Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, júní 30, 2006

Skilgreiningafóbía

Þá er það klappað og klárt.
Búið að semja um útborgun, yfirtöku á lánum og afhending verður í október.
Er alveg að hrikalega ánægð.
Kem í höfuðborgina næsta föstudag til að velja innréttingar, tæ og gólfefni .
Hlakka mikið til.
Að búa til mitt eigið heimili.
Og svo fer ég líka í brúðkaup, sem heitir víst að staðfesta sambúð hjá samkynhneigðum.
Asnalegt að geta ekki kallað þetta giftingu, því vissulega giftast þær hvor annari.
Kirkjan hengir sig í gamlar skilgreiningar og segir að hjón séu maður og kona.
Nú má þá ekki bara setja kk- greini og kvk-greini við orðið hjón svo allir fái "réttu" skilgreininguna samkvæmt kirkjunni.
Að menn skuli hengja sig í smáatriðin sýnir fordómana í hnotskurn.
Ef við hugsum okkur þetta þá er ekki vitlaust að giftir karlar verði hjónar og giftar konur verði hjónur. Eða að þeir segi við erum karlkynshjón og þær segja við erum kvenkynshjón. En svo er annað mál hvort orðið hjón þarf endilega að nota. Það að vísu á sér fasta mynd í huga okkar og gefur okkur skýra stöðu einstaklingsins í þjóðfélaginu. Maður þarf oft á tíðum að skrifa hjúskaparstöðu sína. Skrifaði t.d. í fyrsta sinn í dag "fráskilin".
Finnst þetta vont orð.
Afhverju má ég ekki bara skrifa sjálfstæð, eða 40 ára kona.
Hvaða árátta er þetta að setja okkur alltaf í skilgreiningarbása. Jújú, kerfið þarf að vita hvernig ég sem einstaklingur funkera í því. Hvar á að staðsetja mig og hvernig. Er samt meinilla við orðin "einstæð" og "fráskilin" því þeim fylgja fordómar.
Og orðin öskra á mann að ég sér MISLUKKUÐ og hafi klúðrað lífi mínu.

Þegar elsti sonur minn ( 16 ára í dag) var 6 ára vorum við stödd í umferðinni og ég nýbúin að sækja hann í skólann. Hann er mikill spekingur og var oft að spyrja og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Þetta var í desember og ég átti eftir rúmar 6 vikur af meðgöngunn með barn númer 2. Ég var þá eins og nú einstæð móðir. Hann er eitthvða að velta þessu fyrir sér og spyr;
mamma þarf maður ekki að vera giftur til að eignast börn?
Nei, svara ég, ég er ekki gift pabba barnsins í kúlunni.
Ó, segir hann eftir smá umhugsun, svo kom" hey mamma, bráðum átt þú tvö börn með tveimur mönnum og ef þú kynnist svo nýjum manni og eignast með honum barn, þá áttu 3 börn með 3ur mönnum. "
Og svo flissaði hann af þessari merku uppgötvun sinni.
Ég sat aftur á móti frosin í framan, gat engan veginn tekið þátt í þessari merku uppgötvun hans því ég vonaði að það yrðu nú ekki örlög mín að lífið yrði svo flókið.

fimmtudagur, júní 29, 2006

íbúð ???

Jíbbíjæjei, jíbbí kóla og hún er mín, já hún er mín.

Sagði það.

Vissi það.

Lífið er dásamlegt.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Hér er hjólað

Síðan ég kom hingað vestur hef ég nær eingöngu notað hjól í allar mínar ferðir um bæinn.Það er stutt síðan gerð var hjóla og skokk braut héðan frá eyrinn inn í fjörð. Þá leið hef ég hjólað nánast á hverjum degi mér til ánægju og heilsubótar. Vaknaði snemma í morgunn, dressaði mig í útirvistagallann og hjólaði af stað í blíðskaparveðri. Ég mætti nokkrum skokkurum á leiðinni og hjólaði fram úr Lúlú. Eiginlega heitir hún Hugljúf. Dásamlegt að heita slíku nafni. Túrinn sem ég tók héðan frá mömmu, inn í fjörð og til baka tók um hálftíma. Það var smá vindur en sólin skein skært og gerði reyndar í allan dag. Skellti svo í mig morgunmat og stökk undir sturtuna því í dag gerðist ég búðarkona í Hafnarbúðinni og átti að mæta í vinnuna. Þar seldi ég útivistargalla, hjálpardekk, spúna, flíspeysur svo eitthvað sé nefnt í dag því vöruúrvalið er ótakmarkað og það fæst ALLT í sambandi við útivist og sport í Hafnarbúðinni. Ég þarf að setja mig inn í MARGAR gerðir af efnum með hina ýmsu eiginleika, það eru jakkarnir með vindvörn og vatnsvörn og öndunareiginleika. Líka buxur, sko. Svo er það þetta efni sem er notað í fóðrið og undir hendurnar til að ná önduninni og allt er þetta samsett úr efnum með alla þessa eiginleika. Virkar eins og frumskógur á mig. Sumir örugglega orðnir ringlaðir á þessari upptalingu. Það var ég í dag og brosti svo bara meira þegar ég vissi ekkert hverju ég átti að svara.

Krakkarnir eru núna hjá pabba sínum.
Það er skrítin upplifun.
Veit ekkert hvað ég á að gera við allan þennan tíma sem ég fæ allt í einu.
Þarf að læra þetta og venjast þessu.
En..... ég er byrjuð að prjóna aftur, jeijeijei
Það hef ég ekki gert í 2 ár eða eitthvað.
Fann afganga hjá mömmu og uppskrift af Baby born fötum.
Auðvelt til að koma mér aftur í gírinn því mig langar að prjóna á mig fallega peysu.
Já lífið hér er nú barasta indælt get ég sagt ykkur nema ég er ekki enn búin að finna íbúð. Hér er úrvalið ekki mikið ein og er en var víst ansi fjörugt í vor þegar ég var föst í ákvarðananeti annars manns. Er farin að sjá eftir því að hafa hætt við íbúðina á Skógarbrautinni. Er búin að blikka móður mína til að kanna hvort hún er enn laus því ég kann ekki við að hringja og spurja um hana aftur. Líður eins og "geturðuekkigertupphugþinn" manneskju sem ég er nefnilega ekki. En er semsagt komin í hring með þessi íbúðarmál.
Hef samt eitthvða á tilfinningunni að þessi íbúð sé ætluð mér.
Asnalegt, en svona er það nú samt. Og ég er búin að lofa sjálfri mér að leyfa þessum eiginleika mínum að vera til.
Svo á morgunn kemur í ljós hvort tilfinningin er rétt.

mánudagur, júní 26, 2006

Hvar eru allir?

Eru allir farnir í sumarfrí??

Ég hallast helst að því.

Hér kvittar varla nokkur maður.

Hef aldrei verið fljótari með blogghringinn eins og undanfarna daga. Þeir sem eru á link listanum mínum eru nánart dauðir úr öllum æðum nema kannski tveir, í mesta lagi þrír.

Ansi dapurt eitthvað.

Maður verður eiginlega hálf einmanna, saknar kommenta frá fólki og finnst maður vera að skrifa eitthvað út í bláinn.

Furðuleg upplifun, eiginlega hálf kjánaleg en er þarna samt.

laugardagur, júní 24, 2006

Spakmæli dagsins

Sá þetta í kommentakerfi eins bloggara og ákvað að stela því og birta það hér.



"Veldu þér ást þína, og elskaðu síðan val þitt"

fimmtudagur, júní 22, 2006

Fótbolti















Hér sjást þau systkinin ásamt frænkunni á fyrstu fótboltaæfingunni.
Pírðu augun og opni munnurinn sem einkennir ættina leynir sér ekki hjá rauðu systkinunum.
Ponsí er núna farin að æfa með sínum aldursflokki við litla hrifningu Snáðans.
Hékk á síðustu æfingu í móður sinni og brast svo kjarkur þegar búið var að skipta í lið og leikurinn að hefjast. Við erum samt staðráðin í að láta þessa byrjunarörðuleika á okkur fá heldur mæta galvösk næsta mánudag.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Bóka klukk

Fékk klukk frá Hildigunni, skemmtilegt bókaklukk.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Hrikalega stór spurning en í hugann kemur upp Húsið með blindu glersvölunum eftir Herborgu Vassmo.
Svo verð ég að nefna Biblíuna og Karitas. Er bara komin á fyrstu blaðsíðurnar á Draumalandinu og því of snemmt að nefna hana.

2. Hvernig bækur lestu helst?

Skáldsögur verð ég að segja og bækur tengdar vinnuni.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Er alltaf með 2-3 í takinu í einu og voru það Karitas, Orð dagsins og Uppkomin börn alkóhólista.

Og svo er að klukka.
Liggur beinast við að klukka bókmenntafræðinginn Guðrúnu Láru,
Gunnar Ben múltímúsíkant, Giovönnu galvösku og Dísku skvísu frænku mína sem er núna heima en býr að öllu jöfnu í USA.
Skellti mér upp á hjólið núna í morgun til að skreppa út í búð.
Skreppið tók klukkutíma því ég hitti svo mörg gömul andlit sem öll buðu mig hjartanlega velkomna heim.
Allir stoppuðu til að spjalla og spurjast frétta; hvort ég væri búin að fá íbúð, snáðinn komin í leikskólann og hvað ég ætlaði að gera næsta vetur.
Það er svo góð tilfinning sem fylgir því að fá þessar hlýju móttökur.

Og bærinn minn gefur ekkert eftir á menningarsviðinu því í gærkveldi voru opnunartónleikar tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Peter Maté og Guðrún Birgisdóttir héldu þrusu tónleika í Hömrum og boðið var upp á rautt og hvítt í lokinn.
Ég get því sótt tónleika núna á hverjum degi ásamt masterklass. Ekki leiðinlegt.
Held ég skelli mér svo í einkatíma hjá Diddú, er það ekki bara?
Það er ekkert betra meðal til en söngur þegar lundin er í lægð.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Í gær fóru börnin mín í fyrsta sinn á fótboltaæfingu.
Snáðinn fékk takkaskó og Ponsí fékk nýja íþróttaskó.
Þarna stóðu þau svo sæt, héldust í hendur og demdu sér út í ný ævintýri.

Hér bíða okkar vonandi nýjir og betri tímar þó skapið í dag sé eins og veðrið.
Þungbúið og búið að rigna.

Allir taka því rólega og eru enn á náttförunum þó komið sé undir hádegi.
Mikið ósköp er það nú dægilegt.

Held ég lagi mér kaffi.

mánudagur, júní 19, 2006

Á besta stað í heimi

Það fór nú svo að tölvan kom með mér og hér sit ég í gamla herberginu hans Einars bróður og blogga.

Næstu dagar fara í að finna húsnæði. Ég hætti við að kaupa íbúðina inn í firði. Skynsemisröddin hvíslaði því að mér að skynsamlegast væri að leigja svona fyrst í stað. Allavega á meðan ég veit ekki hversu lengi ég ætla að búa hér.
Þar sem lítið framboð er af leiguhúsnæði hér á besta stað í heimi þá gæti ég þurft að bíða í einhverja mánuði sem hentar nú ekki sérlega vel.
Æskuheimili föður míns sem búið er að gera svo fínt er laust til leigu í október. Það er ekki alveg að gera sig. En dagurinn í dag fer í að gera fyrstu könnun á ástandinu.

Allir eru glaðir og kátir, ég þó mest.

föstudagur, júní 16, 2006

Að hleypa heimdraganum

Þá er hún Hrundin mín flutt að heiman.
Eyddum morgninum í að setja allt hennar hafurtask á kerru og keyra milli staða. Herbergið hennar er galtómt og það glymur inn í því.
Man alltaf þegar ég flutti að heiman.
Þá þurfti að pakka allt vandlega inn því dótið fór á milli landshluta.
Pabbi var búinn að ná í einangrunarplast og límrúllu og pakkaði stólum og rúmgöflum vel og vandlega inn og setti pappa á fætur og horn svo húsgögnin yrðu ekki fyrir neinu hnjaski í flutingunum. Enda var ég lengi að pakka utan af dótinu þegar ég kom suður. Allt komst þó heilt til skila og átti ég föður mínum það að þakka þó ég hafi býsnast yfir vandvirkninni.
Man líka þegar hann var búinn að pakka inn síðasta húsgagninu stóð hann upp, andvarpaði og sagði svo; þetta er er allt einhvernveginn svo skrítið. Mér finnst þetta svo óraunverulegt, því í mínum huga ertu bara litla stelpan mín. En samt orðin þetta stór að þú ert að flytja að heiman. Ég verð nú einhvern tíma að venjast þessu.
Aftur á móti var ég alveg tilbúin að yfirgefa föðurhúsin, orðin tvítug og fannst lífið bíða eftir mér.
Allt var svo spennandi.
Þetta var árið 1986.
Man að ég borgaði 15,000. í leigu.
Ég leigði herbergi í íbúð á Snorrabrautinni. Reyndar var það stofan í íbúðinni. Í hinum tveimur herbergjunum voru tvær stúlkur að norðan. Saman deildum við baðhergergi og eldhúsi. Önnur þeirra er ein af mínum bestu vinkonum í dag hin er fyrrverandi kærasta barnsföður míns. Leiðir þeirra höfðu ekki legið saman þá en þegar ég kynntist honum 1996 höfðu þau verið par nokkrum árum áður. Svona er heimurinn lítill og skrítinn.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Líkamsástand

Þegar hamaganginum linnir og maður fer að slappa af eftir veturinn fara ýmsir verkir að láta á sér kræla. Þreytan hefur sest á ýmsa vöðva í líkamanum sem eru stífir, bólgnir og aumir.
Fékk t.d. hálsríg fyrir rúmum mánuði sem er enn að plaga mig. Nær frá hársrótum vinstra megin niður undir herðablað.
Og mjaðmirnar ææææææ. Elsku mjaðmirnar mínar sem fengu slæma útreið þegar ég gekk með snáðann og hafa ekki borið sitt barr síðan.

Auma ástandið.

Hér þarf greinilega að gera bragarbót á.

Hreyfa sig. Þanebblaþa.

Svo nú þegar rigningin bylur ekki lengur á rúðunni held ég sé best að drífa sig út í hjólatúr. Hressleikinn alveg að fara með mig.

NOT.

Keypti ægilega fínt rúm fyrir nokkrum árum. Voðalega fín dýna, eitthvað sem heitir Tempur dýna og á að laga sig að líkamanum. Hún er greinilega ekkert að sinna sínu hlutverki þessa dagana því hún aðlagar sitt hreint ekki neitt að mínum auma líkama. Vakna stíf og stirð eins og ég hafi verið að moka skít í 10 tíma.

Verst hvað það er hrikalega dýrt að fara í nudd.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Daddara......

......komin heim út hitanum. Ferðin var svona uppírútuinníkirkjuuppírútuinníkirkjuferð.
En samt sem áður mjög ánægjuleg.
Hitinn var kærkominn en viðbrigðin mikil þegar maður kom heim.
Borðaði fullt af góðum mat og verslaði á mig sumardress.
Við tók sessjón í Complete vocal náminu mínu og verð ég að viðurkenna að ég var nú dáldið þreytt. Loftkælingin í rútunni fór heldur ekkert vel með röddina mína. En þetta slapp nú samt og í dag söng í belting eins og ég hefði aldrei gert áður. jesssssss.........
Fórum áðan að skoða íbúina sem Hrundin flytur í á Nýló. Hrikalega flott.
Og rokkarinn flytur í lok vikunar til pabba síns.
Allir sem sagt að fara í sitthvora áttina.
Skrítið.
Fer svo sjálf vestur undir helgi.
Þar sem ég man ekki passwordið mitt inn á bloggið því ég hef aldrei þúrft að nota það þá veit ég ekki hvað ég á að gera þegar ég verð komin vestur því tölvan fer ekki með mér. Kanski stofna ég bar nýtt. Sé til.

fimmtudagur, júní 08, 2006

Breytingar

Yngstu afkvæmin flugu vestur í dag en þeirra beið "súkkulaðikjöt" í brúnni sósu með kartöflumús hjá ömmu og afa. Snáðinn vildi nú meina að það væri verið að plata sig; það væri ekkert kjöt búið til úr súkkulaði.

Kvöddum alla í leikskólanum og Snáðinn bauð upp á muffins og saltstangir.
Ponsí fékk einkunnirnar sínar í dag og fékk flottan vitnisburð.
Kvöddum einnig kennarann hennar sem hún hefur haft frá upphafi.
Faðmlagið var innilegt og rósin féll í kramið.

Og í dag seldum við. Förum í fyrramálið að skrifa undir og erum sátt við það sem við fengum fyrir kofann. Afhending verður í ágúst. Þetta er dáldið skrítin tilfinning. Stóð og horfði út í garðinn minn sem ég hef miklar mætur á og hef verið duglega að gróðursetja ýmsar plöntur sem eru farnar að vaxa og dafna með tilheyrandi knúppum og blómstrandi fegurð í öllum litum.
Það þarf að fara að slá.
Elska lyktina sem kemur af nýslegnu grasi.
Á eftir að sakna þessa garðs.
Og rólunnar.

En það kemur eitthvað nýtt í staðinn.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Ferðahugur

Á föstudaginn flýg ég til London og gisti á þessu hóteli sem ku vera steinsnar frá Oxford Street.

Börnin fara vestur sama dag og verða þar þangað til ég kem til þeirra tæpri viku seinna.

Ferðaáætlun er ströng eins og venja er í kórferðum Mótettukórsins en samt verður tími til að borða góðan mat skála í góðum mjöð.

Eitthvað verður hægt að skoða í búðir eins og venja er að íslendingar gera þegar þeir fara til útlanda en buddan leyfir ekki mikil útgjöld sem fyrr.

Er farin að hlakka til enda með miklum öðlingskórfélögum í herbergi.

Vona að það verði hlýtt svo maður geti farið í pilsin sem bíða inn í skáp eftir að verða notuð.

Haldiði ekki að ....

það hafi komið tilboð í kofann í dag nanannanananaaaaaaaaaaa.....

Nú fer ég að verða spennt.

Loksins eitthvað að gerast.

mánudagur, júní 05, 2006

Biðstofa

Ég er ekki flínk að bíða.

Verð óþolinmóð sérstaklega þegar ég þarf að bíða eftir því að aðrir taki ákvörðun
um hluti sem mér finnst liggja í augum uppi.

Biðin er versti óvinur minn þessa dagana.

Það gersti ekkert á meðan.

Ekki hægt að byrja á neinu né enda neitt.

Bara vera.

Vera í sömu sporum.

Sporum sem ég vil ekki vera lengur í.

Þau meiða mig.

Gera mig dapra.

Og þá spyr maður hvenær er komið nóg?

Hvað er nóg?

Búin að lesa öll blöðin á biðstofunni og hef ekki verið kölluð inn.

Hvenær kemur að mér?

Tónleikar

Smá plögg

En í dag kl. 17 eru vortónleikar Mótettukórsins í Hallgrímskirkju.
Prógrammið er austur- evrópskt og spennandi.

Áhugasamir geta haft samband við mig og fengið miða á aflslætti.

föstudagur, júní 02, 2006

Fasteignasala

Fólkið kom og skoðaði í dag.

Allt hér í blómum frá nemendum mínum sem kvöddu mig svo fallega.
Eins lifa blómin sem Árnesingakórinn færði mér fyrir 2ur vikum.
Þau tryggja það svo sannarlega að ég gleymi þeim ekki í bráð.
Ein rós af 4um farin en hin blómin lifa.
Blómin lífga svo sannarlega upp á tilveruna.

Var fegin að sólin skein því garðurinn varð svo fallegur í birtunni.
Blómin í beðinu komin með knúppa og sum farin að springa út.
Svo er bara að bíða og sjá hvort einhver sýni kofanum áhuga.

Hér er hægt að sjá Nesveg og allar fínu myndirnar sem fasteignasalinn tók bæði inni og úti.

Tilraun nr. 2

Var að læra nýtt á blogginu.

Sjáum nú til.

Hrund er að syngja á Blúshátíð á Akureyri í kvöld og sunnudagskvöld.

Virkar þetta?

Linka vísun

Var að læra dáldið sem ég ætla að prófa.

En Hrundin kemur frám á Blúshátíð á Akyreyri í kvöld og sunnudagskvöld.

Jíi, skyldi þetta virka.

Linka vísun

Var að læra dáldið sem ég ætla að prófa.

En Hrundin kemur frám á Blúshátíð á Akyreyri í kvöld og sunnudagskvöld.

Jíi, skyldi þetta virka.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Skoðun

Hef reynt að þrífa íbúðina í dag.
Eigum von á fólki á morgun að skoða.

Ekki alveg að takast að þrífa.
Hér er fullt hús af börnum.
Ponsí kom heim með 4ar skólasystur.
Allar voða svangar.
Svo ég fór í þjónshlutverkið.
Þær pöntuðu samlokur með skinku og osti.
Skellti því í brauðgrillið og töfraði þetta svo fram með Ribena.

Og núna eru skólalit hjá Ponsí og Monna.
Hún búin að punta sig í pils og setja á sig hálsmen.
Ég eins og arigintæta.
Jæja, ekkert við því að gera.
Smá gloss gæti bjargað einhverju.
Getur einhver skaffað mér fleiri tíma í sólarhringinn?

Einhver sem notar þá ekki alla?

Eða eru allir í sömu sporum og ég.

Kemst t.d. ekki norður á fyrstu blústónleika Hrundar. Er hrikalega spæld yfir því.
Síðustu æfingar Mótettunnar nálgast óðum með tónleikum 5. maí, annan í hvítasunnu.
Flott prógramm. Austur-Evrópskt.
Svona raddkiller.
Ég meina hver annar er Goretski semur músík þar sem sópranin syngur a" í heila 16 takta og það í hálfnótum!!!!!!
Gargandi snilld - eða þannig.

Er líka að fara að syngja í brúðkaupi mágkonu minnar.
Það þarf líka að æfa.
Brúðkaupið kemur í miðja geðveiki næstu helgar.
Hrundin kemur fljúgandi á milli konserta til að vera með.
Held við ættum að fá okkur einkaflugvél.
Væri allagvega til í að vera með vængi.
Svo ég gæti flogið.
Látið mig berast með vindinum.
Stefnulaust.
Lenda svo á fallegum stað og hvíla mig.
Hvíla mig lengi.