Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, desember 29, 2005

Fröken á háum hælum og aðrir góðir borgarar

Í því yndislega veðri sem var í dag fór ég ásamt snáðanum í langann göngutúr. Við sáum jólaljós af ýmsu tagi og snáðinn sagðist ætla að eignast stórt jólatré þegar hann yrði stór til að setja það upp á þakið hjá sér! Frumleg jólaskreyting það. Þar sem ég gekk með hann í eftirdragi á fína Stiga sleða fjölskyldunnar upplifðum við dáldið sérstakt. Litlum Yaris hafði verið lagt upp á gangstéttina þar sem við vorum í jólaljósapælingum og út úr honum steig yngismær í háhæluðum stígvélum með glitrandi belti um sig miðja. Þar sem mér blöskraði þetta háttarlag hafði ég það á orði við hana að það væri óheppilegt að leggja bíl svona upp á gangstéttina þar sem gangandi vegfarendur væru. " Sko, ég er nú bara að skreppa inn, svo á ég líka íbúð hér í blokkinni"! sagð´ún um leið og hún tók út úr sér sigarettuna og trítlaði inn á fínu skónum sínum.
Ég varð auðvitað kjaftstopp og hugsaði henni þegjandi þörfina. Þann spotta sem eftir var heim vék þetta ekki úr huga mér og það sem ég vildi sagt hafa við þessa ungfrú var:
Ó, fröken yfirgangur og frekja, ertu ekki aðeins að misskilja stétt þína og stöðu? Hefurðu aldrei heyrt um bílastæði, ég get bent þér á laust stæði hér í eins meters fjarlægð.
Fyrir 10 árum eða svo var viðtal í einu blaðinu við unga athafnakonu. Hún var nýbúin að eignast sitt fyrsta barn og fór daglega í göngutúr um Þingholtin með barnið í vagninum. Henni blöskraði hvað ökumenn voru tillitslausir þegar kom að því að hleypa fólki yfir götu og sú áratta þeirra að leggja bílum upp á gangstéttar þar sem hún átti í mesta basli með að komast framhjá með sinn barnavagn. Því tók hún á það ráð að útbúa miða sem hún hafði meðferðis þegar hún fór út að ganga. Þeir voru ætlaðir ökumönnum sem gerðust svo óforskammaðir að leggja upp á gangstéttar borgarinnar. Mig minnir að á þeim hafi staðið "Ég var hér á gangi með barnavagninn minn í dag og komst ekki leiðar minnar því þú lagðir bílnum þínum upp á gangstéttina. Viltu vera svo væn(n) að nota bílastæði".
Nokkuð gott hjá henni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home