Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Pælingar Snáðans


Síminn hringdi og hin meginn á línunni var Snáðinn minn því nú er pabba vika.
Heyrðu mamma, þú átt að koma á leikskólann minn á morgunn.
Nú, og hvað er um að vera?
Ég er að útskrifast!!!!
Vááá....... en gaman.
Já, og ég fæ blóm og allt.
Frábært ég kem og tek þátt í þessu með þér.
Ó kei bæ sjáumst á morgunn.....svo skellti hann á.
Og í dag er hann útskrifaður úr leikskólanum.
Þau sungu 2 lög, fengu viðurkenningarskjali, blóm(nema hvað)
og geisladisk með 100 myndum úr starfi leikskólans.
Þegar hann hættir fyrir sumarfrí er þeim kafla í lífi mínu, að eiga leikskólabarn ,lokið.
Váááá , skrítið.
Hann sat aftur á móti með pulsuna sína eftir athöfnina
og velti því fyrir sér afhverju hann þyrfti að koma næsta dag í skólann
fyrst hann væri útskrifaður.
Hvað þýðir þetta eiginlega að vera útskrifaður, mamma??
Sagð´ann með remolaðið út um alla kinn.

miðvikudagur, maí 30, 2007

Hátíð

Það verður ákaflega ánægjulegt að taka þátt í þessum hátíðarhöldum.
Minn fyrrverandi á víst einhvern þátt í því.
Og frændi minn, leikarinn.
Þeim fannst vanta menningarmiðstöð í bæinn.
Töluðu við góðan mann hér í bæ sem fannst hugmyndin frábær.
Þeir eru báðir fluttir burt en hugmynd þeirra varð að veruleika.
Því ber að fagna.

mánudagur, maí 28, 2007

Ég nenni ekki að standa upp úr sófanum til að fara að sofa.

Ég er sófakartafla.

sunnudagur, maí 27, 2007

Í dag skein sól á sundin blá....

...... og fjörðurinn minn skartaði sínu fegursta.
Enn er kalt, úlpu, húfu og vettlinga- veður.
Þetta er þó allt að koma og snjórinn smám saman að bráðna.

Fékk dýrðlegan mat og vín í gærkveldi.
Eftir miklar tilraunir með að fá leigubíl til að komast heim úr boðinu brugðum við á það ráð að labba niður í bæ til að sjá hvort hann yrði ekki á vegi okkar. Og þar sem við dömurnar vorum í fínum háhæluðum skóm og "doltið"!! kalt úti bauðst gestgjafinn til að lána okkur dömunum betri skó til að ganga á. Heppnin var með mér því hún er ein af fáum konum sem notar sömu skóstærð eða skulum við segja skósmæð og ég.
Ég gekk því bókstaflega í sporum sýslumannsins niður í bæ í gærkveldi.
Og til að gera langa sögu stutta komst ég loks heim klukkan þrjú í nótt og ekki var það vegna þess að ég náði í helv.... leigubílinn.
Nei, var boðið far af góðu fólki.
Stundum getur verið gott að búa þar sem allir þekkja alla.

föstudagur, maí 25, 2007

Föstudagurinn 25. maí 2007 kl. 7.50.
fimmtudagur, maí 24, 2007

Má bjóða þér te?

Ég átti leið í Gamla Bakaríið í dag til að kaupa mér speltbrauð. Hef verið að hugsa um heilsuleysi mitt undanfarna daga og hvað ég ætti til bragðs að taka. Pestin sem ég náði mér í 28. apríl situr kyrfilega föst í mínu kerfi og neitar hreinlega að yfirgefa mig. Þetta hefur haft ýmislegt í för með sér og verið hamlandi á líf mitt þó aðallega vinnulega séð. Þar sem mikil törn er hjá okkur tónlistarfólki í maí var engin smuga að liggja heima og leyfa líkamanum að vinna á þessu. Svo það er nú skýringin á því hve pestin hefur verið lífsseig. En þar sem ég kem inn í Gamla, til að kaupa brauð, stendur hún María Ruthardóttir fyrir framan te og kaffiborðið og hreinlega tekur á móti mér með því að spyrja þar sem ég sé mikil te-kona hvort ég hafi prófað íslensku jurtirnar. Uhh... ég er bara með piparmyntulauf sem týnd voru út í íslenskri náttúru og nota þau í te svaraði ég. Hérna sagð´ún og rétti mér tvö A4 blöð sem heftuð voru saman, lestu þetta, þetta er svona fróðleikur um allar þessar jurtir sem ég var að fá. Svo benti hún mér á hillurnar sem voru smekkfullar af pokum sem innihalda ýmsar íslenskar jurtir. Eftir að hafa lesið mér til um Blágresi, Burnirót, Gulmöðru, Maríustakk og guð má vita hvað tók ég poka af Vallhumli. Hann ku vera góður við hita, kvefi, eyrnaverk, fyrir nýru- og blöðru, lystarleysi, óþægindum í maga, tíðarteppu, vera bakteríudrepandi og fyrir tíðablæðingar. Í pokanum úr bakaríinu var líka fróðleg lesning um hinar ýmsu te tegundir. María hafði laumað þeim í pokann svona mér til fróðleiks. Vallhumallinn er allt í lagi á bragðið ef maður setur út í gott hunang en ég vona svo sannarlega að virknin verði mér hliðholl og ég sjái fram á betri daga svona þega hríðinni sleppir. Í dag þurfti nefnilega að fresta sveitaferð leikskólans sökum snjókomu. Þetta er auðvita ekkert grín, en ég setti meiri hita á ofnana þegar ég kom heim í dag því ég hafði stillt þá á sumarhitann um daginn þegar ég stóð í þeirri meiningu að vorið væri komið. Ég sé ekki út núna fyrir snjókomu og hríð. Þá er ekkert annað að gera en gæða sér á sjóðandi heitu tei úrVallhumli og vona það besta fyrir alla.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Áfangi

Brynja Sólrún tók 1. stig á blokkflautuna sína í gær.
Hún spilaði þrjá tónstiga, eina æfingu og tvö lög.
Hún kom einnig fram á þrennum tónleikum Tónlistarskólans,
með blokkflautuhópnum, sem einleikari og sem kórsöngvari.
Tónleikar Tónlistarskólans voru alls 17 nú í vor.
Okkur báðum finnst rosa gott að vera komnar í frí frá því öllu.


mánudagur, maí 21, 2007

Að syngja er góð skemmtun

Mikið er gaman að vera með góðu fólki.
Átti frábæra helgi í góðum félagsskap söngelskra manna og kvenna.
Tónleikar, blóm, heimsókn, matur, skemmtun og gott fyllerí.

Smá trúnó.

Dans og partý.

Gekk áleiðis heim í morgunsól og dáðist að logninu á Pollinum.
Bærinn minn er fallegastur í heimi.


Heiti potturinn bjargaði mér í dag og börnin svömluðu í lauginni.
Pönnukökur með sírópi klikka ekki.
Og gott kaffi.....mmmmm............

fimmtudagur, maí 17, 2007

..............og í ruslið fóru þau...........

Efnisorð:

Mute

Getur einhver sagt mér afhverju tölvan mín er þögul?
Krakkarnir stundum í henni og þá yfirleitt allt í maski þegar ég fæ hana aftur. Er alveg viss um að litli snáðinn hefur ýtt puttanum á einhvern takka, sko ekki þennan með strikinu yfir hátalarann, þekki hann. Er bara að spá hvort það sé ekki einhver annar takki ???? Veit einhver?

miðvikudagur, maí 16, 2007

Fréttin í bb í dag


Sungið og slegið á létta strengi
Barna- og unglingakórar Tónlistarskóla Ísafjarðar halda vortónleika ásamt strengjasveit skólans í Ísafjarðarkirkju á morgun, uppstigningardag. Það er söngkennarinn og kórstjórinn Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir sem hefur stjórnað kórunum í vetur, en stjórnandi strengjasveitarinnar er sem fyrr Janusz Frach. Tónleikarnir eru einir af sautján tónleikum TÍ í maí, en tónleikaröðin hófst þann 9. maí með Vorþyt lúðrasveita tónlistarskólans og lýkur með lokahátíð skólans, þann 31. maí nk.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Á þessum sólgula heiðskíra degi (með nefið fullt af skít og hálsinn hóstandi) ætti maður að vera skoppandi kátur og hlaupa út í daginn með fangið fullt af bjartsýni.
Í speglinum sé ég bauga, rautt og útúrsnýtt nef með þurrkublettum og galtóm augu.
Krítarhvíta húð og þornaðar varir.

Mig vantar klemmur.
Fyrir þvottinn og mig.

laugardagur, maí 12, 2007

Stunga

Ég er ótrúlega lánsöm að hér er staddur háls-nef og eyrnalæknir. Í heimsókn til hans í dag fékk ég að vita orsökina fyrir hellunni sem hrjáð hefur mig síðan um mánaðamót. Það var vökvi á bak við hljóðhimnuna sem örsakaði hana og þrýstinginn. Og aðeins til eitt ráð. Stinga á hana. Í eyrun tróð hann bómull með deyfilyfi sem gerðu mig ringlaða og mig svimaði mikið. Eftir korter settist ég í stólinn og beið því sem verða vildi. Hann varaði mig við sársauka, sem betur fer, því þetta var sárt. Eftir hafa stungið, saug hann drulluna út og sagði að ég gæti átt von á að næstu daga myndi vætla gulur vökvi út um eyrun. En breytingin, maður minn.
Nú veit ég hvað það er sem börnin upplifa sem eru með í eyrunum og þurfa að fá rör. Mikið skil ég grátinn og vanlíðanina en ekki síst gleði foreldrana og barnanna sjálfra þegar rörin eru sett upp.
Ég fór og kaus, fékk mér kosningakaffi svo áður en ég fór heim og skreið upp í sófa. Hef í hyggju að eyða kvöldinu þar. Óska ykkur góðs júróvísjón og kosningakvölds.

föstudagur, maí 11, 2007

Brrrr........

Mér er svo kaaaalt.
Lyfin frá doctor brilljantis virkuðu ekki.
Hellan dvelur því enn í mínum eyrum og gerir mér lífið nánast óbærilegt.
Hún þrýstir á hljóðhimnuna og myndar mikið suð.
Mér líður best þegar ég halla höfðinu alveg aftur og horfi beint upp í loftið.
En það er frekar óheppileg staða svona í daglegu lífi svo hún er eiginlega ekki brúkleg.

Verst er hinsvegar að beygja sig niður því þá þrýstist á hljóðhimnuna með svo miklum krafti að ég missi eiginlega jafnvægið þegar ég reisi mig upp.
Bíð spennt að vita hvað háls-nef og eyrnalæknirinn segir á morgunn.
Held ég leggi mig í þeirri von að ná úr mér þessum hrolli.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Við vitum ekki hver þú ert......

........stendur framan á umslaginu. Var að fá auðkennislykilinn í pósti fyrst núna.
Hef þó alltaf getað farið inn á netbankann en er alltaf rukkuð um þessar upplýsingar.Skýringin á töfinni, eða sú sem þjónustufulltrúinn gaf, var að það hafi ekki verið pantaðir nógu margir lyklar. Dáldið fyndið að banki geri mistök með tölur. Kemur út eins og það sé ekki vitað hversu margir viðskiptavinir hans noti netbanka. Hélt að það væri vel haldið utan um þannig upplýsingar. Ætli ég einhendi mér ekki að virkja gripinn og búi til enn eitt lykilorðið. Liggur við að það sé orðið fátt um fína drætti í þeim efnum því maður opnar varla tölvuna né kaupir bensín með korti nema slá inn lykilorð og pin-númer. Eitt er nefnilega að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug og annað er að reyna að muna það.

mánudagur, maí 07, 2007

For (e) (your) eyes only

Æ ég er svo seinheppin.
Var að paufast með gleraugun mín.Þannig var að í vetur fékk ég í sárabætur fyrir umgjörð, sem var gölluð, sólgler með styrk í sem sett voru í þá umgjörð. Búðarkonana vildi endilega gefa mér hulstur utan um þau svona til að tryggja að ég færi enn sáttari út úr búðinni. PALOMA PICASSO stendur stórum stöfum utan á fagurrauða hulstrinu og fer sjálfsat ekki fram hjá neinum. Og ekki þeim sem með fingrafimi sinni náði að stela hulstrinu úr pokanum sem ég var með í strætó þegar ég var út í Köben um daginn. Nema í hulstrinu voru venjulegu gleraugun mín, því sólgleraugun voru á nefinu á mér, og ég á ekki von á því að nokkur maður geti gert sér einhvern mat úr þessum ránsfeng. Fékk að vita það í dag að ég þarf að bera kostnað upp á 15.000. kr. fyrir nýjum gleraugum og tryggingar borga rest. Er búin að velja mér nýja umgjörð en það er svona lán í óláni að þetta skuli hafa gerst því ég hef beðið eftir tvískiptu glerjunum mínum frá því seint í desember. Nú á ég sem sagt loksins von á þeim, og tryggingarnar borga. Stundum er trassaskapur sjóntækjafræðingsins viðskiptavininum í hag. Hef því sett upp gömlu gleraugun þegar linsunum sleppir og uppskorið mikinn hlátur barnanna minna því ég þyki víst ferlega hallærisleg með þau. Sú umgjörðin var valin því hún var ódýrasta eintakið í búðinni. Og samkvæmt fyrirmælum var mér fyrir bestu að velja hana. Set hana því ófús upp og tilneydd því hún minnir mig á tímann þegar ég var beygð og brotin kona. Vil helst ekki líta í spegil því þá sé ég konuna sem ég var. En ég veit að hún er ekki til lengur, bara spegilmynd hennar. Og í framhaldi af þessu fór ég að hugsa hvað litlir hlutir sem tilheyra lífi manns geta kallað fram sterk viðbrögð, minnt mann á og framkallað myndbrot. Ég er eiginlega hissa á að ég skuli ekki hafi fleygt þessum gleraugum því þau er tákngervingur svo margs sem tilheyrði því hræðilega lífi sem var. Er staðráðin í að setja þau í tunnuna þega þau nýju setjast á nefið.

laugardagur, maí 05, 2007

doctor brilljantis

Fór til læknis.

Og fékk meðal.

Við hellu.

1 tafla á dag.

Bíð spennt.

föstudagur, maí 04, 2007

Blóm í kinnum og hælsæri

Á morgun flýg ég heim til Íslands. Er komin með smá roða í kinnar af sólinni en aðallega bólgna fætur og smá hælsæri. Þetta hefur verið ótrúlega gaman eins og alltaf. Tónleikarnir í gær voru fínir svona miðað við að standa upp á sviði og syngja með hellu fyrir eyrunum. Lasleikinn hefur smám saman rjáttlað af mér en kvefið sem aðallega situr í eyrunum er alveg að gera mig brjálaða. Og barkinn. Hann komst að mestu leyti í heilu lagi en könnubrjóskin voru bæði dottin af raddböndunum og Hyoid-beinið var komið í þrennt. Allt um það þá var hann myndaður í bak og fyrir og var mjög athyglisvert að sjá hversu margar útfærslur fólk kom með.
Íbúðin á Jansvej er frábær og bjuggum við 6 saman, íslendingar, finnar og einn frá Hollandi en þetta er yndislegt fólk sem kann að njóta lífsins, grilla og drekka rauðvín.
Það er náttúrulega bara komið sumar hér þó enn sé dálítið kalt svona til að vera í alvöru sumarkjól og spóka sig úti á kaffihúsum. Á von á að í júní, ef það rignir þá ekki, verði sumardressin nýtt til fullnustu en vegna pestarinnar sem ég tók með mér hefur hrollurinn nánast ekki yfirgefið mig. Fínu sumarfötin sem ég hafði fyrir að strauja og þvo bíða því bara fram í júní. Hef einnig verið að hugsa um að það væri nú dálítið sniðugt að útvega sér hjól til að hafa hér. Er nefnilega að fíla þessa hjólamenningu dana alveg í tætlur.
Borgin er ósköp róleg í dag þrátt fyrir föstudag því í dag er einn af þeirra frídögum. Hef því góða afsökun fyrir að nenna ekki að rápa í búðir heldur skoða mig frekar um. Labbaði yfir í Botanisk Have (svona eins og Grasagarðurinn) settist þar á bekk, las í bók og borðaði jarðarber. Lífið gæti auðvita ekki verið yndislegra því sólin skín skært og himininn er alveg heiður.
Njótið því dagsins.