Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Vírusinn sem tók sér bólfestu í mínu innra eyra er enn að gera mér lífið leitt. Aðallega er það þessi svimi, hálfpartinn eins og maður sé með sjóriðu. Við fórum í stuttann göngutúr inn í skóg í gær og það tók mig meira en hálftíma að ganga 10. mín leið. Það hressti mig þó aðeins við og ég fékk roða í kinnarnar. Vírusinn lagðist líka þannig á allan líkamann að ég er mjög þreytt og orkulítil. Birgir minn hefur verið hér hjá mér og stjanað við mig, fært mér morgunmat í rúmið og eldað ofan í mig. Ég er guði óendanlega þakklát fyrir að hafa hitt þann mann.
Ég verð nú ekki mikil til vinnu næstu daga og verður staðan tekin á morgun með lækninum.

Þangað til, njótið dagsins:O)

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

dagurinn í dag

Mikið svakalega er ég búin að vera dugleg að hvíla mig. Hef bara ekki gert neitt annað í dag nema jú ég afrekaði að fara undir sturtuna þó sjúkraliðinn í hvítu gúmmurunum væri víðsfjarri.
Skrítið þegar maður er tekinn svona úr sambandi og öryggisventillinn fer. Maður verður meira að segja þreyttur á að labba nokkra metra á klósettið. Verstur er þó sviminn, ég er stöðugt í einskona vímu. Ljóta ástandið.

Á morgun fæ ég gest sem ég hef beðið eftir á aðra viku. Planið var að fara á skíði og stunda aðra útivist en í staðinn verða degin fram spil og eldaður góður matur. Sennilega farið í bíltúr. Það er svona það mesta sem Syngibjörg megnar í stöðunni.
Svo trúi ég því að góðir hlutir gerist hægt.
Farið vel með ykkur og munið að knúsa þann sem ykkur þykir vænt um.
Maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og þá gæti það verið orðið of seint.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Einn líkami- eitt líf

Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðan ég bloggaði síðast. Ber þá helst að nefna eftirfarandi,

- verið frá vinnu sökum flensu í heila 3 daga
- fundist flensan vera að dvína sl. laugardag og farið þ.a.l. í Bónus
- tekið að mér vinkonu Brynju í næturheimsókn það kvöld
- setið og lesið moggann í mestum makindum eftir Bónusferðina og fengið þá aðsvif
-keyrð niður á heilsugæslustöð og svö lögð inn á spítalann
- sett í rannsóknir
- verið algerlega ósjálfbjara og studd á klósettið
- verið böðuð af sjúkraliða í hvítum gúmmístígvélum
- fengið heimsóknir og blóm
- fengið krampa og óútskýranlega kippi
- fengið vírus í miðeyrað sem veldur svima og ógleði
- fengið að vita að í dag er þriðjudagur því ég var síðast með fulle fem á laugardaginn
- komið heim og sagt að vera frá vinnu út þessa viku a.m.k.
- fengið lyf við fyrirbæri sem hefur hrjáð mið alla tíð og ég vissi ekki að hægt væri að taka pillu við
- haft í krinum mig dásamlegt fólk sem er tilbúið að gera allt fyrir mig, nefnilega fjölskylduna mína
- fengið falleg sms og hvatningu frá vini sem er mér allt því hann er fallegur jafnt að innan sem utan.
- fengið skýr skilaboð um það hversu dýrmætt það er að hafa góða heilsu

Nú dugar ekkert annað en að vera hlýðin.

föstudagur, febrúar 15, 2008

Vísnaskáldið

Afskaplega varð ég glöð þegar ég sá í Kastljósi í gær að góður kollegi ásamt fleirum er búinn að skipuleggja tónleika með lögum Berþóru Árnadóttur vísnaskáldi og söngkonu. Ég var alltaf mikill aðdáandi Bergþóru og spilaði plötur hennar alveg út í eitt, kunni alla textana og var búin að sitja við píanóið og grufla upp lögin hennar. Það er einhver tónn í Bergþóru sem er svo hreinn og hittir beint í hjartað. Fannst flutningur Svavars Knúts í Kastljósinu á laginu Frá liðnu vori, fallegur og einlægur en hann hefur líka mjög þýða rödd og gott eyra því hann söng fyrstu erindin án undirleiks og notaði svo lítinn gítar og gott ef ekki heyrðust einstaka "Bergþóru hljómar" í undirspilinu.

Þessi síða er til einkuð henni og þar má lesa um tónleikana í Salnum í kvöld.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Veik á Valentínusardegi og þrái ást

Þrátt fyrir reglulegt lýsis og vítamín át lagði flensan mig í gær. Og ég er hætt að streitast á móti og fara í vinnuna og kenna á hálfum tanki, heldur er ég heima og læt mér batna eins og venjulegt fólk gerir. Held svei mér þá að ég sé að þroskast. Allavega varð ég vör við það í gær að ég er komin á virðulegan aldur því ég fór í fyrsta sinn í brjóstamyndatöku en hér eru staddir læknar að sunnan til að mynda og skoða vestfirskar konur. Man þá tíð þegar járntólið sem notað er var ískalt og maður hrökk í kút þegar maður fann fyrir því, en í gær var það heitt og ekki eins óþægilegt. Og læknirinn var kona. Munar öllu þegar maður liggur á bakinu með "báðar lappir út í sitt hvort loftið" eins og ein frú tók til orða. Eitthvað vilja þau nú skoða mig nánar og þarf borgarferð til þess. Ég bíð því eftir símtali.
Annars hef ég svo sem nóg fyrir stafni í veikindunum, er að lesa Harðskafa eftir Arnald og er með húfu númer tvö á prjónunum. Þarf bara að fá einhvern til að fara í búðina því það er ekki til mjólkurdropi á heimilinu.

Hvet svo alla til að fara á fyrirlestur um ástina, svona í tilefni dagsins. Fróðleg erindi á Bókasafni Kópavogs gætu gefið manni nýja sýn á ástina.
Myndi fara ef ég væri ekki hér.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Lífið er snjór

Ég rétt slapp en með miklu hossi lentum við fyrir hádegi, annað en móðir mín sem sat í vélinni seinni partinn og sólundaði í mynni Skutulsfjarðar í hálftíma án þess að lenda. Það má með sanni segja að þessi vetur hefur verið okkur harður og snjóþungur. Finn hvernig veðrið hefur smogið inn í mig og hertekið líkamann. Veit svo sem ekki hvað skal til bragðs taka nema halda áfram að taka vítamín og lýsi og hunskast í ræktina. Ekki langar manni út í göngutúr svo mikið er víst. Ég vildi bara óska að mér þætti skemmtilegt í ræktinni þá væri ég löngu komin af stað og farin að fetta mig og bretta. Reyndar er stúdíóið að flytja í stærra og nýrra húsnæði með útsýni út á djúpið svo það er aldrei að vita hvort það togar nóg í mann til að maður rífi sig upp af rassinum.



Ég fékk um daginn símtal frá fallegu stjúpdóttur minni þar sem hún var alveg á innsoginu. Söngkennarinn hennar er að fara sem gestakennari í Juliard tónlistarháskólans í NY og bauð henni að koma með.Ferðin hefst á föstudaginn og er mikill spenningur farinn að gera vart við sig en fyrst þar fhún að klára sýningar með nemendaóperunni sem sýndar eru í Langholtskirkju. Hún fær einkatíma hjá virtum kennara í Juliard, Lauren Nubar, en henni kynntist ég í Nice á alþjóðlegu masterclass fyrir 3ur árum. Og svo bara að labba þarna um gangana og upplifa stemminguna og söguna sem þessi skóli hefur að geyma. Skólinn er við hliðina á Metrópólitan Óperunni og þær fara á 2 sýningar þar og eina tónleika í Carnegie Hall. Þetta er mikið ævintýri og aldrei að vita hvort það hefur eitthvað í för með sér fyrir hana svona námslega séð því hún er á síðustu metrunum hér heima og er á leið út í heim að freista gæfunnar. Væri sko alveg til í að fara með en við göntumst með það að ég fari í fyrst sinn í Met-óperuna þegar hún syngur þar.
Þá hafi ég ærið tilefni.



Annars glittir í ljósin á snjóruðningstækinu fyrir utan eldhúsgluggann minn, sem er þakinn af snjó svo varla sést út.

Ég ætti því að komast í vinnuna á litla bláa bílnum mínum.

laugardagur, febrúar 09, 2008

Sit og bíð.

Drekk kaffi.

Stóra spurningin er:

ætli þeir fljúgi í dag?

föstudagur, febrúar 08, 2008

Það sem bjargað getur leiðindum

Þetta eru nú meiri leiðindin. Það fór eins og mig grunaði. En B planið er enn við líði og við sjáum hvað setur á morgun.
Ég kemst þó í matarklúbbinn en norðurferðin var nú númer eitt á óskalistanum. Í þessum matarklúbb er 5 vaskar konur með mikinn áhuga á matargerð. Hver og ein kemur með einn rétt og oft verður til hin skemmtilegasta samsetning við matarborðið og bragðlaukarnir fara alveg á flug.
Ég ákvað að bjóða þeim upp á eftirréttinn sem ég hafði ætlað mér að bjóða mínu föruneyti ásamt vinkonu minni í Aðaldalnum upp á en fyrst það er ekki í boði þá fá þær að njóta og þið sem þetta lesið .

Jarðarber með rauðvíni.

600 gr. jarðarber
100gr. sykur
safi úr einni appelsínu eða sítrónu
2-3 dl. rauðvín

Sjóða saman vínið, safann og sykurinn þangað til lögurinn fer að þykkna. Kælið.
Skerið jarðarberin í hæfilega stóra munnbita hellið kældum leginum yfir og látið standa í kæli í smá stund.
Berið fram með þeyttum rjóma.
Einnig má nota hindber í stað jarðarberja.

Syngibjörg mælir með þessum eftirrétti því hann sló í gegn hér um daginn og gott ef ekki fylgdi smá matarást í kjölfarið. Ekki spillir hinn höfugi ilmur sem fyllir húsið þegar lögurinn fer að sjóða.

Njótið svo kvöldsins.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Birtan sem skín á freðnar tær

Vá hvað ég er búin að moka mikinn snjó síðustu daga. Að ég tala nú ekki um notkunina á bleiku fínu sköfu- kústinum sem ég fjárfesti í í fyrra. Maður bregður sér varla í búð að ekki þurfi að skafa frostrósir af rúðum og sópa snjóinn af bílnum. Ég hef í þessu frosti tekið ástfóstri við ullarsokkapar sem ég fann hér í reiðileysi. Það liggur við að ég sofi í þeim. Veit að það er nú ekkert voða sexý en hva......hér er nú enginn að svo stöddu til að þýða freðnar tær, en ég er með eindæmum fótköld kona.
Ég ætla að leggjast í ferðalag um helgina og bregða mér norður. Það kostar millilendingu í höfuðborginni og bið í tvo tíma, en ferðafélagi minn ætlar að hafa ofan af fyrir mér áður en við höldum áfram til Akureyrar. Helgin fer svo í að kenna norðlensku ungu fólki listina að syngja ásamt því að fara í leikhús og heimsækja fólk.
Eina sem kemur í veg fyrir þetta frábæra plan er auðvita veðrið.
Allt veltur á því þessa dagana.
Við höfum að vísu notið þess að hafa snjóinn og farið á skíði. Birtan verður líka svo undarlega blá og falleg. Sólin hefur verið að gægjast fram og myndað fallega liti í skýin.

Sólin hefur líka heimsótt mig.
Skín á mig alveg óumbeðin.
Og ég baða mig í birtunni.
Brosandi.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Hvur fjárinn..... einhver heimasölukona (og það ensk) komin í kommentakerfið mitt og þykist hafa hitt mig hrmpf.....

Erum við bloggarar kannski næsti markhópur?

mánudagur, febrúar 04, 2008

Að láta dekra við sig er frábært og gerir mann glaðann, og að sama skapi er ofdekur vont og gerir fólk vanþakklátt. Verst er þó held ég ekkert dekur því þá verður maður bara dapur.

Að feta milliveginn er list sem ekki er öllum gefin.
En stundun hefur maður heppnina með sér.

Þessi heppni hefur elt mig uppi.

Megi hún vara sem lengst.

laugardagur, febrúar 02, 2008

öfugsnúna emma

Er á leið á þorrablót hjá Góustaðafjölskyldunni.
Finnst súrmatur reyndar vondur.
En sviðasultan og harðfiskurinn stendur alltaf fyrir sínu.
Líka hangikjetið og uppstúfið.

Á að koma með skemmtiatriði en daman neitar að taka þátt.
Hún er í dag undin og snúin og ég velti því fyrir mér hvort unglingurinn
hafi tekið sér bólfestu í henni daginn sem hún varð 11.
Finnst það eiginlega dáldið hryllilegt og allt of snemmt.

Ég snýst hér í kringum hana við undirbúning á afmælisveislu
og er búin að baka eina uppáhaldsköku og núna eru vatnsdeigsbollurnar í ofninum.
Í staðin fæ ég önugheit og langar bara til að henda henni út í næsta skafl og
segja henni að gera þetta bara sjálf.

Ef það er eitthvað sem fer í mig er það vanþakklæti.