Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

laugardagur, desember 31, 2005

Þvottur á síðasta degi ársins





















Ponsí vildi fara í sturtu á síðasta degi ársins en snáðinn heimtaði að fara í bað. Og auðvita var uppáhálds dótið tekið með. Eins gott að allir fagna nýju ári hrein og strokin.

Kveðja

Við fjölskyldan að Ökrum sendum óskir til allra nær og fjær um
Gleðilegt ár og farsælt komandi ár.
klklklklklklklklk
Við þökkum fyrir allt gamalt og gott.
Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði og sigra.
Hittumst heil á því nýja bæði hér á þessari síðu sem í mannheimum.

föstudagur, desember 30, 2005



Nú þegar ég kann að setja myndir inn á vefinn er ekki úr vegi að birta t.d. þessa af snáðanum. Hann gekk í gegnum "ekki sofa í mínu rúmi" tímabil ekki alls fyrir löngu. Einn staður sem var mjög spennandi að prófa var baðkarið. Það er stórt og djúpt frístandandi ker sem heillaði óskaplega. Svo eitt kvöldið þegar ég kom heim úr vinnunni þá lá hann svona, enn með brosið um allt andlitið.



Hér koma fleiri myndir af orkideunni.











Jæja loksins get ég sýnt ykkur fínu orkideuna sem tók upp á því að blómstra í desember

Í fyrsta sinn

Það er alltaf dáldið spennandi að gera eitthvað í fyrsta sinn. Á morgunn ætla ég að elda kalkún í fyrsta sinn, búin að finna uppskriftir að fyllingum og fleira góðgæti. Undanfarin ár höfum við verið á æskuslóðum mínum á þessum árstíma og notið dýrðlegrar eldamennsku móður minnar. Hún er snillingur þegar kemur að eldamennsku enda minnist ein góð vinkona mín þess ávallt þegar hún kom með mér heim eina páska. Annnan eins mat hafði hún aldrei smakkað.
Hér verður kátt á hjalla með góðu fólki, búið að kaupa freyðivínið meiraðsegja.
Svo er bara að vona að herlegheitin heppnist.

Svo er það uppgjörið við árið, en það kemur seinna. En ég ér búin að taka ákvörðun; ég ætla að strengja áramótaheit.

fimmtudagur, desember 29, 2005

Fröken á háum hælum og aðrir góðir borgarar

Í því yndislega veðri sem var í dag fór ég ásamt snáðanum í langann göngutúr. Við sáum jólaljós af ýmsu tagi og snáðinn sagðist ætla að eignast stórt jólatré þegar hann yrði stór til að setja það upp á þakið hjá sér! Frumleg jólaskreyting það. Þar sem ég gekk með hann í eftirdragi á fína Stiga sleða fjölskyldunnar upplifðum við dáldið sérstakt. Litlum Yaris hafði verið lagt upp á gangstéttina þar sem við vorum í jólaljósapælingum og út úr honum steig yngismær í háhæluðum stígvélum með glitrandi belti um sig miðja. Þar sem mér blöskraði þetta háttarlag hafði ég það á orði við hana að það væri óheppilegt að leggja bíl svona upp á gangstéttina þar sem gangandi vegfarendur væru. " Sko, ég er nú bara að skreppa inn, svo á ég líka íbúð hér í blokkinni"! sagð´ún um leið og hún tók út úr sér sigarettuna og trítlaði inn á fínu skónum sínum.
Ég varð auðvitað kjaftstopp og hugsaði henni þegjandi þörfina. Þann spotta sem eftir var heim vék þetta ekki úr huga mér og það sem ég vildi sagt hafa við þessa ungfrú var:
Ó, fröken yfirgangur og frekja, ertu ekki aðeins að misskilja stétt þína og stöðu? Hefurðu aldrei heyrt um bílastæði, ég get bent þér á laust stæði hér í eins meters fjarlægð.
Fyrir 10 árum eða svo var viðtal í einu blaðinu við unga athafnakonu. Hún var nýbúin að eignast sitt fyrsta barn og fór daglega í göngutúr um Þingholtin með barnið í vagninum. Henni blöskraði hvað ökumenn voru tillitslausir þegar kom að því að hleypa fólki yfir götu og sú áratta þeirra að leggja bílum upp á gangstéttar þar sem hún átti í mesta basli með að komast framhjá með sinn barnavagn. Því tók hún á það ráð að útbúa miða sem hún hafði meðferðis þegar hún fór út að ganga. Þeir voru ætlaðir ökumönnum sem gerðust svo óforskammaðir að leggja upp á gangstéttar borgarinnar. Mig minnir að á þeim hafi staðið "Ég var hér á gangi með barnavagninn minn í dag og komst ekki leiðar minnar því þú lagðir bílnum þínum upp á gangstéttina. Viltu vera svo væn(n) að nota bílastæði".
Nokkuð gott hjá henni.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Hefðir

Ósköp er þetta nú allt saman herlicht og dælicht. Snáðanum varð á orði á jóladag um 5 leytið " ég er enn í náttfötunum á ég ekkert að fara í venjuleg föt?"

Við fengum gest að vestan sem verður hér í nokkra daga, bróðurdóttur, og allir kátir yfir því.
Fengum okkur heitt súkkulaði með rjóma úr könnuni hennar ömmu í dag. Ein af þeim hefðum sem skapast hafa þó svo ég sé ekkert mikil hefðarkona. En svona verða hlutirnir bara einhvernveginn til án þess að maður stjórni því sérstaklega. En það má kannski segja að þessi tími árs sé einn hefðartími. Og nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að strengja áramótaheit. Hjá sumum er það hefð (þó það takist ekki alltaf að halda heitin) á meðan öðrum finnst þetta hallærislegt. Ég strengdi mitt fyrsta áramótaheit í fyrra. Og mér tókst að halda það fram á mitt sumar. Ef ég strengi annað núna er ég þá kannski að leyfa nýrri hefð að hreiðra um sig? Langar mig til þess? Kemur í ljós.

föstudagur, desember 23, 2005

líf

Páll Óskar á sér líf. Hann bloggar ekki
Segi nú eins og Hallgrímur Helga:

"Þetta er allt að koma"

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ætli verði stofnaður Kvennakór Háskóla Íslands eftir áramót????

Kæmi mér ekki á óvart.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Ceremony of Carols

Plögg dagsins:

Hádegistónleikar á morgun í anddyri Háskóla Íslands kl. 12.15. Flutt verður Ceremony of Carols eftir Britten. Flytjendur eru fyrrum félagar í Unglingakór Selfosskirkju og Unglingakór Hallgrímskirkju, en jólin 1999 fluttum við þetta saman í Hallgrímskirkju m.a. Hörpuleikari er Elísabet Waage. Lofa fallegum söng ungra stúlkna. Tekur um 30. mín.

mánudagur, desember 19, 2005

Þætti gaman að vita......

.........hvað "setjið eitt búnt af steinselju (eða öðru fersku kryddi) ? sem iðulega sést í mataruppskriftum merkir. Hef aldrei áttað mig á þessu.

föstudagur, desember 16, 2005

dittinn og dattinn

Í desember er eins og það sé bara ekki hægt að drullast í rúmið fyrir miðnætti. Maður er alltaf alveg að fara og þá man maður eftir einhverju sem má alls ekki bíða fram á næsta dag því þá gæti það gleymst. Eða eitthvað.
Á morgunn fáum við góða vini í okkar árlegu skötuveislu sem breyttist í jólaboð í fyrra. Því er ég enn á fótum og í pásunni sem ég tók mér ákvað ég að blogga, sneðug.

Þetta er það sem boðið verður upp á:

Rækjur með mango og coriander
Marbella kjúklingur sem liggur nú í marineringu
Rauðrófu og rauðlaukssulta
Frönsk sveitakæfa ( sem ég vona að hafi heppnast) borin fram með steiktum sveppum og rauðkáli
Appelsínu og tómatsíld (sem er að samlagast í ísskápnum) borið fram með þrumara
Ferskt sallat
Rósmarín og oregano kryddaðir kartöfflubátar steiktir í ofni
Snafs sem fór í frystinn til tengdó í gær
Bjór og rauðvín



Þegar hægjast fer um í kotinu þá hugsa ég að ég útbúi mataruppskriftarhorn hér á síðuni. Hún móðir mín á örugglega eftir að rukka mig um uppskriftirnar af þessu sem ég taldi upp hér að ofan því hún er svo nýjungagjörn í jákvæðri merkingu þess orðs hvað varðar mat.
Þegar hún var að byrja að búa heima á Ísafirði rétt um tvítugt ( í kringum 1967) komu paprikur í fyrsa sinn í kuffilagið. Enginn vissi hvernig átti að matreiða þær en hún hafði verið í Svíþjóð nokrum árum áður og þekkti þær þaðan. Henni fanst hún hafa himinhöndum tekið þegar hún sá þær í búðinni og ætlaði að taka allar 5 sem höfðu komið. Þar sem hún stendur og og setur þær hver af annari ofan í körfuna er sagt fyrir aftan hana: Viltu skilja eina eftir handa mér?
Þar var kominn Úlfur læknir, sem var hálfþýskur, og taldi sig hafa, eins og hún, dottið í lukkupottinn þann daginn.
Annað er að segja um hann afa. Er paprika í þessu? Hann hataði paprikur. Fæ alltaf helv. brjóstsviða af þessu drasli sagð´hann.

larílarí larí.

miðvikudagur, desember 14, 2005

söngur, nema hvað.

Þá er að hendast í sturtuna og sjæna sig fyrir kvöldið. Hlakka mikið til því það eru jólatónleikar söngnemenda minna kl. 20. Þær hljómuðu eins og englar í bland við flautuleikinn á æfingunni í gær. Allar búnar að læra fullt af texta utanbókar á íslensku, ensku og latínu. Og fara létt með það.


Hvernig er annars hægt að skrifa gagnrýni án þess að gefa lesandanum svo mikið sem eina vísbendingu um frammistöðuna?

þriðjudagur, desember 13, 2005

tlukk

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. Fara í framhaldsnám
2. Gera cd
3. Ferðast um Ísland
4. Klára húsið mitt
5. Læra að taka svarthvítar myndir
6. Læra að rækta grænmeti
7. Ferðast meira

Svö hlutir sem ég get gert.

1. Gert margt í einu
2. Kennt söng
3. Saumað
4. Skipulagt ýmislegt
5. Sett saman fjölskyldu
6. Gleymt mér í blómabúðum
7. Spilað á píanó

Sjö hlutir sem ég get alls ekki gert.

1. Sett mig inn á Mikka vef
2. Breytt commentakerfinu mínu
3. Hlustað á falskann kórsöng
4. Gengið frá fötunum mínum
5. Setið flötum beinum á gólfi
6. Farið upp í háar byggingar
7. Farið til Ísafjarðar alltaf þegar ég fæ óstjórnlega heimþrá

Sjö frægar/ir sem heilla

1. J.S. Bach
2. Gabriel Fauré
3.Von Otter
4. Colin Firth
5. Diana Crall
6. Dave Brubeck
7. Ellý og Vilhjálmur að syngja jólalögin

Sjö atriði sem heilla mig við aðra

1. Bros
2. Kímni
3. Hendur
4. Heiðarleiki
5. Sjálfsöryggi
6. Sérviska
7. Einlægni

Sjö setningar sem ég segi oft

1. Ljómandi
2. Og anda ofan í kvið
3. Ertu til í að.......
4. Langar þig að.........
5. Hvað viltu?
6. Ég skil
7. Hættiði þessu eins og skot!

Svö hlutir sem ég sé núna

1. Rósirnar sem ég fékk eftir tónleika helgarinnar
2. Stóra hvíta kertið sem ég kveiki á á hverjum degi
3. Aðventukransinn
4. Teketill
5. Tebolli
6. Karfa með eplum
7. Mogginn

Sjö sem ég ætla að klukka

1. Stekkjastaur
2. Grýla
3. Maggi kórstjóri Fílharmóníunnar
4. Sverrir
5. Nafna mín í USA
6. Alla dökkhærða
7. Félag íslenskra söngkennara

jamm, ætli ég sé síðasti móhíkaninn?

sunnudagur, desember 11, 2005

Blómlegt

Haldiði ekki að Orkidean sem ég keypti mér í haust( sem ég hélt að væri dauð) hafi blómstrað í nótt?? Hef verið að fylgjast með knúppunum bólgna út og hélt satt að segja að þetta yrði ekki neitt neitt, það er jú desember, myrkur og lægð yfir öllu. Nei, nei þá tekur mín sig til og gleður allar á heimilinu svona alveg óbeðin. Fer alveg frábærlega vel saman í eldhúsglugganum með piparkökuhúsinu sem við kláruðum að skreyta í dag. Hlustuðum á jólalög og vorum í hrikalega skemmtilegum jólagír hér að Ökrum. Er að byrja á hinni seríunni, en ég fékk þá flugu í föndurhöfuðið að búa til skerma á gluggaseríuna. Tja, ekki svo galin hugmynd en dáldið tímafrek því á hvorri seríu eru 100 ljós. Þetta er samt ótrúlega róandi og góð tilbreyting við sjónvarpsraunveruleikaglápi sem tröllríður öllu. Hvar endar það eiginlega?
Dáldið notó að sitja hér við borðstofuborðið með jólabjórinn og klippa líma og hefta.

Fyrsta æfing fyrir Britten tókst ótrúlega vel í dag. Og ef ég plögga dáldið þá verður hægt að hlýða á þennann flutning þann 21. des. í hádeginu frá 12.15 í andyrir Háskóla Íslands. Tekur um 25- 30 mín. Mæli með því.
Og nú má bara fara að snjóa, finnst ykkur það ekki? Nóg komið af rigningunni, hún er eeeekeeerrrt jólaleg.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Og nú......

.......... skal farið í jólagjafastúss. Best að klára það sem fyrst. Þarf að senda gjafir heim á Ísó og til útlanda. Ætla nefnilega að vera heima að dúlla mér þegar törninni miklu lýkur. Heima er best.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Stundun gerast alveg ótrúlega skemmtilegir hlutir. Fyrir 12 árum starfaði ég sem kórstjóri í stóru kirkjunni hér í borg. Hápunktur starfsins var þegar við fluttum Ceremony of Carols e: Britten fyrir fullri kirkju. Á sama tíma var stýra á Selfossi að gera það sama með sínum hópi. Við sameinuðum kraftana ein jólin og úr varð öflugur kór sem fékk það hlutverk að syngja jólatónleika með Melabandinu. Einnig fluttum við Britten saman í tvígang. Fyrir tveimur dögum fékk ég hringingu sem kom mér í verulega gott skap. Erindi þess sem var hinumegin á línunni var að spyrja hvort mínar gömlu góðu kórdömur vildu sameinast Selfosskórnum sáluga og flytja Britten stykkið aftur þann 21. desember. Húrra! Ég hef ekki tekið þátt í eins frábærri hugmynd og þessari lengi.
Og á laugardaginn hitti ég þær aftur og þá verður mikið knúsað, hlegið og sungið.Sumar hef ég ekki hitt síðan síðast og ég man ekki hvenær það var. Allavega er ein orðin mamma, sumar eru að vesenast í tónlistinni á einn eða annan hátt því þetta var ótrúlega öflugur hópur.Úr þessum hópi eru t.d. vinningshafar tveggja síðustu söngvekeppna framhaldsskólanna,sei, sei já.
Ceremony of Carols er eitt það flottasta verk sem samið hefur verið fyrir samkynja raddir. Maður verður fjótt "húkt" á því og vill heyra það og syngja um hver jól. Svo góðir lesendur þessarar bloggsíðu ( ef einhverjir eru) þá hvet ég ykkur til að koma og hlusta á þetta verk þann 21, des. Nánar um það síðar.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Gleði

Mikið að gera, mikið stuð. Allt á fullu. Komin í gírinn, sem er gott mál. Þessi lægð var orðin frekar löng og taugatrekkjandi. Enda fúnkerar maður best þegar allt er í jafnvægi. Því er ég glöð í dag.

mánudagur, desember 05, 2005

Jólasaga

Ragga litla hafði lengi dreymt um að heimsækja Grýlu, Leppalúða og jólasveinana. En nótt eina skömmu fyrir jól dró til tíðinda þegar honum tókst að komast alla leið til þeirra.Honum var vel fagnað af heimilisfólkinu.Grýla og Leppalúði voru hin vingjarnlegustu og ekki voru jólasveinarnir síðri. Þeir ljómuðu af hrifningu þegar hann birtist í hellinum þeirra. Þegar allir höfðu heilsað honum dró Grýla hann afsíðis og sagði með trúnaðartón í röddinni:" það var sannarlega gott að þú komst, því við erum í stökustu vandræðum. Við ætlum að ljóstra upp eldgömlu leyndarmáli og nú getur þú kannski hjálpað okkur." Forvitni Ragga var samstundis vakin. Og Grýla hélt áfram:"Það eru gamlar dyr hér lengst inni í hellinum sem hafa verið læstar í hvorki meira né minna en ellefu hundruð ár.!" Það var greinilegt að jafnvel henni þótti það nokkuð langur tími, þótt hún væri orðin ævagömul."Og fyrst af öllu," sagði hún,"þurfum við að opna þær."
Raggi litli velti því fyrir sér hvað í ósköpunum gæti leynst á bak við þessar luktu dyr. Var það gull eða silfur, gimsteinar eða jafnvel dýrindis leikföng? Eitt var víst,leyndarmálið var spennandi.
"Nú er stundin runnin upp," dæsti Grýla. "Margir í mannheimum verða hissa á þessum jólum. Að hugsa sér". Hún muldraði svo lágt að varla heyrðist, en hækkaði róminn skyndilega upp úr öllu valdi og þrumaði:"Nú eru nýir tímar,karlaveldið er að hruni komið!"Og um leið var eins og hún blési öll út og stækkaði. Aumingja Leppalúði og jólasveinarnir flýðu út í horn og tóku Ragga litla með sér til öryggis svo að ekkert kæmi fyrir hann.Þegar Grýla sá hvað þeim brá mildaðist hún örlítið og sagði: "Hímið ekki þarna, greyin mín, þið eruð eins og niðursetningar. Hefjumst frekar handa og hjálpumst að við að blása lífi í tilveruna."
Jólasveinarnir stikluðu af stað og sóttu smíðatólin sín, þjalir, járnsagir, hamra, sleggjur og allskonar lykla. Svo fóru þeir að glíma við að opna hinar ævafornu dyr, sem læstar voru með mörgum lásum og slagbröndum.
Grýla var verkstjórinn, skipti sér af öllu og benti með miklu handapati á hvað gera ætti til að leysa verkið sem best af hendi.Þegar sá fyrir endann á þessu erfiða verki sagði Grýla við syni sína ,að nú skyldi þeir búa sig undir óvænta sjón,því nú væri komið að því að opna dyrnar. Það marraði og brakaði í hjörum og lokst tókst að opna í hálfa gátt. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir tróðu sér inn. Raggi litli herti upp hugann og fór á eftri þeim inn.Inni var niðanmyrkur og ekki sáust handa skil.Jólasveinarnir náðu í kyndla og frá birtunni sem frá þeim stafaði sást í stórann flatann stein. Á honum lá einhver vera og hraut.Hún var hvorki ljót né falleg, ung né gömul. Og flíkurnar sem hún var í voru engu líkar. Jólasveinarnir könnuðust þó við klæðnaðinn. Sjálfir höfði þeir notað slíka leppa áður en þeir fengu rauða búninginn. En hvernig var best að vekja þessa dularfullu veru. Grýla var með einhver smyrsl til að bera á hana og þegar hún var búin að smyrja þessu á andlit og hendur þá fór veran að hreyfast. Raggi litli stóð álengdar og starði steini lostinn á það sem var að gerast. Þarna var verið að vekja jólasvein sem hafði sofið í heil ellefu hundruð ár! Og það var enginn venjulegur jólasveinn. Það var systir jólasveinanna.
Þeir höfði reyndar steingleymt því að hún væri til. Þeir höfðu ekki verið neitt sérstaklega hrifnir af henni og höfði því lokað hana inni í þessum dimma helli. Og þar hafði hún síðan mátt dúsa steinsofandi,því þeir höfðu aldrei vakið hana fyrir jólin. Hún hafði viljað fá rauðan jólasveinabúning ein og þeir, en það höfðu þeir talið álitshnekki fyrir sig. Í gamla daga hafði alls ekki komið til greina að stelpur gætu verið jólasveinar.En nú var öldin önnur. Og Grýlu fannst kominn tími til að gera eitthvað í málinu. Konur voru farnar að sinna sömu störfum og karlar og stóðu þeim síður en svo að baki þar sem þær hösluðu sér völl. Og nú skyldi dóttir hennar fá tækifæri!"Þótt fyrr hefði verið," þusaði hún og gretti sig framan í syni sína.En þeir voru ekki hrifnir af því að hún kæmi með þeim til byggða. Hún gæti hjálpað Grýlu við matseld og þrif. Þeir vildu enga breytingu. En Grýla gamla var ákveðin. Henni var ekki þokað. "Systir ykkar fer með ykkur til byggða og tekur þátt í því að gleðja krakkana um jólin". Jólasveinarnir reyndu ekki að mótmæla Grýlu þegar hún var í þessum ham. Og ljóst var að á þessum jólum yrðu það ekki þrettán jólasveinar, heldur fjórtán, sem héldu til byggða.

Þrjóska

Vorum í gær að jólast með krökkunum. Við eigum trékubba sem hægt er að byggja allskonar hús úr. Undanfarin ár höfum við búið til lítið jólaþorp úr þessum kubbum,notað bómull, glimmer,seríu, lest( sem snáðanum tókst að rústa í fyrra) og jólasveina af ýmsum stærðum og annað jólalegt dót.Og í gær var semsagt komið að því að koma þessum þorpi upp í herbergi barnanna. Í fyrra fann Árni bómull sem var breiður og þykkur hentaði alveg fullkomlega í þetta, svo við fórum af stað til að kaupa einn slíkann. En úps, eitthvað hafði skolast til í minninu hvar hann hafði fengist. Því enduðum við á að fara búð úr búð úr búð. Enginn breiður þykkur bómull til hér, man eftir svoleiðis fyrir 30 árum sagði konan í apótekinu. En minn ekki á því að gefast upp og kaupa bara þennan venjulega mjóa þunna. Svo leitin heldur áfram í dag.

föstudagur, desember 02, 2005

Hin fagra æska

Ja hér, var á frábærri 1.des skemmtun í gærkveldi. Held við séum að eignast ungann frábæran söngvara. Söng lag með Billy Holliday af slíkri innlifun að unun var að hlíða á, og kauði bara í 9. bekk og ekki enn kominn í mútur. Vann söngvakeppni Samfés:O) Svo var hápunkturinn þegar krakkarnir fluttu hinn sleipa og fituga Grease söngleik.Og minn var í aðalhlutverki,ójá,honum leiddist ekki að leika töffara sei sei nei. Átti reyndar 2 aðrar stjörnur, söngnemendur sem brilleruðu, jamm og já.
Svo var stiginn dans þar sem þau sýndu enskann vals, djæf, polka og fl. sem danskennarinn hafði undirbúið.Snilld. Og auðvitað var okkur svo boðið upp í dans þar sem dansherrann tók hlutverk sitt mjög alvarlega og sveiflaði móður sinni á dansgólfinu eins og sönnum dansherra sæmir.
Foreldrarnir yfirgáfu svo samkvæmið og ungmennin dönsuðu til eitt undir hávaða frá mönnum í svörtum fötum. Frábær skemmtun.