Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, desember 23, 2006

Jólakveðja

Það er snarbrjálað veður úti.
Rafmagnið er búið að koma og fara.
Minnir mig á jólin hér í eina tíð.
Þá fór rafmagnið klukkan hálf sex
á aðfangadag.
Allar Ísfirskar mæður fengu aðsvif.
Jólin gátu ekki byrjað á réttum tíma.
Þegar klukkan var sex og ekkert rafmagn komið á
lágu hálfsteiktir hamborgarahryggir enn í ofninum,
rauðkálið kalt
og karamellan utan um kartöfflurnar
orðin að hörðum klumpi.
Það heyrðust ekki neinar kirkjuklukkur
í útvarpinu hringja inn jólin.
En jólin komu samt.
Þau gera það alltaf.
Líka hjá þér og mér.
Kæru bloggvinir og aðrir sem rata hér inn.
Sendi ykkur mínar bestu óskir um
gleðileg jól
gott og farsælt nýtt ár.

föstudagur, desember 22, 2006

Glaðningur já - nei

Fékk kennslustund í notkun borvélar í dag.

Brosi.

Pabbi er bestur.

Ekki Síminn.

Þeir kunna ekki að gera við bilaðan síma.

Hef verið þráðlaus/netlaus.

Þeir tóku í sundur línu greyin og klóra sér svo bara í hausnum.

Í heilan sólarhring.

Isssss...........

mánudagur, desember 18, 2006

bb.is

Hér sjáumst við mæðgur á tónleikadeginum mikla sem var í gær.

sunnudagur, desember 17, 2006

Hvað er svona merkilegt við það???????(syngist a al Ragga Gísla)

Það er óþolandi að finna vanmátt sinn gagnvart einhverju.
Hef upplifað það í kjölfar þess að koma mér fyrir í nýrri íbúð.

Ég kann ekki á borvél.
Og það pirrar mig óendanlega.

Horfi hér á gardínustangir, hillur, myndir og annað dót sem á heima upp á vegg en ég get ekki fest það því ég kann ekki á helvítis apparatið.

Maður þarf að vita hvort bora á í stein eða gifsvegg.
Þú notar ekki sama borinn sjáðu.
Og svo eru það tapparnir og skrúfurnar.
Það þarf að passa viðkomandi tegund veggjar.
Annars gæti það dottið niður af veggnum og tekið
alla pússninguna með sér.
Ekki væri það nú fagurt og heimiliskonunni til sóma.


Og auminginn ég veit þetta ekki en þarf einhvernveginn að koma mér í að læra þetta. Væri alveg til í svona einskvöldanámskeið fyrir sjálfstæðar konur sem vilja að læra að nota borvél og bjarga sér sjálfar.
Þoli ekki að vera upp á aðra komin með svona hluti.

Ég lærði þetta ekki í skóla.
Var aldrei í smíði.
Bara í saumum og lærði þar m.a. að hnýta.
Og hvern andskotann gagnast það mér í dag???
Ekki neitt.
Bara alls ekki neitt.
Hefði nú frekar viljað læra á borvél.

laugardagur, desember 16, 2006

Í gærkveldi.

Átum, drukkum, töluðum, hlógum og sungum.

Mikið geta konur verið skemmtilegar.

Vaknaði með þynnkuna í dag.

Það gerir Íslenska Brennivínið.

Það er svo gott þegar búið er að frysta það.

þriðjudagur, desember 12, 2006

mamm´er enn í eldhúsinu.............

Við mæðgur fórum í búð í dag til að kaupa lit í glassúrið því Ponsí
hafði ákveðið að piparkökurnar yrðu skreyttar í dag.
Eftir að hafa farið í búðirnar tvær án þess að fá litina,
farið á Engjaveginn í von um að þeir væru til þar,
var okkur bent á stað sem mér datt nú síst í hug.
Húsasmiðjuna.
Jahá.
Og þar fengust þeir.

Núna eru hér á borðinu fagurskreyttar piparkökur af Ponsí.

Á meðan hún föndraði við piparkökurnar helti ég mér púrtvíni í
eitt af fínu staupunum sem ég fékk í ammilisgjöf í haust
og hófst handa við að gera jólasíldina.
Gerði mína árlegu tómatsíld og appelsínusíld en er að prófa núna púrtvínssíld.
Hér verður nefnilega kvennafagnaður á föstudagskvöldið.
Þau 7 ár sem ég bjó á Nesveginum var haldin skötuveisla á Þorláksmessu
sem breyttist í jólaboð sem haldið var laugardaginn fyrir jól.
Svo núna þegar allt er breytt langar mann að halda í einhverjar hefðir
eða venjur og ákvað ég að aðlaga það þeim félagsskap
sem ég hef hvað mest gaman af núna;
Kvennakórnum mínum.
Og af því tilefni fæ ég útrás fyrir jólastúss í formi síladargerðar,
kæfugerðar, íslögunar og brauðbaksturs.

Og púrtvínsdrykkju.

Elska aðventuna.

sunnudagur, desember 10, 2006

Ánægð

Ég stóð í eldhúsinu á Flókagötunni um daginn.

Til okkar Gróu kom kær vinkona.

Eftir slúður, hlátrasköll og nokkur rauðvínsglös berst talið
að fatnaði og holdarfari.

Ég hafði eitthvað kupt þarna hjá dönunum og var doltið ánægð
með fatnaðinn en hafði samt orð á því að hafa aðeins bætt á mig
síðan ég flutti westur

"En dásamlegt" hrópaði vinkonan upp yfir sig.

Og það kom frá innstu hjartarótum.

Ég hef sjaldan fengið skemmtilegra komment.

Aðventan á Skógarbrautinni II


Þetta afrekaði húsmóðirin í dag ásamt börnunum.
2 sortir komnar í engladollurnar ásamt piparkökunum.
Fann ómótstæðilega uppsrift af kökum með heslihnetum og súkkulaði í dönsku jólablaði og svo eru það hafrakökurnar mínar sem ég hef bakað núna nokkur ár í röð.



Í dag bökuðum við piparkökur.
Brynja Sólrún og Kolfinna voru afskapleg einbeittar við verkið.
Hlynur Ingi var líka með en vildi ekki vera með á mynd.
Þær flöttu deigið út af mikilli nákvæmni og tóku svo til við að útbúa kalla og kellingar.
(Finnst ykkur eldhúsið mitt ekki fínt?)

Kolfinna komst fljótt upp á lag með að flytja deigið yfir á plötuna

án þess að allt færi í sundur.
Einbeitingin leynir sér ekki.

Og Brynja Sólrún setti formin í deigið af mikilli nákvæmni.

Og þetta er afrakstur barnanna í bakstrinum.

Full dolla af piparkökum sem verða málaðar á næstu dögum.

Aðventan á Skógarbrautinni

Set þessar myndir inn þó þær séu ekki í fókus en myndavélin er með einhverja stæla og fókusinn sérstaklega.


En þetta er aðventukransinn í ár. Pínulítið af hinu og þessu frá fyrri árum en ég keypti núna hárauðu kúlurnar og aðrar hvítar með ,sem sjást ekki á myndinni, þetta árið.

Ef einhver man eftir myndinni sem ég setti inn með hjólinu og söginni í stofunni þá lítur hún svona út í dag frá sama sjónarhorni. Er búin að láta smíða gardínustöng sem fer vonandi upp fyrir jólin.

föstudagur, desember 08, 2006

Hvert hefur hún farið hún ég?

Þegar ég flutti vonaðist ég til að hafa minna að gera, svona vinnulega séð.
Hef núna allt of mikið að gera og skil ekkert í því hvernig mér datt eiginlega í hug að taka öll þessi verkefni að mér.
Er nefnilega ekki að nenna þessu, að hafa svona mikið að gera.
Er að kafna í skipulagðri tónleikastarfsemi 3ja kóra, jólatréssöng, helgileik, litlu jólunum og hvað þetta nú allt saman heitir.
Langar í rólegheit.
Frí um helgar.
Er samt búin að bjóða fólki í mat annaðkvöld.
Kærir vinir sem hafa hjálpað mér svo ótrúlega mikið.
Eiga það svo sannarlega inni hjá mér.

Hef verið að reyna að gera jólalegt með séríum og fíneríi.
Sem merki um annasama daga þá hefur það tekið mið heila 3 daga sem annars hefur tekið eina kvöldstund að búa til aðventukransinn.
Hann stendur á eldhúsborðinu alveg berstrípaður greyið.
Það vantar á hann allar slaufur og annað jólalegt skraut.
Vantar pepp og léttari rass.
Hann er eitthvað svo assgoti þungur til framkvæmda.
Vill bara láta sitja á sér þessa dagana.
Ekki alveg ég.
Vona bara að ég sofni ekki ofan í steikina.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Ísafjörður, Reykjavík, Köben, Reykjavík, Ísafjörður

Tölvan komin úr viðgerð en harði diskurinn losnaði í öllum hamaganginum í flugvélinni. Það á ekki að mér að ganga í þeim efnum. Sat í fósturstellingunni og stundi hálfa leiðina. Hrikalegt.

Sko Danmerkurferðin var bara yndisleg.
Allir voru búnir að dásama það að ég væri að fara á þessum tíma, jólin og allt það.
Ég full tilhlökkunar arkaði niður í bæ daginn sem ég kom. En eitthvað vantaði uppá. Jú það voru skreytingar og ljós og danska og karamellulykt af sykurhúðuðum hnetum og ég veit ekki hvað. Hélt áfram að arka en var orðið dáldið heitt og þá rann það upp fyrir mér að í Danmörku um þessar mundir var hitastigið eins og á vorin. Því var vita gagnslaust fyrir mig að upplifa jólastemminguna í þessum hita. Enda kom það á daginn að allir undruðu sig stóran á þessum tölum á hitamælinum vitandi hvaða árstími var að ganga í garð. Svo allar mínar rúllukrullupeysur og fleiri lekkerar ullarpeysur sem ég hafði nýfjárfest í komu hreinlega að engu gagni. Það var þá bara eitt ráð við því, fara í búðir og redda þessu. Ekki leiðinlegt.

Fyrsti dagurinn í skólanum byrjaði á því að leigubílsstjórinn henti okkur Elvu út við torg og benti í óræða átt. Við stóðum eins og þvörur og byrjuðum að skima í kringum okkur. Þegar það bar engan árangur, klukkan orðin "of seinar í tíma" mundi ég eftir símanúmeri sem ég hringdi í og fékk leiðbeiningu. Og auðvita vorum við fyrir framan skólann allann tíman, fundum bara ekki aðaldyrnar. Við inn og við mér blasti lyfta. Skólinn er upp á 5 hæð og þar sem ég er haldin klastrófóbíu þá lagði ég af stað arkandi upp þessa löngu stiga. "Are you crazy woman" heyrði ég kennarann minn hrópa til mín þegar hann sá mig koma lafmóða upp stigana. En þetta gerði ég nokkrum sinnum á dag og hélt mér bara í fínu formi held ég. Skólinn stendur við torg skáhalt við strikið og gæti því ekki verið á betri stað. Stutt í allar búðir og veitingahús. Tók ástfóstri við einn, Mamma Rosa, þar sem ég fékk eitt besta tortillas ever.

Tónleikarnir, bandið og síðast en ekki síst Dan píanisti líður seint úr minni.
Þetta eru með þeim skemmtilegustu tónleikum sem ég hef tekið þátt í. Og píanistinn, herregud.
Flínkari mann hef ég bara ekki hitt. Hann getur alllllt, já barasta aaaallt. Hann sat í 6 tíma á dag og spilaði allt frá kirkjumúsík í harðasta rokk, með viðkomu á blúsinum, jazzinum án þess að spila sem eina feilnótu, lesandi allt af blaði en mússísera svo að allir sátu agndofa. Hugmyndaflugið sem maðurinn hefur í spilamennsku er bíond realití. Og svo var hann svo hógvær og lítillátur að það var eiginlega bara fyndið.
Og doltið sætur líka.

Hér sést Syngibjörg syngja af innlifun í Jazzfetival House en mín myndavél er enn biluð. Hún elsku Gróa mín kom út og var á tónleikunum og tók þessa mynd. Við áttum góðan tíma saman, fórum í heimsókn til frænku hennar sem er stúdent í borginni og létum dekra við okkur. Ég gisti svo eina nótt í krúttlegu litaglöðu íbúðinni sem hún leigði. Mæli sko með henni, þar er allt til alls. Meira að segja umslög ef þú vilt vera svo rómantískur að skrifa bréf. Og út í garði standa svona 5 hjól sem manni er frjálst að nota á meðan dvölinni stendur. Sá líka grill. Langar sko að gista þarna að sumri til og sitja í garðinum fram á kvöld með rautt í glasi.

Fékk far með frábærum leigubílstjóra út á flugvöll sem var svo glaður yfir því að geta talað við mig dönsku. Ég skildi nú svona 80% af því sem hann sagði því eins og þeir allir talaði hann frekar hratt. En ég spái því að eftir 3 ár þegar náminu lýkur þá verði ég bara orðin slarkfær í dönskunni.

Helgin í Reykjavík var fín en hún innihélt áframhaldandi söng með heimsók í minn gamla elskulega kór Mótettukórinn. Fór á jólatónleikana þeirra og hélt að mér tækist að sitja þá til enda án þess að fella eitt einasta tár. Nei....aðeins of bjartsýn þar.
Þegar Guðs kristni í heimi byrjaði með Daða Kolbeins á óbóið hrundi gríman og ég bara hágrét. Réð ekkert við mig. Þetta jólalag hef ég sungið síðustu 20 ár í kirkjunni. Einhver strengur í mér er tengdur því órjúfanlegum böndum. Er samt glöð að hafa fengið tækifæri á að heyra það með kórnum.
Ég lenti á Ísafjarðarflugvelli með svaka fínan blómvönd frá elsku Árnesingakórnum sem þau færðu mér á sunnudeginum.
Við tók vinnan með öllum sínum undirbúningi vegna jólatónleika sem nú bresta á með miklum lálum.
er voða glöð að vera komin heim í mitt og mína nýju ADLS tenginu.
Húrra fyrir því.