Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Afmæli


Í kafaldsbyl komum við heim áðan ég, afmælisbarn dagsins og snáðinn. Við þurftum að skilja bílinn eftir upp á vegi því það skefur svo í brekkuna hingað heim að húsi að það var ekki hægt að taka sénsinn á að komast alla leið að húsinu, hvað þá að komast frá húsnu á bíl í vinnu á morgun.

Það var reyndar ekki svona veður þegar hún Brynja Sólrún fæddist fyrir 11 árum. Það hafði að vísu snjóað í borginni en við bjuggum þá á Grettisgötunni og ég búin að bíða eftir henni í 10 daga.

En þegar hún ákvað svo loks að koma tók það hana örskotstund að koma í heiminn og skildi hún engin ummerki eftir sig nema skælbrosandi móður og ömmu sem horfðu svo undrandi á þessa löngu stúlku. Sólin sést aftur hér á Ísafirði um þessar mundir og fékk því stúlkan nafn sem minnti á þá sólarkomu.


Elsku Brynja Sólrún, til hamingju með 11 ára afmælið.

sunnudagur, janúar 27, 2008

Sinfó og sólarballið

Lítill tími fyrir blogg þessa dagana .

En samkvæmt mogganum er á Ísafirði stundað undravert tónistarlíf og get ég tekið heilshugar undir það. Heimsókn sinfóníunnar var í alla staði hin ánægjulegasta og verður að segjast að hljómsveitin sló í gegn hjá grunnskólabörnunum. Hún flutti verk er öll tengjast veðrinu og kynnti ég verkin inn á milli ásamt því að bregða á leik með regnhlíf undir regndropum sem krakkarnir framkölluðu með því að skella í góm og klappa með fingrunum. Við vorum spurð að því hvað við gæfum börnunum okkar í morgunmat því þau þóttu óvenju stilltir tónleikagestir.

Hátíðrtónleikarnir var svo hápunkturinn og var hinn 100 manna hátíðarkór í banastuði í Gloríunni eftir Poulenc. Fyrir áhugasama bendi ég á umfjöllun í morgunblaðinu í gær, laugardag.

Stóra ballið var í gærkveldi þegar við fögnum komu sólar, bökum pönnukökur og borðum af bestu lyst. Klædd í mitt fínasta púss og ,nota bene, í rauðu skónum dansaði ég af mér tærnar og er með stóran marbett á ristinni eftir pinnahæl ónefndrar frúr hér í bæ. Ballið var haldið í Edinborgarhúsinu hinu nýuppgerða menningarhúsi okkar Ísfirðinga og var það kærkomin tilbreyting frá þreytta félagsheimilinu sem er farið að muna sinn fífil fegri.

Dagurinn í dag er því letidagur, hinn fyrsti , í langan langan tíma. Ég drekk kaffi í góðum félagsskap og finnst lífið gott.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

veðurteppa

Lítur ekki út fyrir flug í dag. Ég fékk þó það fallegasta útsýnisflug sem hugsast getur þegar ég flaug til borgarinnar á sunnudaginn. Mér fannst ég vera stödd inn í miðju póstkorti.

Æfingar með Sinfó gengu vel. Allir mjög spenntir að fara og þá aðallega hvort það verði flogið vestur á morgun. Ef flug frestar riðlast all og ekki víst að hægt verði að hafa þessa skólatónleika sem ég hef lagt heilmikla vinnu í að undirbúa. Nú jæja ekki er öll von úti enn svo það er best að bíða og sjá.

Fór í bíó í gærkveldi, sá Brúðgumann eftir Baltasar og hafði gaman af. Myndatakan var einstaklega falleg og mörg mjög kómísk atriði sem og tragikómísk. Svo er ég búin að láta dekra við mig, kaupa mér rauða skó, hitta börnin og sitja föst í umferðarsultu.

Lífið er gott.

föstudagur, janúar 18, 2008

Afskaplega venjulegt

Það er föstudagur, pizzan komin í ofninn og börnin horfa á mynd. Stundum er lífið alveg óskaplega hversdagsleg. Svona flesta daga. Maður er að sýsla við þetta daglega amstur, setja í vél, taka úr vél og hengja upp, kaupa í matinn og elda. Ala upp afkvæmin, sinna vinnu, fjölskyldu og vinum ásamt því að reyna að hafa einhver áhugamál. Stundum er vinnan áhugamálið, eins og í mínu tilfelli, og þá þarf að finna rétta taktinn í þetta allt saman. Áðan var ég t.d óskaplega glöð yfir hversdagslegum hlut eins og eldhúsrúllu. Einhvernveginn hafði myndast þrýstingur í pizzu- sósu flöskunni því þegar ég opnaði hana frussaðist sósan út og upp um alla veggi og á eldhúsinnréttinguna. Í fátinu sem myndaðist rak ég mig í þrýstikönnuna, hún datt og kaffið flæddi út um allt borð. Fyrsta sem ég gerði var að fálma í áttina að eldhúsrúllunni og byrja að þurrka upp allt gumsið.
Hversdagurinn er dagurinn í dag, með öllum litlu hlutunum sem skipta okkur svo miklu máli. Maður ætti að reyna að njóta hans betur.
Og núna er pizzan bökuð, ég set diska og glös á borðið, kveiki á kertum, næ í kókið inn í ískáp og kalla; það er kominn matur.......

Lífið er gott.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

belaður

Ég veit þið trúið því ekki en bíllinn minn bilaði aftur.

Nú verður honum endanlega úthýst héðan af Skógarbrautinni.

Og ég ætla að fá mér nýjan.

Sko ekki búinn að standa sig.

Iss.....

NEI.

mánudagur, janúar 14, 2008

Aumt er það

Mér hefur sjaldan þótt eins erfitt að keyra vestur eins og í gær. Var alveg búin á því þegar ég renndi í hlað hjá foreldrum mínum en ég hafði boðið mér í mat þangað.
Í fyrsta lagi var mjög hált og djúpið ákaflega erfitt, sérstaklega Hestfjörðurinn. Mér stóð ekki á sama þegar bíllinn tók að rása og blóðið pumpaðist út í æðarnar þegar ég hafði náð tökum á bílnum aftur. Hjartað hamaðist og andrenalínið blússaði um kroppinn. Keyrði í 70 það sem eftir var ferðarinninar og var í það heila rúma 7 tíma. Einnig er líka erfitt að keyra í þessu kolniðamyrkri og halda athygli allan tímann. Söng hástöfum með Toto og Diönu Krall, opnaði glugga annað slagið og drakk sykurdrykk sem gerði ekki annað en að setjast utan á tennurnar á mér.
Haugur af blöðum og pósti beið mín við dyrnar hér heima og ákvað ég að héðan í frá ætla ég að segja upp Mogganum þegar ég fer út til Köben. Maður les mbl.is hvort sem er þegar maður er að heiman.
Núna er svo margt sem ég þarf að gera að ég fyllist framkvæmakvíða. Jólin eru hér enn því ég hafði ekki tíma til að taka þau niður áður en ég fór út. Veslings tréð er allt orðið þurrt og skrautið lufsast á svignum greinunum. Híasynturnar uppþornaðar og negulnaglarnir í appelsínunum búnir að poppast út og lita svo appelsínurnar svo þær eru allar orðnar undarlega brúnar á litin. Það er sem er virkilega vel útlítandi er kransinn á útidyrahurðinni.
Svo er allt galtómt og eina sem mætir mér þegar ég opna ískápinn er vond lykt. Þrif á honum hefur því bæst á verkefnalistann.
Það er svo tómt að ég á ekki einu sinni klósettpappír.

laugardagur, janúar 12, 2008

Ég keypti mér framkvæmdabókina í Pennanum í gær.
Sýnist það vera eina leiðin til að halda utan um allt sem er á döfinni hjá mér þessa dagana.

Verkefnið á vegum Sinfóníunnar er frekar stórt því ég þarf að semja texta yfir verkin 6 sem flytja á á skólatónleikunum, kunna hann svona nokkurn veginn svo ég haldi athygli barnanna. Svo auðvita að læra textana við lögin sem ég á að syngja utanbókar svo ég standi ekki þarna með nefið ofan í nótunum. Agalega sem mér finnst það alltaf halló þegar fólk kann ekki það sem það er að syngja. Hef nokkru sinnum farið á einsöngstónleika þar sem fólk var með nóturnar á nótnastandi fyrir framan sig. Mann vantaði algerlega að fá samband við söngvarann því hann var svo upptekinn af nótunum og textanum. Túlkunin náði engann veginn í gegn og eftir sat maður hálf undarlegur og tómur.

Færð á vegum er ágæt fyrir morgundaginn en ég legg af stað heim til Ísafjarðar um hádegi.

Lífið er gott.

mánudagur, janúar 07, 2008

á ferð og flugi

Eftir að hafa "skoppað" í háloftunum á leið til Köben án þess að fá taugaáfall og svitna eins og ansk.....verðskulda ég hrós dagsins. Í gegnum tíðina hef ég verið óstjórnlega flughrædd og tók það sem verkefni til að sigrast á þegar ég ákvað að skrá mig í þetta nám. Hingað til hefur þetta gengið svona la la og hjartað tekið aukaslög við minnsta hopp en í dag var ég eitthvað svo yfirveguð með ipodinn í eyrunum. Stórmerkilegt því það var mikil ókyrrð í loftinu. Svo kannski er ég farin að venjast þessu - loksins - !! segi nú ekki meir.

Á Konges Ny Torv var heljarinnar snjóskafl, sem var eiginlega eins og illa gerður hlutur þarna því það er allt marautt hér í borginni. Einhverjir skólastrákar voru að henda snjónum í hvorn annan og miðaldra kona sem gekk framhjá starði á þá og hnussaði svo. Ég aftur á móti skildi svo vel þennan bægslagang því það er ekkert eins skemmtilegt og að leika sér í snjó. Brosti því út í annað og hélt leið minni áfram.
Er búin að fara í Illum, kaupa mér geitaost og fleira góðgæti. Einhverra hluta vegna er geitaostur lúxussvara á Íslandi og þegar maður tímir að kaupa sér smá bita þá reynir maður að eiga hann eins lengi og lyktin leyfir. Lítið stykki kostar um þúsund kallinn og væri ég kvenna glöðust ef úrvalið af þessari frábæru vöru væri meira í verslunum heima.

En núna eru garnirnar farnar að gaula og það skal ég segja ykkur er ekki fallegur söngur.
Syngibjörg kveður í bili frá kóngsins köben.

Lífið er gott.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Í upphafi nýs árs

Nýtt ár byrjar afskaplega vel fyrir utan að kreditkortið mitt gufaði upp.

Á gamlárskvöld dansaði ég inn í nýja árið í góðra vina hópi þrátt fyrir brjálað rok og rigningu.
Svei mér þá en ég var enn södd klukkan fjögur um nóttina eftir máltíð kvöldsins sem snillingurinn hún móðir mín hafði eldað. Tvíreykt rauðvínslegið hangikjet með piparrótarsósu og melónu í forrétt og rauðvín, kalkúnn með fyllingum og alles í aðalrétt og Gsm rauðvínið frá Lehmann, og flamberaðir ávextir með Grandi í eftirrétt sem ég átti svo heiðurinn af.


Ég er á leið til Köben núna eftir 3 daga í skólann og þá hefst annað árið mitt í þessu námi. Mér finnst tíminn hafa flogið áfram og þetta fyrsta ár líka. Verkefnin verða meira krefjandi, mikil kennslufræði og sálfræði ásamt fjörugum umræðum um söngtækni og annarskonar nördaskap.
Svo fékk ég skemmtilegt verkefni á vegum Sinfóníunnar sem ég hlakka til að takast á við.

Hef svo líka verið að hugsa um árið sem er liðið. Margt flýgur í gegnum kollinn og fyrst og fremst er ég glöð yfir hversu vel það hefur gengið að koma sér aftur á réttan kjöl. Finna sig aftur og njóta þess að takast á við dagana. Stundum vaknar maður auðvita og langar ekkert annað en að snúa sér á hina hliðina og láta daginn líða sem hljóðlegast hjá. En þeir verða alltaf færri og færri.
Og nú þegar maður hefur hvílt sig og hlaðið batteríin á ný þá finnst manni allir vegir færir.

Mér tekst ekki að taka niður jólaskrautið áður en ég fer en það hangir þá bara uppi einni vikur lengur en venjulega - og hver tekur svo sem eftir því. Eina sem ég má bara ekki gleyma er að henda ruslinu því það er ekki gaman skal ég segja ykkur að koma heim eftir viku, opna hurðina inn í íbúðina og finna fnykinn koma á móti sér. Alla malla maður minn, læt það ekki koma fyrir aftur. O , nei.