Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, maí 31, 2006

Þetta er dagurinn í dag

Hér er stöðugt fjör.
Ætlar bara engan endi að taka.

Ef þið verðið við ríkiskassann í kvöld þá getið þið horft og hlustað á söngdívu heimilisins í Kastljósinu í kvöld. Henni var boðið að taka þátt í blúshátíð á Akureyri næstu helgi.
Og með ekki minni köllum en Magga Eiríks, Pálma Gunnars, Gulla Briem, og Agnari Má jazzpíanista. Svo verður brunað í Söngskólann í Reykjavík til að þreyta inntökupróf.

Sjálf er ég að fara á æfingu með sinfó.
Fyrir áhugasama er frumflutingur á Sinfóníu nr. 2 e: Atla Heimi Sveinsson á morgun en Mótettan spilar þar stórt hlutverk.

Svo fer dagurinn í reddingar og hlaup því við ætlum að hafa eitthvað gott að borða við kennararnir eftir skólaslitin í kvöld.
Og auðvita hefði ég þurft að vera að horfa á Ponsí dansa á sama tíma. Dæmigert.
Alltaf allt á sama tíma.

Jæja þá er að skella upp andlitinu og syngja nokkrar strófur svo það urgi ekki í mér í viðkvæmu innkomum kórsins núna á eftir.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Það sem ég sá

Held ég hafi séð bloggara í dag.

Sem ég hef aldrei séð "læf".

Nema þegar hann setti mynd af sér á síðuna sína.

En það er ekki "læf".

Kom út úr Bónus á Laugarveginum um hálf fjögur í dag og sá hann

í gallabuxum og leðurjakka ganga rösklega fram hjá.

Brosti út í annað.

Lítill heimur Hemúll minn.

Spakmæli dagsins

Hvernig borðar maður fíl???

Með því að taka einn bita í einu!

Skooh.......... komin til baka.

Hrikalega skemmtilegt.

Meira á morgun því ég er alveg að lognast út af.

föstudagur, maí 26, 2006

Stúdínur

Þá er þessi geðveika vika að renna sitt skeið.

Hápunkturinn verður í dag þegar hún Hrund okkar útskrifast sem stúdent úr MR.

Búið er að skreyta sal, baka, gera mexíkóska kjúklingasúpu, redda dúkum, glösum og öðru smálegu sem nauðsynlegt er að hafa þegar halda á veislu.

Sjálf verð ég 20 ára stúdent á morgun og held af stað akandi með foreldrum mínum eftir veislu kvöldsins vestur á firði.

Verð því ekki í bloggheimum næstu daga en óska ykkur alls hins besta með hækkandi sól og hlýnandi veðri.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Í tölvleysi

Hef verið tölvulaus síðan fyrir helgi.

Upplifði mig hálf munaðarlausa.
Ótrúlegt hvað maður verður háður þessu apparati.

Sat bergnumin sl. sunnudag í Hallgrímskirkju.

Hlustaði á overdrive söng í tvo tíma alveg dolfallin.
Hvílíkar raddir.
Hef aldrei heyrt svona djúpa tóna hjá kvennmönnum fyr.
Það drundi bókstaflega í kirkjunni.
Ógleymanlegt.

Þegar þessi vika er búin verð ég vonandi enn á lífi,
sé varla út úr augum vegna anna.

Fékk hollráð frá góðri konu í dag.
Ætla að reyna að fara eftir því.

Tókst það í dag og skrapp á bókasafnið.
Náði mér í bækur sem ég hlakka til að lesa.

föstudagur, maí 19, 2006

Kl. 19.00

Sat og horfði.

Mikið sjóv.

Glimmer og vindvélar.

Allt yfirkeyrt.

Heyrði engan söng.

Hann kafnaði í hávaða.

fimmtudagur, maí 18, 2006

dinglumdangl

Stundum verða verkefni lífsins óyfirstíganleg.
Maður veit ekki hvar á að byrja og dinglar þessvegna bara í lausu lofti.

Í dag dingla ég.

Gleði

Það var gaman í gærkveldi.

Kórinn var í frábæru formi og átti mörg undurfalleg móment.
Enda ekki hægt annað en að smitast af sönggleði með þennan
gleðibolta fyrir framan sig.
Til hamingju Gunnar!

þriðjudagur, maí 16, 2006

Tvíbókun

Er ekki alveg dæmigert að þegar maður er búinn að bóka sig á ákveðnum tíma þá kemur eitthvað annað nokkrum dögum seinna á sama tíma sem maður bara má alls ekki missa af?
Er í þannig sporum í dag og missi af því að sjá snáðann leika fugl á leikskólanum sínum.
Hann var frekar leiður í morgunn og vinkaði mér með svona "puppy face" sem fær hjartað til að taka aukaslag.

mánudagur, maí 15, 2006

Plögg

Víðistaðakirkja er dáldið langt í burtu héðan af nesinu.
En þangað þarf ég að bruna í kvöld, hita upp kórinn og æfa 2 sólo sem ég syng með þeim.
Fyrir áhugasama þá eru flottir tónleikar miðvikudaginn 17. maí kl. 20.00 í Víðistaðakirkju.
Flytjendur eru Árnesingakórinn sem Gunnar Ben stjórnar og svo fyrrnefnd ég ásamt Bjarna Jónatans píanista. Held þetta verði stuð.

Og núna, sturta, kjóll og gloss.
rapídó...

Örlög

Eyþór Arnalds er ekki heppinn maður.

Hvað finnst þér?

Rígurinn eitthvað aðeins að dvína sem betur fer.
Get núna litið aðeins til vinstri án þess að snúa búknum í leiðinni.
Frekar fyndin situasjón.

Hvað býður maður upp á í stúdentsveislu?
Hef aðeins verið að hugsa þetta þar sem ein slík stendur fyrir dyrum hjá Hrundinni.
Þetta verður ekkert stórt í sniðum hjá okkur en samt langar okkur að bjóða upp á eitthvað verulega gott því tilefnið er ærið.
Þarf eitthvað að skoða þetta en kannski lumar einhver á einhverju gasalega sniðugu, ha?

sunnudagur, maí 14, 2006

rígur

Vaknaði með allsvakalegan hálsríg núna í morgun.

Höfuðið er alltaf í sömu stefnu og búkurinn.

Ég er sem sagt eins og spýtukarl.

Afar óheppilegt því ég er að fara í próf þar sem píanóið kemur mikið við sögu.

Hef með hléum setið í dag og reynt að spila sus, dim og sjöundarljóma ásamt öðrum kryddlegnum nótum.

Og spunnið, jájá bara.

Nokkrar Treo töflur hafa bjargað mér aðeins.

Verð nú að segja að mig grunaði ekki að ég þyrfti að fara í svona alvöru próf í þessum kúrs þegar ég skráði mig í hann.

Fyrst skriflegt á morgun og svo verklegt á þriðjudaginn.

Jónas Þórir alveg að tapa sér í metnaðinum.

föstudagur, maí 12, 2006

Uppgötvun

Ég á sjónvarp sem kveikir á sér sjálft.

Rúv

Gerður G. Bjarklind átti snilldartakta í auglýsingatíma rúv í gær.

Fyrst las hún um nýja sendingu frá herrafataverslun Birgis.
Á eftir kom auglýsing frá LR um sýngingar á Litlu Hryllingsbúðinni.

Í næstu umferð las frú Gerður:
Vorum að taka upp nýja sendingu af herrajökkum, hryllingsfataverslun Birgis.

Mikið fát kom á frúnna og heyrðist nei, nei hvaða vitleysa er þett...... áður en hún náði að loka fyrir hljóðnemann.
Svo kom:Þulur biðst afsökunar á þessu hryllilega mismæli.

Svo þegar auglýsingatímanum lauk er venja að segja hvað klukkan er.
Góðir hlustendur nú klukkan ellef......nei nei nú er þulurinn alveg út að ..... svo lokaði hún fyrir nemann, tilkynnti svo að klukkan væri eitt og vítt og breitt væri að fara í loftið.

Gerður; takk fyrir skemmtilegust stund mína með auglýsingum á rúv.
Jú seivd mæ dei.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Tilvitnun dagsins

"Júróvísíón er auðvita Nóbelsverðlaunahátíð í tónsmíðum"

Silvía Nótt

Í gær....

...... gekk þetta próf nú ekki eins vel og í fyrra.
Jæja svona er þetta nú bara, svosem lítið hægt að breyta því héðanaf.

Fékk útrás á ryksugunni þegar ég kom heim og hreinsaði kofann af rykhrúgum sem eru ótrúlega fljótar að safnast upp í öllum hornum.
Hamaðist eins og berserkur og leið bara miklu betur eftir á.
Undarlegt.
En gott.

Tveir yngstu nemendur mínir syngja opinberlega á tónleikum n.k. sunnudag.
Fór á æfingu til að hlusta og varð stolt.
Á þessum tónleikum, sem ber upp á mæðradaginn, syngja saman ömmur, mömmur og dætur.
Og kórinn heldur upp á 10 ára afmæli sitt.
Kyrjurnar, Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 14. maí kl. 17.00.

Og rokkarinn kláraði samræmduprófin.
Farið var í Húsafell strax eftir hádegi og á ég von á honum heim í kvöld.

Fékk símtal, verð í London 9 - 12 júní.
Hlakka til.

Rökræður fram á nótt.

en í dag.....

kom Hrundin heim rauðeygð og náhvít í framan.
Sat í alla nótt og lærði fyrir stjörnufræðipróf.
Fór svo í prófið og gekk vel.
Þetta er löng törn þarna hjá þeim í MR.
Skil ekki alveg tilganginn.
Og enn eru 2 eftir.

Skókaup með Ponsí eftir hádegi og svo kennsla.

Svona er nú þetta líf.

Fullt af allskonar verkefnum.

sunnudagur, maí 07, 2006

Til hennar Heklu minnar

Heklan mín.

Hef saknað þín óskaplega.

Er ekki alveg að gúddera þetta brotthvarf.

Finnst það agalegt og eiginlega bara ekki hægt.

Er ekki hægt að gera eitthvað í málinu??

Saknaðarkveðjur


Syngibjörg

Alveg viss

Gaman stundum að spá í viðbrögð fólks.

Sumum finnst æði að ég skuli vilja flytja vestur,
aðrir öfunda mig en sumir segjast fá hroll.
Hef lengi fundið fyrir neikvæðum viðhorfum gagnvart landsbyggðinni.
Þangað færi fólk sem ekki hefði náð að "meika það" í Reykjavík,
öðru nafni "lúserar".
Mér er svo sem nokk sama hvort ég fylli nú þann flokk.
Hitti um daginn konuna sem rekur uppáhalds búðina mína.
En ekki lengur, því hún er að hætta með hana. Ætlar að fara út á land.
Ég sem var svo yfir mig hamingjusöm yfir þessari verslun
því hún var svo kósí og sæt.Seldi fallega muni á hlægilega lágu verði.
Það mætti manni andrúmsloft sem maður átti ekki að venjast. Hún spilaði þar gamla djazz standarda seldi te og skonsur innan um sætu litlu munina.
"Það er eitthvað svo neikvæð orka hér í borginni" hafði hún á orði.
Mig langar ekkert að vera hér lengur, allt svo öfugsnúið. Enginn hefur tíma til neins og allir taka upp dagbókina sína ef einhver nefnir hitting. Það þarf að skipuleggja með minnst viku fyrirvara hélt hún áfram. Fyrirtækin "eiga" starfsfólkið sitt, það glatar lífinu og neistanum og hringsnýst um þarfir annara. Sagðist hafa búið í Kaupmannahöfn og ekki upplifað neitt þessu líkt þar.
Enda hvernig má það vera.
Íslendingar eru eitthvað sérlega spes fyrirbæri.

Var svo sammála, svo innilega að ég fór brosandi út.
Hundarð prósent viss að mín ákvörðun um að fytja út á land væri hárrétt.
Ég get þá bara alltaf komið til baka.

My type

Auðvita er ég artist type.

Annars væri ég ekki ég, heldur einhver allt önnur.

Myndi nú ekki fíla það.

Hef þó reyndar stundum langað til að söðla um og vinna við eitthvað allt annað.
En hvað er í boði fyrir menntaðan söngkennara og kórstjóra annað en að kenna söng og stjórna kór. Getur einhver sagt mér það?
Ekki fer ég að selja hús, eða forrita, eða eitthvað í þeim dúr...hmmm......

Nú auðvita er það svo að maður þarf að hafa próf til að starfa við það sem gefur eitthvað af sér.
Þó svo ég sé ágætlega menntuð með fína starfsreynslu gefur það mér ekkert í budduna nema það sem var samþykkt í síðustu kjarabaráttu og það megi þið vita er hreint ekkert til að troða mitt lúna veski með. Eiginlega hálf bjánalegt að eyða öllum þessum árum í nám án þess að það skili sér ekki launalega. Æi, það er svooo óóóógeðslega leiðinlegt að tala um peininga og laun.
Vildi óska að ég hefði meiri áhuga á því, en verð alltaf fústreruð og pirruð þegar þessi mál bera á góma. Langaði samt alltaf að verða kennari, veit ekki afhverju. Kannski af því ég hef alltaf haft áhuga á manneskjum. Stórum sem smáum.
Your Career Type: Artistic
You are expressive, original, and independent.Your talents lie in your artistic abilities: creative writing, drama, crafts, music, or art.
You would make an excellent:
Actor - Art Teacher - Book Editor Clothes Designer - Comedian - Composer Dancer - DJ - Graphic DesignerIllustrator - Musician - Sculptor
The worst career options for your are conventional careers, like bank teller or secretary.

laugardagur, maí 06, 2006

Ólyginn sagði mér.......

........... að í dag yrði 17 stiga hiti.
Í þeirri trú ætla ég að hjóla í vinnuna, flott og fín í kjól.
Með gloss.
Læt mig dreyma um þessar dönsku en vantar körfu á hjólið.

Hugsa að ég dragi fram grillið svona þegar líðu á daginn og skelli einhverju góðgæti á það.
Langar að setja upp kósí - róluna og fá mér hvítvín.
Kanna ástandið á garðhúsgögnunum.

Það má því alls ekki rigna í dag.

Vera til.

föstudagur, maí 05, 2006

Svör við spurningu

Stoppaði bílinn fyrir framan kirkjuna.

Veit ekki afhverju hún varð fyrir valinu.
Leið eins og ég hefði verið leidd þangað.

Náði mér í tissjú og þurrkaði tárin.
Beið þar til mesti ekkinn var farinn.

Setti á mig sólgleraugun og fór inn.

Stóð ráðvillt.
Hann sá mig og kom á móti mér.

Bauð mér inn á skrifstofuna, sótti vatn og rétti mér meira tissjú.

Í gegnum ekkasogin stóð bunan út úr mér.
Óð úr einu í annað.

Róaðist.

Hvað stoppar þig? spurð´ann svo þegar ég gerði hlé.

Þessi spurning hefur ekki vikið úr huga mér.
Hún gefur mér svo ótal mörg svör.
Svör sem segja mér hvað skiptir mestu máli.

Nú er hafin tiltekt.
Það þarf að flokka, raða og forgangsraða.
Skýra línur.
Gefa sér tíma.

Vera til.

Betri tíð með blóm í haga.....

Niðurstaða er fengin í málið.

Finn fyrir létti.

Uppbygging framundan.


OG nú fer allt í gang varðandi íbúðina fyrir vestan, því ég þarf að velja innréttingar, tæki og gólfefni hið fyrsta svo ég fái hana afhenta sem fyrst.
Þeir græja allt og ég mæti eins og prinsessa og kem mér fyrir.

Það verður skemmtilegt að fá ykkur í heimsókn.
Ótrúlega skemmtilegt.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Áttu pillu?

Er að fara í tvö próf núna í vor.

Annað í næstu viku sem tekur 2 daga hitt í vikunni þar á eftir sem ég kvíði mikið fyrir.
Verð að vera duglegri að æfa mig ef ég á ekki að verða mér til skammar.
Hef þó lært heilmikið að lesa hljóma, alls konar hljóma og útsetja á staðnum,
finna stíl og svoleiðis.
Er frelsuð frá "úmpapa" stílnum.
Og þá er tilganginum náð.

Vantar svona gleðipillu til að hafa meira gaman af þessu.
Svona pillu eins og "lifnipillan" sem við tókum hér í denn þegar maður varð
dauður í einhverjum leiknum.