
Manni er ekki farið að lítast á blikuna með hvað allt er orðið dýrt.
Buddan kvartar sáran svo nú eru góð ráð dýr.
Tók mig því til um daginn og bakaði muffins í tilraun minni til að sporna við úgjöldum heimilisins.
Fann fína uppskrift af muffins sem ég hef svo líka aðlagað að mínum ofnæmis kroppi.
Ég var búin að hræra öllu saman og átti bara eftir að brytja súkkulaðið niður og henda út í deigið.
Þá vildi nú ekki betur til en trébrettið klofnaði undan átökunum eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Er bara allt að fara fjandans til hugsaði ég.
Muffins kökurnar smökkuðust hinsvegar vel og hurfu upp í munn allra púkanna sem ganga hér inn og út þessa dagana.
Læt uppskriftina fylgja með, bæði þá venjulegu og svo þessa sem ég breytti og aðlagaði ef einhver vill vera heilsusamlegur og bæta meltinguna - heheh -
Muffins
50 gr brætt smjörlíki
100 gr sykur
1 egg
150 gr hveiti
1 dl mjólk
1 tsk vanilludropar
2 tsk lyftiduft
1 plata suðusúkkulaði brytjað smátt.
Öllu blandað saman.
Hitið ofninn í 175°C
Setjið deigið í muffinsform og bakið í 15 mín.
Uppskriftin gefur um 22 kökur.
Muffins fyrir ofnæmisgemlinga og aðra sem áhuga hafa.
50 gr. kókosolía -brædd
1 dl Agave síróp
1 egg
150 gr fínt spelt
1 dl sojamjólk eða rísmjólk
1 tsk vanilludropar
2 tsk lyftiduft
1 plata 70% súkkulaði brytjað í smátt
Setjið í muffinsform og bakið við 175°C í 15 mín, miðað við að ofinn sé heitur þegar kökurnar eru settar inn.