Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, september 22, 2009

Lagið hennar Gabriellu

Sáuð þið myndina á rúv á sunnudagskvöldið??
Ef ekki þá skuluð þið verða ykkur út um hana.
Ég grét, ég hló, ég var með munninn opinn og uppglennt augun, ég fékk hroll og fann tárin á kinninni streyma niður.
Sko, ég er yfirleytt ekkert svona viðkvæm en þessi mynd er sú allra fallegasta sem ég hef lengi séð. Og Gabrielas song sem er sungið í myndinni á hug minn allan þessa dagana.
Farið hingað og hlustið.
Það er einhvernveginn svo dásamlegt þegar framleiddar eru myndir um manneskjur og þá raunverulegar manneskjur, ástina og lífið. Því öll jú þráum við að verða hamingjusöm ekki satt, en margir fara fjallabaksleiðina að því og það þekki ég sjálf.
Lagið í myndinni heyrði ég fyrst fyrir 2ur árum þegar skólasystir mín í CVI söng það í tíma. Við sátum öll sem steinrunnin því við vorum m.a. að vinna með túlkun á textum og lagið syngur hún Gabriella sem er beitt miklu ofbeldi af hálfu mannsins sín og allir vissu það en enginn sagði neitt. Þekkjum við ekki svoleiðis allt of vel???
En það dásamlega við þetta allt saman er að þegar maður ákveður að fara standa allir með manni og slá skjaldborg utan um mann.
Maður viðurkennir ástandið og gefur sig á vald þeirra sem hjálpa.
Það er mikill kærleikur.

sunnudagur, september 20, 2009

mmmmm..... ég elska Bingókúlur

Með kjaftinn fullann af bingókúlum sit ég hér á Skógarbrautinni og blogga!!!!!
Fékk saknaðarkvart og ákvað að henda inn einni færslu EN.... ég lofa engu um framhlaldið!!!!

Það hefur eins og gefur að skilja ýmislegt á dagana drifið síðan síðast og væri það að æra óstöðugan að fara að telja það allt upp. En góðu fréttirnar eru þær að ég hef það eins og blóm í eggi, er í mínu 5 mánaða námsleyfi og sit niðri í Háskólasetri á morgnana og stúdera söngtækni og kennslu. Það fer að styttast í útskrift hjá kellunni og er það bæði svona vont og gott. Buddan er farið að kvarta sáran yfir öllum krónunum sem fara í að kaupa mat á danskri grundu og þarf ég að kafa djúpt þessa dagana til að skrapa saman nokkrum aurum fyrir ferðirnar. Það sá náttúrlulega enginn maður þetta fyrir og ég kát og glöð gat keypt mér far með Express á rúmar 20.000 og verslað í H&M á hele familien. Núna - herregud- lokar maður augunum áður en síðan hjá Express poppar upp á skjáinn og svo kíkir maður ofurhægt á milli fingranna og til að draga úr sjokkinu sem maður verður fyrir þegar bláköld talan stendur þarna fyrir framan mann. Svo fer maður í súperbrusen og kaupir sér mat og eldar til að taka með sér nesti í skólann-gúddbæ veitingahús pa Kultorvet:-(
En ég á eftir að sakna Kaupmannahafnar, hef verið mikill aðdáandi hennar undanfarið og vona að allt það góða fólk sem ég hef kynnst sl. 3 ár verði þarna þegar ég hef svo loksins efni á að ferðast til borgarinnar sem enginn veit hvenær verður.
Og auðvita hefur hrunið komið hingað á Skógarbrautina. Greiðsluþjónustan hefur hækkað um 40.000. á þessu tímabili og þarf nú að sýna hagsýni og spekúlera út hvern mánuð fyrir sig.
Byrjaði því að prjóna í gríð og erg í sumar og hef framleitt 3 peysur og nokkra vettlinga ásamt sjali svona á milli þess sem ég hjóla, gef grislíngum að borða og kyssi kallinn.
Mamma tók til í einum skápnum hjá sér í haust og ég græddi ógrynnin öll af garni svo verkefnin hrannast upp og jólagjafir fara að líta dagsins ljós svona með haustinu.
Mömmuhjartað var dálítið svona órólegt í haust en hefur jafnað sig að mestu því ekki nóg með að rokkarinn hafi farið aftur suður í MH heldur flutti söngdívan til Berlínar í framhaldsnám og er að fóta sig áfram í hinum stóra heimi. Maður ber þá von í brjósti að það sem maður nestaði þau með í gegnum uppeldið gagnist þeim nú.
Jæja, bingókúlurnar eru búnar svo ætli ég segi þetta ekki gott í bili.

Ljúfar yfir.