Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, ágúst 29, 2008

Hamagangur

Þar sem ég stóð inn á baði í morgun að setja í þurrkarann heyri ég þennan gríðalega hávaða.

Stekk fram á gang og sé að ekki bara hefur svalahurðin fokið upp heldur að grillið er komið á hliðina og hefur feykst með gaskútinn í eftirdragi eftir endilöngum svölunum.Og einhvernvegin hafði slangan í gaskútnum farið undir hurðina svo ég þurfti að toga allt heila klabbið til baka til að geta lokað hurðinni. Það er nefnilega þannig að svalirnar mínar eru mjóar en svalahurðin breið og dralsið kemst ekki framhjá henni þegar hún er galopin.

Ég var nýkomin úr sturtu svo ég fékk þennan fína hárblástur á meðan ég baksaði við að koma grillinu á góðan stað án þess að slíta slönguna frá. Og svo ætlaði ég aldrei að geta lokað hurðinni því vindurinn stóð beint upp á hana og hún er frekar þung.Annars er framundan helgi sem byrjar með singalong ABBA sýningu sem við mæðgur ætlum á í kvöld. Á morgun er tónlistarskólinn í Bolungarvík settur og ég búin að láta plata mig í eitthvað söngdæmi.Er svo enn að furða mig á þessu bruðli sem viðgengst hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Staðreynd

Hah...........ferðir menntamálaráðherra kostuðu meira en árslaun tónlistarkennarans.

Lífið............

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Haustdagarnir

Viðburðaríkur dagur er á enda.
Fyrsti skóladagur grunnskólabarnanna.
Hann var fínn sagði Hlynur Ingi með mikilli áherzlu
og mér líst ljómandi vel á nýja kennarann minn.
Og svo brosti hann og það skein í stóra skarðið
í efrigómi þar sem vantar tvær framtennur.

Dagurinn minn var fullur af skipulagi og fundum
tölvupóstum og samtölum.
Spennandi verkefni framundan því
Tónlistarskóli Ísafjarðar fagnar
60 ára afmæli sínu um þessar mundir.
Veturinn leggst því ágætlega í mig
þó ég sé enn á ný orðin ein.
Það er vont en það venst.

laugardagur, ágúst 23, 2008

samtal

Brynja Sólrún var að horfa á mynd í tölvunni á leiðinni suður í gær. Svo er hún að skoða hulstrið og sér merki sem hún spyr bróður sinn hvað þýði.

Daði ( 18 ára);þetta þýðir að það má ekki skrifa diskinn

Brynja (11 ára); ha skrifa?

Daði; já afrita hann

Brynja; hvað meinarðu?

Daði; (orðinn dáldið pirraður) já þú veist "kópera" hann.

Brynja; já svoleiðis

Daði; (hneykslaður)bíddu, þarf ég að tala ensku við þig svo þú skiljir mig.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Það er gott og stundum árangursríkt að láta sig langa

Það hefur verið á dagskrá hjá mér síðan í vetur að skipta um bíl. Og ég hef haft ákveðna týpu í huga sem hentar vel aðstæðum hér fyrir vestan. Og alltaf þegar ég hef séð svoleiðis bíl á götum borga og bæja hef ég hugsað með mér að einn dag muni ég keyra á slíkum bíl.

Ég hef eytt fleiri krónum í viðgerðir á bláu þrumunni en ég kæri mig um og buddan þolir.

Þegar ég heyrði svo óhljóðin í henni sl. föstudag þegar ég var í þann mund að leggja af stað vestur leist mér ekki á blikuna. Ég brunaði á verkstæðið hjá pusjó umboðinu og lét líta á gripinn og gekk 35 kr. fátækari frá verkstæðinu eigandi eitt stykki viftu sem var valdur af óhljóðunum.
Ég fékk grænt ljós á vesturferð en ráðleggingar um að fara með gripinn á verkstæði strax á mánudagsmorgni því í ljós kom að margt annað en blessuð viftan var að gefa sig.

Á mánudagsmorgni fer ég niður í Bílatanga og rek raunir mínar og fæ í kjölfarið tíma seinna í vikunni. Þegar ég geng út í bíl aftur lít ég út á söluplanið hjá verkstæðinu, en þeir eru m.a. með umboð fyrir Toyotu, og stendur þá ekki þessi fagurblái bíll beint fyrir framan mig. Ég geng að honum til að skoða og varð strax ofur hrifin. Þarna var kominn bíllinn sem ég hafði látið mig dreyma um , á verði sem ég réði við. Fjórhjóladrifinn lítill jeppi, Toyota RAV4 og meira að segja með krók.
Og þar sem hlutirnir gerast hratt á eyrinni þá fékk ég hann afhentan í gær þegar minn fór í söluskoðun og svo gekk ég frá kaupum í dag.
Þeir tóku bláu þrumuna upp í í því ástandi sem hún var í en viðgerðarkostnaður hljóðaði upp á 18 fimmþúsundkalla svo ég er laus allra mála og get núna um frjálst höfuð strokið og keyrt óhrædd um Óshlíðina 2svar í viku í vetur þegar ég fer að kenna.
Ég brosi breitt þessa dagana.

mánudagur, ágúst 18, 2008

Ekki dauð enn

Jæja ætli sé ekki best að henda hér inn einhverju.

Er sem sagt komin heim úr fríi sem var alveg hreint ágætt bara.
Alltaf gott að koma heim, sérlega ef útlegðin hefur varið í 4 vikur eða svo.
Var farin að sakna míns eigins rúms m.a.
Og krakkana.
Mikið, mikið.

Framundan er skipulag og eru komin nokkur drög að vetrinum.
Fjárfesti í ansi hreint ágætu dagatali sem hengt er upp á vegg.
Með því fylgu allra handa límmiðar, sem höfða til yngsta fólksins á heimilinu.
Það er svona tilraun til að halda öllu til haga.
Einnig til að gera alla fjölskyldumeðlimi virka og meðvitaða.
Nú verða 3 börn á mínu heimili í vetur.
Rokkarinn er kominn.
Verður í MÍ.

Mamman glöð.
Rosalega meira að segja.

Og hann sýndi snilldartakta við eldavélina í gær.
Bauð upp á saltfiskrétt með séríósi !!! ættaðan frá Mýrargötunni.

Í hann þarf:

Olíu
grænan og svartan pipar
saltfisk eins og þurfa þykir miðað við fjölda matargesta
1 pela af rjóma
hálfan gráðost

Og svona gerum við:

Setjum olíu á pönnu og fiskinn líka.
Hellum rjóma út í og brytjum niður gráðostinn.
Piprað og látið malla.

Kartöflur eru soðnar í potti og sallat búið til úr því sem er í ískápnum.
Seríós er sett í skál og því síðan stráð yfir fiskinn þegar hann er kominn upp á diskinn.

Borðað með opnum huga og bragðið kemur á óvart.

mánudagur, ágúst 04, 2008

þrömur, eldengar og regning


Komin út til köben.
Væri til í að vera með svona glas í hendi.
En......
Neibb.......það rignir og rignir
og þrumur og eldingar fyrir utan gluggann
sé fyrir mér að gerast alvöru túristi,vopnuð regnhlíf
regnslá og götu korti.
Við erum nebblega að tala um rigningu næstu tvær vikurnar.
Og þetta er fríið mittt.föstudagur, ágúst 01, 2008

Læt slag standa

Vinkonur eru eitt af því besta sem maður hefur.
Maður getur hlegið með þeim, grátið með þeim og hellt úr hólfinu sínu þegar það er orðið yfir fullt. Og þar sem ég var að rekja raunir mínar í gær fyrir henni bestu minni henni Gróu þá spyr hún mig hvort ég sé heima í Skipasundinu.
Já ég er hér að láta mér leiðast og vorkenna sjálfir mér.
Ok ég kem segir hún.
Nokkru seinna bankar hún með látum, kemur inn og réttir mér stórann kassa.
Hérna, segir hún, taktu þetta.
Ég horfi stórum augum á hana og spyr hvað þetta sé.
Þetta er allsherjar hreinsi og uppbyggingarkúr, prufaðu þetta.
Í kassanum voru 3 stórir brúsar af Aloa Vera safa, stór dunkur af dufti og tvö glös með töflum í.
Meðfylgjandi er bæklingur og bók og skýrar leiðbeiningar og reitir til að fylla út.
Sem sagt, ég er komin á 9 daga kúr frá Live.

Ástandið getur ekki versnað hugaði ég og þar með er fyrsti dagurinn hjá mér í þessum kúr hafinn.