Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Rólegheitin eru draumsýn sem birtast þegar ég ýminda mér þau.

Erilsöm helgi er að baki. Þegar ég flutti hingað á heimaslóðir hélt ég í barnaskap mínum að ég myndi hafi minna að gera og hefði meiri tíma til að sinna mér og börnunum. Að sumu leiti er það þannig því ég er í kringum 7 mín að keyra heim úr vinnu og þarf ekki að stoppa við nein umferðarljós eða sitja föst í umferðaröngþveiti sem gerir að ég er komin heim skömmu eftir að vinnu líkur og hef því tíma hér heima við sýsl af ýmsu tagi. Vinnan er samt farin að flæða yfir allt og hef ég í fleiri horn að líta þegar hún er annarsvegar en var þegar ég bjó fyrir sunnan. Og af því að ég hef "svo lítið að gera " þá bætti ég við mig tveimur kórum núna um daginn. Annað verkefnið er fram að 9. desmeber og felst í því að kenna um 15 drengjum að syngja með englaröddu svo þeir geti brætt ömmu og afa hjörtun á jólatónleikum karlakórsins sem nota bene eru þrennir í ár. Og það er æft tvisvar í viku. Nú... á næsta ári fagnar Tónlistarskóli Ísafjarðar að það eru 60 ár frá því hann var stofnaður. Af því tilefni hefur hátíðarkórinn verið endurvakinn og hafnar eru æfingar á Gloriu efit Poulenc sem flutt verður með Sinfóníuhljómsveitinni í lok janúar á næsta ári. Ekki seinna vænna en að byrja að æfa strax og það í annasamasta mánuði tónlistarmanna, desember. Og ég tók að mér að leiða sópraninn í gegnum þetta og raddæfa hann.....la dí da......
Síðasti kennsludagurinn í fjölmenningarsetrinu er á þiðjudaginn og er ágætt að finna að eitthvað tekur enda. Tælensku konurnar mínar þar kunna núna að syngja; Krummavísur, ferskeytlurnar um Siggu litlu systur, Kristínu með köldu lófana, ásamt hinum um það sem pabbi má ekki vita.
Einnig kunna þær Hani, krummi, hundur, svín en eiga enn í vandræðum með að bera fram orð eins og geltir, hrín og hneggjar, lái þeim hver sem vill. Í þessum hópi eru menntaðir lögfræðingar og viðskiptafræðingar ásamt snyrtifræðingum og nuddurum. Og við hvað vinna þær? jú að skúra, skeina og beita. Hef stundum velt því fyrir mér hvort ég myndi flytja til annars lands t.d Tælands til að vinna við akkúrat það sama og þær gera hér, með þá menntun sem ég hef. Það er nokkuð ljóst að þær hafa sínar ástæður fyrir því að flytjast hingað og koma úr allt öðrum menningarheimi en við eigum að venjast. Samt sem áður er stundum holt að setja sig í þessi spor eiginlega bara til að sjá hvað maður hefur það assgoti gott, en kann stunum ekkert að meta það.

Á laugardaginn var sungið allan daginn frá hálf níu um morguninn með kvennakórnum til hálf tólf og klukkan hálf tvö hitti ég unglingakórinn og var æft stíft með smá pásu til fimm. Þá örkuðum við upp í kirkju og tók við söngur í klukkutíma í viðbót. Og hvað þær sungu dásamlega. Ég get eiginlega ekki orða bundist. Þær hafa tekið slíkum framförum að það fær mig til að minna mig á hversvegna ég lagði þetta fyrir mig og þiggja svo alltaf þessi skítalaun fyrir. Heim á Skógarbrautina skunduðu svo 23 galvaskar stúlkur ,orðnar sársvangar af öllum söngnum hentust þær í að útbúa sér pizzur í stóra eldhúsinu mínu. Það var mikið fjör og mikið pælt í magni af áleggi og osti ásamt því hver væri flínkust í að fletja út sitt deig. Eftir að allar voru orðnar saddar settumst við niður og horfðum á West Side Story sem eru auðvita bara snilldin ein. Þurfti þó á smá reddingu að halda þar sem mitt DVD tæki spilar ekki myndir keyptar í Ameríku. En eitt símtal reddaði málum og hingað kom samkennari minn ásamt sínum ekta maka með sitt tæki sem er svona múlti eitthvað og hann barasta græjaði þetta og tengdi og alles. Sem ég segi ekki amalegt að eiga góða að.
Nú er komið yfir miðnætti og dagurinn í dag orðinn að deginum í gær sem fór í kökubakstur og afmælisveislu. Já og líka eina kóræfingu.
Og svo hef ég hnerrað óskaplega alla þessa daga.

5 Comments:

  • At 26/11/07 8:28 f.h., Blogger Meðalmaðurinn said…

    Til hamingju með Snáðann, loksins orðin sex ára eins og bekkjarfélagarnir, það hlýtur að vera stór dagur í dag!

     
  • At 26/11/07 8:39 f.h., Blogger Syngibjörg said…

    Takk fyrir það mín kæra. Hann stækkaði um heilan helling í nótt.

     
  • At 26/11/07 1:24 e.h., Blogger Ameríkufari segir fréttir said…

    Veistu hvað? Ég vil segja þér,án væmni,að ég dáist að þér. Þú ert hörkudugleg, gefandi og drífandi.
    Þú átt hrós skilið fyrir allt sem þú gerir og svo ég tali nú ekki um íslenskasöngkennslu fyrir erlenda-Ísfirðinga. Ég tek ofan fyrir þér.
    Svanfríður.

     
  • At 26/11/07 3:42 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    sammála síðustu ræðukonu!

     
  • At 26/11/07 4:55 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    Svanfríður og Baun,sit hér og í kinnarnar kom smá *roðn*, takk fyrir hrósið báðar tvær.

     

Skrifa ummæli

<< Home