Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Það var erfitt að skafa af bílrúðunum í morgun. Ég fékk að vísu dygga hjálp frá 6 ára snáðanum mínum en hann kvartaði undan því hvað "frostið væri fast á rúðunni" eins og hann tók til orða.
Hér hefur tíðin verið risjótt og allar tegundir af útifötum í gangi í einu. Forstofan mín er full af göllum, hlífðarbuxum, regnúlpum, úlpum, stígvélum, kuldastígvélum, lúffum, fingravettlingum, húfum, treflum og buffböndum. Allt þetta verður að vera við hendina þegar halda á út í daginn því maður veit aldrei hvort úti er rigningarslapp með tilheyrandi lækjum um allar götur, jörðin sé alhvít af snjó nú eða hvort frostið bíti kinn.
Ég lét setja nagladekkin undir þegar fyrsti snjórinn kom fyrir um mánuði síðan. Mikil umræða hefur verið um það hvort banna eigi slík dekk á götum úti. Það sem ég hef saknað í þessari umræðu er að það er ekki sama hvar á landinu þú býrð og hverskonar vegi þú ert að keyra. Ég myndi t.d. ekki vilja vera á grófum dekkjum keyrandi á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur því eins og fram hefur komið er sú hlíð með þeim hættulegri á landinu. Hana keyri ég tvisvar í viku vegna vinnu og verð að játa að með nagladekkin undir bílnum finn ég fyrir öryggi í allri þeirri misjöfnu veðráttu sem ég hef lent í. Ég notaði aldrei nagladekk þegar ég bjó í Reykjavík, enda festist snjór það ekki svo auðveldlega á götum og engin þörf fyrir þau þar. Svokölluð bóludekkk, sem ég hef reyndar ekki reynslu af sjálf, hafa reynst vel á höfuðborgarsvæðinu nú eða þessi grófu og koma í veg fyrir svifrykið sem er alltaf að aukast. Fræðingarnir gleyma nefnilega stundum að vegakerfið hér á landi er ekki eins og ætla mætti árið 2007.

5 Comments:

  • At 28/11/07 10:20 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Ég held nú reyndar að það detti engum í hug að banna naglana úti á landsbyggðinni.

    Keyrði samt á mínum loftbóludekkjum í flughálku til Akureyrar í mars, hnikaðist ekki á veginum... ;)

     
  • At 28/11/07 2:30 e.h., Blogger Harpa Jónsdóttir said…

    Efast ekkert um það - en vegurinn um Óshlíðina er nú fáum líkur...

     
  • At 28/11/07 5:37 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    Ég líki nú ekki veginum til Akureyrar saman við Óshlíðina sem hefur tekið mörg mannslíf vegna snjóflóða og mikils grjóthruns úr fjöllunum.

     
  • At 28/11/07 6:20 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    ég hef nú keyrt um Vestfirði að sumri til og fannst nóg um.

    mundi varla þora þarna spönn frá rassi að vetri til...nema á torfærutrukki.

     
  • At 28/11/07 10:51 e.h., Blogger Ameríkufari segir fréttir said…

    Aðstæður eru ekki líkar á öllum hornum landsins og verður því að smíða sér stakk eftir því.
    Ég vildi stundum að hér væru einhversskonar vetrardekk því malbikið hér verður svo gríðarlega hált við rigningar og svo auðvitað frost. En úr því að ekki er úr þeim að moða þá þakka ég mínum sæla fyrir 4-hjóladrifið.
    Farðu varlega.

     

Skrifa ummæli

<< Home