Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

mánudagur, janúar 14, 2008

Aumt er það

Mér hefur sjaldan þótt eins erfitt að keyra vestur eins og í gær. Var alveg búin á því þegar ég renndi í hlað hjá foreldrum mínum en ég hafði boðið mér í mat þangað.
Í fyrsta lagi var mjög hált og djúpið ákaflega erfitt, sérstaklega Hestfjörðurinn. Mér stóð ekki á sama þegar bíllinn tók að rása og blóðið pumpaðist út í æðarnar þegar ég hafði náð tökum á bílnum aftur. Hjartað hamaðist og andrenalínið blússaði um kroppinn. Keyrði í 70 það sem eftir var ferðarinninar og var í það heila rúma 7 tíma. Einnig er líka erfitt að keyra í þessu kolniðamyrkri og halda athygli allan tímann. Söng hástöfum með Toto og Diönu Krall, opnaði glugga annað slagið og drakk sykurdrykk sem gerði ekki annað en að setjast utan á tennurnar á mér.
Haugur af blöðum og pósti beið mín við dyrnar hér heima og ákvað ég að héðan í frá ætla ég að segja upp Mogganum þegar ég fer út til Köben. Maður les mbl.is hvort sem er þegar maður er að heiman.
Núna er svo margt sem ég þarf að gera að ég fyllist framkvæmakvíða. Jólin eru hér enn því ég hafði ekki tíma til að taka þau niður áður en ég fór út. Veslings tréð er allt orðið þurrt og skrautið lufsast á svignum greinunum. Híasynturnar uppþornaðar og negulnaglarnir í appelsínunum búnir að poppast út og lita svo appelsínurnar svo þær eru allar orðnar undarlega brúnar á litin. Það er sem er virkilega vel útlítandi er kransinn á útidyrahurðinni.
Svo er allt galtómt og eina sem mætir mér þegar ég opna ískápinn er vond lykt. Þrif á honum hefur því bæst á verkefnalistann.
Það er svo tómt að ég á ekki einu sinni klósettpappír.

3 Comments:

  • At 14/1/08 2:36 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Velkomin heim eftir mikla svaðilför á íslenskum vegum. Allt tómt, og líka klósettpappírslaust...var ekki fullt af blöðum við dyrnar?!!tíhí! Ekki ætla þér að gera allt í einu. Kær kveðja úr Hornafirði.

     
  • At 14/1/08 5:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    æææ, hvað er að heyra. gott að þú komst heim í heilu lagi.

    það er ekki heiglum hent að búa f. vestan.

     
  • At 14/1/08 8:32 e.h., Blogger Meðalmaðurinn said…

    Þér var nær að húka svona lengi í borg óttans!!

     

Skrifa ummæli

<< Home