Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Birta

Sólin heilsaði mér í morgun klukkan 6. Skein skært inn um gluggann minn en þar sem hér á Ísafirði fást engar rúllugardínur á hún greiðan aðgang að sofandi augum okkar Skógarbúa. Reyndi að líma þau aftur því enn var heill klukkutími í fótaferðatíma. Dagurinn í dag er merkisdagur í lífi Snáðans. Hann er að fara í sína fystu skólaheimsókn. Í bréfinu sem við fegnum heim stóð að hann ætti að mæta kl. 8.00 í leikskólann en það er hálftíma fyrr en hann er vanur að mæta. Eitthvað fór þessi nýji tími illa í hann því hann var hrein þvermóðska hér áðan og endaði fúll út í bíl. Ég var búin að sjá fyrir mér að hann skoppaði hér um alla íbúð glaður yfir þessum tímamótadegi en þar skjátlaðist mér hrapalega. Eitthvað rjáttlaðist þetta af honum í bílnum og hann kyssti mig brosandi bless. Ég fór svo að velta því fyrir mér þegar ég kom út í bíl hvernig lífið verður næsta haust þegar ég á ekki lengur barn í leikskóla. En eins og flestum er kunnugt borgum við hæstu leikskólagjöld á landinu hér á Ísafirði. Svo þar sparast einhverjir aurar. Set þá líklega í tónlistarkennslu fyrir hann. Börnum í skóla fylgir oft mikið af aukatöskum svo ég sé fyrir mér að ofan á allt dótið sem fylgir Ponsí í hennar skóla og tómstundum bætist við hans dót og forstofan verður full af skólatöskum, leikfimi- og sundpokum, balletttösku, töskum með hljóðfærum og nótum. Já svo þarf að kannski að hugsa fyrir einhverju skrifborði fyrir Snáðann. Hm..... nei kannski ekki strax, þau læra hvort eð er alltaf á eldhúsborðinu og lítið heimanám svona fyrst í stað fyrir 6 ára ef ég man rétt. Og ég upplifi mig komna af léttasta skeiði. Seinni hálfleikur tekinn við. O jæja það er ekkert slæmt við það í sjálfu sér eiginlega doltið spennandi ef ég á að vera hreinskilin. Maður verður aðeins frjálsari og ekki eins bundin yfir börnunum og hér geta þau leikið lausum hala án þess að maður sé logandi hræddur um þau.
Náttúran í kringum okkur hér á Skógarbrautinni er óþrjótandi uppspretta leikja og verður gaman að upplifa fyrsta sumarið hér á þessu nýja stað þar sem okkur líður svo ljómandi vel á.

Annars kom fyrsti vorboðinn í gær; börnin báðu um að fá að fara með dót út í garð en eitthvað var grasið blautt svo þau enduðu með leikinn á stéttinni þar sem öllum Bratz dúkkunum og dótinu sem þeim fylgir var haganlega komið fyrir. Snáðinn vildi svo óður fara á línuskauta og bisaðist við að koma sér í þá og setja á sig hné og handahlífar. Mamma mátti ekki hjálpa. Uppskar því mikið hrós frá mér þegar honum tóskt þetta loksins og hélt glaður út og er bara nokkuð flinkur skal ég segja ykkur að renna sér. Hefur greinilega gott jafnvægi því hann hefur hjólað án hjálpardekkja frá 3ja ára aldri.
Framundan er vetrarfrí og sumarbústaðarferð í Langadalinn. Sem minnir mig á það að ég þarf að fara á bókasafnið og ná mér í eitthvað að lesa.

Vorboði dagsins í dag er þvottur út á snúrum:O)

Eigið góðan dag kæru vinir.

5 Comments:

  • At 17/4/07 1:11 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    oohh, skólatöskuhrúgur, eitthvað kannast maður nú við slíkt! Ásamt sellóum og fiðlum og víólum og sund- og leikfimitöskum, ég dauðkvíði reyndar fyrir því þegar við fórnum innganginum niðri fyrir herbergi fyrir litla gaurinn og allt draslið, ásamt náttúrlega utanyfirfötum og skótaui verður í litla anddyrinu okkar uppi.

    Hér lærir hins vegar enginn við skrifborð, eldhús- og stofuborðin virka fínt.

     
  • At 17/4/07 1:28 e.h., Blogger agusta said…

    aaaahhhh sumarleg færlsa, ylur manni um hjartarætur...

    Takk fyrir mig...

     
  • At 17/4/07 2:41 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    Akkúrat Hildigunnur.
    Ég var með forstofu horribilis á Nesveginum svo þú átt alla mína samúð.

    Vilbekommen Ágústa mín.

     
  • At 17/4/07 3:09 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Þetta var skemmtileg færsla-það var sumar í henni:)

     
  • At 18/4/07 8:28 f.h., Blogger Harpa Jónsdóttir said…

    Sumar og sól :)

     

Skrifa ummæli

<< Home