Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Það er gott og stundum árangursríkt að láta sig langa

Það hefur verið á dagskrá hjá mér síðan í vetur að skipta um bíl. Og ég hef haft ákveðna týpu í huga sem hentar vel aðstæðum hér fyrir vestan. Og alltaf þegar ég hef séð svoleiðis bíl á götum borga og bæja hef ég hugsað með mér að einn dag muni ég keyra á slíkum bíl.

Ég hef eytt fleiri krónum í viðgerðir á bláu þrumunni en ég kæri mig um og buddan þolir.

Þegar ég heyrði svo óhljóðin í henni sl. föstudag þegar ég var í þann mund að leggja af stað vestur leist mér ekki á blikuna. Ég brunaði á verkstæðið hjá pusjó umboðinu og lét líta á gripinn og gekk 35 kr. fátækari frá verkstæðinu eigandi eitt stykki viftu sem var valdur af óhljóðunum.
Ég fékk grænt ljós á vesturferð en ráðleggingar um að fara með gripinn á verkstæði strax á mánudagsmorgni því í ljós kom að margt annað en blessuð viftan var að gefa sig.

Á mánudagsmorgni fer ég niður í Bílatanga og rek raunir mínar og fæ í kjölfarið tíma seinna í vikunni. Þegar ég geng út í bíl aftur lít ég út á söluplanið hjá verkstæðinu, en þeir eru m.a. með umboð fyrir Toyotu, og stendur þá ekki þessi fagurblái bíll beint fyrir framan mig. Ég geng að honum til að skoða og varð strax ofur hrifin. Þarna var kominn bíllinn sem ég hafði látið mig dreyma um , á verði sem ég réði við. Fjórhjóladrifinn lítill jeppi, Toyota RAV4 og meira að segja með krók.
Og þar sem hlutirnir gerast hratt á eyrinni þá fékk ég hann afhentan í gær þegar minn fór í söluskoðun og svo gekk ég frá kaupum í dag.
Þeir tóku bláu þrumuna upp í í því ástandi sem hún var í en viðgerðarkostnaður hljóðaði upp á 18 fimmþúsundkalla svo ég er laus allra mála og get núna um frjálst höfuð strokið og keyrt óhrædd um Óshlíðina 2svar í viku í vetur þegar ég fer að kenna.
Ég brosi breitt þessa dagana.

8 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home