Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

þriðjudagur, október 16, 2007

Það er alltaf gott að heimsækja Köben, hitta skólafélagana og sitja á Köbmagergade í notalegu borðstofunni og ræða söngmál við Hollendinginn, Finnana, Norðmaninn og dönsku leikkonuna.
Var samt í þögla gírnum þetta sinnið því þreytan ógurlega hefur bara tekið sér djúpa bólfestu í mínum kroppi og neitar að fara. Orkaði samt að fara í Den Danske Operaen að sjá Ævintýri Hoffmans. Sýningin var sett í nútímann sem mér fannst lukkast dável og voru fjári góðir söngvarar þarna inn á milli. Hoffmann sjálfur var samt ekki alveg að gera það blessaður því hann átti ekkert eftir í lokinn fyrir háu tónana sína. Langaði að kalla ofan af svölunum að hann þyrfti að belta þetta svo hann drifi í gegnum hljómsveitina. En það virðist vera smá vandamál hjá þeim að hljómburðurinn er ekki söngvara "friendly" því stundum heyrðist ekkkert í þeim greyunum. Og þá er beltið eina sem dugar. En ég átti frábæra stund með Halldísi vinkonu minni sem býr í Óðinsvé og kom með lestinni þaðan til að hitta mig. Eitt sem mér finnst svo frábært þarna í Köben er strætókerfið, bara get ekki hætt að dásama það. Auðvita voru einir 4 strætóbílar fyrir utan óperuna þegar henni lauk sem keyrðu niður í miðbæ svo fólk kæmist klakklaust heim til sín. Eitthvað vorum við viðutan við Halldís samt á Hovedbanegade því ég tók strætó í vitlausa átt og fékk útsýnisrúnt um Amager í staðinn, hehe. Kom því heim í seinna lagi.
Flugið heim gekk nú svona lala en þið sem rekið hér inn nefið hafið sjálfsagt lesið um flughræðslu mína. Mikill mótvindur var alla leiðina heim sem gerði það að verkum að við vorum um klukkutíma lengur á leiðinni en venja er til. Aðflugið var slíkt að ég hélt að vélin ætlaði aldrei að geta lent vegna mikils mótvinds. Allt var sett í botn og gat hún loks lent eftir smá hoppedí skopp.

Helgin í borginni var annasöm í matarboðum, stelpupartýum og öðru glensi. Lagði nú samt snemma af stað heim til Ísafjarðar á sunnudagsmorgninum að ráði móður minnar þar sem spáin var ekki góð. Það er víst kominn vetur. Enda fór ég með bílinn og lét setja undir hann nagladekkinn í gær.
Svo einhvernveginn rúllar þetta líf. Ég samt einhvernvegin hálf lost í öllu. Lægðin hefur aftur látið á sér kræla og er þung núna. Mjög þung. Einn góðan veðurdag fer hún fyrir fullt og allt en þangað til er víst næsta best að láta sem maður finni ekki fyrir henni svo hún geri sig ekki of heimaríka og yfirtaki allt hér á Skógarbrautinni. Það yrði nú fjandanum erfiðara.
Með munninn fullan af fílakaramellum (sem ég keypti nb. í fríhöfninni) bið ég ykkur vel að lifa.

5 Comments:

  • At 16/10/07 9:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Gott að fá pistil, takk fyrir hann. Farðu nú vel með þig mín kæra, því móðir og tónlistarmaður í meira en fullu starfi gefur svo mikið af sér að það getur orðið sterkasta fólki um megn.Kveðja úr Hornafirði.

     
  • At 17/10/07 7:31 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Það væri nú ekki amalegt að skreppa til Köben.
    Dauðlangar - eftir þessar lýsingar.
    Láttu ekki haustmyrkrið angra þig mín kæra.
    Það er svo ótrúlega stutt í sól og sumar, og þá neyðist þú til að bóka sumarfrí á Norðurlandi.... fyrst þú ert farin að "safna" vinkonum í Aðaldalinn!!!
    MM

     
  • At 17/10/07 9:20 e.h., Blogger Syngibjörg said…

    Takk:O) vinkona úr Hornafirðinum.

    Jæja segðu MM, get ekki stungið mér undan þessu nema...... að þið takið ykkur saman og heimsækið mig á vestfirskar slóðir.
    Heyrði í henni áðan og hún svaka glöð með þetta...

     
  • At 18/10/07 4:17 f.h., Blogger Ameríkufari segir fréttir said…

    mmmm fílakarmellur.Sendu mér eina í e-maili?
    Farðu vel með þig og ég sendi eitt stórt "tnús".Svanfríður

     
  • At 18/10/07 9:21 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    kæra vinkona, sendi þér hlýja strauma að sönnan!

     

Skrifa ummæli

<< Home