Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, janúar 31, 2009

bömmer

Er alveg búin eftir þetta afmæli, 18 fjörugir krakkar fylltu húsið og það var aldrei þögn í þessa 3 tíma sem afmælið stóð yfir.

Vaknaði rám og þung í hausnum sem er ekki alveg nógu gott því Sólarballið er í kvöld og ég búin að fá lánaðan kjól og alles.
Neyðarplanið fer því í gang því ekki ætla ég að sitja heima.
Ó,nei.

föstudagur, janúar 30, 2009

Brynja Sólrún


Fallega stúlkan mín er 12 ára í dag.
Hún lét bíða eftir sér í heila viku.
Svo kom hún ljúflega í heiminn í kringum sólardaginn
og amma fylgdist með.
Hún dansar ballett, spilar á píanó, syngur í kór
og sparkar bolta.
Hennar aðaláhugamál eru föt.
Þreytist aldrei á að skoða og máta.
Í kvöld verður veisla og hún bauð 20 krökkum.
Líka strákum.
Maður fullorðnast fyrr en varir.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Frumburðurinn spreytir sig
Menntaskólinn á Ísafirði.
bb.is 27.01.2009 15:26


MÍ mætir Fjölbrautaskóla SnæfellingaMenntaskólinn á Ísafirði mætir Fjölbrautaskóla Snæfellinga í átta liða úrslitum Morfís, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna. Viðureignin fer fram á sal Menntaskólans á Ísafirði kl. 20:30 á laugardag og er umræðuefnið „Á að leggja niður internetið?“ FSN mælir með umræðuefninu en MÍ á móti. Lið MÍ skipa Gunnar Atli Gunnarsson, Daði Már Guðmundarson, Hjalti Már Magnússon og Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Gullkorn

Hann sonur minn, þessi 7 ára, kom hlaupandi til mín með uppglenntann munninn og benti á tennurnar sínar.
Sagði svo ákafur; mamma mamma sjáðu tennurnar í mér, ég þarf að fá teina ég er með svo mikinn frekjuskap!!!!!

Hendin mín fína

Nú er vika liðin síðan ég losnaði við gifsið.
Hendin er rýr, aum og stirð.
Allir snúningar og hreyfingar eru takmarkaðar.
Olnboginn skýst út þegar ég legg hendina niður með flatan lófa.
Hitti sjúkraþjálfara sem teygir og togar.
Fer líka í vax sem er yndislegt.
Vaxið er sjóðandi heitt, mýkir og er verkjastillandi.
Ár sagði læknirinn, en þú færð næstum því eins góða hendi.
Svoleiðis er nú það bara.

sunnudagur, janúar 25, 2009

Mikil elja er þetta hjá blessuðu fólkinu.
Treður marvaðann í gríð og erg.
Ætli það fái ekki bráðum sinadrátt?
Það hlýtur a.m.k. að súpa hveljur í þessum ólgusjó.

laugardagur, janúar 24, 2009

Söng Öxar við ána við mótmælin á Silfurtorgi í dag.

Leið betur í hjartanu á eftir.

Skrítnir tímar.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

ég sendi héðan......

..........eins mikinn hávaða og hægt er að framleiða með pottum og sleifum ásamt vænum skammti af góðu öskri.

Látið vinsamlegast berast niður á Austurvöll.

mánudagur, janúar 19, 2009

hversu seinheppin er hægt að vera???

Síðast liðinn laugardag eftir að hafa sett inn færlsu um ófærð fóru ævintýralegir atburðir í gang.
Vegagerðin sagði Steingrímsfjarðarheiðina ófæra svo ég sat hér í öngum mínum því ég átti flug út til Köben daginn eftir. Sem ég sit hér og velti málunum fyrir mér hringir mágkona mín í mig og segist vera á leiðinni að sækja mig. Hún var að fara á sýningu á keramík og vildi endilega fá mig með. Á leiðinni niður í bæ keyrum við fram á eina matarklúbbsvinkonu, og bjóðum henni far. Hún bíður okkur heim til sín í kaffi og nýbakaða súkkulaðiköku, en hún hafði hitt hinar tvær matarklúbbskonur á mótmælunum og voru þær sem sagt á leiðinni heim til hennar líka.
Við vorum rétt komnar inn og aðeins búnar að fá súkkulaðikökuilminn í nefið þegar síminn hjá henni hringir. Á línunni er sonur hennar að láta vita að hann sé lagður af stað vestur. Ég rýk upp til handa og fóta og hvái og segi að það geti ekki verið að það sé fært, vegagerðin tjáði mér að heiðin væri ófær einum og hálfum tíma áður. Ég hringi og þá eru þeir barasta byrjaðir að moka því veðrið hafði gengið niður. Sonur minn var ræstur hið snarasta að koma sækja mig og á meðan ég beið hringdi ég í ferðalang sem hafði gefið sig á tal við mig inn á flugvelli þegar hann heyrði að ég ætlaði að keyra. Hann var staddur út í Bolungarvík en vildi gjarnan fá far því hann var líka á leið til útlanda.
Heima var allt klárt, taska og bakpoki. Ég bið soninn og hans vin sem var í heimsókn um að setja "þessa tösku" og "þennan bakpoka" í bílinn. Af stað bruna ég, fyrst niður í bæ að taka bensín og henda drengjunum út í sjoppunni. Þeir ætluðu að ná sér í mynd og ég átti svo að taka þá í baka leiðinni og setja þá út hér heima. Ég fer inn á flugvöll til að ná í ferðalanginn en hann hafði skilið farangurinn sinn eftir þar og keyri af stað. Þegar ég var búin að keyra í ca.10 mín hringir síminn.
Þar er sonurinn nett pirraður og spyr hvort ég sé ekki að koma. Vaaaaáá´hhh.....í öllum flýtinum gleymdi ég drengjunum í sjoppunni og þeir búnir að flýta sér "geðveikt mikið mamma" !!!!!!
Hann var sko ekki ánægður.
Ég tók ekki í mál að snúa við og bað þá um að redda sér fari heim, hringdu í afa hann er örugglega til í að sækja ykkur:O)
Við tók 7 tíma keyrsla í mikilli hálku og myrkri. Á sumrin tekur milli 5 og 6 tíma að fara hér á milli en það er ekki hægt að keyra sömu leið á veturna því það er ekki til peningur til að moka vegina fyrir okkur eymingjana sem kjósum að búa annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu.
Eftir að hafa skilað ferðalangnum til síns heima fór ég til vinkonu minnar í hlíðunum þar sem ég gisti. Þegar ég er að tæma bílinn finn ég ekki bakpokann. Í samtali við soninn kemur það í ljós að af einhverjum undarlegum ástæðum tókst þeim að klúðra því að setja þessar tvær töskur í bílinn.
Eftir að hafa sagt nokkur vel valin orð lagði ég á og reyndi að róa mig. Í bakpokanum var nefnilega tölvan, námsbækur, nótnabækur, passinn, ipodinn, myndavélin og hleðslutækið fyrir símann.
Daginn eftir var ég búin að hugsa út plan, plan sem átti að geta gengið upp.Mamma var fengin til að koma bakpokanum á einhvern sem var á leið suður með fyrstu vél á sunnudaginn, stjúpdóttirin átti að sækja hann út á Reykjavíkurflugvöll og ég ætlaði að taka rútuna suður í Keflavík og vera búin að innrita mig þegar hún kæmi með pokann til mín. Vélin fór 15.30 svo þetta átti að takast.
Ekki flogið sagði mamma svo í símtali nr xxxxxx.............
Þetta var nú bara ekki að gerast, fjandakornið.
Ég talaði við afskaplega elskulega konu hjá Express og útskýrði raunir mínar. Hún vildi allt fyrir mig gera en eftir 11. sept væri ekki lengur hægt að ferja töskur án farþega.
Með þessar upplýsingar fór ég í flug og hugðist reyna að finna leiðir næsta dag.
Skólinn minn er einn sá besti sem um getur þegar kemur að mannlegum samskiptum. Ég átti að fara í próf og þar sem ég get ekki skrifað út af hendinni ætlaði ég að nota tölvuna mína. Ég rek allar þessar raunir fyrir þeim og úr varð að ég fengi að taka prófið í næstu lotu því þeim fannst nú bara alveg nóg að ég hefði lagt það á mig að koma svona handleggsbrotin og keyrt í 7 tíma í þokkabót.
Við létum athuga hvað það myndi kosta að senda bakpokann með TNT. Heilar 25.000 kæru vinir!!!! Neehh.. frekar verð ég tölvulaus í viku en borga þessa svimandi háu upphæð.
Og þannig leið mín tölvulausa vika í útlöndum. Á fimmtudeginum var síminn orðinn batteríislaus, en ég hafði bara kveikt á honum á kvöldin áður en ég fór að sofa en hafði annars slökkt svona í viðleitni minni að drýgja orkuna.
Fyrsta daginn var ég hálf munaðarlaus en svo ákvað ég að taka þessu sem kærkomnu fríi frá þessum agalega tímaþjófi. Ég sat því eins og prinsessa í tímum á meðan skólasystir mín tók niður glósur fyrir mig.
Heimferðin núna á laugardaginn gekk vel nema það var glerhált alla leiðina og þá er ég að tala um GLERHÁLKU. En maður minn hvað veðrið var fallegt.
Datt inn um klukkan 3, hentist í sturtu því 3ur tímum seinna fylltist húsið mitt af söngelskum konum úr kórnum mínum. Við vorum með aðalfund, súpu og önnur skemmtilegheit.
Einhvernvegin er ég viss um að eitthvað hefur verið sett út í glasið mitt á Edinborg seinna um kvöldið því manni á ekki að líða eins og dauðadrukknum sjóara eftir 2 rauðvínsglös og eitt glas af baccardi razz???
Vááá.......ég er enn að reyna að átta mig á þessu.
Þessu öllu saman.

laugardagur, janúar 10, 2009

vesenvesenvesen

Mhuuuuu..............

ekkert flug í dag..........engin kaffihúsaferð.

ferlega fúlt.........

OG....það á að fljúga

Sit hér enn heima á Skógarbrautinni því það byrjaði að snjóa þegar ég mætti á flugvöllinn í gær.

Er búin að fá 3 sms frá flugfélaginu núna í morgun.
Það fyrsta með upplýsingum um að mæta 10.45.
Ég hentist undir sturtuna með bros á vör.
Þegar ég komu úr henni var komið sms nr.2.
Athugun 10.40.
Jæja, best að fá sér morgunmat og bíða.
Og stuttu seinna kom sms nr. 3.
Mæting í flug 11.10.
Ja hér.

Sjáumst í dag á Te og kaffi í MogM á Laugarveginum.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Í borginni

Kæru bloggvinir.

Þar sem ég verð í borginni um helgina datt mér í hug hvort þið sem lyst og löngun hafið væruð til í að hitta mig og drekka með mér einn kaffibolla eða svo á laugardaginn.
Ég mun planta mér á bókakaffið í Mál og Menningu á Laugarveginum um kl.16.00.(Súfistinnn að mér skilst)

Hlakka til að hitta ykkur.

mánudagur, janúar 05, 2009

Annus horribilis

Ef ég lít til baka og skoða árið 2008 þá má segja að það hafi verið ár veikinda og vonbrigða í einkalífinu. Vinnulega er ekki hægt að kvarta um verkefnaleysi því þau voru fjölbreytt og æði mörg.


Janúar
Í byrjun árs fékk ég verkefni á vegum Sinfóníunnar, kynnti og söng á tónleikum sem hljómsveitin hélt í íþróttahúsinu okkar. Var oft stoppuð á götu og í Bónus af ungum tónleikagestum sem upplýstu mig að ég væri konan í rauðu skónum með regnhlífina sem þau hefðu séð á tónleikunum. Þetta kallaði ævinlega fram bros hjá mér. Dóttirin varð 11 ára og ýmiskonar skapgerðarbrestir hafa gert vart við sig síðan sem sennilega yfirgefa okkur ekki í bráð.
Byrjaði annað árið í skólanum út í Köben.
Það snjóaði óheyrilega mikið.


Febrúar

Veiktist og lá á spítalanum í 4 daga. Var frá vinnu í eina viku og hélt svo að minni alkunnu bjartsýni og bjánaskap að ég væri orðin hress. Gösslaðist í vinnu eins og undin ræfilstuska.
Hefði þurft að vera lengur heima og viðurkenna að ég væri bara fjári veik. Var allan febrúar að ná mér og fram í mars. Átti góða að og fékk heimsókn að sunnan frá þáverandi deiti.
Hélt ég hefði fundið hinn helminginn.
Fór í krabbameinsskoðun sem dró dilk á eftir sér.

Enn snjóaði og börnin stunduðu skíðin grimmt.

Mars

Bryjaði þennan mánuð á námsferð til Köben, fór í leikhús og árshátíð.
Fékk kjól við rauðu skóna mína og var almennt bjartsýn.
Niðurstöður úr krabbameinsskoðuninni leyddi í ljós sár en ekkert alvarlegra en það.
Fékk skipun um að koma í janúar á næsta ári.
Ferðaðist dáldið á milli Ísaf - Rek - Akey -Rek - Ísaf í ýmsum erindagjörðum.
Í þessum mánuði byrjaði tiltekt og mokstur á skít sem í mér hafði setið í 11 ár.
Það var sársaukafullt en samt svo gott.

Apríl

Var göbbuð og hljóp 1. arpíl. Nenene bú bú....................... sviminn hrjáði mig enn og aftur og ég setti aftur í 1.gír.
Matarklúbburinn hélt í mér sósjallífinu og bjargaði mér frá algerri einangrun og dauða.
Enn var ferðast á milli Ísaf - Rek - Ísaf
15. apríl markaði nýtt upphaf hjá mér; ég keypti mér mína fyrstu íþróttaskó og hóf að stunda ræktina 3x í viku undir árvökulu auga Óla sjúkraþjálfara.
Hann hélt líka mokstrinum áfram.


Mai
Enn var farið til Köben, og við heimkomuna tók við löng vinnutörn.
Lennti í aftakaveðri á leið vestur upp á Steingrímsfjarðarheiði með sprungið dekk.
Var heppin að fá hjálp en tapaði einu vetrardekki því það fauk eitthvert út í vindinn.
Það hefur ladrei komið í leitirnar og hefur sjálfsagt einhver huldukonan tekið það til hliðar.

Lauk tónleikum og prófum og hlakkaði til sumarsins.

Júní

Frumburðurinn kom til mín til sumarvinnu, skrapp samt á tónleika með Kiss út til Köben og sendi glaður heim mynd því til staðfestingar. Hann varð einnig sjálfráða.
Gekk laugaveginn með skemmtilegum hóp af fólki, og fannst ég hafa sigrað heiminn því þessi ferð var ákveðin þegar ég lá sem veikust.
Átti góða daga með börnunum og deitinu að sunnan.
Fór líka norður og heimsótti góða vini.
Sviminn bankaði aftur upp á og ég var eins og í vímu.
Meltingarfærin gerðu uppreisn og ég gekk um með þaninn kvið eins og ólétt kona.
Ég pantaði mér tíma hjá meltingarsérfræðingi og fékk tíma í lok september.

Júlí.

Fékk tíma hjá meltingarsérfræðingi í gegnum klíkuskap.
Versnaði og versnaði, drakk Aloa Vera safa, hreinsaði út og gerði allar kúnstir.
Allt kom fyrir ekki.
Var barnlaus og lifði leti lífi í borginni, leigði íbúðina mína fyrir vestan,hitti vinkonur, borðaði ótæpilega af grilluðum mat, drakk mikið rauðvín og bjó hjá deitinu.
Sérfræðingurinn lagði til að ég sniðgengi fructósa og við tók að lesa sér til um það og kanna innihaldslýsingar á matvælum sem rötuðu í innkaupakörfuna.

Ágúst.

Meltingarfærin komin í algerar ógöngur. Það var sama hvað ég gerði, ekkert dugði.

Framundan var námsferð til Köben í lok mánaðarins og svo viku sumarfrí í kjölfarið með deitinu.
Krónan hækkaði stöðugt og allt var orðið helmingi dýrara.
Þegar heim kom var farið að súrna í grautnum.
Samskiptum mínum við deitið, sem hafði verið mér góður, rann sitt skeið.
Ristillinn gekk með öfugum formerkjum og allt var komið í steik.

Keypti mér loksins nýja bíl.

September.

Varð einu ári eldri.
Fór í ristil og magaspeglun sem endaði með ósköpum.
Lenti aftur inn á spítala.
Uppgötvaðist hjá mér bakflæði og núna tek ég nexium einu sinni á dag og er með ristil og meltigarfæri sem virka og virka vel.
Frumburðurinn tók þá skemmtilegu ákvörðun að flytja til mín og hefja nám við MÍ.
Við tók að færa fólk á milli herbergja, kaupa hillur og koma sér fyrir. Hann hélt svo áfram trommunámi sínu í Tónlistarskólanum og stefnir á grunnstigið.
Tónlistardagurinn mikli gerði stormandi lukku og næsta víst að hann verði árlegur viðburður héðan í frá.
Lennti á skralli og eingaðist nýjan vin.
Vin sem býður mér í mat, kaffi og talar við mig, er skemmtilegur og sjarmerandi.
Fékk atvinnutilboð sem ég gat ekki hafnað og bætti því á mig enn einu verkefninu.

Október

Fór í 5. námsferð þessa árs til Köben. Vann mikið, stundaði ræktina sem hélt mér gangandi.
Vetur konungur hélt innreið sína og Syngibjörg naut sín í nýja bílnum.
Matarklúbburinn blómstraði og hugmyndir um námskeið og önnur skemmtilegheit litu dagsins ljós.

Nóvember

Skilaboðaskjóðan og Hárið æfð á víxl ásamt fullri kennslu og einhverskonar heimilishaldi.
Orðin súr yfir hruninu og krónunni sem kom m.a. í veg fyrir að ég komst ekki í 6. og síðustu námsferð þessa árs til Köben.
Frumsýning á Skilaboðaskjóðunni tókst með afbrigðum vel og uppselt var á allar sýningar og aukasýningar.
Lifði í einskonar móki og tók einn dag í einu til að fara ekki á límingunum vegna vinnuálags.
Frumsýndi Hárið við dúndrandi lófaklapp, flaut og húrrahróp. Þetta litla samfélag okkar á svo sannarlega flotta unglinga.
Yngsti fjölskyldumeðlimurinn varð 7 ára, og var búinn að missa báðar framtennurnar.

Desember

Jóla jóla jóla törn
Í það heila kom ég að 17 tónleikum þennan mánuð.
Eftir tónleika númer 6 var kominn tími að gera sér glaðan dag. Sá gleðilegi dagur endaði upp á spítala þar sem konan var úrskurðuð tvíhandleggsbrotin.
Hélt þó áfram að vinna og klára mína pligt en fékk þó aðstoð.
Jólaundirbúningurinn breyttist því skyndilega í hjálp í viðlögum þar sem einhenta konan átti í hlut. Matarklúbburinn sýndi snilldartakta og átti heila opnu og eina til í jólablaði BB (bæjarins besta).
Hef farið í reglulegt tékk með röntgenmyndum og umbúðaskiptum.
Allt lítur þetta vel út en svo á eftir að koma í ljós hvernig gengur að ná upp fyrri færni og styrk.
Og ég öskraði á eftir stóru rakettunni sem puðraðist upp í loftið á gamlársdag.
Í þessu öskri kristallaðist allt það sem 2008 stóð fyrir, veikindi og vonbrigði.
Og innst í hjarta mínu á ég mér ósk, ósk um að annað eins ár komi aldrei, aldrei aftur.
Og ég hef spurt , hvenær er komið nóg???????
Og svar mitt er þetta:

NÚNA ER KOMIÐ NÓG

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Púmmmm.......og upp það fuðraði árið 2008


Gleðilegt nýtt ár kæru vinir nær og fjær.

Óska ykkur gæfu á nýju ári.

Þó útlitið sé ekki bjart þá skulum við ekki gleyma að við eigum fallegt land
sem bíður upp á óendanlega möguleika.