Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Enn og aftur pakka ég fötum niður í ferðatösku.
Eins og mér finnst það leiðinlegt.
Er samt komin í þjálfun og get verið snögg.
Sem betur fer, það lækkar leiðindastuðulinn.

Vona að þokunni létti svo hægt verði að fljúga.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Endurfundir

Eftir tæplega 7 vikna aðskilnað sameinumst við á ný á föstudaginn. Lengi vel var ekki vitað hvað amaði að honum. Hann gekkst undir margar flóknar skoðanir og rannsóknir. Hér stóðu menn á gati og vissu ekki neitt. Samt tóku þeir 40.000 kr. fyrir. Ekki var hægt að una því að 600.000 kr. bíl væri bara hent rétt sí svona á haugana svo að lokum var ákveðið að flytja hann suður til Reykjavíkur með fluttningabíl. Á verkstæðinu hjá umboðsaðilum "Pusjó" fannst sundurtættur vír sem kom í veg fyrir að rafmagnið kæmist inn á kerfið og hann hrykki í gang.
Syngibjörg er að vonum kát og glöð eftir 7 vikna bílleysi. Þó manni finnist gaman að hjóla og fara ferða sinna fótgangandi þá er nauðsynlegt að eiga eitt svona farartæki. Stuttar ferðir um firðina hér í kring hafa farið fyrir lítið og ferðalög í borgina orðin flókin og kostnaðarsöm.
Gleðin er því við völd hér og nú sem endranær.

mánudagur, ágúst 27, 2007

Fyrsti skóladagurinn


Í bítið í morgun þegar skógurinn skartaði sínu fegursta héldu þessi systkin af stað í áttina að strætóskýlinu. Þetta var merkisdagur í lífi Snáðans.
Fyrsti skóladagurinn.
Stóra systir hélt í hendina á honum, valdi sæti í rútunni og passaði upp á að hann spennti beltið.





Fyrir framan skólann var mikið um að vera því 7. bekkur var að fara í skólabúðir.
Einhvernveginn varð Snáðinn oggu ponku lítill með allan þennan skara fyrir aftan sig
og af myndinni að dæma líst hinum svona mátulega á þetta.
Eftir skóla spurði ég hvað hann hefði nú gert þennan fyrsta dag í.
Uhhh sagð´hann.....við vorum að teikna............og lita........ og æfa okku.....svo kom með svona vonsviknum tóni í röddinni.......en við lærðum ekkert að lesa......"dæs".
Þannig er að hann hefur ekkert verið að velta þessu fyrir sér að byrja í skóla
og eiginlega verið mjög áhugalaus um þetta málefni.
Samt sem áður hafa svona ýmiss fræ tekið sér bólfestu í huga hans um hvað skólaganga snúist eiginlega um og kom í ljós í dag að í hans huga fer maður í skóla til að læra að lesa.
Ég gat þó sannfært hann um að þetta væri nú bara byrjunin
og fljótt færu þau að glíma við lesturinn.
Já, ég vona það því þá þarftu ekki að lesa fyrir mig á kvöldin lengur, ég geri það bara sjálfur.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Hef ekki gefið mér tíma í blogg.
Tíminn hingað til verið uppfullur af allskonar skemmtilegheitum.
Lífið gengur og gengur vel.
Nem ef vera skildi vandræðin með bílinn.
En ég hef það á tilfinningunni að það eigi eftir að leysast á besta veg.
Hef verið að lesa The Secret sem ég keypti í Leifi Eiríkssyni
og finnst athyglisvert
hvernig maður getur stjórnað og laðað að sér hluti
með því að hugsa um þá og segja óskir sínar upphátt.
Kannski þessvegna sem ég hef fengið 3 símtöl þar sem
mér hefur verið boðin kennsla.
Langar alveg að trúa því.

Og í tilefni dagsins, því Kaupmannahöfn er búin að vera yndisleg þessa 5 daga og boðið upp á fallegt veður með uppáhalds hitastiginu mínu, set ég hér tilvitnun úr bókinni.

"Most of us have never allowed ourselves to want what we truly want,
because we can´t see how it´s going to manifest"

"See things that you want as already yours.
Know that they will come to you at need.
Then let them come. Don´t fret and worry
about them. Don´t think about your lack of them.
Think of them as yours, as belonging to you,
as already in your possession."

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Dagur 2 í sumarfríi




Hvern morgunn sátum við úti á svölunum og borðuðum morgunmat.
Daginn eftir að við komum héldum við í Baku, vatnleikjagarðinn sem var hinumegin við hótelið.



Hér eru allir orðnir klárir í slaginn við vatnið og rauða kælitaskan frá Glitni kom sér vel í hitanum sem stóð í 31°C þennan dag. Sólaráburður var settur á fólk í stórum stíl til að koma í veg fyrir sólbruna, en samt náði Rokkarinn að brenna á bakinu.
Snáðanum fannst þessi rennibraut lang skemmtilegust og fékkst ekki til að prófa neina aðra.


Í gegnum allan garðinn rann "Á" og fannst Ponsí mjög notalegt að sitja á þessum kút og dóla sér.


Æi hvað það er gott að láta sólina skína á sig.
Snáðinn kann að láta sér líða vel.
Garðurinn lokaði klukkan 6 og höfðum við þá buslað í heila 6 tíma.
Við vorum orðin frekar svöng og röltum heim á leið og hlökkuðum til að fara í bæinn og labba niður"Laugarveginn" eins og aðalgata Fuerteventura er kölluð af Íslendingunum.
Heilsan var ögn skárri enda íbúfenið ekki langt utan seilingar og brutt reglulega.
Við urðum ekki fyrir vonbrigðum með matinn enda eins gott því maturinn sem við fengum kvöldið áður var sá versti sem við höfðum smakkað. Gerðum þau regin misktök að fá okkur að borða í "sjoppunni" hjá hótelinu. Þurrar franskar og hamborgari með kjötfarsi er ekki beint girnilegt en vegna svengdar var þessu hespað niður með miklu magni af kóki.
Segi söguna af heimsókninni á Logo Poko á morgun.








fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Kanaríferð Skógarbúa

Með 39 stiga hita, bullandi hálsbólgu og beinverki vaknaði ég eldsnemma til að koma liðinu á lappir. Við vorum á leið til Kanarí -í frí , jíbbí, fyrir alla nema mig.
Ég bruddi íbúfen í morgunmat (og alla aðra morgna þessarar ferðar) til að slá á þennan mjög svo óvelkomna ferðafélaga.
Eins og blogglesendum er kunnugt hafði Snáðinn farið og verslað evrur í bankanum hér á Ísafirði og var því vígreifur og glaður með peninginn sinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann vildi eyða peningum í allt sem hann sá og fannst hann vera ríkasti maður heims. Mórðirin vildi nú hafa einhverja skynsemi í þessu og reyndi að stýra kaupum Snáðans í þá átt.






Á þessri mynd, sem var með þeim fyrstu sem við tókum á nýju myndavélina, sést nýja úrið sem hann keypti sér. Þannig er að Snáðinn spyr hvað klukkan er í tíma og ótíma. Nú erum við laus undan þeim spurningum en í staðinn er alltaf verið að segja okkur hvað klukkan er:O)





Þarna bíða Rokkarinn, Ponsí og Snáðinn eftir að töskurnar komi á flugvellinum í Fuerteventura. Bak við þau sést í auglýsingu frá dýragarðinum sem við fórum í nokkrum dögum seinna.


Vikuna áður en við komum hafði gengið hitabylgja yfir eyjuna. Hún var í rénum daginn sem við komum og var hitastigið úti aðeins 35° C!! Þegar við vorum að ganga í áttina að rútunni með allar okkar töskur og pinkla heyrðist Snáðinn segja sína fleygu setningu, "mamma, mér er svo sveitt". Rútan var með þeirri allra slöppustu loftkælingu sem um getur og sátum við í henni henni, aumingjans íslendingarnir, allir rauðir og sveittir í framan í svitaklístruðum flíkum. Hótelið var bara fínt þó ekki væri í því loftkæling. Við vorum í 2ja herbergja íbúð með góðum rúmum, notabene, en baðherbergi sem lyktaði miður illa. Held að spánverjarnir hafi ekki gert sér grein fyrir að það er búið að finna upp hlut sem heitir vatnslás. Allavega var engann að sjá hvorki á klósettinu sjálfu né vaskinum. Þegar búið var að kanna staðarhætti inni ætlaði móðirin að fara út á svalir en endaði með hurðarhúninn í hendinni og hlæjandi börn spyrjandi hvort ég sé búin að eyðileggja svalirnar!!!! Börnin voru fljót að fara úr öllum fötunum og fara í sundfötin í staðinn. Lýk þessum fyrsta hluta með mynd af þeim á leið út í sundlaug en á meðan lagði ég mig því áhrif verkjataflanna höfðu gufað upp í hitanum og líðanin orðin óbærileg.

Er komin heim, sólbrún og sæt með hálf - hlaðin batterí.
Ferðasagan kemur til með að detta hér inn ásamt mynum sem teknar voru á nýju vélina,
sem fjárfest var í á stað Leifs Eiríkssonar, næstu daga.
Þangað til verið glöð og brosið framan í rigninguna.