Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, desember 30, 2008

Ný staða

Mætti klukkan 10 í morgun á göngudeildina og hélt mig vera bara snemma í því.
Ó nei ekki alveg.
Beið í 40 mín. áður en kom að mér.
Gifsið var tekið af og við blasti ósköp ræfilsleg og þurr hendi.
Hún var í frekar fyndinni stöðu, hallaði eiginleg undir flatt.
Jæja sagði doktorinn, nú skaltu reyna bara hægt og rólega að hreyfa hana.
Ég kyngdi og horfði á hendina.
Fyrst reyndi ég að opna lófann og færa þumalinn út til hægri.
Það gekk með miklum erfiðsmunum og sársauka.
Næst var að hreyfa úlnliðinn og reyna að rétta af hendina.
Þá leið nú eiginlega hálfpartinn yfir mig.
Assgoti sem þetta var mikil pína.
"Brotið er alveg fast" heyrði ég doktorinn segja "þú finnur til afþví allt er svo stíft og fast".
Ég var nú samt látin leggjast út af og þá gekk þetta betur.
Og núna get ég notað löngutöng,vísifingur og baugfingur á lyklaborðinu.
Alger lúxuss.
Fékk að skoða myndirnar og þetta lítur líka svona ljómandi vel út.

Tékk eftir 2 vikur.

föstudagur, desember 26, 2008

Ljúfir dagar

Sannarlega hafa þetta verið ljúfir dagar. Ýmislegt fallegt og gagnlegt kom upp úr pökkunum.
Vænst þykir mér um það sem börnin bjuggu til.
Hlynur Ingi saumaði jólabjöllu úr flísefni með glimmeri og skreytti fallega krukku sem nota má sem kertastjaka. Brynja Sólrún saumaði púða úr flísefni og festi á hann útsaumaðan dúk, hún gaf mér líka jólabók þar sem hún hafði skrifað og myndskreytt ýmislegt tengt jólum. Upp úr pakka frá fumburðinum kom dekur, handsnyrting "sem þú átt að fara í þegar þú losnar úr þessu gifsi mamma" og kroppakrem.
Er svo að lesa Skaparann eftir Guðrúnu Evu og Húsið eftir Hörpu J ,bloggarann okkar góða svona á milli þess sem ég glápi á imbann, fæ mér lúr og borða enn meiri jólamat.

Sendi ljúfar yfir.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Jólakveðja


Kæru bloggvinir og aðrir sem hér koma í heimsókn.
Fjölskyldan á Skógarbrautinni sendir ykkur bestu óskir
um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
"Hittumst" heil á nýju ári.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Jólandinn fangaður

Hér er búið að baka 2 sortir af smákökum og gera smá jólanammi.
Jólailmurinn loksins kominn í hús.
Sjúpdóttirin og aðrir fjölskyldumeðlimir hjálpuðust að.
Púrtvínið og jólabjórinn er líka ómissandi með jólasíldinni.

Hendin var stífuð enn meir í gær, þvinguð og fín en kom þó ekki í veg fyrir að ég færi í ræktina í morgun. Verð þannig í 3 vikur og þá verður hún rétt af, gifs aftur í 3 vikur og svo tekur við hálft til eitt ár í þjálfun til að ná upp fyrri færni.
Og maður bara brosir og hugsar sem svo að ég hef báða fætur og er enn með fulle femm.

Takk kæru vinir fyrir góðar kveðjur sl.vikur.

Sendi ljúfar yfir.

þriðjudagur, desember 16, 2008

Fyrsta vikan liðin

Í heimi handalausu konunnar gerist ýmislegt. Fyrir það fyrsta hefur hún þróað með sér tækni til að krækja brjósthaldaranum, þjálfað upp ógnarhraða á lyklaborðið með þeirri vinstri, uppgötvað hvað hún á yndislegan 7 ára gutta sem stekkur óbeðinn út úr bílnum til að opna hurðina fyrir móður sína og lokar henni svo á eftir henni. Að heimilismeðlimir geta gert ýmislegt þegar móðirin er tekin úr umferð og að í kringum mig er fullt af yndislegu fólki sem boðið hefur fram aðstoð sína í einni eða annari mynd. Ég fékk t.d. heimsókn í morgun og mér voru færðar smákökur í fallegu boxi. Eftirfarandi myndir lýsa kannski best hvernig síðasta vika hefur verið.Á þessari mynd er "saving kitt" einhentu konunnar, gjöf frá matarklúbbnum, en í því
er jólablað, rauðvínsflaska, 70% súkkulaði, sérskreyttur vinstrihandar gúmmíhanski og síðast en ekku síst vinstri handar skæri.
Þó einhenta konan hafi lært ýmislegt sl. viku hefur henni ekki tekist
að læra að plokka sig svo vel sé.
Því var mín elskulega mágkona fengin í verkið.

Hún sýndi einstaklega fagmannleg handtök og laug því að
hafa aldrei gert þetta á öðrum en sjálfum sér.
Sjáið þið bara hvað ég er örugg í hennar höndum, lygni aftur augunum og allt.Svo þarf auðvita að skoða útkomuna vel og vandlega.


Brynja Sólrún var að undirbúa sig fyrir ballettsýningu og þá þurfti að festa teygjuna á balletskónum. Hún tók því nál og tvinna og gerði þetta alveg sjálf.Og Daði Már uppgötvaði rétt fyrir jólahlaðborð sl. laugardag
að það hafði komið saumspretta á jakkann.
Ég kenndi honum að þræða saumavélina og hann gerði við.
Og þessir blómvendir sem ég fékk eftir tónleikana sl. mánudag
hafa glatt mig og fyllt húsið blómailmi.

fimmtudagur, desember 11, 2008

vesenið alltaf á mér

Enn og aftur sannast hvað það er dýrmætt að eiga góða að. Hef fengið aðstoð úr öllum áttum og er ákaflega þakklát fyrir það. Bara það að komast í sturtu er heilmikið mál, og að reyna að mála sig með vinstri er ekki auðvelt. Maskarinn klínist út um allt. Get svo ekki einu sinni opnað kremdós.
Verkurinn er enn og það er sárt að hreyfa hendina. Verð samt að vera dugleg við það svo bólgan setjist ekki í hana. Bryð parkódín forte til að gera þetta bærilegt.
Ég fer í vinnuna í dag en verð með frábæra konu mér við hlið og ætla að reyna að vera stillt og gera sem minnst. Jólatónleikar verða í kvöld út í Bolungarvík í tónlistarskólanum þar en þá á ég eftir 2 jólatónleika hér á Ísafirði.Verð komin í frí á mánudaginn. Og auðvita langar mig að fara að jólastússast eitthvað, sjáum til hvot ég geti ekki virkjað börnin eitthvað.
Já þetta er nú ekki það sem ég hafði óskað mér, en ég bið til Guðs um að hendin, sem er mitt vinnutæki, fái fullan bata og ég geti spilað á píanóið og stjórnað kór án vankvæða.

Sendi ljúfar yfir.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Svipmyndir frá tónleikunum í gær

Og það er við hæfi að hneigja sig í lok tónleka.

Arna Björk syngur alt aríuna

Helga Margrét og Ingunn Ósk sungu dúettinn í Ceremony


Syngibjörg og SophieStúlkna og barnakórinn
Sophie hörpuleikariHulda meðleikari og SyngibjörgSöngspírur í StúlknakórnumDrengirnir í barnakórnum, Hlynur Ingi og Hafseinn


Barnakórinn


Stúlknakórinn

Vinstri hendin í þjálfunarbúðum

Eftir afskaplega vel heppnaða tónleika í gær var sannarlega tilefni til að skála. Við kvennakórskonur fórum á Kaffi Edinborg hlógum mikið og hátt og sungum að sjálfsögðu.
Þar sem þetta var nú bara venjulegt mánudagskvöld lokaði kaffihúsið kl.23.30 svo ein úr hópnum bauð okkur heim til sín því við vorum ekkert á því að fara alveg strax í bólið.
Það var mikið talað og ein úr hópnum vildi endilega athuga hvot ekki væri hægt að kaupa sígó hana lanaði svo mikið í eina mjóa. Rétt hjá er bílalúga sem við köllum krílið og þangað hélt hún og ég með. En við fórum algera erindisleysu því það var búið að loka sjoppunni enda klukkan að ganga tólf á miðnætti. Veðrið var stillt. mikið frost og birtan var orðin svarblá upplýst af jólaljósum sem bæjarbúar hafa verið duglegir að skreyta með. Við snérum því við frekar fúlar yfir sígarettuleysinu. Þegar við komum svo að húsinu geng ég á undan upp tröppur en þá vill ekki betur til en mér skrikar fótur og ég renn og dett. Í fallinu ber ég hægri hendina fyrir mig, hún lendir á tröppubrúninni og ég hníg emjandi niður á gangstéttina.
Ég fann að eitthvað hafði gerst og grunur minn staðfestist þegar búið var að taka myndir.
Konan braut á sér hendina. Og ekki bara á einum stað heldur á tvemur, hjá kúlunni á úlnliðnum og svo fyrir ofan liðamótin.
Höndin var öll orðin skökk svo það þurfti að toga hana til og skorða beinið rétt. Og þá söng og hvein í Syngibjörgu þrátt fyrir deyfilyf. Sit því hér og pikka þessa færslu inn með vinstri, en ég er rétthent svo þetta er ansi seinlegt skal ég segja ykkur.
Læt þetta því duga í bili.

sunnudagur, desember 07, 2008

Og enn er sungið


Þessir tónleikar eru á morgun, allt að verða klárt og síðasta æfing í dag.
Mér sýnist að það verði flogið svo hörpuleikarinn verður kominn í hús um hádegi.
Svo er aðventukvöld í Bolungarvík kl. 20.00 þar sem litli kórinn minn úr Tónlistarskólanum þar flytur helgileik. Hólskirkja í Bolungarvík er 100 ára og búið að taka hana í gegn innan sem utan.
En þetta er ekki búið enn, jólatónleikar tónlistarskólann eru eftir en ég sé fram á að skríða heim til mín 17. desember og þá komin í frí eftir 4 vikna törn þar sem hvert einastakvöld og hver einasta helgi hefur verið undirlögð af æfingum, tónleikum, fumsýningum og öðru söngstússi ásamt fullri kennslu.
Þetta er náttúrulega bilun.
Geri mér engar vonir um jólabakstur þetta árið. Kannski piparkökur ef ég nenni og þrýstingurinn frá krökkunum verður mikill.
Verð ánægð með mig ef ég kem því í verk að skrifa og senda jólakort.
Ljúfar yfir og njótið dagsins.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Syngi - syngi

Þá er komið að því.
Stúlknakórinn syngur aftur með Frostrósum eins og í fyrra.
Tvennir tónleikar; í dag og í kvöld.
Þessi mynd var tekin á tónleikunum í fyrra.

miðvikudagur, desember 03, 2008

og liðug....

Langar að segja svo margt en kem ekki orðum að því.

Málllaus, huglaus, vitlaus, bjargarlaus, ástlaus, laus..................