Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

mánudagur, desember 05, 2005

Jólasaga

Ragga litla hafði lengi dreymt um að heimsækja Grýlu, Leppalúða og jólasveinana. En nótt eina skömmu fyrir jól dró til tíðinda þegar honum tókst að komast alla leið til þeirra.Honum var vel fagnað af heimilisfólkinu.Grýla og Leppalúði voru hin vingjarnlegustu og ekki voru jólasveinarnir síðri. Þeir ljómuðu af hrifningu þegar hann birtist í hellinum þeirra. Þegar allir höfðu heilsað honum dró Grýla hann afsíðis og sagði með trúnaðartón í röddinni:" það var sannarlega gott að þú komst, því við erum í stökustu vandræðum. Við ætlum að ljóstra upp eldgömlu leyndarmáli og nú getur þú kannski hjálpað okkur." Forvitni Ragga var samstundis vakin. Og Grýla hélt áfram:"Það eru gamlar dyr hér lengst inni í hellinum sem hafa verið læstar í hvorki meira né minna en ellefu hundruð ár.!" Það var greinilegt að jafnvel henni þótti það nokkuð langur tími, þótt hún væri orðin ævagömul."Og fyrst af öllu," sagði hún,"þurfum við að opna þær."
Raggi litli velti því fyrir sér hvað í ósköpunum gæti leynst á bak við þessar luktu dyr. Var það gull eða silfur, gimsteinar eða jafnvel dýrindis leikföng? Eitt var víst,leyndarmálið var spennandi.
"Nú er stundin runnin upp," dæsti Grýla. "Margir í mannheimum verða hissa á þessum jólum. Að hugsa sér". Hún muldraði svo lágt að varla heyrðist, en hækkaði róminn skyndilega upp úr öllu valdi og þrumaði:"Nú eru nýir tímar,karlaveldið er að hruni komið!"Og um leið var eins og hún blési öll út og stækkaði. Aumingja Leppalúði og jólasveinarnir flýðu út í horn og tóku Ragga litla með sér til öryggis svo að ekkert kæmi fyrir hann.Þegar Grýla sá hvað þeim brá mildaðist hún örlítið og sagði: "Hímið ekki þarna, greyin mín, þið eruð eins og niðursetningar. Hefjumst frekar handa og hjálpumst að við að blása lífi í tilveruna."
Jólasveinarnir stikluðu af stað og sóttu smíðatólin sín, þjalir, járnsagir, hamra, sleggjur og allskonar lykla. Svo fóru þeir að glíma við að opna hinar ævafornu dyr, sem læstar voru með mörgum lásum og slagbröndum.
Grýla var verkstjórinn, skipti sér af öllu og benti með miklu handapati á hvað gera ætti til að leysa verkið sem best af hendi.Þegar sá fyrir endann á þessu erfiða verki sagði Grýla við syni sína ,að nú skyldi þeir búa sig undir óvænta sjón,því nú væri komið að því að opna dyrnar. Það marraði og brakaði í hjörum og lokst tókst að opna í hálfa gátt. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir tróðu sér inn. Raggi litli herti upp hugann og fór á eftri þeim inn.Inni var niðanmyrkur og ekki sáust handa skil.Jólasveinarnir náðu í kyndla og frá birtunni sem frá þeim stafaði sást í stórann flatann stein. Á honum lá einhver vera og hraut.Hún var hvorki ljót né falleg, ung né gömul. Og flíkurnar sem hún var í voru engu líkar. Jólasveinarnir könnuðust þó við klæðnaðinn. Sjálfir höfði þeir notað slíka leppa áður en þeir fengu rauða búninginn. En hvernig var best að vekja þessa dularfullu veru. Grýla var með einhver smyrsl til að bera á hana og þegar hún var búin að smyrja þessu á andlit og hendur þá fór veran að hreyfast. Raggi litli stóð álengdar og starði steini lostinn á það sem var að gerast. Þarna var verið að vekja jólasvein sem hafði sofið í heil ellefu hundruð ár! Og það var enginn venjulegur jólasveinn. Það var systir jólasveinanna.
Þeir höfði reyndar steingleymt því að hún væri til. Þeir höfðu ekki verið neitt sérstaklega hrifnir af henni og höfði því lokað hana inni í þessum dimma helli. Og þar hafði hún síðan mátt dúsa steinsofandi,því þeir höfðu aldrei vakið hana fyrir jólin. Hún hafði viljað fá rauðan jólasveinabúning ein og þeir, en það höfðu þeir talið álitshnekki fyrir sig. Í gamla daga hafði alls ekki komið til greina að stelpur gætu verið jólasveinar.En nú var öldin önnur. Og Grýlu fannst kominn tími til að gera eitthvað í málinu. Konur voru farnar að sinna sömu störfum og karlar og stóðu þeim síður en svo að baki þar sem þær hösluðu sér völl. Og nú skyldi dóttir hennar fá tækifæri!"Þótt fyrr hefði verið," þusaði hún og gretti sig framan í syni sína.En þeir voru ekki hrifnir af því að hún kæmi með þeim til byggða. Hún gæti hjálpað Grýlu við matseld og þrif. Þeir vildu enga breytingu. En Grýla gamla var ákveðin. Henni var ekki þokað. "Systir ykkar fer með ykkur til byggða og tekur þátt í því að gleðja krakkana um jólin". Jólasveinarnir reyndu ekki að mótmæla Grýlu þegar hún var í þessum ham. Og ljóst var að á þessum jólum yrðu það ekki þrettán jólasveinar, heldur fjórtán, sem héldu til byggða.

1 Comments:

  • At 6/12/05 11:49 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Flott hjá þér Ingibjörg, hefurðu nokkuð hugsað þér að söðla um, skrifa í staðinn fyrir að syngja?

     

Skrifa ummæli

<< Home