Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Má bjóða þér te?

Ég átti leið í Gamla Bakaríið í dag til að kaupa mér speltbrauð. Hef verið að hugsa um heilsuleysi mitt undanfarna daga og hvað ég ætti til bragðs að taka. Pestin sem ég náði mér í 28. apríl situr kyrfilega föst í mínu kerfi og neitar hreinlega að yfirgefa mig. Þetta hefur haft ýmislegt í för með sér og verið hamlandi á líf mitt þó aðallega vinnulega séð. Þar sem mikil törn er hjá okkur tónlistarfólki í maí var engin smuga að liggja heima og leyfa líkamanum að vinna á þessu. Svo það er nú skýringin á því hve pestin hefur verið lífsseig. En þar sem ég kem inn í Gamla, til að kaupa brauð, stendur hún María Ruthardóttir fyrir framan te og kaffiborðið og hreinlega tekur á móti mér með því að spyrja þar sem ég sé mikil te-kona hvort ég hafi prófað íslensku jurtirnar. Uhh... ég er bara með piparmyntulauf sem týnd voru út í íslenskri náttúru og nota þau í te svaraði ég. Hérna sagð´ún og rétti mér tvö A4 blöð sem heftuð voru saman, lestu þetta, þetta er svona fróðleikur um allar þessar jurtir sem ég var að fá. Svo benti hún mér á hillurnar sem voru smekkfullar af pokum sem innihalda ýmsar íslenskar jurtir. Eftir að hafa lesið mér til um Blágresi, Burnirót, Gulmöðru, Maríustakk og guð má vita hvað tók ég poka af Vallhumli. Hann ku vera góður við hita, kvefi, eyrnaverk, fyrir nýru- og blöðru, lystarleysi, óþægindum í maga, tíðarteppu, vera bakteríudrepandi og fyrir tíðablæðingar. Í pokanum úr bakaríinu var líka fróðleg lesning um hinar ýmsu te tegundir. María hafði laumað þeim í pokann svona mér til fróðleiks. Vallhumallinn er allt í lagi á bragðið ef maður setur út í gott hunang en ég vona svo sannarlega að virknin verði mér hliðholl og ég sjái fram á betri daga svona þega hríðinni sleppir. Í dag þurfti nefnilega að fresta sveitaferð leikskólans sökum snjókomu. Þetta er auðvita ekkert grín, en ég setti meiri hita á ofnana þegar ég kom heim í dag því ég hafði stillt þá á sumarhitann um daginn þegar ég stóð í þeirri meiningu að vorið væri komið. Ég sé ekki út núna fyrir snjókomu og hríð. Þá er ekkert annað að gera en gæða sér á sjóðandi heitu tei úrVallhumli og vona það besta fyrir alla.

1 Comments:

  • At 24/5/07 11:59 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    hef smakkað svona te, og það er gott að hafa vænan slurk af hunangi með...ég hef góða reynslu af hvannarót og vallhumli, með blóðbergi, við kvefpest.

     

Skrifa ummæli

<< Home