Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Borgarferð

Á miðvikudaginn var settumst við upp í bílinn hans Birgis, ég og börnin, og keyrðum í 6 tíma suður til Reykjavíkur. Sumardeginum fyrsta og næstu 3ur dögum þar á eftir ætluðum við að verja í borginni. Hitta stóru krakkana, útrétta og hitta svo vini okkar stóra og smáa. Það var rennifæri alla leið en af og til heyrðist í Snáðanum; hvenær verðum við komin og Ponsí var fljót að svara; nú þegar við verðum komin og hættu svo að spyrja.

Veðrið lék við okkur en auðvita gleymdist að taka myndir kannski af því myndavélin mín finnst ekki. Á laugardaginn fórum við í bíltúr upp að Úlfljótsvatni til að heilsa upp á vinkonu sem hafði hreiðrað um sig í bústað með börnin tvö til að heimilisfaðirinn gæti fengið frið heima til að klára ritgerð og lesa undir próf. Agalega tillitsöm sagði hún nú með glott á vör því bóndinn hefði nefnilega ekki gert neitt þessu líkt þegar hún stóð í prófum með ungabarn. Og hvað það var kaaaalt. Við beiluðum á pottinum, kannski í lagi því við höfðum farið í sund um hádegisbilið. Aldeilis fín laug þarna í Kópavoginum. Og sem ég stend í sturtunni með sápuna í hárinu heyri ég dynk og lít niður. Þar liggur ósjálfbjarga kona og starir tómum augum út í loftið. Við byrjum að stumra yfir henni, gefa vatn og setja undir höfuð og kalla á sundlaugarverðina. Aumingjans konana rankaði við sér en þá hafði nú bara liðið yfir hana þarna í sturtunni og varð hálf hvumsa yfir öllu þessu umstangi. Stuttu seinna þegar við vorum búin að ferja hana fram í búningsklefa í betra loft kallar ein varðan (er það ekki kvennkynsmynd á vörður??????) að við skyldum klæða okkur í snatri því það væri von á sjúkraflutingamönnum. Einhvernveginn hrökk út úr mér að þeir væru nú ýmsu vanir og myndi ekki kippa sér upp við konur á brjóstahöldurum í nærbuxum. Ja...það er nú skemmtilegra að vera búin að klæða sig sagði þá sú sem stóð við hliðina á mér og horfði hálf hneyksluð á mig.
Eftir þessa uppákomu var nú liðið mitt orðið svangt. Strákarnir sá stóri og litli búnir að bíða ógeðslega lengi eins og Snáðinn sagði með mikilli áherzlu.

Ákveðið var að fara á Kaffitár og það var þá sem ég fékk aðsvif þegar stúlkan sagði mér hvað ég ætti að borga fyrir veitingarnar sem við höfðum valið okkur. Sko.....finnst ykkur eðlilegt að borga heilar 560 krónur fyrir súkkulaðikökusneið sem nota bene er gerð úr "eðalblöndu" fröken Bettí Krokker??? ........ fuss...
Fyrir fimm manna fjölskyldu kostaði kaffihúsaferðin okkur 4500 krónur.Kakó, kaffi, kleinur, samloka og baka nú og svo súkkulaðikökusneiðin sem ALLIR borðuðu því það kom ekki til greina að leifa einni einustu mylsnu. Það lá við að ég skipaði krökkunum að sleikja diskinn.
Ég spurði Birgi hvort hann ætti ekki kökuform því næst færi ég sjálf út í búð og keypti Betti Krokker pakka í Bónus fyrir 280 krónur og bakaði kökuna sjálf.
Ég fékk sætt glott.

Það gekk á ýmsu á leiðinni heim á sunnudaginn.
Sú ferðasaga bíður þar til næst.

Ljúfar yfir.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Lítið en samt svo stórt

Upp á síðkastið hef ég mikið hugsað um það hvað litlu hlutirnir í lífinu skipta okkur miklu máli í samskiptum okkar við hitt kynið. Þeir eru oft límið sem heldur okkur saman í erli dagsins. Og það er svo sannarlega gæfa þegar maður kynnist slíku eðaleintaki af manni sem hefur skynbragð á það hvað þessir hlutir eru mikilvægir. Einhvernveginn er það ekki sjálgefið og misjafnt eftir fólki hvað svona dekur er því mikilvægt en öll höfum við þörf fyrir að okkur sé sýnd væntumþykja. Hana má nefnilega sýna á svo margan hátt, og sú sem hefur mest áhrif á okkur þarf ekki endilega að innihalda 20 rósir og demantshring heldur felst kannski í því sem okkur finnst ofur hversdagslegt eins og þrif á bílum. Það gleður mitt litla hjarta til dæmis óskaplega að vita að þegar ég kem til Reykjavíkur á morgun er búið að þrífa bílinn minn að utan sem innan, skipta frá vetrardekkjum yfir á sumardekk, kaupa hjólkopp hjá Valda koppasala í stað þess sem týndist á Þorskafjarðarheiðinni og já kaupa eitt nýtt sumardekk, allt í boði Birgis. Á meðan keyri ég um á hans bíl hér fyrir vestan og hef bara þurft að skola af honum rykið.

Þegar ég kom í heimsókn í Skipasundið í fyrsta sinn var þetta í ískápnum;

- soja ostur
- soja mjólk
- fillipo berio ólívuviðbit
- sulta
- lime breezer

og í frystinum voru
- speltbollur
- speltbrauð

jú það var tekið eftir því að konan sem var að koma í heimsókn var með fæðuofnæmi
og menn bara gerðu ráðstafanir.

Ég gleymi aldrei tilfinningunni sem ég fann þegar ég uppgötvaði þetta.

föstudagur, apríl 18, 2008

:O)

Og auðvita fór það eins og ég spáði.
Er þjökuð af harðsperrum hehehe......

Snáðinn minn hefur legið heima alla vikuna með hlaupabóluna.
Hann er ein bóla krakkinn. Honum finnst það svo óréttlátt
því það er bongó blíða úti og hann alveg tilbúinn að fara út að hjóla.
Stendur núna í forstofunni og er búinn að setja á sig hjólaskautana
og ég búin að opna út á svalir afþví mamma þá er eins og ég sé úti
eins og hann komst að orði.

Og svo er aftur komin helgi og maður spyr sig hvert fór allur tíminn í vikunni sem leið??
En það er komið hið langþráða vor eftir einn erfiðasta vetur sem ég hef upplifað.
Og sólin hefur skinið á okkur alla vikuna, og verður víst í því hlutverki fram yfir helgi.

Mikið óskaplega er það nú yndislegt.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

endurvinnsla


Ætli dagurinn í dag verði ekki dagur sem ég legg á minnið, 15 apríl 2008.

Ástæðan????


Fór klukkan níu í morgun í þjálfun í tækjasal.


Hef ekki verið í leikfimi/æfingasal svo lengi sem elstu menn muna.


Keypti mér meira að segja íþróttaskó.


Hef aldrei átt neina af neinu gagni.


Spái massa harðsperrum á morgun.


mánudagur, apríl 14, 2008

ferðalagið

Helgin gekk einhvernvegin svona fyrir sig;

hitti Birgi í Staðarskála eftir rúma 3ja tíma keyrslu, fór fetið á Steingrímsfjarðarheiðinni vegna skafrennings og lélegs skyggnis og þurfti svo að fara fyrir Reykjanesið því Kleifin var lokuð.Og vegurinn þar er ekkert annað en horror - horribilis

fengum okkur íslenska kjötsúpu í Staðarskála áður en við lögðum í hann norður á Akureyri enda ég orðin ansi hungruð eftir alla keyrsluna

komum um miðnætti til Bryndísar systur Birgis og þá var gott að fá eitt rauðvínsglas og spjall svona fyrir svefninn

eftir góða sundferð og dorm í heita potti sundlaugar Akureyrar á laugardeginum var farið í heimsóknir og heilsað upp á góðar konur sem höfðu ekki séð mig fyrr.

boðið var upp á guðdómlegt grillað lambalæri og tilheyrandi meðlæti hjá Bryndísi um kvöldið. En svo var komið að tónleikunum

Þursaflokkurinn var hreint út sagt brjálað. Þeir voru í svo miklu stuði og bara svo flottir karlarnir að það var ekki annað hægt en að hrífast með í taktinum og dilla sér smá

á sunnudaginn brunuðum við í Aðaldalinn, drukkum kaffi og meððí hjá presthjónunum á Grenjaðarstað, heyrðum kórinn hennar Gróu syngja og fengum kaffi hjá henni áður lagt var af stað heim

þegar ég skreið hér inn heima í nótt um eitt leytið taldist mér til að ég hefði lagt að baki um 700 km. á einum degi.

Er smá svona dofin í dag, en það er allt í lagi því þetta var frábær helgi.

föstudagur, apríl 11, 2008

ferðalag

Maturinn í gær var ekkert nema guðdómlegur og stemmingin í takt við það.

Er annars á leið í Brú þar sem ég á stefnumót við Birgi en þaðan höldum við norður til Akureyrar. Búið að moka Steingrímsfjarðarheiðina svo ég ætla bara að láta slag standa. Ástæðan fyrir þessu ferðalgi er m.a. að fara á tónleika með Þursaflokknum annaðkvöld á Græna Hattinum.
Hlakka mikið til.

Meiningin er líka að drekka kaffibolla í Aðaldalnum hjá góðum vinkonum.

Góða helgi kæru vinir nær og fjær.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

matur og aftur matur

Í kvöld er matarklúbbur hér heima hjá mér. Allar helgar eru svo ásetnar að við ákváðum bara að hittast á virkum degi sem eiginlega gerir þetta ennþá skemmtilegra. Hristir aðeins upp í grámsókunni. Meeeeen hvað ég er orðin leið á vetrinum. En til að nota nú tækifærið og elda eitthvað sem ekki hefur verið eldað áður fletti ég í bókunum mínum og fann uppskriftir af tveimur réttum sem ég ætla að bjóða upp á í kvöld. Við höfum þann háttinn á að hver og ein kemur með eitthvað á sameiginlegt matarborð en þannig er maður alltaf að smakka eitthvað nýtt og fá uppskriftir að góðum mat. Ég fékk um daginn fyrsta eintak af nýju blaði sem ég ákvað að gerast áskrifandi af Matur og Vín www.maturvin.is og líst bara ljómandi vel á fyrsta eintakið. Móðir mín kaupir gjarnan Gestgjafann svo ég hef greiðan aðgang að honum. Einnig fannst mér heillandi við þetta blað að fá meiri umfjöllun um vín og svo er mælt með hvaða vín er gott að hafa með hverjum rétti.
Hér fylgja uppskriftir af því sem ég býð upp á í kvöld.

Tófu með spelt penne.

400 gr. stíft tófu
2 msk. tamarí sósa
1 tsk. engiferduft
250 gr. spelt penne

Kryddsósa.
1 stk. laukur
2 stk. ferskt chili
2 stk. hvítlauksrif
1 tsk. rifin engiferrót
1 tsk. rifin sítrónubörkur
1 stk. sítróna, safinn notaður
2 tsk. kóríanderfræ
2 tsk. cuminfræ
25 g ferskt kóíander
1 msk. tamarí sósa
3 stk döðlur
1 dós kókosmjólk

Þerrið tófúið og kreistið allan vökva úr. Skerið í litla teninga, setjið engiferduft út í tamarí sósuna og hellið yfir tófúið og látið bíða í 15. mín. Sjóðið penne skv. leiðbeiningum á pakka. Saxið grænmetið í kryddsósuna og setjið svo allt sem á að vera í henni í matvinnsuvél og maukið. Brúnið tófúið á pönnu þar til gyllt, setjið til hliðar á eldhúspappír. Þurkið pönnuna og setjið kryddsósuna á pönnuna og látið krauma í nokkrar mínútur.Bæta við tófúinu og spelt penne. Gott með rúkóla sallati.

Sveskjubaka.

250 gr. sveskjur
stór bolli sjóðandi svart te
1 dl. dökkt romm eða rommdropar
100 spelt hveiti (eða venjulegt)
120 gr. hrásykur (eða hvítur)
3 egg
2 glös sojamjólk (eða kúamjólk)
salt
smjörklípa

Takið steinana úr sveskjunum og leggið þær í belyti í teið í 1 klst.
Hitið ofninn í 175 °C
Setjið saman í skál. hveiti,sykur og salt. Bætið eggjunum út í, hrærið vel á meðan og síðan mjólkina og víninu (dropunum). Setjið sveskjurnar út í deigið.
Smyrjið eldfast mót og hellið deiginu í það.
Bakið í u.þ.b. 40. mín þar til bakan er orðin gullbrún.

Með þessu er gott að drekka eplavín, má gjarnan vera sætt.

Verði ykkur svo að góðu kæru bloggarar og aðrið sem hingað kíkja inn.
Var annars að spá hvort fólk væri til í að kvitta fyrir innlit, því ég er ekki með
neinn teljara.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

tapað -fundið

Á þriðjudaginn var búið að setja nótnabók í hólfið mitt á kennarastofunni. Hún var greinilega mikið notuð því það var búið að líma kápuna saman. Það fyndna við þetta allt saman er að hún var ekki svona mikið notuð af eigandanum heldur af þeim sem fékk hana lánaða fyrir 20 árum. Þannig var að ég fékk þessa bók að gjöf frá foreldrum mínum árið 1989. Einn góður maður hér í bæ, sem núna er látinn, hafði fengið hana að láni. Þegar hann féll frá árið 1999 var nótnasafnið hans sett í kassa og einn kennari skólans fenginn til að fara í gegnum það og það sem var nýtilegt átti svo að renna til Tónlistarskólans. Kennarinn rekur augun í þessa bók í einum kassanum og sér að hún er merkt mér. Hún tekur hana til hliðar og hyggst skila henni til mín við fyrsta tækifæri. Það tækifæri var svo í vikunni og reiknaðist okkur til að bókin hefði verið "í láni" í tæp 20 ár. Fyrst í 10 hjá söngvaranum góða og svo hjá henni í næstu 10. Ég var að vonum fegin og glöð að hafa endurheimt nótnabókina því í henni er samansafn af allskonar ballöðum og lögum úr söngleikjum sem gott er að hafa svona í handraðanum við hin ýmsu tækifæri. En þetta fékk mig til að muna eftir annari bók sem foreldrar mínir höfðu líka gefið mér á svipuðum tíma en það er safn með öllum lögum Billy Joels. Ef einhver finnur hana í fórum sínum má hinn sami alveg skila henni. Ég meina hvað eru 20 ár á milli vina?

föstudagur, apríl 04, 2008

bjartsýnis blogg veikra

Alltaf þegar ég er búin að vera í bjarsýniskasti og fundist ég vera að hressast og fá fyrra þrek er mér þrykkt niður aftur og það með látum. Sviminn og þyngslin kýldu mig kalda í gær muuuuu...............

Foreldrar mínir komu í líki björgunarsveitar og komu mér heim úr vinnunni og sáu svo um börnin og gáfu þeim kvöldmat. Mamma var svo mætt hér í morgun að gefa morgunmat, útbúa nesti og keyra í skólann. Ég hef aðgang að bestu björgunarsveit í heimi.

Hef haft hægt um mig í dag en sé fram á að sumarbústaðaferðin sem við Birgir vorum búin að plana um helgina er ekki inn í dæminu, bæði vegna ástandsins á mér og svo vegna ófærðar á veginum upp að bústaðnum. Eins og mig hlakkaði til því það er langt síðan ég var í þessum frábæra bústað sem foreldrar mínur byggðu fyrir 2-3 árum hér inn í Langadal. Nú jæja það þýðir ekkert að væla yfir því, heldur reyna bara seinna.

Svo er ég búin að vera á leiðinni að hringja í doktorinn en hef mig ekki í það. Nenni þessu ekki.

Hvað á hann svo sem að segja nema það sem ég veit nú þegar. Langar bara í heilsuna mína.

Kollegi minn í Tónlistarskólanum fékk vírus í hjartað fyrir nokkrum árum og hefur aldrei borið þess bætur. Minn vírus fór reyndar ekki í hjartað á mér en við erum með svipuð líkamleg einkenni sem hún er ekki enn laus við eftir þennan tíma sem liðinn er frá því hún veiktist.
Ég er samt bjartsýn á að þetta lagist og ég fái fullan bata. Í því felst jú að vera þolinmóð og það kann ég, allavega svona stundum.
Læt hér fylgja með mynd af bústaðnum í Langadal sem enn hefur ekki fengið neitt nafn.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

saga úr hversdagslífinu

Klukkan 5 í dag átti þetta samtal sér stað á Skógarbrautinni þegar snáðinn kom til baka úr klósettferð sem ég var upplýst um nokkru áður.

Snáðinn; ég setti á mig handáburð
ég; jahá
snáðinn; já og svo burstaði ég tennurnar
ég; ok flott
snáðinn; og svo pissaði ég líka
ég; fórstu ekki einmitt inn á klósett til þess að pissa
snáðinn; jú eiginlega

breimandi ástareldur

Hef verið eitthvað á súru nótunum í tvo daga. Sennilega hefur það verið vegna kvíðans sem safnaðist upp við að bíða eftir svari doktors Önnu. Svarið kom í gær og ég er svona hálfpartinn í leiðslu. Útkoman var neikvæð sem þýðir að ég þarf ekki að fara í svokallaðan keiluskurð og í mér er ekki krabbamein. Og þar sem ég var á vappi nirði í bæ í útréttingum fór ég inn í Blómaturninn og ákvað að ég hefði aldeilis tilefni til að kaupa mér blóm til að lífga upp á lífið og tilveruna. Ég gekk út með tvo litla ástarelda í gulum sætum og krúttlegum pottum og svo silkiblóm frá SIA til að setja í glervasa sem eru hér upp á vegg. Mér finnst alveg kominn tími til kominn að setja eitthvað í staðin fyrir rauða og gyllta dótið sem var yfir jólahátíðina. Að fara í blómabúð, skoða og spekúlera er eitt besta meðal við súru skapi. Mæli alveg hiklaust með því.

Annars erum við að fara að skoða litla og sæta kettlinga hjá einni frænku á eftir og þiggja kvöldmat hjá henni. Börnin biðja reglulega um gæludýr en þar sem ég er með massaofnæmi fyrir katta og kanínuhárum jarða ég þá umræðu jafnharðan. Djö....sem minnir mig á að ég gleymdi að kaupa mér ofnæmislyf í apótekinu áðan.
Verð að redda því fyrir klukkan sex.