Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Úfff.........

Meiri þeytingurinn á mér í dag.
Kaupa afmælisgjöf, sækja Ponsí, fara á leiksólann,
keyra í afmæli, keyra í ballett.

Jájá maður er orðin eins og hinir,
einkabílstjóri barnanna sinna.

Var orðin hrikalega svöng eftir þetta stúss,
og hvað það er unaðslega gott að fá sér að borða þegar maður er svangur.
Lallí la.
Þessa líka fínu mexíkönsku kjúklingasúpu frá því í gær.

En það skemmtilegasta af þessum degi er eftir.
2ja tíma kóræfing með kvennakórnum.
Mikið dæmalaust er það skemmtilegur félagsskapur.
Já, einmitt klukkan að verða svo best ég haski mér þar sem ég er með lykilinn
Frekar neyðarlegt fyrir þær að koma að læstum dyrum.

Smæl:O)

Gunna er löng og mjó.
Hún fékk því viðurnefnið Gunna stöng.
En maðurinn hennar, hann Pétur,
er alltaf kallaður Pétur stangastökkvari.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Afmæli


Brynja Sólrún er 10 ára í dag.
Þessari stúlku er margt til lista lagt.
Hún æfir ballet og er að læra á þverflautu
og svo syngur hún í kór hjá mömmu sinni.
Henni gengur vel að aðlagast hér á Ísafirði,
hefur eignast góðar vinkonur og
er forfallinn skíðaiðkandi.
Önnur mæt kona, hún Beta á líka afmæli í dag.
Til hamingju báðar tvær.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Það getur verið stórhættulegt að dansa

Það er alltaf gaman þegar eitthvað óvænt gerist. Eins og t.d á föstudagskvöldið þegar ég ætlaði rétt að kíkja í afmæli til kærrar vinkonu en lenti svo bara á skralli. Söng á pöbbnum og allt. jájá. Hugsaði nú ekki fallega þegar ég vaknaði daginn eftir með herra smið í hausnum.
Og fína ballið um kvöldið maður.
Bara eitt að gera.
Fara i laaaaangaannn göngutúr í Skóginum.
Eftir að hafa hrest mig við í úðanum setti ég allt mitt hafurtaks í bílinn, ballkjólinn og andlitið og brunaði til frænku.
Þar var hárgreiðslukonan mætt og byrjuð að sjæna hana til.
Mín beið gott glas af rauðvíni spjall og mikill hlátur.
Þegar við komum á ballið sat heil lúðrasveit upp á sviði og blés þessa fínu tóna á meðan fólk var að koma sér fyrir, fara á barinn og sonna. . Það var góð stemmning í salnum.
Veislustjórinn brilleraði, enda Ungversk og með eindæmum fyndin kona.
Ég dansaði af mér hælana og þó aðallega tærnar.
Sérstaklega eina.
Stórutá.
Þegar einn herramaðurinn sveiflaði mér um gólfið vildi ekki svo betur til að hann steig á fínu lakkskónum sínum á mína fínu stóru tá, braut nöglina,gerði gat á sokkabuxurnar og út fór að fossa blóð.
Eymingja maðurinn.
Var alveg miður sín.
Iss, sagði félagi hans þegar hann sá þetta,
þetta grær áður en þú giftir þig, svo kom hik og hann glotti,
aftur.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Hókus pókus, fílarókus........

Á morgun er stóri, langi og erfiði dagurinn minn í vinnunni.

Og það versta er að ég barasta hef ekki hugmynd um hvað
ég ætla að láta 5. bekkinn minn gera á morgunn.
Er að drepast úr andleysi.

Vonast eftir göldrum í nótt.
Að ég vakni með einhverja brilljant hugmynd í höfðinu.

Og ég held að mér sé reyndar ekki batnað.
En maður þrælar sér í vinnu samt sem áður.
Gamla góða harkan.
Yfirgefur mann seint.

Bumbubani óskast

Á laugardaginn fer ég á ball.
Ekta síðkjólaball.
Fæ hárgreiðslu og alles.
Er farin að hlakka til því ég hef ekki farið á ball síðan..........
bara man ekki.
Vona að ég verði orðin frísk.
Svimar af hausverk.
Og er líka með magapest dauðans,
maginn lítur út eins og gengin 4ra mánuði.
Hata bumbumaga,
útþaninn kvið og verki.
Verð ekki lekker í þröngum síðkjól
með bumbuna ÚT í loftið.


Trylli heldur ekki af mér hælana í þessu ástandi.

mánudagur, janúar 22, 2007

Hún er komin aftur og hin vill ekki sofa

Híhíhíhí....... nú er mín sko aldeilis glöð.
Uppáhalds bloggarinn er komin á stjá.


Verð annars að fara að gera eitthvað í þessu næturrölti mínu.
Hef áður tjáð mig hér hversu mikill kvöld drollari ég sé.
Vakna staðföst alla morgna, þegar syfjan er alveg að drepa mig,
að nú verði ég að farið fyrr að sofa en kvöldð áður.
Svei mér þá alla mína daga, ég er bara ekkert að ná þessu takmarki.
Seinka alltaf háttatímanum ef eitthvað er.
Samt er ég með skemmtilega bók, nýtt og kósí rúm, nýtt herbergi og ný rúmföt.
Svo það ætti nú að hafa eitthvað aðdráttarafl.
En nei, ekki fyrir hana Syngibjörgu.
Er svo orðin pirruð út í sjálfan mig.
Sit hér og skammast.
Taktu þig nú saman í andlitinu kona.
Kanntu ráð?

sunnudagur, janúar 21, 2007

Vetrar fegurðÁtti letidag fram að kaffi.
Varð þá litið út.
Gat ekki látið þessa fegurð
fram hjá mér fara.
Dreif mig í hlý föt,
sótti gönguskíðin og brunaði
upp á Dal.
Gekk í fimbulkulda í
klukkutíma.
Myndirnar sýna allt
sem segja þarf.

laugardagur, janúar 20, 2007

Hvað á ég að gera við tvær fullar skálar af dýrindis pastasallati?
Er ein í kotinu þessa dagana og sé fram á einn rétt út næstu viku.
Pastasallat.
Þurftum að blása af æfingu kvennakórsins í dag sem skýrir ástandið.
Jæja, verður maður þá ekki bara að bjóða þetta gestum og gangandi.
Ég fitna þá allavega ekki á meðan.
Enda eins gott því ég er komin á fullt í sprikli.
Geng hér um með harðsperrur og auman bossa eftir spinning.
Hlýt að vera mjög spaugileg ásýndar.
En ég lét bjóða mér í mat í kvöld og í minn hlut kom að útbúa eftirréttinn.
Það er súkkulaðikaka sem ég má borða.
Hún er gædd þeim eiginleikum að vera holl, djúsí og magamálsvæn.
Og af því að ég veit um matgæðinga þarna úti læt ég uppskriftina fylgja.

Súkkulaðikaka með laugardags eða sunnudagskaffinu.

250 gr. spelt
150 gr hrásykur eða púðusykur
2- 3 msk kakó (3 ef fólk vill hafa hana dökka)
1 tsk lyftiduft
1 tsk matasódi
1 tsk vanilludropar
2 egg
150 gr smjörlíki -brætt eða 1 1/2 dl olía
1 1/2 dl sojamjólk eða sterkt kaffi.

Þurrefnum blandað saman og svo vökvanum ásamt eggjum bætt í.
Hræra öllu saman en ekki of lengi.
Setja í skúffukökuform og baka við 180 °c í 30 - 40 mín á blæstri

Krem

250 gr flórsykur
2-3 msk kakó (hér gildir það sama og í kökunni)
100 gr brætt smjörlíki- kælt aðeins áður en það er sett út í.
1 tsk vanilludropar
Sterku kaffi bætt í þar til kremið fær rétta þykt.

Flórsykri og kakó blandað saman með handpísk til að losna við allar litlu kúlurnar sem myndast.
Smjölíki, vanilludropum og kaffi bætt út í.
Hrært þar til kremið verður gljáandi og mátulegt svo að renni ekki út um allt.

Hægt er að strá kókósmjöli yfir fyrir þá sem það vilja.

Verði ykkur svo að góðu .150 gr. flórsykur

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Tilvitnun dagsins

"Þess vegna er svo mikilvægt að sleppa takinu á ákveðnum hlutum. Láta þá lausa. Skera böndin. Fólk verður að skilja að í spili lífsins er ekki fyrirfram gefið, stundum vinnum við og stundum töpum við. Ekki búast við að fá neitt endurgoldið, ekki búast við viðurkenningu fyrir viðleitni þína, ekki búast við að snilligáfa þín verði uppgötvuð eða ást þín skilin. Lokaðu hringnum. Ekki vegna stærilætis, vanhæfni eða hroka heldur vegna þess að hvað sem það er þá hæfir það ekki lengur í lífi þínu. Lokaðu dyrunum, skiptu um plötu, gerðu hreint í húsinu, hentu ruslinu. Hættu að vera það sem þú varst og vertu það sem þú ert."
Úr bókinni "Hugarfjötur" eftir Paulo Coelhi

sunnudagur, janúar 14, 2007

Af bílstjórum og fræknum sigrum.

Stundum gerast hlutirnir alveg ótrúlega hratt.
Með tilstilli heimasíðu Skíðafélagsins og hlekk inn á skiptimarkað
með notaðar skíðagræjur ók ég í tvö heimahús í dag, þar sem ég verslaði notaðar
og vel brúkandi skíðagræjur á mig og Ponsí.
Klukkutíma seinna var fjölskyldan komin á skíði og allir alveg gasalega ánægðir.
Ponsí er svo uppveðruð eftir sigra dagsins í brekkunni að hún er búin að
skipuleggja næstu viku með tilliti til skíðaferða.
Ég aftur á móti er búin að skipuleggja líkamsrækt í Stúdói Dan.
Já, það er nú svo.
Hef ekki lagt leið mína í líkamsrækarstöð í svo mörg ár að ég eiginlega skammast mín.
En eftir laugardagstímann (og harðsperrurnar sem honum fylgdu)
finn ég hvað sálartetrið lifnar einhvernveginn við.
Og ég þarf alveg á því að halda.
Mágkona mín hefur nú verið betri en engin að draga mig með sér.
Hefði aldrei byrjað á þessu af eigin frumkvæði.


Var reyndar að hugsa um það um daginn, því ég er svo oft spurð af því hvernig mér líki að vera flutt aftur heim, hvað búferlafluttningar geta breytt mörgu.
Hjá mér hefur lífið fengið nýtt gildi, nýtt tempó og nýja sýn.
Einfaldleikinn ræður ríkjum, allir eru glaðir og una vel við sitt.
Ég er bílstjóri míns eigins lífs.
Mikið assgoti líkar mér það vel.
Og svo elska ég nýju íbúðina mína.

laugardagur, janúar 13, 2007

Meðmæli

Mæli með þessum handáburði fyrir sprungnar hendur í frostinu.

Uppeftir og niðrettir. Útettir og innettir

Lét mágkonu mín plata mig í leikfimi kl. 10 í morgun. Byrjaði leikfimina reyndar hér fyrir utan húsið þegar ég hóf að grafa litla bílinn minn upp úr snjónum sem hafði kyngt svona hressilega niður kvöldið og nóttina áður. Notaði skófluna til að moka skaflinn ofan af bílnum en Snáðinn vildi óður og uppvægur hjálpa til og bisaðist með kústsköfuna á rúðunum á milli þess sem hann datt um koll í öllum snjónum. Honum var skutlað í mikilli ófærð í pössun þar sem hann átti í vændum skíðaferð upp á Dal, ha nei það heitir víst það ekki lengur. Ég veit ekki hvað svæðið er kallað núna, kannski bara skíðasvæðið. Frekar ósjarmerandi. Það er náttla nostalgíja að tala um að fara upp á Dal. Þaðan eru margar dásamlegar minningar bundnar við sól, renni færi, röð í lyftum, gilið, heitt kakó og skíðaskálann. Vááá, ég flýg hér mörg, möööörg ár aftur í tímann.
Jæja aftur að deginum í dag en Ísafjörður skartaði sínu fegursta og skíðaiðkendur ættu að drífa sig í fjallið meðan snjóinn nýtur við. Maður veit aldrei hvenær hann fer að rigna sjáiði til. Skógarbrautin stendur opin þeim sem vilja koma, gista og fá sér nokkrar salíbunur í fjallinu.
Nú eitthvað fer þetta út og suður hér hjá mér þessi færsla en sem sagt var komin að því
þegar ég svo komst svo loks niður í bæ þá tók við bið í heilar 20 mínútur eftir kennaranum, í ótrúlega fallegri morgunbirtu reyndar sem skemmdi ekkert fyrir svo sem.
Aðal leikfimikennarinn var veðurteppt í Reykjavík og sú sem hljóp í skarðið var föst í stórum skafli fyrir utan húsið sitt. Púlið sem hún bauð upp á hafði góð áhrif á sálartetrið. Merkilegt hvað manni liður vel eftir svona hreyfingu. Eyddi svo deginum í allt annað en ég hafði planað. Þannig var nefnilega að ég hafði fengið símtal á fimmtudaginn þar sem ég var beðin um að gera dáldið leyndó. Já ég var alveg til í það og þetta er á föstudaginn var sagt hinu megin á línunni. Ókey, föstudaginn kl. hálf sex, ég mæti. Gott, hef heila viku til að undirbúa og æfa, ekki alltaf sem maður fær svona langan tíma. En þar sem ég er svo stödd í dag hjá mömmu með Snáðann í pössunina spyr hún mig hvaða lög ég hafi valið fyrir leyndóið í dag (laugardag) Iiiiiii, þetta er ekki fyrr en á föstudaginn segi ég. Ha, neinei maðurinn á afmæli í dag.
Upp hófst mikið hjartaflökt, sviti spratt út undan þykku úlpunni og ég eiginlega hneig niður. Hringdi í ofboði í gítarleikarann sem ég hafði hugsað með mér til verksins, en þá er hann staddur í Reykjavík. Mon dju, hvað geri ég þá?????
Læt mér detta annar í hug, sem gat sem betur fer gert þetta með mér. Dagurinn fór því í að finna lög, æfa þau og fara sem leyninúmer í 60 afmæli manns hér í bæ. Og fyrirmælin voru þessi: Komdu inn, byrjaðu að syngja án þess að segja neitt, syngdu 3 lög og farðu svo. UHHH.... já OK ég get gert þetta. Frétti svo að vinir þessa manns eru í sérlegu Hrekkjalómafélagi og vildu koma með óvænt númer í veisluna. Ég bætti um betur og fékk afmælisbarnið til að spila á sérlega hristu sem lítur út eins og paprika og vakti það gríðar lukku.
Afmælisbarnið var klappað upp.

föstudagur, janúar 12, 2007

Á Engjvagi 26 verður...

........sko alvöru veisla í kvöld.

Þar verður boðið upp á alvöru íslenskan herramans mat.

Með rófustöppu og uppstúf.

Sælubros færðist yfir andlit barnanna minn þegar þeim var sagt hvað væri í matinn.

Slátur.

Get aldrei fengið nóg af því.

Ævintýri Snáðans

Snáðinn minn fór suður í sína reglulegu rannsókn á nýrunum sl. sunnudag.
Í þetta sinn fór faðirinn með drenginn.
Rannsóknin er engin skemmtiferð fyrir hann.
Hann fær allskonar efni í sig inn um nál með krana.
Eitthvað fór þetta allt saman illa í hann.
Ég hef fengið söguna í svona skömmtun því hann á það til að koma hlaupandi til mín í miðjum leik til að segja mér frá því þegar hann ældi í lyftunni, fékk niðurgang og svoleiðis skemmtilegheit.
Á þriðjudaginn átti ég von á honum með flugi og ferðaðist hann einn í umsjá flugfreyju dagsins. Sat hér heima með verktakanum í svona síðasta tékki, því enn á eftir að klára hér lítilræði.
Símtal kom frá föðurnum að barnið væri á leið til Ísafjarðar.Ég var hér hin rólegasta og fylgdist með klukkunni því ég átti von á honum eftir 45 mínútur. En stuttu seinna fæ ég annað símtal frá föðurnum. Vélin var á leið til Keflavíkur því það hefði orðið bilun í hemlabúnaði hennar. Ég hentist upp úr stólnum og mömmuhjartað tók kipp. Aumingja verkatakinn vissi ekki hvernig hann átti að vera því ég afmyndaðist í framan og sagði bara "nei ég trúi þessu ekki". Litla barnið mitt eitt á ferðalagi og lendir í einhverjum hremmingum og mamm hvergi nálægt. Stuttu seinna hringir flugfreyjan og þegar ég heyrði í honum þar sem hann var syngjandi sæll og glaður á tali við flugmennina róaðist ég nú ögn. Tveimur og hálfum tíma síðar heimti ég hann úr ævintýrinu úr höndum flugamannsins sem var orðinn besti vinur hanns.
Í lófanum voru tveir súkkulaðimolar.
Frá flugmanninum.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Ah bhú

Er að myndast við að taka jólin saman og pakka þeim niður í kassa.

Mikið agalega verður allt tómlegt.

Leyfi þó seríunum að vera út í febrúar og gerist kertaóð.

Annars verður þetta myrkur svo yfirþyrmandi.

mánudagur, janúar 08, 2007

Músíkalst par

Er svona hérumbil hálfnuð með þessa flokkun. Held að flokkunarárátta mín hafi yfirgefið mig. Man hvað ég elskaði þetta. Heima hjá ömmu var tölubox fullt af fallegustu tölum sem ég hef nokkru sinni séð. Oh hvað ég elskaði að flokka, telja og raða þeim aftur og aftur. Skrítið hvað svona getur breyst. En á morgun þarf ég að kaupa möppur og plöst fyrir öll þessi ljósrit, mon dju hvað ég verð fegin þegar mér tekst að ljúka þessu.

Annars eru fleiri en ég í þessu húsi sem framkalla einhverskonar tóna. Hef lengi furðað mig á hljóði sem byrjar veikt vex og verður að háværum sóni sem dvínar og hættir. Suma daga heyrist þetta en aðra ekki. Og ég fór að reyna að finna út úr þessu. Komst að því að þegar það er vindur úti byrjar sónninn og ég labbaði um allt hús, hlustaði í öllum hornum og herbergjum en fann ekkert út úr þessu skrítna hljóði. Svo í gærkveldi ligg ég í rúminu að lesa og þá byrja lætin. Ég fer út að glugganum og uppgötva að loftnetið sem er beint fyrir ofan gluggann syngur einstrikað d með þessum líka fínu músíkölsku tilþrifum, crecendo-forte-diminuendo.
Ja hér alla mína daga.

laugardagur, janúar 06, 2007

Gleðigjafi dagsins

Stend frammi fyrir nánast óyfirstíganlegu verkefni.
Flokkun nótnabóka, ljósrita, kennsluefnis, kórtónlistar fyrir barnakóra, unglingakóra,blandaða kóra og kvennakóra, einsöngslaga á ljósritum sem ég hef ekki tölu á og söngbóka, píanóbóka, námskeiðsefni, popp og jazzlög og og og ..........

Eftir tónlistarþátttöku og nám frá blautu barnsbeini hefur hrúgast upp hjá manni ógrynnin öll af tónlist. Hefði eiginlega þurft hjálp frá bókasafnsfræðingi til að koma þessu í skikkanlegt horf.
Hér á Skógarbrautinni er nefnilega lítið skons inn af eldhúsinu sem var teiknað sem búr. En þar sem ég er með svo stórt eldhús sá ég ekki þörf á búri enda erum við að jafnaði 3 í heimili. Hef því fest kaup á hillum og skrifborði og ætla að gera þetta að kósí skrifstofu og tónlistarbókasafni. Finnst hugmyndin góð en er ekki alveg að hafa mig í að framkvæma hana. Hitaði mér meira að segja gott kaffi svona í von um að fá yfir mig rétta andann. Úti er bylur svo veðrið skapar alveg réttan ramma udan um þetta. Rassinn er bara svo þungur í dag. En til þess að ég geti farið að skipuleggja kennslu á hinum ýmsum vígstöðvum (tók auðvitað að mér 2 ný verkefni sem ég þarf doltið að hugsa hvernig ég eigi að hafa) verð ég hreinlega að geta gengið í þetta dót hérna. Arrrg og urrrrr bara.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Á mér að finnst eitthvað?

Er að lesa bókina Hugarfjötrar eftir höfund Alkemistans. Veit ekki ennþá hvað mér finnst um hana. Veit reyndar ekki hvað mér finnst svona yfir höfuð. Er einhvernvegin svo tóm. Nenni ekki að mynda mér skoðanir á neinu, né láta þær í ljós. Dingla bara. Líður eins og ég sé ekki með. Og veit ekki hvað mér á að finnst um það eða hvort ég eigi að gera eitthvað í málinu. Doltið skrítið ástand. Hugsa ef ég geri ekki neitt þá kannski hverfi það bara, eller??

Ný tímasetning.

Frestað.

Já kæru vinir tónleikunum var frestað um óákveðinn tíma.
Ég sem var farin að hlakka svo til.
Og þið kannski líka.
Var búin að panta mér far og allt.
En elskulega daman hjá Flugfélaginu endurgreiddi mér miðann.
Svo í staðinn verð ég með dömuboð á sunnudaginn.
Já maður finnur sér alltaf eitthvað að gera.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Syngibjörg syngur.......

Elskurnar mínar.
Ef þið viljið heiðra mig með nærveru ykkar og klappa dáldið hressilega
fyrir mér þá er tækifærið þann 7. janúar.
Þá syngur Syngibjörg á tónleikum á Nasa með hinum poppurunum
sem voru í náminu í Danska skólanum.
Ég lofa ykkur dúndur tónleikum ef við verðum í sama gírnum og á
Jazzfestival House í Köben nóvember sl. sem ég á sko von á.
Og það er skylda að koma og heilsa upp á mig þegar tónleikarnir eru búnir.
Feimni bönnuð.
Tímasetning og annað praktískt kemur þegar nær dregur.
En....
takið Sunnudaginn 7. janúar um kvöld frá.
Núna.
Jíííí hvað ég hlakka til....

mánudagur, janúar 01, 2007

Á nýju ári

Fékk mér göngutúr í dag á þessum fyrsta degi nýs árs.
Fann fyrir eftirvæntingu því ég veit að þetta ár sem í hönd fer gefur mér von um ný tækifæri.
Tækifæri sem ég hef verið að leggja grunninn að í von um betri uppskeru.
Árið sem kvaddi með öllum sínum ömurlegheitum kemur aldrei, aldrei aftur.
Og það er mikill léttir.
Veðrið var bara dásamlegt svona eins og á fallegu póstkorti þar sem snjórinn lýsir allt upp í kyrrðinni og trén standa fagurskreytt eftir nýfallinn snjó. Hugurinn reikaði og staldraði við atburði síðasta árs. Þeir voru margir og miserfiðir. Finn að ég er komin aðeins áleiðis með að tjasla sjálfri mér saman og hefur sú ákvörðun mín að flytja á heimaslóðir haft þar gríðarlega mikið að segja. Bara það að vera í þessu umhverfi er sálarbætandi.
Það líður lengra á milli "svörtu daganna" og bíð ég í ofvæni eftir að þeir hverfi for good.
Og ég veit núna svo margt sem ég vissi ekki áður. Reynsla mín hefur kennt mér að ég á ekki að þóknast öðrum eða setja mig í aðstæður sem ég vil ekki vera í til að vonast eftir viðurkenningu.
Og að vera skotspónn manns sem niðurlægir, ögrar og kvelur er staða sem ég sækist aldrei aftur að vera í.
Hef því sent sjálfri mér uppsagnarbréf.
Nýtt ár felur í sér nám sem kallar á 6 ferðir til Köben og það eitt er mikilvægt skref í átt að
uppbyggingu faglega séð og á öruglega eftir að styrkja mig svona persónulega í leiðinni.
Set því hér með upp bjartsýnisgleraugun og hvet alla að gera slíkt hið sama.
Sérstaklega í skammdeginu sem framundan er.
Skál á nýju ári!