Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Er farin en....

.........verð hér aftur 1. des.

Þangað til adju.

Elskið friðinn og strjúkið kviðinn

dásamlega fólk.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Arrival at Reykjavík Airport

Sit hér á Flókagötunni og bíð.
Ákvað að blogga þó ég hafi svosem ekkert mikið að segja.
Sat sveitt í flegvélinni áðan meðan hún hossaðist á milli fjallana.
Hvernær ætlar þessi andsk...helv...flughræðsla að fara.
Er búin að fá mig fullsadda á þessu kvíðastresskasti sem grípur mig í hvert einasta skipti sem ég fer í flugvél. Spurði flugfreyjuna hvort það væri mikið ókyrrð, nei elskan mín hún rennur eins og smjör til Reykjavíkur á 40. mínútum sagði hún og brosti sínu hvíta fallega brosi. Ég þáði kaffi svona til að hafa eitthvað að gera því ég gat ómögulega lesið.

Fengum okkur Eldsmiðjupizzu því þær eru sko beeeestar, en er með ótútskýranlegan brjóstsviða núna. Veit hvað mig vantar.

Rauðvín.

Rauðvínið bíður þangað til flínka píanóvinkonan mín kemur heim.
Ætla að fara niður og gá.
Ég opna þá bara flöskuna og læt hana anda fyrir okkur ef hún er ekki komin.
Fer svo á ótrúlega spennandi frumsýningu á morgun hjá
Nemendaóperu Söngskólans en hún Hrundin mín er að taka þátt í henni og þá fæ ég að heyr í henni síðan hún skipti um kennara.
Hlakka mikið til.
Ætla að vera á fremsta bekk og klappa mest og hæst.
Fyrir henni.

Uppdressun

Þá líður senn að því að Syngibjörg litla standi á sviði Jazzfestival House í kóngsins Köben, syngjandi Pílu Pínu í míkrófón og með heila hljómsveit á bak við sig.

Er nú ekki alveg farin að átta mig á þessu.
Mig hlakkar nú samt doltið til því ég á svo góða vinkonu.
Hún heitir Gróa.
Og hún kemur líka.
Bara til að hlusta á mig og segja mér í hvaða kjól ég á að vera þegar stóra stundin rennur upp.
Það skiptir sko höfuðmáli.
Þetta með kjólinn alltsvo.

Þið sem hafið svo áhuga á að sjá hvaða kjól ég valdi fyrir tilefnið getið séð það og svo auðvita heyrt mig syngja líka sunnudaginn 3. des í Langholtskirkju.

Sko alltaf gaman að dressa sig upp.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Vígsla

Finnst núna að ég hafi formlega vígt nýja fína eldhúsið mitt.

Ég bakaði.

Hélt upp á 5 ára afmæli snáðans í dag.
Uppgötvaði að ég er í stóru flugvélinni á leið til útlanda þegar hans eigins afmælisdagur er.
Og maður notla bara reddar því.
Hef verið marga afmælisdaga sona minnna á ferðalögum tengdum söng.
Iðulega átti rokkarinn afmæli þegar ég ferðaðist með Mótettunni.
Þá fékk hann afmælissöng frá þessum fína kór í gegnum símann.
Ekki allir sem geta státað af því.
Hér var sungið hátt og snjallt fyrir snáðann við undirleik óstillta píanósins sem hljómar eins og bilkkdós.
Hrooollllluuur.
Það kemur nebblega ekki stillari fyrr en eftir áramót sjáiði til.
Svona er þetta bara.
En mér er eiginlega alveg sama.
Lífið er í svo dásamlegum gír núna að það er nánast ekkert sem getur spillt ró minni.
Nema þá kannski veltan niður stigann.
Vara svona almennt við því að fólk sé ekki að voga sér í ugglasokkum niður parketstiga með stálnef.
Þyrst í þokkabót.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Sjálfsvorkun

Hef verið ákaflega mikið kvefuð, eiginlega alveg óstarfhæf.
En læt ég það aftra mér í kennslu, nei onei.
Frasi síðustu viku var, "get því miður ekkert sungið í dag svo ég tala bara söngæfingarnar, þið skiljið mig örugglega er það ekki?"
Var farin að hlakka til helgarinnar sem byrjaði á kórpartýi Kvennakórsins nýstofnaða. Þar var mikið hlegið og skemmtinefndin stóð sig svo að lengi verður í minnum haft.
Ætlaði á laugardagsmorgni í Húsasmiðjuna að kaupa svna ýmislegt dót sem manni vanhagar um þegar festa þarf upp hillur og skrúfa og bora í veggi.
Sat í bílnum sem vildi bara ekki fara í gang. Og ég reyndi öll trixin sem pabbi hefur kennt mér.
Nei, það er ótrúlega kalt hér mín kæra og ég fer ekkert í gang í dag. Ætla bara að vera heima.
Nú góði vertu bara fúll á móti.
Fékk frænku, sem er ný komin með bílpróf, til að bjarga mér.
Druslaðist svo hér heima á milli svitakófa og hóstakasta.
Svo í gærkveldi var ég búin að koma mér vel fyrir í sófanum að horfa á Edduna.
Í einu auglýsingahléinu ákvað ég að skjótast niður í eldhús og fá mér eitthvað að drekka.
Og ég skaust í orðsins fyllstu merkingu því ég húrraði niður stigann með tilheyrandi ópum og sópranhrópum. Lá svo emjandi á gólfinu og hef sjaldan fundið eins mikið til.
Ég er núna með fallegasta rass ever. Hann er fjólublár, báðar rasskinnarnar.
Og svo staulast ég hér um og það er ekki sjón að sjá mig. Það er t.d dæmis mjög sárt að sitja, ég þarf alltaf að lyfta sérstaklega vinstri rasskinninni og setja þungann yfir á þá hægri því marbletturinn á hægri er ofar en sá á vinstri.
Er svo dömuleg að það er leitun að öðru eins.

Shiiiiiiii(ttt) ...pp ohoj

Er alveg hér að tapa mér.
Ég semsagt fór af stað með þessa nettengingu.
WELL, las og setti diskinn í og fór svona step by step.
Svo setti ég allt í samband, ráter, smásíu og hvað þetta heitir.
En eitthvað var ekki að virka. Hringdi í Netheima, fyrirtæki hér á Ísafirði og sá sem tengdi símann minn var einmitt á leið inn í fjörð og sagðist kíkja við. OK. hann hlýtur að vita hvernig í þessu stendur. Nú hann kom fór yfir þetta og spurði svo: hérna ertu ekki komin með sæti?
Ha, sæti?
já hjá Vodafon.
Uuuuu, hvað er það?
Sem sagt ég hringi og spyr um þetta sæti.
Nei sko þó þú sért komin með ráterinn í hendurnar er ekki þar með sagt að þú sért tengd á sæti, var svarið sem ég fékk.
Jæja, og hvenær gerist það???
Bara eftir helgi, fylgstu með ljósinu á ráternum þar sem stendur DSL, þá ertu tengd.
Nú nú ég ægilega ánægð með þetta en langar nú að blogga og svona, kíkja á póstinn minn svo ég hringi mig inn í gegnum símalínuna eins og venjulega. Eitthvað trekt svo ég hringi í 1414 og þá er mér sagt að ég þurfi að taka ráterinn úr sambandi til að geta hringt mig inn.
Svona lítið smáatriði, hóst.
En eitthvað vill Haraldur sem var hinumeginn á línunni fá upplýsingar um þetta allt saman og þá kemur í ljós að fíflin hafi ekki sent mér pappíra til að skrifa undir svo ferlið geti farið af stað!!!
Og hvað þýðir það.
Jú það skal ég segja ykkur.
Ég þar þarf að bíða í 5 til 7 virka daga þangað til ég fæ þetta fokkins net.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Ráterinn

Þá er ég komin með gripinn í hendurnar.
Veit ekkert hvernig ég á að tengja hann en með honum fylgja leiðbeiningar á diski og svona bæklingur þar sem stendur step one og á örugglega að virka fyrir manneskjur sem kunna ekkert, nákvæmlega ekkert á svona tæknidót. Með öðrum orðum ég. En þrjóskan að geta gert þetta ein og óstudd er skynseminni ofursterkari. Þá er bara að fara að hita sér sterkt og gott kaffi, svona til að léttta lundina og koma sér í égskalgetaþetta gírinn. Óskið mér góðs gengis.
Ef þið heyrið ekkert frá mér í nokkara daga þá er ég enn að reyna að finna út úr þessu en ef ég blogga sem aldrei fyrr er ég komin með almennilega nettengingu, ráter og laus við að hringja mig inn á netið. En þá er að bara að demba sér í þetta. hops sa saaaaaa.........

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hrollur?

Það á víst að vera tveggja stafa tala á mælinum á morgunn.
það gerir sko ekkert til.
Ákvað að taka þetta í mínar hendur.
Ég fór nefnilega í dag og keypti mér peysu með rúllukraga.
Og ekki eina heldur tvær.
Og þær eru bæði lekkerar og smart.
Ætla sko ekki að láta veðrið stjórna mér hér.
Þó ég hafi fengið hálsbólgu og kvef.
Set bara meiri engifer í teið.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Of mikið testosteron

Hvernig í veröldinni stendur á því að fertug kona fær ennþá unglingabólur?
Og það ekkert einhverjar litlar sem hægt er að fela.
Nei, hlussubólur alveg.
Á áberandi stað á kinninni.

Er ekki með eina heldur tvær svoleiðis núna.

Finnst ég ekki dömuleg.

Hvað þá sexí.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Ómissandi verkfæri

Ég hef verið lokuð inni.
Bíllinn á kafi í snjó og hefur ekki verið hreyfður síðan á föstudaginn.
Minnir mig á gamla tíma þegar gatan heima á Engjavegi var ekki mokuð svo dögum skipti.
Þá óð maður snjóinn upp í klof og fannst lífið ævintýri,
dúðaður í útigalla með lambhúshettu,
stökkvandi niður af húsþökum í girnilega skafla og rennandi sér niður brekkuna hjá fótboltavellinum.
Allann daginn.
Það þurfti nánast að draga mann inn í mat.

Snáðinn fór út í garð snemma í morgunn glaður með Stigasleðann í eftirdragi.
Hér labbar hann út í garð og rennir sér á hólnum sem trónir í miðjum garðinum.


Ætlaði út með ruslið áðan en varð að snúa við.
Stór skafl hafði myndast fyrir framan ruslageymsluna.
Svo hlánaði og snjórinn varð bæði þungur og blautur.
Fór torfæruferð með mömmu inn á flugvöll að ná í Ponsí.
Ætla að reyna að hreyfa bílinn núna á eftir því mamma bauð okkur í mat.
Ég er sko sannarlega búin að planta mér út í sveit.
En það er sveit að mínu skapi.
Mig vantar því eitt mjög mikilvægt verkfæri.
Sem er alveg ómissandi fyrir skógarbúa.
Skóflu.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Gleðin við völd

Allt á blússinu en síma og nettengingar ganga haaaaaaaaaægt.

Sef eins og grjót í helmingnum af nýja rúminu því botninn komst ekki upp stigann......mhuuuuu...
frekar fúlt. Því verður einhvernveginn reddað.


Veð í kössum og öðrum pappír og dóti en finnst lífið dásamlegt.

Vonandi ykkur líka.

knúsa ykkur í klessu.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Í skóginum stóð kofi einn

Held ég hafi sjaldan verið glaðari.

Þetta klárast á morgunn.

Fékk lykla í dag og tveir sætir verktakar mættu með blómvönd.

Það voru teknar myndir og mér óskað til hamingju.

Er orðin íbúðareigandi á Skógarbraut 3a...........

.........og fæ ADLS í næstu viku

hohohoho hvað lífið er skemmtilegt.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Speki

Í sumar var þetta heilræði sett upp á vegg í herberginu
sem ég kom mér fyrir á Engjavegi 26.
Var að lesa bloggið hjá Bauninni og fannst í framhaldi af því
heillaráð að deila því hér.

Heilræði
Gefði þér tíma til að vera hamingjusöm.
Þú ert einstök, sérstök, óbætanleg. Veistu það?
Taktu þér góðan tíma til að vera hamingjusöm.
Tíminn er engin hraðbraut milli vöggu og grafar,
heldur staður til að fá sér sæti í sólskininu.
Þú þarft ekki stöðugt að flýta þér, strita í sífellu og aldrei láta deigan síga.
Þú þarft ekki að gera öllum til hæfis á hverjum degi
og vera alltaf sterk og fullkomin.
Þú átt rétt á því að vera hversdagsleg manneskja.
Með aðeins venjulega hæfileika.