Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Skrímslaveikin

Ég er lítið lasið skrímsli
og mig langar ekkert út.
Hornin mín eru völt og veik
og mig vantar snýtuklút.

Ég er orðin upplitaður/uð
ég er orðin voða sljó
ég held ég hringi á lækni
því halinn er svo mjór.

Skrímsli eru eins og krakkar
ósköp vesæl ef þau næla sér í kvef.
Hver er hræddur við skrímsli
sem er hóstandi´og með stíflað nef?

Æi mamma, elsku mamma
nú ég meðal verð að fá.
Glás af iðandi ormum
annars kemst ég ekki´á stjá.

Skrímsli eru eins og krakkar
ósköp vesæl ef þau næla sér í kvef.
Hver er hræddur við skrímsli
sem er hóstandi´og með stíflað nef?

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Það var erfitt að skafa af bílrúðunum í morgun. Ég fékk að vísu dygga hjálp frá 6 ára snáðanum mínum en hann kvartaði undan því hvað "frostið væri fast á rúðunni" eins og hann tók til orða.
Hér hefur tíðin verið risjótt og allar tegundir af útifötum í gangi í einu. Forstofan mín er full af göllum, hlífðarbuxum, regnúlpum, úlpum, stígvélum, kuldastígvélum, lúffum, fingravettlingum, húfum, treflum og buffböndum. Allt þetta verður að vera við hendina þegar halda á út í daginn því maður veit aldrei hvort úti er rigningarslapp með tilheyrandi lækjum um allar götur, jörðin sé alhvít af snjó nú eða hvort frostið bíti kinn.
Ég lét setja nagladekkin undir þegar fyrsti snjórinn kom fyrir um mánuði síðan. Mikil umræða hefur verið um það hvort banna eigi slík dekk á götum úti. Það sem ég hef saknað í þessari umræðu er að það er ekki sama hvar á landinu þú býrð og hverskonar vegi þú ert að keyra. Ég myndi t.d. ekki vilja vera á grófum dekkjum keyrandi á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur því eins og fram hefur komið er sú hlíð með þeim hættulegri á landinu. Hana keyri ég tvisvar í viku vegna vinnu og verð að játa að með nagladekkin undir bílnum finn ég fyrir öryggi í allri þeirri misjöfnu veðráttu sem ég hef lent í. Ég notaði aldrei nagladekk þegar ég bjó í Reykjavík, enda festist snjór það ekki svo auðveldlega á götum og engin þörf fyrir þau þar. Svokölluð bóludekkk, sem ég hef reyndar ekki reynslu af sjálf, hafa reynst vel á höfuðborgarsvæðinu nú eða þessi grófu og koma í veg fyrir svifrykið sem er alltaf að aukast. Fræðingarnir gleyma nefnilega stundum að vegakerfið hér á landi er ekki eins og ætla mætti árið 2007.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Hlynur Ingi 6 ára

Snáðinn minn er 6 ára í dag.
Ljósmóðirin var búin að gefa til kynna að
hann væri svona um 14 merkur en nei,
hann hafði nú haft það svo gott þarna inn í hitanum
og dafnað svo um munaði að það stóðst engan veginn.
Þegar hann fæddist var hann því heilar 17 merkur.
Móðirin, sú litla kona, var nú frekar fegin að vita það ekki
svona á meðan öllu stóð að von væri á stórum pilti.
Hann er yngstur í systkinahópnum og þarf stundum að hafa fyrir hlutunum.
Honum finnst skemmtilegast að vera í Lego
og er svo heppinn að hafa erft heilan helling frá stóra bróður.
Hann er með þeim yngstu í sínum bekk
og var því orðinn heldur spenntur að verða 6 eins og hinir.
Ekkert gaman að vera 5 ára og byrjaður í skóla.
Í dag er hann farinn að lesa, svona bara á sínum hraða,
og skrifa heil ósköp af orðum og búa til litlar sögur.

Þessi mynd var tekinn af honum og Brynju Sólrúnu systur á Kanarí í sumar.
Við vorum að bíða eftir að krókódílasýningin hæfist og fannst honum svona vissara að halda í stóru systur svona ef þeir myndi koma og bíta hann í rassin.
(Sem hann var alveg sannfærður um því þeir eru með svo stóran munn!!)

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Rólegheitin eru draumsýn sem birtast þegar ég ýminda mér þau.

Erilsöm helgi er að baki. Þegar ég flutti hingað á heimaslóðir hélt ég í barnaskap mínum að ég myndi hafi minna að gera og hefði meiri tíma til að sinna mér og börnunum. Að sumu leiti er það þannig því ég er í kringum 7 mín að keyra heim úr vinnu og þarf ekki að stoppa við nein umferðarljós eða sitja föst í umferðaröngþveiti sem gerir að ég er komin heim skömmu eftir að vinnu líkur og hef því tíma hér heima við sýsl af ýmsu tagi. Vinnan er samt farin að flæða yfir allt og hef ég í fleiri horn að líta þegar hún er annarsvegar en var þegar ég bjó fyrir sunnan. Og af því að ég hef "svo lítið að gera " þá bætti ég við mig tveimur kórum núna um daginn. Annað verkefnið er fram að 9. desmeber og felst í því að kenna um 15 drengjum að syngja með englaröddu svo þeir geti brætt ömmu og afa hjörtun á jólatónleikum karlakórsins sem nota bene eru þrennir í ár. Og það er æft tvisvar í viku. Nú... á næsta ári fagnar Tónlistarskóli Ísafjarðar að það eru 60 ár frá því hann var stofnaður. Af því tilefni hefur hátíðarkórinn verið endurvakinn og hafnar eru æfingar á Gloriu efit Poulenc sem flutt verður með Sinfóníuhljómsveitinni í lok janúar á næsta ári. Ekki seinna vænna en að byrja að æfa strax og það í annasamasta mánuði tónlistarmanna, desember. Og ég tók að mér að leiða sópraninn í gegnum þetta og raddæfa hann.....la dí da......
Síðasti kennsludagurinn í fjölmenningarsetrinu er á þiðjudaginn og er ágætt að finna að eitthvað tekur enda. Tælensku konurnar mínar þar kunna núna að syngja; Krummavísur, ferskeytlurnar um Siggu litlu systur, Kristínu með köldu lófana, ásamt hinum um það sem pabbi má ekki vita.
Einnig kunna þær Hani, krummi, hundur, svín en eiga enn í vandræðum með að bera fram orð eins og geltir, hrín og hneggjar, lái þeim hver sem vill. Í þessum hópi eru menntaðir lögfræðingar og viðskiptafræðingar ásamt snyrtifræðingum og nuddurum. Og við hvað vinna þær? jú að skúra, skeina og beita. Hef stundum velt því fyrir mér hvort ég myndi flytja til annars lands t.d Tælands til að vinna við akkúrat það sama og þær gera hér, með þá menntun sem ég hef. Það er nokkuð ljóst að þær hafa sínar ástæður fyrir því að flytjast hingað og koma úr allt öðrum menningarheimi en við eigum að venjast. Samt sem áður er stundum holt að setja sig í þessi spor eiginlega bara til að sjá hvað maður hefur það assgoti gott, en kann stunum ekkert að meta það.

Á laugardaginn var sungið allan daginn frá hálf níu um morguninn með kvennakórnum til hálf tólf og klukkan hálf tvö hitti ég unglingakórinn og var æft stíft með smá pásu til fimm. Þá örkuðum við upp í kirkju og tók við söngur í klukkutíma í viðbót. Og hvað þær sungu dásamlega. Ég get eiginlega ekki orða bundist. Þær hafa tekið slíkum framförum að það fær mig til að minna mig á hversvegna ég lagði þetta fyrir mig og þiggja svo alltaf þessi skítalaun fyrir. Heim á Skógarbrautina skunduðu svo 23 galvaskar stúlkur ,orðnar sársvangar af öllum söngnum hentust þær í að útbúa sér pizzur í stóra eldhúsinu mínu. Það var mikið fjör og mikið pælt í magni af áleggi og osti ásamt því hver væri flínkust í að fletja út sitt deig. Eftir að allar voru orðnar saddar settumst við niður og horfðum á West Side Story sem eru auðvita bara snilldin ein. Þurfti þó á smá reddingu að halda þar sem mitt DVD tæki spilar ekki myndir keyptar í Ameríku. En eitt símtal reddaði málum og hingað kom samkennari minn ásamt sínum ekta maka með sitt tæki sem er svona múlti eitthvað og hann barasta græjaði þetta og tengdi og alles. Sem ég segi ekki amalegt að eiga góða að.
Nú er komið yfir miðnætti og dagurinn í dag orðinn að deginum í gær sem fór í kökubakstur og afmælisveislu. Já og líka eina kóræfingu.
Og svo hef ég hnerrað óskaplega alla þessa daga.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Tónleikar


Langar að vekja athygli ykkar á þessum tónleikum.
Get alveg lofað ykkur dúndur söng úr barka stjúpdóttur minnar.


miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Litli bróðir 30 ára.

Afmæli þú átt í dag
út af því við syngjum lag.
Sama daginn sem er nú
sannarlega fæddist þú.
Til hamingju með heilladaginn þinn
heillakallinn minn.


Allt þér gangi vel í vil
vertu áfram lengi til.
Allt þér gangi vel í hag
höldum upp á þennan dag.
Til hamingju með heilladaginn þinn
heillakallinn minn.

Klæ klæ

Er með óútskýrðan kláða og sviða ofan á þumalfingri.
Það er enginn roði eða útbrot sjáanleg en kláðinn er mikill.
Byrjaði upp úr þurru í gær.
Fullkomlega fáránlegt.

Fékk annars feitann reikning þegar ég sótti bílinn minn í gær.
Svo feitann að ég fer ekki út til Köben í skólann í desember.
Já veski einstæðu móðurinnar þolir ekki svona ágjöf rétt fyrir dýrasta mánuð ársins.

Er það ekki annars rétt hjá mér að klæi manni í lófann sé það fyrir peningum?
Ef svo er þá vona ég að kláðinn færi sig frá þumalfingri inn í lófann.
Ekki seinna en núna.

mánudagur, nóvember 19, 2007

Söngdívan




Fallega stúlkan í rauða kjólnum heldur framhaldsstigstónleika sína í sal Söngskólans í Reykjavík í kvöld kl. 20.00 ásamt samnemendum sínum.
Ég sit hér heima og verð að gera mér það að góðu að hugsa til hennar og dáðst að henni úr fjarlægð.
Held að yfir mér vaki heilladís.

Allavega var eitthvað svoleiðis með mér í gær því þetta rann upp úr mér stórslysalaust þrátt fyrir að hinn óboðni gestur hafi tekið sér bólfestu í raddböndunum.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Gat nú verið

Búin að anda að mér gufu og hósta upp slími.

Talröddin rám.

Söngröddin með þreytulegan hljóm.

First Aid aðferðin notuð.

Bara ekki panikkera þó það séu bara 2 tímar í að ég troði upp.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Sjúddirarírei

Bíllinn er enn bilaður. Þeir finna alltaf eitthvað nýtt sem er að honum. Og svo þarf að panta varhlutina að sunnan og þeir koma með póstbílnum. Það gerist ekkert hér svona entútre.
Á von á að fá bílinn eftir helgina og feitann reikning með.

Fannst alveg ferlega gaman að horfa á Ísfirðingana mala Reykjanesbæ í Útsvari. Flottar konur þar og bráðvel gerður ungur maður hann Halldór. Ég er illa svikin ef það á ekki eftir að heyrast í honum á tónlistarsviðinu í framtíðinni því hann getur spilað allt sem sett er fyrir framan hann hvort sem það er klassík, djass eða popp. Pabbi hans er gamli menntaskólakennarinn minn sem mér þykir alltaf svo vænt um því hann kunni svo að meta tónlistarnámið sem við tvær frænkurnar stunduðum og fengum einingar fyrir í MÍ. Ég útskrifaðist nefnilega af tveimur brautum,tónlistar og svo mála og samfélagsbraut. Og við vorum þær fyrstu og held ég þær einum í mörg ár sem vorum á tónlistarbraut.

Sá svo rokkarann minn í hvítri skyrtu syngja Jónasar lög í beinni í kvöld. Mömmu hjartað sló hratt því hann hefur verið á leiðinni til mín sl. tvær helgar en er svo upptekinn að það er engu lagi líkt. Næstu helgi er það söngur með Sinfó og svo eru bara prófin að bresta á um mánaðarmótin næstu.

Veit ekki alveg hvernig ég á að komast af á bílsins um þessa helgi því hér er þjónustan ekki komin á það stig að verkstæðið bjóði bíl þegar þú kemur með þinn í viðgerð.
Árshátið starfsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar er annaðkvöld og sem kennari tónlistarskólans fer ég þangað og er auðvita búin að láta véla mig í söng og sprell. Nema hvað. Og þaðan er svo hægt að fara í partý hjá Kvennakórnum mínum. Ss. Ísafjörður-Bolungarvík -Ísafjörður annaðkvöld. Daginn eftir er dagskrá í Holti vegna 100 ára afmælis Guðmundar Inga skálds og þar á ég líka eitthvað að góla. Verð með Kaldalóns lög í möppunni, allt verstfirskt auðvita. Og til marks um hvað það er gífurlega mikið að gera hér á þessu svæði þá tók það mig samtöl við 7 píanista til að fá "pjanó spil" með söngkonunni. Sá sjöundi var líka sá fyrsti svo ég fór eiginlega í hring. Og þegar ég var búin að snúa nógu mikið upp á trýnið á henni (ekki hendina alltsvo því þá gæti hún ekkert spilað) þá baðst hún vægðar og lofaði að spila með mér. Í staðin fer ég með henni á karlakórsæfingu eftir sönginn í Holti og æfi litla drengjakórinn sem er æfður upp fyrir jólatónleika kórsins. Þetta eru aðallega synir kórfélaga. Og ég hafði ekki samvisku til að segja nei þegar hún bað mig þó ég hefði yfir nóg að gera í að láta ísfirðinga syngja. Meiri áráttan annars að syngja í kór. En jæja hvað er ég að kvarta, ég er þá ekki atvinnulaus á meðan.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Djöfull er leiðinlegt að vera ekki skotin í neinum.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Mánudagseintakið



Eins og ég er ánægð með bílinn minn á þessari mynd þá er ég það nú ekki núna.

Vandræðum okkar saman ætlar engann enda að taka.

Núna er það hvarfakúturinn og púströrið.
Það drynur um allan bæ þegar ég bregð mér á milli staða.

Og jú ég fæ reyndar smá athygli út á þetta og svona "hissa" svip hjá fólki.

Hvaða læti eru þetta í tónlistarkennaranum??
Getur hún ekki framkvæmt hljóð sín á minna áberandi stað en götum bæjarins.
Læti eru þetta alltaf í þessu tónlistarfólki.



Varahluturinn kemur með morgunfluginu í fyrramálið og ég fæ blá-mann vonandi seinnipartinn.

Þýðir samt að ég þarf skutl út í Bolungarvík (enginn strætó sem gengur á milli) og heim aftur og svo á kóræfingu. Frekar flókinn dagur á morgun og þá er ég bíllaus.


Ó, ó mig auma.

Og pyngjan léttist ógurlega við þessa uppákomu.


Og það eru að koma jól.............bráðum....


Þar fór jólagjafasparnaðurinn fyrir lítið

laugardagur, nóvember 10, 2007

Bragðvont

Mæli ekki með að fólk borði kartöffluflögur og sötri kaffi með.

Hræðileg samsetning.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Eyrin
Nú er ár síðan ég flutti á Skógarbrautina og gerðist skógarpúki.
Það er með því gáfulegasta sem ég hef gert um ævina.
Þessi mynd er af útsýninu sem ég hef út um svefnherbergisgluggann minn.



Myndin hér fyrir neðan er tekin úr Hvilftinni (Skessusætinu) í sumar, en á henni sést umhverfið sem heilsar mér á hverjum degi í mismunandi litum og helst hvítum þessa dagana.



Í þessu umhverfi hef ég hlúð að sjálfri mér og börnunum.
Og finnst það besta í heimi.



Mugison


Í gærkveldi fór ég á útgáfutónleika Mugison hér í Edinborgarhúsinu .
Þetta voru frábærir tónleikar, bandið var þétt og hann í banastuði.
Það var troðfullt hús og mikil stemming.
Keypti tvo diska og er þar með búin að redda jólagjöf.
Hvet ykkur hin að láta þessa tónleika ekki fram hjá ykkur fara.
Hann er að túra um landið þessa dagana.

laugardagur, nóvember 03, 2007

Ég segi ekki (draum) farir mínar sléttar

Mig dreymdi í nótt að ég væri að rífast við minn fyrrverandi.
Rifrildið stóð um tvær mublur.
Ég var alveg harðákveðin í að fá hvíta stofuskápinn en hann uppástóð að hann ætti að koma í sinn hlut ég gæti tekið þennan með brotnu rúðunni.
Ó nei góði öskraði ég og stóð alveg á öndinni af reiði.
Þú treður honum sko ekkert upp á mig því það varst þú sem braust rúðuna.
Og út strunsaði ég yfir í eldhúsið til að klæða mig í appelsínugula blússu utan yfir topp í sama lit.

Í gamni fór ég inn á draumur.is til að lesa hvað það þýðir að dreyma rifrildi og appelsínugulan lit.

Um reiði má lesa eftirfarandi:

Að vera reiður við einhvern í draumi er öruggt merki um að sá hinn sami er tryggasti vinur þinn. Ef einhver skammar þig er trúlegt að upp komi ófriður á heimilinu og má taka þetta sem ábendingu um að gæta tungu þinnar svo ekki hljótist leiðindi af. Að dreyma að maður reiðist ofsalega en geti haldið reiði sinni í skefjum er fyrir upphefð og álitsauka. En ef reiðin brýst út er það ekki góðs viti og getur bent til þess að þú byrgir inni óánægju í vökunni. Sumir ráða skapofsadrauma þannig að þá sé dreymandi að fá útrás sem hann fái ekki í vöku og séu þeir af hinu góða.

Um appelsínugult segja þeir þetta:

Appelsínugult er alvarleg viðvörun - þú ert á mikilvægum tímamótum - taktu bæði verðurfréttir og staðarákvörðun áður en lengra er haldið. Þarftu ekki hjálp við hvoru tveggja?

Mér finnst þetta alveg hryllilega fyndið því samkvæmt þessu er minn fyrrverandi minn tryggasti vinur. Máltækið "þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur" átti við mig fyrir bráðum 2ur árum, en sem betur fer ekki lengur. Svo ekki er nú mikið mark takandi á þessu.

Jæja þá er það hin skýringin.

Og ég spyr mig; Syngibjörg, ertu með mikla innbyrgða reiði??
Og eftir dálitla hugsun þá er þeirri spurningu svarað neitandi því reiðin er eiginlega horfin.
En vel má vera að inni í mér sé enn reiði sem hefur þurft að fá útrás og þá er nú barasta ágætt að láta gossa í draumi. Það særir allavega engann á meðan.

Hitt er mér aðeins meiri ráðgáta, appelsínuguli liturinn.

Hvar á ég að leyta hjálpar? á veðurstofunni kannski HA!!!!!!!
Eða þarf ég að fjárfesta í áttavita.

Ég er boðin í hús í kvöld til að spila og veit ekki til þess að ég sé neitt að leggjast í önnur ferðalög en á milli húsa.

En kannski/sennilega er þetta vísbending um hið innra; sálina.
Aumingjans sálin.
Sem er með svo mörg ör.
En eru á fuuuuulllllluuuu að gróa.
Ég þarf nefnilega ekki plástur lengur.
Hætt að blæða.

Jíbbíkóla -------fyrir því.

föstudagur, nóvember 02, 2007

Skiptir það máli?

Fékk óvæntan póst áðan í pósthólfið mitt.

Hafði ekki heyrt frá viðkomandi síðan um páska.

Ekki stakt orð.

Var spurð hvort ég gæti fyrirgefið.

Og það var þá sem ég uppgötvaði að ég er ekki langrækin.

Var búin að fyrirgefa í hjartanu þó ég hafi ekki fengið tækifæri á að tjá það.

Er svo núna að velta því fyrir mér hvort það sé kostur eða galli,
að vera ekki langrækin.



Kannski skiptir það ekki máli.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Vetrarsúpan góða

Að beiðni meðalmannsins kemur uppskrift af eðal vetrarsúpu en ég bauð henni og börnunum tveim í mat þegar hún var stödd hér um daginn.
Súpan bragðaðist ákaflega vel og er mjög góð með nýbökuðu brauði.

Vetrarsúpa, þakkargjörðarsúpa fyrir 4 til 6.

4 stk sætar kartöflur, afhýddar og skornar í litla bita
1 kg gulrætur skornar í bita
1- 2 laukar skornir
2-3 msk grænmetiskraftur ( án allra aukaefna)
1 tsk turmerik
salt
1 tsk pipar
1/2 tsk engiferduft
3 msk olía
1 tsk múskat
1 líter vatn, til að byrja með
1 dós kókosmjólk

Sjóða kartöflur og gulrætur.Mýkja laukinn í olíu ásamt kryddinu.
Blanda því svo saman við soðið grænmetið og setja vatnið út í.
Láta suðuna koma upp og láta malla.
Smakka til og salta (ég bætti við töluverðu af kryddi)
Maukið súpuna og bætið kókosmjólkinni við.
Ef súpan þarf meira vatn (sumir vilja þunnar en aðrir þykkar) bætið þá við.

Saxið niður steinselju og/eða kóríander því gott er að láta það út á súpuna.

Borin fram sjóðandi heit með nýju brauði.

verði ykkur að góðu