn fyrir aftan hnakkinn.

Er að herða mig í að fara í tíma núna því þetta er góð fimi fyrir mig og
mínar mjaðmir. Finn mikinn mun á grindargliðnunarmálunum,
(sko krakkinn fæddist fyrir 5 árum!!!!!!!) og bólgur hafa hjaðnað.

Vildi bara að þetta væro öööörlítið skemmtilegra.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Sunnudags vafstur

Fór inn á verkstæði hjá pabba og þreif bílinn núna áðan.
Drullan maður lifandi sem lak niður eftir honum þegar ég
úðaðu tjöruhreinsinum á hann. En núna lyktar hann af vínilgljáa og
örðum hreinsiefnum og er glerfínn og flottur.

Sit hér annars og er að horfa á sjónvarpið með öðru auganu.
Sá aftur þáttinn með píanóleikaranum Glenn Gould.
Sérvitringur fram í fingurgóma en hrikalega flottur spilari.
Eftir honum var þáttur um íslenska myndlistarmenn.
Og kynningarstefið sem er spilað í upphafi þáttarins- almáttugur -
annan eins hroðbjóð hef ég bara ekki heyrt.
Einhver ERON er skrifaður/skrifuð fyrir þessu og mér er sama þótt ég sé að
móðga einhvern en þetta er eins og versta útgáfa af lyftutónlist
eða öðrum hryllingi. Skil ekkert í því hvernig þetta rataði með þessum líka
fína þætti um íslenska myndlistarmenn.

Hlakka svo til í kvöld að sjá nýja íslenska þáttinn um tónlist sem Ari Trausti gerði ásamt fleirum.
Fannst tíu fingur góðir og er ánægð að sjá að eitthvað tekur við af honum.
Sakna samt þess hér sem maður gerði í eina tíð þegar kúrt var
með teppi og kakó fyrir framan sjónvarpið á köldum
sunnudagseftirmiðdögum og horft var á óperur og tónleika.
Núna sést svoleiðis efni varla.
Finnst það miður.

Ætla svo að haska mér í að búa til eftirrétt en uppalendur mínir buðu í læri í kvöld.
Góður endir á annars fínni helgi.

Svo er brjáluð vika framundan.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Í rúmi liggjandi

Já góðir hlutir gerast hægt verð ég nú að segja.
Keypti mér nýtt rúm í haust en var efins um að botninn kæmist
upp á efri hæðin þegar ég sá stigaopið.
Smiðurinn mældi reifur og hélt því fram að þetta slyppi auðveldlega.
Upp fór þó botninn ekki þrátt fyrir mikinn vilja góðra manna sem bisuðust við
að troða honum í gegnum stigaopið.
Þá var bara að athuga hvort ekki væri hægt að fá svona botn í tvennu lagi.
Hringdi og pantaði hann í byrjun nóvember.
Og núna er kominn febrúar og ég loksins hætt að liggja á gólfinu á dýnunni því botninn
kom í fyrradag. Pabbi hjálpaði mér við að bera hann upp í herbergi og við eiginlega hlógum þegar hann rann hér nánast sjálfur upp tröppurnar.
Sef eins og ungabarn og finnst betra að leggjast upp í rúm en niður á gólf.
Og hvað þetta er fínt.
Hafði fjárfest í nýju rúmteppi og púðum svo þetta er núna alveg svakalega lekkert og smart.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Fíflaskapur

Hef verið alveg svakalega upptekin.

Upptekin við að halda sönsum.

Öll orkan farið í það.

Mjög orkufrekt djobb skal ég segja´ykkur og launin eru fádæma skilningsleysi.

Hef lengi undrast.

Undrast á því hvernig ein manneskja getur haft slík áhrif á líf manns að það snýst í andhverfu sína.
Las um daginn hjá einum bloggaranum að hennar speki sé sú að "fólk geti sjálfu sér um kennt ef það leyfir öðrum að fara illa með sig".

Hmmmm.........

Hef hugsað um þessa fullyrðingu mjög mikið.
Orðið öskureið, yppt öxlum, hlegið og orðið döpur.

Niðurstað mín er sú að þetta snýst ekkert um neitt leyfi.
Þetta snýst um aðstæður.
Hvernig höndlar maður þær.
Og hvernig maður bregst við framkomu annara.
Þinna nánustu og þíns nánusta.

Því samkvæmt þeirri speki ,að maður gefi öðrum leyfi til að fara illa með sig , er ábyrgð þess sem kemur illa fram engin á eigin framkomu. Sá má hagar sér eins og honum sýnist.
Og við sem "gefum leyfi" erum fífl.

Þá var ég fífl í 10 ár.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Litla fólkið

Stundum fæ ég alveg upp í kok af börnunum mínum.
Líður þannig núna.
Finnst það ekkert sérlega "móðurlegt" að viðurkenna það.
En ég er bara mannleg.

Þau hafa gefið deginum einstakt yfirbragð eins og...
"Drullaðu þér út úr herberginu mínu"
"Nei"
"Júúúú Núúúúna" .......
......og svo er ýtt, slegist, klórað og kýlt.

Svo gefandi eitthvað.
Eins og þau eru yndislegar manneskjur...
.....svona sitt í hvoru lagi.

Og mig langar að hlaupa út og láta þau um þetta.
Láta mig hverfa.
Hef alveg ógurlega stuttan þráð þegar ég þarf að kljást við rifrildi
af þessu tagi.
Maður er alltaf allur af vilja gerður að gera ýmislegt með þeim og fyrir þau en launin eru óréttlæti heimsins.
Reynir að kenna þeim að meta það sem þau hafa og fá og leiða þeim fyrir sjónir að í mannlegum samskiptum gildir ekki frekja og yfirgangur.

Þarf líka að venjast því og læra að kljást við þetta ein.
Held það séu mestu viðbrigðin.
Aldrei pása.
Maður er stöðugt á vaktinni.