Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, maí 04, 2007

Blóm í kinnum og hælsæri

Á morgun flýg ég heim til Íslands. Er komin með smá roða í kinnar af sólinni en aðallega bólgna fætur og smá hælsæri. Þetta hefur verið ótrúlega gaman eins og alltaf. Tónleikarnir í gær voru fínir svona miðað við að standa upp á sviði og syngja með hellu fyrir eyrunum. Lasleikinn hefur smám saman rjáttlað af mér en kvefið sem aðallega situr í eyrunum er alveg að gera mig brjálaða. Og barkinn. Hann komst að mestu leyti í heilu lagi en könnubrjóskin voru bæði dottin af raddböndunum og Hyoid-beinið var komið í þrennt. Allt um það þá var hann myndaður í bak og fyrir og var mjög athyglisvert að sjá hversu margar útfærslur fólk kom með.
Íbúðin á Jansvej er frábær og bjuggum við 6 saman, íslendingar, finnar og einn frá Hollandi en þetta er yndislegt fólk sem kann að njóta lífsins, grilla og drekka rauðvín.
Það er náttúrulega bara komið sumar hér þó enn sé dálítið kalt svona til að vera í alvöru sumarkjól og spóka sig úti á kaffihúsum. Á von á að í júní, ef það rignir þá ekki, verði sumardressin nýtt til fullnustu en vegna pestarinnar sem ég tók með mér hefur hrollurinn nánast ekki yfirgefið mig. Fínu sumarfötin sem ég hafði fyrir að strauja og þvo bíða því bara fram í júní. Hef einnig verið að hugsa um að það væri nú dálítið sniðugt að útvega sér hjól til að hafa hér. Er nefnilega að fíla þessa hjólamenningu dana alveg í tætlur.
Borgin er ósköp róleg í dag þrátt fyrir föstudag því í dag er einn af þeirra frídögum. Hef því góða afsökun fyrir að nenna ekki að rápa í búðir heldur skoða mig frekar um. Labbaði yfir í Botanisk Have (svona eins og Grasagarðurinn) settist þar á bekk, las í bók og borðaði jarðarber. Lífið gæti auðvita ekki verið yndislegra því sólin skín skært og himininn er alveg heiður.
Njótið því dagsins.

1 Comments:

  • At 5/5/07 2:59 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    njóttu þess sömuleiðis að vera til og drekka í þig menninguna:)

    vona að heilsan lagist sem fyrst.

     

Skrifa ummæli

<< Home