Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, mars 29, 2008

Skemmtun

Sit hér í Skipasundinu í glampandi sól og horfi á fallegur rósirnar sem mér voru færðar í gær.
Verkefni dagsins er annars að finna kjól fyrir mig og buxur á manninn fyrir ásrhátíðina í kvöld.
Ég tók rauðu skóna með og vonast til að finna einhverja flík sem passar við, ef ekki, er varaplanið að kíkja í kjólasafn stjúpdótturinnar og söngdívunnar sem hefur verið að koma sér upp safni til að syngja við hins ýmsu tækifæri.
Ég er því flogin út í daginn og vona að þið njótið hans einnig.

miðvikudagur, mars 26, 2008

pína

Það endaði með því að ég sótti um frest á skattframtalinu. Á ekki mikið eftir en veikindin drógu úr mér alla löngun til skattaskýrslugerðar og lái mér hver sem vill. Þetta er nú frekar einfalt hjá mér, ein íbúð með íbúðarsjóðslánum, Lín lán og svo skuldlaus bíll. Árstekjur tónlistarkennarans eru eins og mánaðarlaun forstjóra. Eða svo segir mér hugur. En ég hef það ágætt svo sem, á allt og get leyft mér að gera dittin og dattin. Ætli ég færi ekki í að gera lifistandardinn hærri ef ég hefði meira á milli handanna og væri þá í raun á sama stað og kannski ekkert hamingjusamari.
Þetta er alltaf spurning um hvað það er sem gerir mann hamingjusamann. Einn kaffibolli getur t.d. veitt mér ómælda hamingju. Bros og speki 6 ára snáða getur breytt grámóskulegum degi í sólardag. En dýrmætast af öllu er heilsan. Án hennar getur maður ekkert. Hef verið minnt á það á mjög dramatískan hátt undanfarið. Ég hef reyndar fulla trú á að ég nái fyrra þreki og bæti svo jafnvel við það því ég er stórhuga kona og á meðan ég lá hér í sófanum í veikindunum, uppgefin af að ganga á milli herbergja var ég skráð í göngu í sumar. Birgir hefur þessa tröllatrú á konunni að hann skráði okkur í Laugarvegsgöngu. Ég er allavega komin með markmið skulum við segja.
Hvort það náist verður að skoða þegar þar að kemur. Hvatninguna fæ ég a.m.k. ómælda og skemmir það ekki fyrir. Núna bíð ég eftir að snjóa leysi svo ég geti tekið fram reiðfákinn og tekið til við að bruna hér um götur bæjarins.

Verð annars að segja ykkur hvað það er ferlega sárt að láta nudda úr sér 10 ára angist og vanlíðan. Svo sárt að ég ligg emjandi á bekknum hjá Óla. Hann finnur eymsli á furðulegustu stöðum og sérstaklega í höfðinu á mér. Þar eru allir vöðvar stokkbólgnir. Maður minn að hugsa sér að líkaminn skuli taka við vibba til að vernda heilabúið. Finnst við ótrúlega fullkomin furðuverk. En Óli kann á þetta og ég mýkist upp smám saman og verð örugglega orðin svo fislétt að ég fer um svífandi.

þriðjudagur, mars 25, 2008

þetta helst

Síðan síðasta bloggfærsla var gerð hefur ýmislegt drifið á dagana m.a. hef ég

- næstum því misst af fluginu heim frá Köben
- hlaupið eins og byssubrandur um allan Kastrup til að ná hliði A2
- fengið hlýjar móttökur á Leifi
- hvílt mig óendanlega mikið
- lesið og drukkið kaffi
- prjónað
- sofið mikið
- hitt vini og drukkið meira kaffi
- knúsað og kysst
- eldað góðan mat
- farið á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu og hlegið mig máttlausa
- keyrt heim til Ísafjarðar
- farið á skíði í bongó blíðu
- hugsað hvað lífið er frábært þegar öllu er á botninn hvolft
- spáð í að hætta að blogga
- hætt við að hætta að blogga
- eldað unaðslegan mat og drukkið gott vín með
- farið á skrall og dansað á Aldrei fór í suður rokkhátíðinni
- sungið ör útgáfu af Jóhannesarpassíunni á föstudaginn langa
- lánað bílinn minn til unglingsins
- hýst heila hljómsveit
- átt frábært páskafrí
- kvatt Birgi enn einu sinni
- þvegið af öllum rúmunum eftir gestaganginn
- talað við lækninn
- farið í leghálsspeglun
- upplifað hræðslu við sjúkdóm
- lært að hlusta á líkamann

Og núna hefst rútínan að nýju með kennslu og uppeldi á tveimur gormum. Sem er bara gott því ég er farin að sakna nemendanna eftir veikindafríið. Verð bara að muna að það er allt í lagi að leggja sig smá stund í sófann þegar maður er þreyttur og fara líka fyrr að sofa sem er eiginlega stærsta verkefnið sem ég þarf að glíma við næstu vikur. Það mun heyrast siguróp um allann bloggheim þegar sá dagur rennur upp.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Köben

Hér í Kaupmannahöfn er vorið á næsta leiti. Maður sér brum á trjánum og finnur vorilminn í loftinu. Sólin skín glatt og það er notalegur hiti úti. Afskaplega góð tilbreyting frá öllum snjónum heima á Ísafirði. Og með hverjum degi verð ég orkumeiri og sviminn er nánast horfinn. Svaf eins og ungabarn í 10 tíma í nótt sem betur fer því skólinn tekur mikla orku svona andlega séð því athyglin er yfir meðallagi því efnið er afskaplega spennandi. Sá annars flotta sumarlega skó sem mig langar í og svo fullt af dásamlegum fötum. Það er greinilegt að hvítt og ljósgrátt eru sumarlitirnir í ár ef marka má gínurnar í búðargluggunum á Köbmagergade. Væri svo sem alveg til í að skipta svarta vetrarlitnum út fyrir ljósari svona til að bjóða sumrinu inn. Er ekki sumardagurinn fyrsti annars bráðum? Eða eru páskarnir fyrst? allavega er ég komin í páskafrí þegar ég kem til landsins og verð nokkra daga í borginni og fer svo keyrandi heim til Ísafjarðar með Birgi og eitthvað af börnunum sem teljast 7 þegar við leggjum saman í púkk því hann á 3 og ég 4. Það telst nú bara harla gott en ótrúlega íslenskt eitthvað. Samsettar fjölskyldur og allt það dæmi. Ætli ég skrifi ekki einhverntímann færslu um það mál með reynsluna sem sem ég hef nú þegar á bakinu. Einhverntímann þegar ég er í stuði.
Núna aftur á móti en matartíminn búinn og best að fara að snúa sér að lærdómnum.

Lifið heil og njótið dagsins.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Að taka til og finna gersemar.

Þegar ég skildi hófst nýr kafli í mínu lífi - uppbygging með tilheyrandi flutningum og nýjum áherzlum. Án þess að það væri mjög skipulega gert þá samt var eins og undirmeðvitunindin væri mikið við völd því ég endurnýjaði allt og sagði skilið við allt það sem minnti mig á það sem var.
Fataskápurinn tók á sig nýja mynd, ég fékk mér ný gleraugu, lét hárið síkka og lét setja nýja mynd í kortin mín. Konan sem ég horfi á í dag er ekki sú sem var í speglinum fyrir tveimur árum. Og er ég guði mínum þakklát fyrir þann kjark sem ég loks fékk til að slíta mig lausa eftir 11 ára vanlíðan með tilheyrandi ofbeldi. En það er nú svo merkilegt hvernig mannskepnan er saman sett því eitthvert leitaði þessi vanlíðan. Og hjá mér fór hún í skrokkinn á mér. Hann tók við ruslinu og geymdi það svo vandlega í öllum vöðvum og hverri frumu. Því ákvað hann, skrokkurinn, að nú væri kominn tími til að losa sig við þetta rusl og hef ég því verið í úthreinsun með tilheyrandi mokstri. Það hefur ekki verið þrautalaust að standa í þessu en ég vona að í lokinn verði ég laus allra mála og geti farið að líta fram á veginn án þess að vera með fortíðina hangandi yfir mér eins og hvern annan draug.
Og með nýjum áherzlum skapast nýjir siðir og maður kynnist nýju fólki. Og því er vert að kynna til sögunnar manneskjuna sem hefur gefið mér trú aftur á ástina og kærleikann. Hann hitti ég þann 29. desember þegar ég fyrir tilstuðlan mágkonu minnar lét til leiðast að fara á kaffihús.
Og svoleiðis gerast hlutirnir þegar maður á minnst von á þeim......Búummmmm..........
Hann kom og sinnti mér þegar ég lá hér eftir spítalavistina, dekraði við mig hægri vinstri, færði mér morgun mat í rúmið og gaf mér hring á konudaginn. Jeminn.....ég varð nú bara dáldið feiminn, hafði aldrei upplifað svona áður. En ég naut þess og það er það sem maður á að gera, njóta þess að vera til og deila lífinu með þeim sem manni þykir vænt um. Hann bíður núna eftir því að ég komi suður og ætlar með mig í Bláa Lónið og svo út að borða. Flugið er kl. 14:50 í dag og viðrar ágætlega til flugs. En ég hef sjaldan verið eins glöð og ánægð með lífið því ég vissi ekki að til væru menn eins og hann.
Þetta er hann Birgir.

laugardagur, mars 01, 2008

Vestfirðir og olíuhreinsunarstöð

Fyrir áhugasama bendi ég á þessa grein sem skólabróðir minn skrifaði og einnig athugasemdirnar sem fylgja.

Ég er enn á meltunni með þetta mál.

Hér er allt hvítt

Í veikindunum hefur verið lítil löngun til að blogga, öfugt við marga sem skrifa sig frá því sem þeir eru að ganga í gegnum. Svona erum við ólík manneskjurnar, kannski sem betur fer.
Ég er farin að vinna en finn að þrekið er ekki mikið svo það er lexía fyrir mig að draga úr hraða og hlusta á líkamann. Maður á víst bara einn sem þarf að endast manni út lífið.

Framundan eru hinsvegar spennandi tímar sem fær mig til að hlakka til og eru mikil hjálp í að ná bata. Skólaferð til Danmerkur er eftir viku og svo er páskafrí í kjölfarið sem ég ætla að verja með fólkinu sem mér þykir vænst um. Planið er að fara á skíði, bæði göngu og svig því nógur er snjórinn. Hér er bókstaflega allt á kafi og börnin farin að stökkva fram af svölum niður í garð í háa skafla. Það var mest spennandi að fara út í gærkveldi eftir mat, og vera úti í garði í brjálaða veðrinu sem gengur nú yfir hér á Vestjörðum. Og núna er bankað reglulega á stofugluggann og ég beðin um að horfa þegar þau láta sig gossa í næsta skafl. Ég man þegar svona vetur komu þegar ég var krakki. Stundum náði snjórinn upp á húsþak og hægt var að labba upp á þak og stökkva í næstu snjóhengju. Mér finnst eiginlega frábært að börnin mín séu að upplifa þetta því þetta er svo hrikalega gaman og mikið kikk sem fæst út úr því að vera vel klæddur út í brjáluðu veðri og leika sér í snjónum.
Það er auðvita allt ófært og bíllinn minn er fastur út í skafli en það gerir ekkert til svosem þar sem ég ætla að vera heima í dag og dúlla mér, drekka te og lesa en það er nota bene samkvæmt læknisráði:O)