Syngibjörg

Syngdu! Það bætir, hressir og kætir.

föstudagur, júlí 27, 2007

Er lífið fullt af tilviljunum eða er einhver þarna uppi sem stjórnar?

Stundum held ég að yfir mér sé einhverskonar öryggisnet, hjálparenglar eða í mér sé spotti sem nær til einhvers sem stjórnar þegar mikið liggur við og hlutirnir ekki lengur í mínum höndum.

Fyrir það fyrsta þá er bílinn minn heiladauður. Það fundu þeir út kallarnir. Miklir snillingar þar á ferð. Bláa frelsið þarf því nýjan heila sem kostar hvítuna úr augunum á mér. En þar sem ég er á leið í fríið langþráða þá hef ég tekið þá ákvörðun að takast á við það þegar ég kem heim aftur. En að bíllinn skyldi taka upp á þessu setti öll plön á annan endann. Þannig var að ég hafði ákveðið að fara í Hrútafjörðinn og heimsækja frábæra vinkonu. Það passaði svo vel því Rokkarinn var á leið norður á Akureyri til föður síns í helgarferð og auðvelt fyrir hann að nálgast einkasoninn á Brú. Þaðan var svo ferð minni heitið til Reykjavíkur og svo til Kanarí.

Í mínum huga kom ekki til greina að fljúga. Þá hefði ég ekki haft efni á einum einasta drykk á Kanarí hvað þá heldur ís handa börnum. En þá fóru hjólin að snúast. Fyrstur kom frændi minn og bauð mér bílinn sinn og stuttu seinna öðlingurinn hann faðir minn sem vildi keyra mig og börnin alla leið suður til Reykjavíkur. Næst fékk ég símtal frá henni Gróu bestuvinkonu þar sem hún bauðst bæði til að sækja mig og lána mér svo bíl í borginni.
Klukkan hálfþrjú þegar búið var að fylla bíl föður míns af töskum og sækja Ponsí og bestuvinkonu hennar á siglingarnámskeiðið var haldið af stað. Áfangastaður var Brú. Þar ætlaði Rokkarinn að taka rútu til Akureyrar og við hin að fá far að Baulu með staðarhaldaranum á Tannastöðum í Hrútafirði en hann var á leið í Reykholt á tónleika. Í Brú er margt um manninn og allt eins von á að hitta einhvern sem maður þekkir. Þar hittum við mann sem við öll könnuðumst við sem var á leið til Akureyrar. Honum fannst alger óþarfi að Rokkarinn tæki rútuna þegar hann var á leið í höfuðstað norðurlands eins síns liðs og nóg pláss í bílnum. Rokkarinn var að vonum glaður við að sleppa við leiðinda rútuferð og kvaddi okkur brosandi.
Við hin héldum af stað í áttina að Baulu. Þegar þangað var komið renndi Gróa bestavinkona nánast samtímis í hlað þar og aftur var tekið til við að afferma og hlaða bíla. Ponsí og Marín bestavinkona voru keyrðar út á Seltjarnarnes og Snáðinn, sem hafði fengið að fara með vinafólki okkar í lítið ferðalag var kominn suður og einmitt staddur út á Nesi. Faðir minn keyrði aftur á móti til baka til Ísafjarðar og er sennilega kominn undir sæng núna, þreyttur eftir alla keyrsluna.

Ég sit hinsvegar hér í eldhúsinu hennar Gróu minnar með bjór og afskaplega þakklát í hjartanu fyrir þessa ótrúlegu hjálp og þá vini og fjölskyldu sem ég á.

4 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home